Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 691. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1210  —  691. mál.




Beiðni um skýrslu



frá mennta- og menningarmálaráðherra um stöðu skólamála.

Frá Þorgerði K. Gunnarsdóttur, Ásbirni Óttarssyni, Einari K. Guðfinnssyni,
Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Jóni Gunnarssyni, Kristjáni Þór Júlíussyni,
Ólöfu Nordal, Pétri H. Blöndal, Ragnheiði E. Árnadóttur,
Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Tryggva Þór Herbertssyni.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að mennta- og menningarmálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu skólamála í leik-, grunn- og framhaldsskólum árið 2011.
    Í skýrslunni komi meðal annars fram upplýsingar um:
     1.      Innleiðingu skólalöggjafar árið 2008.
     2.      Sveigjanleg skólaskil og val nemenda. Farið verði m.a. yfir hversu margir nemendur hafi nýtt sér þau úrræði og hvar á landinu þeir hafi verið, einnig hver þróunin varð eftir að fjárveiting var skorin niður til framhaldsskóla vegna nemenda í grunnskólum sem skráðu sig í einstaka áfanga í framhaldsskóla.
     3.      Eflingu iðn- og starfsnáms.
     4.      Árleg rekstrargjöld til leik-, grunn- og framhaldsskóla frá árinu 2008.
     5.      Áhrif kjarasamninga á skólastarf og rekstur skóla.
     6.      Stöðu og þróun sérkennslu í leik,- grunn- og framhaldsskólum. Einnig verði farið yfir hvernig börnum með sérþarfir er mætt í skólakerfinu og hvernig ráðuneytið komi að þeim málum, jafnframt hvort ætlunin sé að bæta sveitarfélögum aukinn kostnað við að sinna þessari þjónustu.
     7.      Sálfræðiþjónustu og forvarnir í framhaldsskólum.
     8.      Hvernig unnið hafi verið úr niðurstöðum síðustu Pisa-könnunar til framtíðar.
     9.      Kostnað við að mennta einn nemanda til stúdentsprófs, skilgreint eftir skólum.
     10.      Kostnað við brottfall á hvern einstakling sem fellur út úr skólakerfinu. Einnig verði greint frá því hvort, og þá hvar, unnið sé samræmt á landsvísu í að draga úr brottfalli í framhaldsskóla, sem og hvort dregið hafi úr brottfalli sl. 10 ár.
     11.      Hvort fleiri framhaldsskólar hafi verið hvattir til að bjóða upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs en nú gera það og hvaða þýðingu það hefði fjárhagslega fyrir ríkisvaldið og þjóðhagslega fyrir samfélagið að fleiri einstaklingar útskrifuðust með stúdentspróf eftir þrjú ár en með nýrri skólalöggjöf væri bæði unnið og stefnt að slíkum breytingum.
     12.      Hvort um stefnubreytingu sé að ræða í skólamálum og hugað hafi verið að nýju að því hvort stytta eigi grunnskólann um eitt ár þannig að nemendur hefji framhaldsskólanám að jafnaði ári fyrr en nú. Farið verði yfir hver áhrif slík breyting hefði á nám nemenda og fjárhag sveitarfélaga.
     13.      Stöðu tónlistarskólanna. Verði m.a. farið yfir stöðu viðræðna ríkis og sveitarfélaga um þátttöku ríkisins í rekstri tónlistarkennslu.