Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 345. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 800  —  345. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um sérhæfingu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

     1.      Hefur verið lagt mat á kosti þess að sérhæfa heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni í ákveðnum greinum/aðgerðum?
    Ekki hefur verið lagt mat á kosti þess að sérhæfa heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni í ákveðnum greinum en þó hefur starfsemi heilbrigðisstofnana beinst í ákveðinn farveg og víðtækari þjónusta veitt en tilgreint er í lögum, m.a. vegna sérhæfðs starfsfólks sem þar starfar. Þar má nefna meðferð við bak- og hálsmeiðslum á sjúkrasviði Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, offitumeðferðir á Heilbrigðisstofnun Austurlands og reyksíma á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.

     2.      Ef svo er, hver var niðurstaðan og rökstuðningur fyrir henni?
    Ekki hefur verið lagt mat á kosti þess að sérhæfa heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni.

     3.      Ef ekki, hver er ástæða þess að slíkt mat hefur ekki verið gert?

    Hlutverk heilbrigðisstofnana er skilgreint í lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, og er þar kveðið á um þá þjónustu sem þar á að veita. Þar kemur m.a. fram að í hverju heilbrigðisumdæmi skuli starfrækt heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstofnanir sem veita almenna heilbrigðisþjónustu í umdæminu. Almenn heilbrigðisþjónusta telst vera heilsugæsla, þjónusta og hjúkrun á hjúkrunarheimilum og hjúkrunarrýmum stofnana og almenn sjúkrahúsþjónusta. Almenn sjúkrahúsþjónusta er skilgreind sem almennar lyflækningar, hjúkrun, slysamóttaka, endurhæfing og nauðsynleg stoðdeildarþjónusta. Umdæmissjúkrahús eiga auk almennrar sjúkrahúsþjónustu að veita fæðingarhjálp og aðra heilbrigðisþjónustu. Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri er ætlað að veita sérhæfða sjúkrahúsþjónustu fyrir alla landsmenn, en samband gæða og fjölda aðgerða er margsannað. Því hefur sérhæfing færst á færri staði en áður, líkt og hjá nágrannaþjóðum okkar.