Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 686. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1205  —  686. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006, með síðari breytingum.

Flm.: Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Árlega skal úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi. Fjárhæðinni skal skipt jafnt milli stjórnmálasamtaka. Hafi stjórnmálasamtök náð 2,5% atkvæða í næstliðnum kosningum en ekki fengið þingmann kjörinn skulu þau fá úthlutað helmingi þeirrar fjárhæðar sem stjórnmálasamtök skv. 1. málsl. fá úthlutað.
     b.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Stjórnmálasamtök sem bjóða ekki fram í öllum kjördæmum skulu frá framlög í samræmi við fjölda frambjóðenda sem hlutfallstölu af 126.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „þingmann og nefnist hún eining“ í 2. málsl. kemur: þingflokk.
     b.      3. og 4. málsl. falla brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Fjárhæðinni skal skipt jafnt milli stjórnmálasamtaka.
     b.      Orðin „í samræmi við kjörfylgi í nýafstöðnum kosningum“ í síðari málslið 2. mgr. falla brott.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað tilvísunarinnar „2.–5. mgr.“ í 1. mgr. kemur: 2.–3. mgr.
     b.      3. og 4. mgr. falla brott.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Stjórnmálasamtökum og frambjóðendum er óheimilt að taka á móti framlögum frá lögaðilum.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Stofnframlög frá lögráða einstaklingum sem eru veitt í beinum tengslum við stofnun stjórnmálasamtaka mega að hámarki nema 400.000 kr.
     c.      Í stað orðanna „400.000 kr. á ári“ í 3. mgr. kemur: 200.000 kr. á ári og skal gera framlög sem nema hærri fjárhæð en 20.000 kr. opinber innan þriggja daga frá greiðslu þeirra.
     d.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Upplýsingar um framlög einstaklinga skal birta á heimasíðu stjórnmálasamtaka.
     e.      Í stað fjárhæðanna „75 kr.“, „100 kr.“, „125 kr.“, „150 kr.“ og „175 kr“ í 4. mgr. kemur: 38 kr., 50 kr., 63 kr., 75 kr. og: 88 kr.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Orðin „framlaga frá lögaðilum“ í 4. málsl. falla brott.
     b.      5. og 6. málsl. falla brott.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar ,,200.000 kr.“ í lokamálslið kemur: 20.000 kr.

7. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „400.000 kr.“ í 3. mgr. 10. gr. laganna kemur: 200.000 kr.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 11. gr. laganna:
     a.      Orðin „framlaga frá lögaðilum“ í 4. málsl. falla brott.
     b.      5. og 6. málsl. falla brott.
     c.      Í stað orðanna „einnig skal birta“ í lokamálslið kemur: Birta skal.
     d.      Í stað fjárhæðarinnar „200.000 kr.“ í lokamálslið kemur: 20.000 kr.

9. gr.

    Á eftir 11. gr. laganna kemur ný grein, 11. gr. a, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:

Stjórnmálasamtök sem fá ekki þingmann kjörinn.

    Stjórnmálasamtök sem fá 2,5% atkvæða en fá ekki þingmann kjörinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 3. gr., skulu á sex mánaða fresti skila árituðum reikningum.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006. Þær breytingar sem lagðar eru til eru í samræmi við markmið laganna um að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum, sem og að auka traust á stjórnmálum og efla lýðræði.
    Helstu breytingar frumvarpsins eru þær að banna framlög lögaðila til stjórnmálasamtaka og að takmarka fjárframlög einstaklinga við 200 þús. kr., þó þannig að framlög hærri en 20 þús. kr. skuli gera opinber innan þriggja daga frá því að þau voru móttekin.
    Þá er lagt til að horfið verði frá því fyrirkomulagi að stærri stjórnmálasamtök fái hærri fjárframlög en þau sem eru minni. Lagt er til að stjórnmálasamtök fái fjárframlag sem þarf til að reka skrifstofu og fundaraðstöðu í hóflegri stærð í hverju kjördæmi. Stjórnmálasamtök fái einnig framlög til að greiða framkvæmdastjóra laun sem og starfsmanni í hálfu starfi í hverju kjördæmi fyrir sig. Þá verði fjárframlög til þingflokka þau sömu fyrir alla flokka.
    Hvað varðar framlög vegna kosninga er í frumvarpinu gert ráð fyrir jöfnu framlagi til stjórnmálasamtaka sem bjóða fram á landsvísu en bjóði stjórnmálasamtök ekki fram í öllum kjördæmum fái þau fjárframlag í samræmi við fjölda frambjóðenda þeirra sem hlutfallstölu af 126.