Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 533. máls.

Þskj. 870  —  533. mál.



Frumvarp til laga

um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.
Þjóðtunga – opinbert mál.

    Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.

2. gr.
Íslenskt mál.

    Þjóðtungan er sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.
    Allir sem eru búsettir hér á landi skulu eiga þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi svo sem nánar er mælt fyrir um í sérlögum.

3. gr.
Íslenskt táknmál.

    Íslenskt táknmál er fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og afkomenda þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja.
    Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst.

4. gr.
Málstefna.

    Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð. Um málstefnu og stöðu íslenskrar tungu skal leitað samvinnu við Íslenska málnefnd, sbr. 5. gr.
    Íslenska ríkið stuðlar að þróun, rannsóknum, kennslu og útbreiðslu íslensks táknmáls og styður að öðru leyti við menningu, menntun og fræðslu fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda. Um málstefnu og stöðu íslensks táknmáls skal leitað samvinnu við málnefnd um íslenskt táknmál, sbr. 6. gr.
    Mennta- og menningarmálaráðuneytið fylgist með því hvernig lögum þessum er framfylgt og getur krafið einstakar stjórnsýslustofnanir um skýrslur þar að lútandi.

5. gr.
Íslensk málnefnd.
    

    Ráðherra skipar Íslenska málnefnd og er skipunartími nefndarinnar fjögur ár. Í Íslenskri málnefnd eiga sæti 18 menn. Auk þess er nefndinni heimilt að bjóða mönnum, einum eða tveimur, setu í nefndinni ef hún telur það nefndarstarfinu til gagns. Hver eftirtalinna tilnefnir einn mann í málnefndina: háskólaráð Háskóla Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Listaháskóli Íslands, hugvísindasvið Háskóla Íslands, menntavísindasvið Háskóla Íslands, Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið, Samtök móðurmálskennara, Rithöfundasamband Íslands, Blaðamannafélag Íslands, málræktarsvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fyrir hönd orðanefnda, Bandalag þýðenda og túlka, Staðlaráð Íslands, Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræðinga og Hagþenkir. Ráðherra skipar tvo nefndarmenn án tilnefningar og skal annar vera formaður og hinn varaformaður. Íslensk málnefnd skiptir með sér verkum.
    Hlutverk Íslenskrar málnefndar er að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og gera tillögur til ráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Málnefndin getur átt frumkvæði að ábendingum um það sem vel er gert og það sem betur má fara við meðferð íslenskrar tungu á opinberum vettvangi. Íslensk málnefnd semur íslenskar ritreglur sem gilda m.a. um stafsetningarkennslu í skólum og ráðherra gefur út. Grundvallarbreytingar á ritreglum eru háðar samþykki ráðherra.
    Skrifstofa Íslenskrar málnefndar er í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
    Ráðherra setur reglugerð um nánari starfsemi Íslenskrar málnefndar.

6. gr.
Málnefnd um íslenskt táknmál.

    Ráðherra skipar fimm menn til setu í málnefnd um íslenskt táknmál til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara. Við skipun nefndarinnar skal haft samráð við hugvísindasvið Háskóla Íslands, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og hagsmunasamtök heyrnarlausra hér á landi. Ráðherra velur formann og varaformann málnefndar um íslenskt táknmál.
    Hlutverk málnefndar um íslenskt táknmál er að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvað eina er varðar íslenskt táknmál og stuðla að eflingu íslensks táknmáls og notkun þess í íslensku þjóðlífi.
    Skrifstofa málnefndar um íslenskt táknmál er í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
    Ráðherra setur reglugerð um nánari starfsemi málnefndar um íslenskt táknmál.

7. gr.
Opinbert mál stjórnvalda.

    Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu.

8. gr.
Túlkun og táknmálstúlkun hjá stjórnvöldum.

    Um rétt til að fá túlka- og táknmálstúlkaþjónustu og skyldur dómstóla til að leita aðstoðar túlka og táknmálstúlka fer samkvæmt lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála.
    Stjórnvöld skulu leitast við að tryggja að sá sem skilur ekki íslensku geti fengið úrlausn erinda sinna og tileinkað sér efni skjala og skilríkja sem skipta hann máli.

9. gr.
Málfarsstefna ríkis og sveitarfélaga.

    Mál það sem er notað í starfsemi ríkis og sveitarfélaga eða á vegum þeirra skal vera vandað, einfalt og skýrt.

10. gr.
Íslenskur fræðiorðaforði.

    Stjórnvöldum er skylt að sjá til þess að íslenskur fræðiorðaforði á ólíkum sviðum eflist jafnt og þétt, sé öllum aðgengilegur og notaður sem víðast.

11. gr.
Opinbert mál á alþjóðavettvangi.

    Íslenska er opinbert mál Íslands á alþjóðavettvangi.

12. gr.
Skyldur ríkis og sveitarfélaga og staða íslensks táknmáls.

    Ríki og sveitarfélög skulu tryggja að allir sem þess þurfa eigi kost á þjónustu á íslensku táknmáli. Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á því að varðveita íslenskt táknmál, þróa það og stuðla að notkun þess. Lögð verði áhersla á að fræðiheiti á ólíkum sviðum í íslensku táknmáli nái að þróast og séu notuð.
    Íslenskt táknmál er jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna í milli og er óheimilt að mismuna mönnum eftir því hvort málið þeir nota.

13. gr.
Gildistaka, brottfellt lagaákvæði.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku laga þessara fellur 9. gr. laga nr. 40/2006, um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, brott.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði almenn rammalög um íslensku. Með því er fylgt eftir þingsályktun um íslenska málstefnu sem Alþingi samþykkti 12. mars 2009 og hljóðar svo:
    „Alþingi ályktar að samþykkja tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu sem opinbera stefnu í málefnum íslenskrar tungu.
    Alþingi lýsir yfir stuðningi við það meginmarkmið tillagna Íslenskrar málnefndar að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.“
    Til að fylgja eftir þingsályktuninni skipaði menntamálaráðherra nefnd um lagalega stöðu íslenskrar tungu og táknmálsins 6. maí 2009. Í nefndinni sátu Guðrún Kvaran, tilnefnd af Íslenskri málnefnd, formaður, Björg Thorarensen prófessor, varaformaður, Sigurður Líndal, prófessor emerítus, og Þórhallur Vilhjálmsson, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneyti. Með nefndinni störfuðu jafnframt Sigurbjörg Sigurjónsdóttir lögfræðingur og Guðrún Margrét Guðmundsdóttir. Í skipunarbréfi nefndarinnar var hlutverki hennar lýst þannig að henni væri ætlað að setja fram tillögur sem ætlað væri að tryggja lagalega stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls í íslensku samfélagi. Nefndin skilaði tillögum sínum í skýrslu sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út í maí 2010. Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að hún taki undir það markmið í málstefnu að tryggja beri að íslensk tunga verði áfram það tungumál sem sameini íbúa landsins óháð uppruna, að tryggður verði réttur íslenskra ríkisborgara af erlendum uppruna og erlendra ríkisborgara, sem fá hér dvalar- eða atvinnuleyfi, til kennslu í íslensku svo að þeir eigi þess kost að taka fullan þátt í íslensku samfélagi á íslensku. Þá er brugðist við tillögum Íslenskrar málnefndar um að lagaleg staða íslensks táknmáls verði tryggð. Í skýrslu nefndarinnar er vikið að stöðu íslenskunnar á ólíkum sviðum samfélagsins, í skólakerfinu, í tölvuheiminum, í atvinnulífinu, innan háskólanna, í fjölmiðlum, í listum og í þýðingum og túlkun, einnig er fjallað um íslensku sem erlent mál og sem annað mál. Þá er í skýrslunni fjallað um stöðu íslenskunnar í stjórnsýslunni. Sérstök umfjöllun er um notkun ensku, þar á meðal innan háskóla. Ítarleg grein er gerð fyrir íslensku táknmáli í skýrslunni og helstu þáttum sem því við koma. Táknmálið á ekki stoð í lögum nú en nefndin leggur áherslu á að hver sem þörf hafi fyrir táknmál skuli eiga þess kost að læra, tileinka sér og nota táknmálið, jafnskjótt sem máltaka hefst og viðkomandi einstaklingur hefur þroska til. Þeir sem þess þurfa geti þannig notað íslenskt táknmál eftir því sem aðstæður frekast leyfa í daglegu lífi sínu og þannig litið á táknmálið sem móðurmál sitt.
    Frumvarpið er byggt á tillögum nefndar um lagalega stöðu íslenskrar tungu og táknmálsins. Stuðst var við þá vinnu og ný sænsk lög sem birt voru í þýðingu í skýrslu nefndarinnar. Nefndin taldi að setning laga um íslenska tungu væri mjög til þess fallin að styrkja stöðu íslenskrar tungu á öllum sviðum samfélagsins. Í slíkum lögum ætti að undirstrika skyldur stjórnvalda til þess að vinna að varðveislu íslenskrar tungu og þróun, nothæfni og aðgengi manna að málinu. Jafnframt skyldi þar koma fram hvernig lögunum skyldi framfylgt og hverjir bæru þá skyldu. Þá skyldu lögin mæla fyrir um notkun íslenskrar tungu innan stjórnkerfis ríkisins, Alþingis, dómstóla og stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þá skyldi setja í lög ákvæði um íslenskt táknmál sem styrkti lagalega stöðu þeirra sem notuðu táknmál. Þar skyldi mælt fyrir um ábyrgð ríkis og sveitarfélaga á að tryggja aðgang að íslensku táknmáli hverjum þeim sem þörf hefði á því. Í kjölfarið væri unnt að setja nánari ákvæði um slíkar skyldur í ýmsum lögum, einkum á sviði menntamála.
    Í samræmi við framangreint er tilgangur frumvarpsins að festa í lög stöðu íslenskrar tungu, mæla fyrir um varðveislu hennar, þróun, nothæfni og aðgengi manna. Jafnframt eru í frumvarpinu ákvæði um hvernig markmiðum þess verði náð og hverjir beri þá skyldu. Þá eru fyrirmæli um notkun íslenskrar tungu innan stjórnkerfis ríkisins, Alþingis, dómstóla og stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Loks hefur frumvarpið að geyma ákvæði um íslenskt táknmál og stöðu þess sem fyrsta máls heyrnarlausra.
    Í mörgum ríkjum hafa verið sett lög um tungumál og þá sérstaklega þar sem tungumál eru fleiri en eitt og nauðsyn ber til að kveða á um hvert eða hver skuli vera opinber mál ríkisins og hver skuli vera staða annarra tungumála. Nú er engu slíku til að dreifa hér á landi en eigi að síður er það mat margra að allan vara þurfi að hafa á vegna þess hversu allt umhverfi verður sífellt alþjóðlegra, jafnt á sviði atvinnu- sem menningarlífs.
    Ákvæði sem lúta að íslenskri tungu eru á víð og dreif í lögum. Eigi að síður var það mat nefndarinnar að almenn löggjöf um tunguna væri nauðsynleg henni til styrktar, jafnt innan lands sem á alþjóðavettvangi. Slíkri löggjöf til fyllingar mætti síðan setja sérákvæði í einstök lög.
    Sérstakt álitaefni var hvort ástæða væri til að mæla í stjórnarskrá fyrir um stöðu tungunnar sem opinbers máls íslenska ríkisins. Ákvæði sem lúta að tungumálum er að finna í stjórnarskrám 158 ríkja en einungis í 26 stjórnarskrám er tungumála að engu getið. Í mörgum stjórnarskrám Evrópuríkja er berum orðum mælt fyrir um hvaða tungumál sé opinbert mál ríkisins. Tillögur um slíkt stjórnarskrárákvæði bárust nefndinni frá Háskólanum í Reykjavík, Sýslumannafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Íslenskri málnefnd. Nefndin taldi ekki tímabært að svo stöddu að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrá. Hins vegar taldi nefndin rétt að huga að því þegar íslenska stjórnarskráin yrði endurskoðuð og þá hvort setja ætti önnur ákvæði um grunneinkenni þjóðarinnar, þjóðfána, skjaldarmerki, þjóðsöng svo að dæmi séu nefnd.
    Við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við helstu hagsmunaaðila á sviði íslenskrar tungu og táknmálsins. Tillaga að frumvarpinu var send þeim til umsagnar í október 2010 og bárust umsagnir frá fjórum aðilum (Íslenskri málnefnd, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og Lagastofnun Háskóla Íslands). Við endanlegan frágang frumvarpsins var tekið tillit til þeirra þannig að íslensku táknmáli er að tillögu Íslenskrar málnefndar og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra veitt aukið vægi sem fyrsta tungumáli þess hluta þjóðarinnar sem reiðir sig á það til tjáningar og samskipta (3. gr.), nefndarmönnum í Íslenskri málnefnd er að tillögu Íslenskrar málnefndar fjölgað úr 15 í 18 (5. gr.) og lagt er til að sett verði á fót málnefnd fyrir íslenskt táknmál (6. gr.) að tillögu Íslenskrar málnefndar og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í þessu ákvæði er almenn yfirlýsing um stöðu íslenskrar tungu sem þjóðtungu Íslendinga og opinbers máls íslenska ríkisins. Nánari fyrirmæli um hvað það felur í sér er í 2. gr. Slík almenn yfirlýsing hefur einkum gildi við túlkun ákvæða í þessum lögum sem öðrum.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. segir hvað það merki að íslenska sé tunga íslensku þjóðarinnar og þá opinbert mál íslenska ríkisins. Þessu fylgir að íslensk tunga eigi að vera fullkomið mál í þeim skilningi að það sé nothæft og notað á öllum sviðum samfélagsins, innan stjórnsýslunnar, fyrir dómstólum, á vettvangi stjórnmála, í menntakerfinu, nánar tiltekið í skólum landsins allt til stúdentsprófs og í grunnnámi á háskólastigi, almennt í menningarlífi og á öllum sviðum atvinnulífs, þar á meðal á vinnumarkaði. Í þessu felst að stuðla beri að því að íslenska sé almennt notuð í samskiptum manna innan afmarkaðra starfshópa en þó einkum við þá sem standa utan við þá. Sem dæmi má nefna hópa sérfræðinga sem nota gjarnan eigið tungutak sem almenningur skilur ekki og málfar þeirra er ekki alltaf vandað en torvelt kann að vera að fylgja úrbótakröfum eftir. Hins vegar má krefjast þess að menn vandi málfar sitt í samskiptum við þá sem eru utan starfshópsins og þá ekki síst þegar máli er beint til alls almennings.
    Samkvæmt þessu á hverjum þeim sem býr og starfar hér á landi að nægja að hafa vald á íslensku til eðlilegrar þátttöku í málefnum þjóðfélagsins, til að geta rækt þar skyldur sínar og gætt réttinda sinna. Ákvæðið tekur til íslenskra ríkisborgara eins og þeir eru skilgreindir í lögum nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt, og erlendra ríkisborgara sem búa hér á landi.
    Af þessu leiðir að þeim sem búa hér á landi skal gefinn kostur á að læra íslensku eins og mælt er fyrir um í 2. mgr. Þeim sem hér búa og hafa ekki náð fullnægjandi tökum á íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi skal veitt aðstoð við þýðingar, eftir atvikum með aðstoð túlka. Fyrirvari er gerður um almenna þátttöku og er þá sérstaklega átt við hvers konar samskipti við fyrirsvarsmenn ríkis og sveitarfélaga og almenn samskipti við landsmenn svo sem í viðskiptum og þátttöku í félagsstarfi. Hins vegar á greinin ekki við um sérstaka þátttöku eins og framboð til trúnaðarstarfa, þýðingar á ritum og fyrirlestrarhald, svo að dæmi séu nefnd. Um búsetu skal þjóðskrá lögð til grundvallar.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að íslenskt táknmál hljóti opinbera viðurkenningu sem mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga. Með því er íslensku táknmáli gert jafnhátt undir höfði í samskiptum og íslenskri tungu. Áréttað er að þeir sem þurfi á táknmáli að halda, hvort sem það er fyrsta mál eða þegar sú þörf kemur upp síðar á ævinni, skuli eiga þess kost að læra, tileinka sér og nota táknmálið. Í ákvæðinu er við það miðað að þeir Íslendingar sem þurfa geti tileinkað sér íslenskt táknmál án hindrunar og notað það eftir því sem aðstæður frekast leyfa í daglegu lífi sínu þannig að þeir megi líta á það sem móðurmál sitt. Um búsetu er miðað við það sem greinir í þjóðskrá.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um sérstaka ábyrgð almannastofnana, ríkis og sveitarfélaga, á því hvernig íslenska er notuð og hvernig hún þróast. Einkum og sér í lagi ber starfsmönnum slíkra stofnana að gæta íslenskrar tungu á þeim sviðum sem starfsemi stofnunar nær til þannig að hún sé í reynd virk sem þjóðtunga og þróist í samræmi við það. Með almannastofnun er átt við stjórnsýslustofnanir ríkis og sveitarfélaga og stofnanir sem veita almenna þjónustu. Einnig er mælt fyrir um að stofnanir þær sem hlut eiga að máli leiti samstarfs við Íslenska málnefnd um leiðbeiningar og stuðning en ætla má að slíkt hlutverk verði nánar útfært í reglugerð um Íslenska málnefnd.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um skyldu íslenska ríkisins til að styðja við þróun, rannsóknir, kennslu og útbreiðslu íslensks táknmáls og menningu, menntun og fræðslu fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda.
    Þá er í 2. mgr. kveðið á um það hlutverk nefndar um íslenskt táknmál að vera til ráðgjafar varðandi mótun málstefnu og stöðu íslenska táknmálsins.
    Í 3. mgr. er kveðið á um skyldu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að fylgjast með framkvæmd laganna. Er þar gert ráð fyrir ráðuneytið geti kallað eftir skýrslum frá opinberum stofnunum um framkvæmd laganna.

Um 5. gr.

    Samkvæmt 9. gr. laga nr. 40/2006, um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, starfar Íslensk málnefnd innan vébanda stofnunarinnar. Með lögunum voru fimm stofnanir sem sinna íslenskum fræðum sameinaðar, svo sem nánar er fyrir mælt í ákvæði til bráðabirgða í þeim lögum.
    Eðlilegra þykir að ákvæði um málnefndina sé í lögum um íslenska tungu og að hún starfi sjálfstætt samkvæmt ákvæðum þeirra. Því er hér lagt til að ákvæði 9. gr. laga nr. 40/2006 verði fært inn í lagafrumvarp þetta og verði 5. gr. Áfram er gert ráð fyrir því að Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gegni því hlutverki sem lýst er í c-lið 3. gr. laganna en þar segir að stofnunin skuli stuðla að aukinni þekkingu á íslenskri tungu, eflingu hennar og varðveislu í ræðu og riti og veita ráðgjöf og leiðbeiningar um málfarsleg efni á fræðilegum grundvelli, þar á meðal um íðorð og nýyrði.
    Við skipan Íslenskrar málnefndar er lögð áhersla á að hún sé skipuð fulltrúum þeirra sviða samfélagsins er mest fást við tungumálið í daglegum störfum sínum. Með nokkrum rétti mætti halda því fram að sá hópur sé einsleitur og því er talið eðlilegt að Íslenskri málnefnd sé heimilt að bjóða einum eða tveimur mönnum setu í nefndinni til að víkka svið hennar og laga að aðstæðum og viðfangsefnum hverju sinni. Taka má sem dæmi að ef Íslensk málnefnd hefði hugsað sér að vinna sérstaklega að máli og málnotkun í fjölmiðlum þá gæti hún fengið til liðs við sig tvo viðbótarfulltrúa úr fjölmiðlum. Einnig mætti hugsa sér viðbótarfulltrúa úr atvinnulífi eða af öðrum sviðum, allt eftir viðfangsefnum Íslenskrar málnefndar hverju sinni.
    Breytingar eru á skipan Íslenskrar málnefndar og var þeim fjölgað sem eru skipaðir í nefndina. Þýðingar eru mikilvægur þáttur í íslensku samfélagi enda er brýnt að Íslendingar eigi kost á skjótri og traustri miðlun fjölbreytilegra texta á milli ólíkra menningarheima. Túlkun er líka mikilvægur og vaxandi þáttur með auknum alþjóðlegum samskiptum og því er lagt til að Bandalag þýðenda og túlka eigi fulltrúa í Íslenskri málnefnd. Litið er til þess hversu mikilvægt íðorðastarf og rækt við sérfræðimál er fyrir vöxt og viðgang íslensku og því er lagt til að Staðlaráð Íslands fái einn fulltrúa í Íslenskri málnefnd. Þar sem almenningsbókasöfn eru íslenskri tungu afar mikilvæg og gegna veigamiklu málræktarhlutverki með hvatningu til bóklestrar er lagt til að almenningsbókasöfn fái fulltrúa í Íslenskri málnefnd með tilnefningu frá Upplýsingu, félagi bókasafns- og upplýsingafræðinga. Íslensk málnefnd hefur birt stefnuskrá fyrir árin 2006–2010 og þar segir:
    „Á tímum hraðvaxandi alþjóðasamskipta þar sem notkun erlendra tungumála, einkum ensku, verður æ ríkari þáttur í íslensku samfélagi er brýnt að tryggja stöðu íslenskrar tungu. Eitt af mikilvægustu verkefnum Íslenskrar málnefndar er að vinna markvisst að því að íslenska haldi gildi sínu í þessu breytta umhverfi og verði áfram nothæf og notuð á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.“
    Þetta er í fullu samræmi við markmið frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að starfandi verði málnefnd um íslenskt táknmál sem er ætlað það meginhlutverk að vinna að eflingu íslensks táknmáls, styrkja stöðu þess og virðingu og beita sér fyrir aðgerðum til varðveislu þess. Í þessu felst m.a. að vinna að samræmi í táknanotkun og annarri stöðlun íslensks táknmáls sem tjáningarmiðils eftir því sem eðlilegt þykir og skynsamlegt getur talist. Málnefnd um íslenskt táknmál er ætlað að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvað eina er varðar íslenskt táknmál, til að mynda skal leita umsagnar málnefndarinnar áður en settar eru reglugerðir eða annars konar fyrirmæli um íslenskt táknmál að svo miklu leyti sem einstök atriði heyra ekki undir aðra samkvæmt öðrum lögum. Lagt er til að skrifstofa málnefndar um íslenskt táknmál verði í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, líkt og skrifstofa Íslenskrar málnefndar.

Um 7. gr.

    Hér er orðuð almenn regla sem segja má að hafi gilt þótt einungis hafi verið fest í lög á sviði dómsýslu og réttarfars. Um Alþingi má þó minna á að í 43. gr. tilskipunar um stiftun sérlegrar ráðgefandi samkomu fyrir Ísland, er á að nefnast Alþing, frá 8. mars 1843, er sú meginregla orðuð að íslenska sé mál þingsins.
    Reglan í ákvæðinu felur annars í sér að íslenska skuli notuð hvarvetna í opinberri sýslu, jafnt í skriflegum sem munnlegum samskiptum. Hér er orðuð meginregla sem kann þó að vera óhjákvæmilegt að víkja frá við sérstakar aðstæður.
    Samkvæmt þessu ber að þýða skjöl sem koma til kasta Alþingis á erlendum málum. Í lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er svo fyrir mælt að þingmálið sé íslenska, sbr. 10. gr., og í 12. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er enn fremur mælt fyrir um túlkaþjónustu. Sama á við um stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga þótt ekki styðjist það við bein lagafyrirmæli.
    Þessi meginregla tekur almennt til notkunar tungumálsins við meðferð mála, töku ákvarðana og við framkvæmdir sem verulegu máli skipta í starfsemi ríkisins. Þetta á við hvers konar pólitískar ákvarðanir, rekstur mála fyrir dómstólum og meðferð mála í stjórnsýslunni. Samkvæmt þessu skal íslenska notuð í lögum og lögskýringargögnum, dómum og úrskurðum dómstóla, úrskurðum stjórnvalda, bókunum, fundargerðum, við setningu reglugerða, í starfsskýrslum og öðrum áþekkum gögnum svo að það helsta sé nefnt. Starfsemi Alþingis lýtur þessu ákvæði en í núgildandi lögum er hvergi mælt fyrir um að íslenska sé mál þingsins enda væntanlega talið svo sjálfsagt að ekki þurfi að taka það fram. Öðru máli gegnir um réttarfarslög eins og áður er tekið fram. Engin ákvæði eru um íslenska tungu í stjórnsýslulögum en þó má ætla að í opinberri sýslu hljóti að reyna á notkun hennar vegna samskipta við erlendar þjóðir og fjölda manna sem búsettir eru á Íslandi og kunna ekki íslensku.
    Með orðunum framkvæmdir og almannaþjónusta er einkum átt við starfsemi sem ríki og sveitarfélög standa að og aðra starfsemi sem er kostuð af almannafé eða nýtur styrks að hluta eða öllu leyti þótt einkaaðilar standi að henni. Sem dæmi má nefna verktöku við opinberar framkvæmdir, rekstur skóla og sjúkrastofnanir.
    Ef gera á undantekningu frá meginreglunni verður að vera til þess sérstök heimild í lögum. Þegar þörf er á að texti sé birtur á öðru máli en íslensku skal það gert með þýðingu á íslenska frumtextanum. Á mörgum sviðum, einkum í stjórnsýslunni, hljóta samskipti að fara fram á öðrum málum og má hér nefna samskipti íslenskra yfirvalda og yfirvalda einstakra erlendra ríkja og samskipti við alþjóðastofnanir og samtök, munnleg samskipti milli stjórnvalda og borgaranna, t.d. á sviðum sem snúa að erlendum mönnum búsettum hér.
    Í 2. mgr. 4. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, segir að heimilt sé að birta eingöngu erlendan frumtexta milliríkjasamnings ef samningurinn varðar afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni má ætlast til að skilji hið erlenda mál vegna menntunar sinnar og annarrar sérhæfingar.
    Einnig má benda á lög um loftferðir, nr. 60/1998, þar sem segir í 140. gr. að Flugmálastjórn skuli í flugmálahandbók birta ákvarðanir þær sem teknar eru á grundvelli laganna og settar eru samkvæmt þeim. Þessar ákvarðanir skuli vera „á íslensku eða ensku eftir því sem við á“. Í reglugerð nr. 326/2000, um flugmálahandbók, er nánar mælt fyrir um þetta en þar segir að heimilt skuli að „birta tæknilega staðla á ensku eingöngu“.
    Sérstakt viðfangsefni eru sendiráð Íslands og sendifulltrúar erlendis. Dæmi eru um að við sendiráð og aðrar opinberar skrifstofur erlendis starfi fólk sem er ekki mælt á íslenska tungu. Þá er óhjákvæmilegt að nota annað mál en íslensku á þeim vettvangi, jafnvel innan sendiráðs og sendiskrifstofu. Hér er því vandkvæðum bundið að setja almenn fyrirmæli um á hvaða sviðum skuli nota íslensku. Þetta verður að vega og meta hverju sinni.

Um 8. gr.

    Um 1. mgr. má vísa til athugasemda við 7. gr. frumvarpsins þar sem í réttarfarslögum er mælt fyrir um þjónustu túlka.
    Í 2. mgr. segir að stjórnvöld skuli leitast við að veita þeim sem skilur ekki íslensku nauðsynlega þjónustu. Rétt er og eðlilegt að stjórnvald meti það hverju sinni hvernig að skuli staðið, svo sem hvort starfsmenn geti leyst úr eða kalla þurfi til túlka.
    Hér má minna á Norðurlandasamning um rétt norrænna ríkisborgara til að nota eigin tungu í öðru norrænu landi frá 17. júní 1981 en Ísland gerðist aðili að samningnum 17. júní 1987.

Um 9. gr.

    Í starfsemi ríkis og sveitarfélaga er sjálfsagt að allur almenningur skilji það tungutak sem notað er í textum sem eiga að vera aðgengilegir öllum, svo sem í lögum og öðrum almennum fyrirmælum, í dómum og úrskurðum dómstóla, í úrlausnum stjórnvalda og við aðrar ákvarðanir sem fyrirsvarsmenn stjórnvalda taka.
    Ákvæðið á sérstaklega við um samskipti yfirvalda og annarra sem hafa með höndum opinbera sýslu sem snertir almenning á þeim sviðum sem starfsemi þeirra nær til. Skýr og skilmerkilegur texti er sérstaklega brýnn í dómum, úrskurðum og öðrum athöfnum dómstóla og enn fremur í þeim ákvörðunum stjórnvalda sem snerta einstaklinga. Í slíkum textum er mál jafnan formlegt og jafnvel tæknilegt en þá er mikilvægt að vandað sé til framsetningar.
    Skýrt orðfæri er ekki takmarkað við ritaðan texta heldur einnig talað mál. Hér er einkum haft í huga hvernig orðum er hagað við umræður innan stofnana þjóðfélagsins, svo sem við umræður á Alþingi, við munnlegan málflutning og aðra meðferð mála fyrir dómstólum og innan stjórnvaldsstofnana ríkis og sveitarfélaga. Með orðunum vandað mál er átt við að fylgt skuli viðteknum hefðum og reglum, greinargóðu orðavali, réttum beygingum og eðlilegri orðaskipan. Með kröfu um að mál skuli vera einfalt er átt við að það skuli vera sem næst venjulegu vönduðu talmáli og með kröfu um að það sé skiljanlegt er átt við að málfari skuli hagað þannig að viðtakandi megi skilja.

Um 10. gr.

    Mikilvæg forsenda þess að íslenska verði nothæf sem opinbert mál íslenska ríkisins er að stöðugt sé unnið að orðasmíð sem fylgir framvindu mála í vísindum og fræðum, þar á meðal tækniþróun, á öllum sviðum og þá þannig að íslensk fræðiorð séu notuð. Eðli málsins samkvæmt hvílir skyldan til að sjá til þess að íslenskur fræðiorðaforði á ólíkum sviðum eflist jafnt og þétt, sé öllum aðgengilegur og notaður sem víðast, einkum hjá æðstu stjórnvöldum hvers stjórnsýslusviðs. Auk þess hvílir þessi skylda á oddvitum fræðasamfélagsins í heild og þá sérstaklega stjórnendum háskóla og einstakra stofnana þeirra, enn fremur á stjórnendum sjálfstæðra rannsóknarstofnana og fræðasetra.
    Sér til fulltingis geta stjórnvöld leitað til Íslenskrar málnefndar, sbr. 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins.

Um 11. gr.

    Í greininni er kveðið á um að íslenska sé opinbert mál Íslands á alþjóðavettvangi. Staða tungumáls, sem nýtur réttarstöðu opinbers máls í ríki, skiptir einnig máli utan lands og þá í alþjóðlegum samskiptum. Íslenska hefur hingað til í reynd verið opinbert mál Íslands bæði innan lands og á alþjóðavettvangi þótt ekki styðjist það við bein lagafyrirmæli. Þegar fyrirhugað er að lögfesta stöðu íslenskrar tungu sem þjóðtungu Íslendinga er rétt að tekið sé fram í lögunum að íslenska sé opinbert mál Íslands á alþjóðavettvangi. Hér er miðað við að fulltrúar Íslands komi þannig fram fyrir hönd ríkisins í tvíhliða eða marghliða samskiptum við önnur ríki og alþjóðastofnanir.
    Notkun íslensku á alþjóðavettvangi er raunhæft viðfangsefni en hún ræðst af framkvæmd og hefðum sem mótast hafa á hverju samskiptasviði. Nær ávallt er íslenska smáþjóðarmál og fulltrúar Íslendinga í samskiptum við önnur ríki og á alþjóðavettvangi verða nær alltaf að notast við eitthvert hinna útbreiddari tungumála – oftast ensku.
    Tilgangurinn með þessu ákvæði er að minna á að íslensku beri að nota þegar hin opinberu mál þátttökulanda eru notuð, t.d. við gerð lagatexta og þjóðréttarsamninga. Með því er ekkert sagt um það hvort og að hve miklu leyti íslenska sé opinbert mál innan hinna mörgu alþjóðasamtaka. Sú er hvergi raunin en innan Evrópusambandsins hefði hún þó slíka stöðu. Ekki er tilgangurinn með þessu lagafrumvarpi að íslensku verði haldið fram í alþjóðlegum samskiptum umfram það sem verið hefur. Tilgangurinn er sá að færa í lög þau viðhorf til málnotkunar sem hingað til hafa verið ráðandi í samskiptum ríkja og árétta það sem jafnan er tekið fram um tungumál í alþjóðasamningum.
    Hér má sem dæmi nefna 129. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, fylgiskjal I, sbr. lög nr. 2/1993. Þar segir að samningurinn sé gerður í einu frumriti á tungumálum sem síðan eru talin upp, þar á meðal er íslenska. Tekið er fram að hver þessara texta sé jafngildur. Þessu næst segir að textar gerða, sem vísað sé til í viðaukunum, séu jafngildir á þeim tungumálum sem þar eru talin upp eins og þeir birtast í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og skuli með tilliti til jafngildingar gerðir á íslensku og norsku og birtir í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB. Þessi ákvæði eru ítarlegri en almennt gerist og þjóðtungunum gert hærra undir höfði en almennt er tíðast. Ákvæði sem lúta að tungumálum samningsaðila eru í flestum milliríkjasamningum, jafnt alþjóðasamningum sem samningum milli einstakra ríkja. Í alþjóðasamningum er mælt fyrir um tungur stórþjóða, áður oftast ensku og frönsku en nú tungur helstu stórþjóða, en í tvíhliða samningum eru talin upp mál samningsaðila og þá jafnframt tekið fram að báðir eða allir textar séu jafngildir. Í slíkum ákvæðum birtist sú regla að íslenska sé opinbert mál Íslands á alþjóðavettvangi.

Um 12. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um skyldu ríkis og sveitarfélaga til að veita hverjum og einum aðgang að íslensku táknmáli. Nánari ákvæði um það hvernig standa skuli að því að fullnægja þessum skyldum er að finna í ýmsum lögum, einkum á sviði menntamála. Einnig er kveðið á um ábyrgð ríkis og sveitarfélaga á að hlúa að íslensku táknmáli, þróun þess og notkun. Þá er kveðið á um jafna stöðu íslensks táknmáls og íslenskrar tungu til samskipta.

Um 13. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

    Markmið frumvarpsins er að festa í lög ákvæði um stöðu íslenskrar tungu og mæla fyrir um varðveislu hennar, þróun, nothæfi og aðgengi að henni. Þá er frumvarpinu einnig ætlað að skýra stöðu íslensks táknmáls, m.a. sem fyrsta máls heyrnarlausra, og að það verði gert jafnrétthátt íslensku í samskiptum manna í millum.
    Í frumvarpinu er kveðið á um notkun íslenskrar tungu innan Alþingis, dómstóla og stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þá er kveðið á um að íslenska táknmálið sé jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum og að stjórnvöld skuli tryggja þeim sem þörf hafa fyrir það aðgang að íslensku táknmáli. Einnig er í frumvarpinu mælt fyrir um að stjórnvöld leitist við að tryggja aðstoð við þá einstaklinga sem ekki skilja íslensku við að skilja gögn sem skipta þá máli. Hins vegar er ekki kveðið á um rétt þeirra sem nota táknmál eða útlendinga sem ekki skilja íslensku til aðstoðar heldur felur frumvarpið í sér almenn stefnumið sem útfærð eru í öðrum lögum á einstökum málasviðum, eins og t.d. í löggjöf um meðferð einkamála og sakamála, löggjöf um skólamál, lögum um félagsþjónustu og stjórnsýslulögum.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að í Íslenskri málnefnd verði nefndarmönnum fjölgað um fjóra eða í 19 en í dag eiga 15 manns sæti í nefndinni. Enn fremur kveður frumvarpið á um að skipa eigi fimm menn til setu í málnefnd um íslenska táknmálið. Frumvarpið gerir ráð fyrir að nefndirnar hafi skrifstofu hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum líkt og Íslensk málnefnd hefur nú og má ætla að útgjaldaaukning vegna þeirra verði óveruleg og rúmist innan núverandi fjárheimildar stofnunarinnar. Um er að ræða kostnað við þóknanir vegna fjölgunar nefndarmanna sem samtals gætu aukist árlega um allt að 1,5 m.kr.
    Ekki er ástæða til að ætla að ákvæði frumvarpsins um réttindi til náms í íslensku og íslensku táknmáli og rétt til túlkaþjónustu fyrir þá sem ekki skilja íslensku þurfi beinlínis að hafa í för með sér breytingar á núverandi framkvæmd. Áætlað er að um 300 einstaklinar noti táknmál sem fyrsta mál. Kostnaður ríkissjóðs vegna túlkaþjónustu við þennan hóp dreifist víða um samfélagið og fer að mestu í gegnum Samskiptamiðstöð heyrnarlausra en framlög til hennar á fjárlögum nema rúmlega 60 m.kr. á yfirstandandi ári. Þá má ætla að kostnaður ríkissjóðs vegna túlkaþjónustu við erlenda ríkisborgara nemi nú um 50 m.kr. á ári., auk þess sem ríkissjóður veitir árlega um 120 m.kr. til íslenskukennslu handa útlendingum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má því ætla að útgjöld ríkissjóðs aukist um allt að 1,5 m.kr. á ársgrunni. Telja má að slík minni háttar breyting rúmist í rekstrarveltu Stofnunar Árna Magnússonar þótt mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi ekki gert sérstaklega ráð fyrir því í forsendum fjárveitinga í fjárlögum ársins 2011.