Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 193. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 871  —  193. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur um sáttamiðlun.

     1.      Er ráðherra sammála niðurstöðu nefndar um mat á árangri tilraunar með sáttamiðlun í sakamálum og ef svo er, hyggst ráðherra hrinda tillögum nefndarinnar í framkvæmd?
    Ráðherra er sammála því að árangur af tilraunaverkefninu hafi verið góður. Með hliðsjón af niðurstöðum nefndarinnar er það mat ráðherra að sáttamiðlun ætti að geta orðið varanlegur hluti af íslenska réttarkerfinu. Því hefur verið beint til ríkissaksóknara að beita úrræðinu áfram, til samræmis við framkvæmd á tilraunatímabilinu, þar á meðal að sömu brot og tilraunaverkefnið náði til verði andlag sáttamiðlunar. Hefur því enn fremur verið beint til ríkissaksóknari að hann kynni fyrirmæli sín um sáttamiðlun að nýju fyrir lögregluumdæmum landsins og hvetji til notkunar á úrræðinu. Með hliðsjón af niðurstöðum nefndarinnar ber að geta þess að stefnumótun í málefnum ósakhæfra ungmenna er utan verkefnasviðs innanríkisneytisins en lokaskýrsla nefndarinnar um tilraunaverkefnið hefur verið send velferðarráðuneytinu til kynningar.

     2.      Telur ráðherra ástæðu til að heimildir til sáttamiðlunar nái til fleiri brotaflokka en tilraunin tók til?
    Að svo stöddu telur ráðherra ekki ástæðu til að víkka út heimild úrræðisins svo það nái til fleiri brotaflokka en tilraunin tók til.

     3.      Hefur ráðherra hug á að beita sér fyrir því að ákvæði um sáttamiðlun verði tekin upp í lög?
    Sáttamiðlun í opinberum málum hefur lagastoð í ákvæði 146. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Þar segir í b-lið 3. mgr. að falla megi frá saksókn ef sakborningur og brotaþoli hafa komist að samkomulagi og sakborningur efnt það fyrir sitt leyti. Að mati ráðherra er ótímabært að leggjast í umfangsmikla vinnu við laga- og/eða reglugerðarbreytingar vegna úrræðsins að svo stöddu, æskilegra er að fá meiri reynslu á úrræðið áður en slík vinna hefst. Að tveimur árum liðnum verði gerð úttekt á framkvæmd og nýtingu sáttamiðlunar, og að nýju metin þörf á frekari lagabreytingum.