Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 356. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 950  —  356. mál.
Svarvelferðarráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um stöðu Íbúðalánasjóðs.

     1.      Hver er fjárhæð áætlaðra framlaga í afskriftarsjóð útlána Íbúðalánasjóðs árin 2010– 2012, sundurliðuð eftir árum?
    Fjármálaeftirlitið sendi erindi til Íbúðalánasjóðs þar sem óskað var eftir að sjóðurinn gerði viðskipta- og rekstraráætlanir fyrir árin 2010–2013 í samræmi við viljayfirlýsingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda frá apríl 2010. Í áætlun sjóðsins sem unnin var sumarið 2010 var stuðst við tilteknar grunnforsendur sem og forsendur sem gerðu ráð fyrir langvarandi efnahagslægð.
    Íbúðalánasjóður hefur endurreiknað afskriftaþörf sjóðsins fyrir árin 2011–2013 byggða á því reiknilíkani sem notað var til grundvallar viðskipta- og rekstraráætlunar 2010–2013. Samkvæmt niðurstöðu þeirra útreikninga er áætlað að framlög vegna einstaklinga, lögaðila og lánasamninga við fjármálastofnanir í afskriftasjóð 2011 verði á bilinu 3,6–5,7 milljarðar kr. og 4,5–6,9 milljarðar kr. fyrir árið 2012. Eru þetta lægri og hærri mörk á mögulegri afskriftaþörf sjóðsins út frá ákveðnum forsendum um vanskil. Framlög ársins 2010 eru í samræmi við það sem yfirstandandi vinna við uppgjör sjóðsins fyrir árið 2010 gerir ráð fyrir eða 7,8 milljarðar kr. en sú fjárhæð tekur hvorki mið af sérstakri varúðarniðurfærslu vegna lögaðila né niðurfærslu skulda yfirveðsettra heimila. Það er mat Íbúðalánasjóðs að í þessum endurútreikningum felist mikil óvissa um þróun lánasafns sjóðsins í ljósi víðtækra aðgerða lánastofnana til aðstoðar skuldsettum heimilum og því ber að taka þeim með fyrirvara. Þá er verið að móta úrræði til lausnar vanda lögaðila og afla ítarlegri upplýsinga um stöðu þeirra. Gera má ráð fyrir að skýrari mynd af stöðu útlánasafnsins muni liggja fyrir á þriðja ársfjórðungi 2011.
    Íbúðalánasjóður er aðili að samkomulagi lánveitenda á íbúðamarkaði frá desember 2010 og janúar 2011 með fyrirvara um að sjóðurinn fái heimildir að lögum til niðurfærslu veðlána í samræmi við samkomulagið. Í samkomulaginu voru samþykkt úrræði til handa þeim heimilum í landinu sem eru í greiðsluerfiðleikum og/eða með yfirveðsettar fasteignir. Samtals nemur áætluð heildarafskrift þeirra aðgerða um 21,8 milljörðum kr. og verður sú fjárhæð færð á afskriftareikning fyrir árið 2010. Til viðbótar gerir Íbúðalánasjóður ráð fyrir að færa 7 milljarða kr. í varúðarafskrift vegna lána lögaðila og verður sú fjárhæð einnig færð á afskriftareikning fyrir árið 2010. Eru þessi lán lögaðila einkum til leigufélaga þar sem saman fara vanskil í langan tíma og vaxandi rekstrarvandi.

     2.      Hversu miklum fjármunum tapaði Íbúðalánasjóður árin 2000–2010, sundurliðað eftir árum, vegna kaupa á skuldabréfum og aðildar að vaxtaskiptasamningum?
    Eftirfarandi tafla sýnir það tap sem hefur orðið vegna kaupa á skuldabréfum og vaxtaskiptasamningum á tímabilinu 2000–2010. Tap vegna skuldabréfakaupa er 8.574 millj. kr. og tap vegna vaxtaskiptasamninga 2.215 milljónir króna en þessar upplýsingar hafa áður komið fram í ársreikningum sjóðsins fyrir árin 2008 og 2009. Ekkert tap hefur verið fært vegna skuldabréfakaupa eða vaxtaskiptasamninga fyrir árið 2010. Þær tölur eru þó ekki endanlegar þar sem vinnu við ársuppgjör er ólokið og ekki liggur fyrir hvort sjóðurinn þurfi að færa inn tap vegna ársins 2010 en einstök mál eru í skoðun að hálfu sjóðsins.

Ár Framlag í afskriftareikning v. skuldabréfakaupa (m.kr.) Framlag í afskriftareikning v. vaxtaskiptasamninga (m.kr.)
2000 0 0
2001 0 0
2002 0 0
2003 0 0
2004 0 0
2005 0 0
2006 0 0
2007 0 0
2008 5.890 1.985
2009 2.684 230
2010 0 0

    Samtals nemur tap þessara þátta rúmlega 1% af núverandi heildareignum sjóðsins, í einu mesta fjármála- og efnahagshruni hér á landi. Einnig ber að geta þess að hér er aðeins sýnt það tap sem varð en ekki sá fjárhagslegi hagnaður sem orðið hefur af því vegna þessara þátta.
    Til viðbótar má nefna að á árunum 2004–2006, eftir breytingar á fjármögnunarkerfi Íbúðalánasjóðs, urðu gífurlegar uppgreiðslur hjá Íbúðalánasjóði í kjölfar þess að fjármálastofnanir komu í auknum mæli inn á íbúðalánamarkaðinn. Uppgreiðslur lána námu samtals um 237 milljörðum kr. á tímabilinu. Skapaði þetta verulegan vanda fyrir Íbúðalánasjóð enda jafngiltu uppgreiðslurnar um helmingi efnahagsreiknings hans á þeim tíma. Sjóðurinn varð að bregðast við eftir þeim leiðum sem færar voru og til að viðhalda ákvæðum og viðmiðunum reglugerðar nr. 544/2004, um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs, sem og ákvæðum fjár- og áhættustýringarstefnu sem gerð er á grunni ákvæða reglugerðarinnar.
    Þá hefur sjóðurinn einnig það lagalega hlutverk að gæta jafnvægis í inn- og útgreiðslum sjóðsins, sbr. 3. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum. Með þessu leitaðist sjóðurinn því m.a. við að kaupa greiðsluflæði íbúðalána sem voru í vörslu banka og sparisjóða, draga út húsbréf í aukaútdráttum eins og kostur var og gera vaxtaskiptasamninga í áhættustýringarskyni til að stýra vaxtaáhættu sjóðsins, eins og greint er frá í ársreikningum hans. Með þessu náði sjóðurinn að jafna meðallíftíma eigna og skulda vel innan þeirra viðmiðunarmarka sem tilgreind voru í fjár- og áhættustýringarstefnu hans, koma á jafnvægi milli eigna og skulda og á greiðsluflæði þar á milli og ná fram ávöxtun sem nauðsynleg var til að viðhalda rekstri og eiginfjárhlutfalli sjóðsins. Á þessum tíma skiptu vaxtaáhætta og vaxtatekjur sjóðsins hann miklu máli enda minnkaði vaxtamunur útlána og fjármögnunar umtalsvert við uppgreiðslurnar. Sjóðurinn leitaði á þessum tíma til Seðlabankans vegna ávöxtunar á lausu fé en þeir vextir sem voru í boði voru umtalsvert lægri en fengust í bankakerfinu. Jafnframt samrýmdist það heldur ekki því regluverki sem gilti um áhættustýringu sjóðsins að geyma allt lausafé hans hjá Seðlabankanum á þessum tíma, enda hefði það viðhaldið því ójafnvægi sem sjóðurinn var að vinna gegn. Því leitaði sjóðurinn með lausafjár- og áhættustýringu sína í bankakerfið, þar sem m.a. voru keypt greiðsluflæði íbúðalána banka og sparisjóða, skuldabréf af innlendum fjármálastofnunum og gerðir vaxtaskiptasamningar við innlend fjármálafyrirtæki til að stýra vaxtaáhættu sjóðsins. Einnig ber þessa að geta að sjóðurinn þarf að hafa tiltekið lausafé samkvæmt fjár- og áhættustýringarstefnu sinni til að mæta framtíðarskuldbindingum og nettóútlánum til lengri tíma. Hefur sú fjárhæð numið tugum milljörðum króna eftir tímabilum. Þar sem vaxtamunur milli bankakerfisins annars vegar og Seðlabankans hins vegar var umtalsverður á þessum tíma má ætla að þær vaxtatekjur sem sjóðurinn hefur fengið vegna ávöxtunar lausafjár í bankakerfinu hafi skilað sjóðnum milljörðum króna umfram það sem fengist hefði hjá Seðlabankanum. Þá má ætla að sú umframávöxtun sem sjóðurinn hefur fengið við að kaupa greiðsluflæði íbúðalána banka og sparisjóða nemi um 10 milljörðum kr. Því má ætla að hefði sjóðurinn ekkert aðhafst til að bregðast við þessum aðstæðum hefði hann ekki starfað í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 544/2004 og líkur á að eiginfjárhlutfall hans hefði verið komið undir viðmiðunarmörk fyrir október 2008. Á þeim tíma var ljóst að innlánskröfur nytu forgangs samkvæmt neyðarlögunum, nr. 125/2008, og því lækkaði verðmæti skuldabréfa í eigu sjóðsins, sem var hluti af lausafjárstöðu hans, umtalsvert. Engin skerðing var hins vegar á innlánskröfum sjóðsins sem einnig var hluti af lausafjárstöðu hans. Sjóðurinn gat hins vegar ekki, frekar en aðrir, séð það fyrir að skuldabréfum yrði raðað neðar í forgangsröð en innlánum eða að vaxtaskiptasamningum yrði haldið eftir í gömlu bönkunum.

     3.      Af hvaða aðilum keypti Íbúðalánasjóður þau skuldabréf sem sjóðurinn tapaði á árin 2000–2010 og hverjir voru útgefendur þeirra bréfa?
    Íbúðalánasjóður keypti skuldabréfin af SPRON og Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka hf., sem jafnframt voru útgefendur bréfanna og voru heimilaðir mótaðilar samkvæmt fjár- og áhættustýringarstefnu sjóðsins sem gerð er eftir reglugerð nr. 544/2004, um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs, með síðari breytingum.

     4.      Hverjir eru og voru gagnaðilar Íbúðalánasjóðs að þeim vaxtaskiptasamningum sem sjóðurinn tapaði á árin 2000–2010?
    Mótaðilar vaxtaskiptasamninga Íbúðalánasjóðs, sem gerðir voru í samræmi við fjár- og áhættustýringarstefnu sjóðsins, voru Landsbanki Íslands og Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki hf.

     5.      Hversu mikið reiðufé keypti Íbúðalánasjóður af Seðlabanka Íslands árin 2000–2010, sundurliðað eftir árum, og hversu mikið af öðrum fjármálastofnunum?
    Íbúðalánasjóður hefur hvorki keypt reiðufé af Seðlabanka Íslands né öðrum fjármálastofnunum.

     6.      Hvaða einstaklingar og lögaðilar veittu Íbúðalánasjóði sérfræðiaðstoð á árunum 2000– 2008, í hverju fólst sú aðstoð og hve mikið greiddi sjóðurinn fyrir hana, sundurliðað eftir einstökum sérfræðingum?
    Eins og áður hefur komið fram í fyrra svari ráðherra vegna þessarar spurningar þá sundurliðast greiðslur vegna sérfræðikostnaðar með virðisaukaskatti sem hér segir:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Íbúðalánasjóður telur sig ekki hafa heimild til að veita nánari upplýsingar um greiðslur þessar þar sem þær tengjast fjármálum þriðja aðila.

     7.      Hversu mikið má áætla að eigið fé og eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs verði á árunum 2010–2012, sundurliðað eftir árum, leggi íslenska ríkið sjóðnum ekki til aukið fé?
    Miðað við yfirstandandi vinnu við uppgjör Íbúðalánasjóðs fyrir árið 2010 er gert ráð fyrir að eigið fé sjóðsins, að teknu tilliti til afskrifta eins og nánar er getið um í svari við 1. tölul. en án tillits til áhrifa rekstrarreiknings á eigið fé, verði um 7,3 milljarðar kr. Endanlegt eigið fé sjóðsins í árslok 2010 og eiginfjárhlutfall mun ekki liggja fyrir fyrr en uppgjöri er lokið.
    Varðandi eigið fé og eiginfjárhlutfall sjóðsins í lok árs 2011 og 2012 þá hafa ekki verið gerðir endurútreikningar í reiknilíkaninu sem notað var til grundvallar viðskipta- og rekstraráætlun 2010–2013. Bíður sá endurútreikningur þar til óvissu þeirri sem fram kemur í svari við 1. tölul. hefur að mestu verið eytt, þannig að stefnt er að því að það verði gert á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Er það mat Íbúðalánasjóðs að þessi óvissa sé það mikil að útreikningar á þessum tíma mundu verða marklausir.

     8.      Hvað gerir ráðherra ráð fyrir að fjárframlag ríkissjóðs til Íbúðalánasjóðs verði hátt á næstu þremur til sex árum?
    Einungis var gert ráð fyrir eiginfjárframlagi á árunum 2010–2011. Í áætlunum sjóðsins er gert ráð fyrir að viðsnúningur verði í rekstri sjóðsins á árunum 2014–2015 og að eftir það komi sjóðurinn til með að skila eðlilegum lágmarkshagnaði. Eins og áður hefur komið fram þá hefur verið ákveðið að fara í afskriftir á ákveðnum hluta útlána Íbúðalánasjóðs í tengslum við aðgerðir til aðstoðar skuldsettum heimilum. Þær aðgerðir hafa áhrif á fjárhæð þess framlags sem sjóðurinn þarf að fá frá ríkissjóði. Eins og þegar hefur komið fram er nokkur óvissa um umfang áhrifa af þeim aðgerðum sem fjármálastofnanir standa að til úrlausnar á vanda skuldsettra heimila. Enn fremur stendur yfir nánari útfærsla á leiðum til að bregðast við vanda lögaðila sem eiga í greiðsluerfiðleikum hjá sjóðnum. Útreikningar á frekari framlögum til sjóðsins frá ríkissjóði eru því mjög ónákvæmir en gert er ráð fyrir að frekari útreikningar verði gerðir á þriðja ársfjórðungi 2011.

     9.      Hvernig er gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður ráðstafi u.þ.b. 1.100 íbúðum sem sjóðurinn er eigandi að, hversu hátt hlutfall þeirra er í útleigu og hversu hátt hlutfall þeirra telur ráðherra að sjóðurinn geti selt á næstu tveimur til fjórum árum?
    Af þeim rúmlega 1.100 íbúðum sem Íbúðalánasjóður átti í lok febrúar 2011 eru um 400 íbúðir í útleigu, rúmlega 200 eignir eru á ýmsum byggingarstigum en um 500 íbúðir eru á samþykkisfresti eða standa auðar.
    Íbúðalánasjóður er að skoða hvaða leið skuli farin til ráðstöfunar á þessum íbúðum en eins og er eru allar íbúðir sem standa tómar skráðar til sölu á almennum markaði. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að starfandi er samráðshópur á vegum velferðarráðuneytisins sem er að skoða húsnæðisstefnu til framtíðar og gæti niðurstaða þess hóps haft áhrif á þessa vinnu. Starfshópnum er meðal annars ætlað að kanna leiðir til að efla leigu- og búseturéttarkosti og sitja í honum aðilar vinnumarkaðarins, fulltrúar þingflokkanna, fulltrúar úr ráðuneytum auk fulltrúa frá Íbúðalánasjóði, Landssamtökum lífeyrissjóðanna, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fjármálafyrirtækja, stýrihópi um velferðarvakt og Öryrkjabandalagi Íslands.

     10.      Hvaða skyldum hefur Íbúðalánasjóður að gegna sem virkasti lánveitandinn á innlendum fasteignamarkaði eins og ráðherra vísaði til í svari við 5. lið fyrirspurnar um stöðu Íbúðalánasjóðs á þingskjali 229 í 89. máli?
    Hlutverk Íbúðalánasjóðs er að aðstoða landsmenn til að geta búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og nota til þess lánveitingar sínar. Í því sambandi tryggir Íbúðalánasjóður framboð lánsfjár til fjármögnunar á kaupum á húsnæði til að búa í og tryggir að það framboð nái til allra landsmanna, hvar á landinu sem er og í samstarfi við sveitarfélög landsins að það sé óháð efnahag landsmanna.

     11.      Hvaða lögaðilum lánaði Íbúðalánasjóður fé til byggingar eða kaupa á leiguhúsnæði og hvaða einstaklingar og lögaðilar eru eigendur lánþeganna nú?
    Helstu aðilar sem Íbúðalánasjóður lánar fé til bygginga eða kaupa leiguhúsnæði eru: húsnæðissamvinnufélög, rekstrarfélög dvalarheimila, byggingarfélög námsmanna, sveitarfélög, hlutafélög og sjálfseignarstofnanir. Nánari upplýsingar um einstaka aðila telur Íbúðalánasjóður sig ekki geta veitt þar sem sjóðnum er ekki heimilt að veita upplýsingar um einstaka lántakendur.
    Hvað varðar síðari hluta spurningarinnar eru því miður ekki til upplýsingar um eigendabreytingar á félögum sem fengið hafa fyrirgreiðslu frá Íbúðalánasjóði og kerfi sjóðsins heldur ekki utan um slíkar upplýsingar.

     12.      Hver er heildarfjöldi og heildarupphæð veittra lána Íbúðalánasjóðs frá upphafi árs 2007, sundurliðað eftir mánuðum og verkefnum Íbúðalánasjóðs skv. 9. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998?

Útl. skv. 1. tl. Útl. skv. 2. tl.
Almenn útlán Fj. Önnur útlán Fj.
jan.07 3.458.362.364 366 782.482.401 70
feb.07 3.445.240.800 377 962.560.469 85
mar.07 4.434.518.248 473 487.578.080 38
apr.07 4.650.931.522 503 601.898.256 69
maí.07 5.167.833.302 553 787.064.883 62
jún.07 6.003.988.463 626 1.194.789.862 75
júl.07 5.717.501.657 609 632.095.138 48
ágú.07 4.451.805.612 470 903.761.199 61
sep.07 4.162.535.206 475 1.411.262.666 110
okt.07 5.292.747.762 550 1.308.024.229 136
nóv.07 4.637.309.994 505 2.180.560.090 204
des.07 3.368.291.371 388 1.784.339.499 127
jan.08 3.464.959.962 360 1.046.098.562 68
feb.08 2.376.166.331 276 452.765.797 39
mar.08 2.718.982.977 281 889.965.202 70
apr.08 3.376.064.297 324 811.230.802 51
maí.08 3.749.841.831 383 952.169.398 66
jún.08 4.133.827.521 366 852.035.911 105
júl.08 6.870.998.729 607 1.863.009.445 114
ágú.08 4.326.644.887 396 1.324.463.647 117
sep.08 5.579.303.613 493 2.372.841.779 156
okt.08 4.342.122.668 392 1.679.139.975 151
nóv.08 3.231.659.584 295 1.092.265.932 107
des.08 4.229.119.463 340 2.465.497.089 175
jan.09 2.174.801.419 204 1.374.558.386 110
feb.09 2.268.806.735 213 1.075.984.194 99
mar.09 1.881.253.655 178 625.167.755 103
apr.09 1.921.708.227 182 924.580.044 132
maí.09 1.812.378.181 189 723.606.224 45
jún.09 1.923.166.689 180 703.881.720 45
júl.09 1.750.875.870 173 694.310.903 50
ágú.09 1.468.691.218 149 116.669.370 10
sep.09 1.844.761.227 184 1.069.678.259 104
okt.09 1.527.528.326 164 276.806.984 19
nóv.09 1.458.042.852 161 956.182.559 98
des.09 1.481.542.250 168 633.085.247 72
jan.10 735.616.679 99 1.400.478.798 102
feb.10 1.372.560.426 152 250.655.447 23
mar.10 1.756.923.729 191 1.278.796.140 66
apr.10 813.607.162 97 463.751.038 18
maí.10 1.334.794.992 156 680.882.633 65
jún.10 1.594.215.196 182 306.879.575 86
júl.10 1.760.841.737 177 1.035.260.496 62
ágú.10 1.656.312.214 164 67.453.951 2
sep.10 1.858.327.737 195 1.973.837.219 134
okt.10 2.026.227.600 189 470.368.415 42
nóv.10 1.852.840.149 213 164.989.562 11
des.10 1.743.733.671 175 261.015.226 14


Skv. 3. tölul.:
Mánuður/ár Seljandi lánasafns Fjárhæð (millj. kr.) Fjöldi lána
Mars 2009 Sparisjóðurinn í Keflavík 9.951 1.151
Júní 2009 BYR Sparisjóður 2.708 596
Júlí 2009 Sparisjóður Bolungarvíkur 477 61
Ágúst 2009 Sparisjóður Bolungarvíkur 426 43
Apríl 2010 Drómi/Frjálsi fjárfestingarbankinn 15.267 2.378