Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 672. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1189  —  672. mál.




Beiðni um skýrslu



frá fjármálaráðherra um mat á áhrifum af beitingu Breta á lögum um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi fyrir íslensk fyrirtæki.

Frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Pétri H. Blöndal, Unni Brá Konráðsdóttur,
Árna Johnsen, Ásbirni Óttarssyni, Birgi Ármannssyni, Bjarna Benediktssyni,
Einari K. Guðfinnssyni, Jóni Gunnarssyni, Kristjáni Þór Júlíussyni, Ólöfu Nordal, Ragnheiði E. Árnadóttur, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Sigurði Kára Kristjánssyni,
Tryggva Þór Herbertssyni og Þorgerði K. Gunnarsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um hvaða fjárhagslegar afleiðingar urðu af beitingu Breta á lögum um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi fyrir íslensk fyrirtæki haustið 2008. Í skýrslunni væri gagnlegt að fram kæmu meðal annars tölur um beint fjárhagslegt tjón fjörutíu stærstu inn- og útflutningsfyrirtækja landsins frá haustinu 2008 sem rekja má til beitingar laganna, svokallaðra hryðjuverkalaga. Rétt væri að setja upp bæði varfærið mat og heildarmat á áhrifunum. Einnig væri gagnlegt að skoða hvernig áðurnefndir aðilar meta óbeint tjón sem hlaust af aðgerðum Breta.

Greinargerð.


    Hinn 8. október 2008 yfirtóku bresk stjórnvöld Heritable Bank og útibú Landsbankans í London auk þess að kyrrsetja eignir Landsbankans og eignir sem tengdust bankanum en voru í eigu, vörslu eða undir yfirráðum íslenskra stjórnvalda á grundvelli laga um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi frá 2001. Í yfirlýsingu forsætisráðherra Bretlands á þessum tíma kemur fram að gripið hafi verið til þeirra ráðstafana að frysta eignir íslenskra fyrirtækja í Bretlandi. Stjórnvaldsákvörðun breska fjármálaráðuneytisins fól hins vegar ekki í sér fyrirmæli um að frysta eignir allra íslenskra fyrirtækja heldur eingöngu fyrirmæli um að frysta eignir Landsbankans. Það má þó ljóst vera að yfirlýsing fjármálaráðherrans hafði gríðarleg áhrif á íslensk fyrirtæki sem starfa í Bretlandi eða selja vörur sínar eða þjónustu á breskum markaði. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað ítarlega um fall Landsbankans og atburðarásina í kringum það og segir þar í 7. bindi: „Að mati rannsóknarnefndar Alþingis var framangreind rangfærsla Browns í fjölmiðlum [sbr. yfirlýsingu Browns um frystingu eigna íslenskra fyrirtækja], auk þess sem bresk stjórnvöld beittu lagabálki sem m.a. er kenndur við varnir gegn hryðjuverkum, til þess fallin að valda íslenskum fyrirtækjum bæði í Bretlandi og annars staðar miklu tjóni.“
    Í ljósi framangreinds telja skýrslubeiðendur nauðsynlegt og afar mikilvægt fyrir hag þjóðarinnar að afla upplýsinga um þau áhrif sem urðu af beitingu hryðjuverkalaganna í október 2008, hversu lengi áhrifanna gætti og hvort þeirra gætir jafnvel enn. Miklu máli skiptir fyrir hagsmuni Íslands, bæði í þjóðhagslegu og alþjóðlegu samhengi, að vitneskja sé til staðar um afleiðingar af beitingu hryðjuverkalaganna.