Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 590. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1231  —  590. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar um eiginfjárframlög ríkisins til nýju bankanna.

     1.      Hvers vegna fékk Fjársýsla ríkisins ekki viðhlítandi lánaskjöl sem lúta að lánveitingum ríkisins til nýju bankanna eins og getið er á bls. 12 í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um endurskoðun ríkisreiknings árið 2009?
    Spurningin vísar til eftirfarandi texta í skýrslu Ríkisendurskoðunar. „Fjársýsla ríkisins hefur ekki fengið víðhlítandi lánaskjöl sem lúta að þessum lánveitingum og hefur af þeim sökum ekki getað bókað lánin í lánakerfi ríkisins. Má þar sérstaklega nefna skjöl vegna útgáfu ríkisbréfa og víkjandi lána til Arion banka. Við afstemmingar myndast því mismunur sem þessum lánveitingum nemur milli bókhalds og lánakerfis.“
    Í desember 2009 var gengið frá samkomulagi við skilanefnd Kaupþings um að hún legði fram 66 milljarða kr. eiginfjárframlag til bankans og eignaðist með því 87% hlutafjár í Arion banka. Með samkomulaginu skuldbatt ríkissjóður sig jafnframt til að leggja bankanum til víkjandi lán sem var háð áhættugrunni bankans og var á þeim tíma metið að næmi 25,9 milljörðum kr. Áður innborgað eiginfjárframlag ríkissjóðs yrði jafnframt lækkað um sömu fjárhæð. Það var svo ekki fyrr en í október 2010 sem tókst að ljúka samningum við bankann um endanlega fjárhæð og uppgjör hins víkjandi láns sem þá nam 29,4 milljörðum kr.
    Það var hins vegar talið mikilvægt að ríksreikningur 2009 endurspeglaði þær skuldbindingar sem fólust í fyrrnefndu samkomulagi. Í því skyni voru gerðar færslur á grundvelli samkomulagsins og mats á fjárhæð hins víkjandi láns á þeim tíma. Það liggja því augljósar ástæður fyrir því að misræmi var á hinu endanlegu láni og þess sem fært var í ríkisreikningi. Sá mismunur var leiðréttur þegar lokið var endanlegum samningum og frágangi lánsskjala.

     2.      Hvenær voru þessi viðskipti bókuð?
     3.      Eru þessi skjöl ekki til?
     4.      Fengu bankarnir lán án þess að árita lánaskjöl?

    Sjá svar við 1. tölul.

     5.      Hvenær voru ríkisskuldabréf að fjárhæð 186,5 milljarðar kr. vegna fjármögnunar bankanna gefin út og bókuð í lánakerfi ríkisins?
    Samningar vegna fjármögnunar Íslandsbanka og Arion banka voru gerðir í tveimur skrefum. Fyrra skrefið var á grundvelli rammasamnings sem m.a. fól í sér samkomulag um mat á yfirfærðum eignum til nýju bankanna. Fjármögnum ríkissjóðs á eiginfjárþætti 1 í bönkunum var gerð á forsendum þessa samkomulags og lagði ríkissjóður í því skyni fram eiginfjárframlag sem greitt var fyrir með útgáfu ríkisbréfa. Greiðslur samkvæmt því voru gerðar í ágúst 2009. Í fyrrnefndum samningum voru jafnframt ákvæði sem heimiluðu skilnefndum gömlu bankanna að eignast hlut í nýju bönkunum gegn framlagningu eiginfjár. Jafnframt skuldbatt ríkissjóður sig til að leggja bönkunum til víkjandi lán sem bundið var ákveðnum skilyrðum.
    Báðir bankarnir nýttu sér þessa heimild. Glitnir eignaðist 95% hlut í bankanum og ríkissjóður veitti bankanum víkjandi lán að fjárhæð 24,8 milljarðar kr. Endanlegum samningum um þennan þátt samkomulagsins var lokið í janúar 2010. Kaupþing eignaðist 87% hlutafjár í Arion banka og ríkissjóður veitti bankanum víkjandi lán að fjárhæð 29,4 milljarðar kr. Endanlegum samningum um þennan þátt samkomulagsins var lokið í október 2010.
    Samkomulag milli NBI og LBI um fjármögnun Landsbankans var með þeim hætti að hvor aðili fjármagnaði með beinum hætti sinn hluta. Gengið var frá samningum í desember 2009. Eignarhlutur ríkissjóðs nemur 81%.
    Í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna, sem væntanleg er á næstunni, er ítarlega gert grein fyrir endurreisn bankakerfisins.

     6.      Voru þeir eignarhlutir sem koma fram í töflu 2.1 í skýrslu Ríkisendurskoðunar seldir með söluhagnaði eða sölutapi?
     7.      Hvernig skiptist hagnaður eða tap á þessa þrjá eignarhluti?

    Eins og fram kemur í svari við 5. tölul. var ekki um eiginlega sölu að ræða heldur áttu skilanefndirnar þess kost að leggja fram fjármagn til endurfjármögnunar bankanna í stað ríkissjóðs. Fyrrnefnd ákvörðun felur þannig hvorki í sér hagnað eða tap.