Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 737. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1266  —  737. mál.




Álit félags- og tryggingamálanefndar



á skýrslu Ríkisendurskoðunar um sameiningu í ríkisrekstri – 5 Velferðarráðuneyti.



    Með bréfi, dags. 23. febrúar 2011, vísaði forseti Alþingis skýrslu Ríkisendurskoðunar, Sameining í ríkisrekstri – 5 Velferðarráðuneyti, til félags- og tryggingamálanefndar. Nefndin hefur fjallað um skýrsluna og fengið á sinn fund Kristínu Kalmansdóttur og Þóri Óskarsson frá Ríkisendurskoðun og Önnu Lilju Gunnarsdóttir, Hönnu S. Gunnsteinsdóttur og Sturlaug Tómasson frá velferðarráðuneyti.
    Eftir athugun sína komst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um sameiningu félags- og tryggingamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis í velferðarráðuneyti hafi verið tekin að vel athuguðu máli. Þá segir m.a. í skýrslunni: „Markmiðin voru skýr einkum þau sem lutu að faglegum þáttum og bættri þjónustu við almenning. Gert er ráð fyrir að sameinað ráðuneyti geti betur tekist á við aukin og flókin stjórnsýsluverkefni og að hagkvæmni muni aukast þegar til lengri tíma er litið. Skipulag og verkstjórn sameiningar voru góð og ábyrgðarhlutverk skýr. Áhersla var lögð á þátttöku starfsfólks beggja ráðuneyta í sameiningarferlinu og að það væri vel upplýst um framvindu mála. Leitað var til fagaðila um ráðgjöf, auk þess var sérfræðingur ráðinn, m.a. til að hafa umsjón með sameiningunni. Ríkisendurskoðun telur að vel hafi verið staðið að flestum þáttum við undirbúning sameiningar ráðuneytanna.“
    Ríkisendurskoðun beinir þó fjórum ábendingum til ráðuneytisins þar sem bent er á að ekki liggi fyrir heildstæð kostnaðaráætlun vegna sameiningarinnar og lögð áhersla á mikilvægi þess að þetta sé gert. Þá er ráðuneytinu bent á að ljúka þurfi langtímastefnumótun sem fyrst og er þess m.a. getið að í stefnumótunarvinnu þurfi að leggja raunsætt mat á ávinning þess að flytja stofnanir til annarra ráðuneyta eða frá þeim til velferðarráðuneytisins eftir því hvar verkefni eiga best heima. Ríkisendurskoðun bendir á að ljúka þurfi gerð verklagsreglna og rekstraráætlunar fyrir árið 2011 auk þess sem stofnunin bendir á mikilvægi þess að styðja áfram við starfsfólk.
    Nefndin tekur undir ábendingar Ríkisendurskoðunar og hefur fengið þær upplýsingar frá velferðarráðuneytinu að unnið sé að kostnaðaráætlun innan ráðuneytisins. Ráðuneytið áréttaði þó að engum hefði verið sagt upp vegna sameiningarinnar en samt sem áður væri gerð 9% hagræðingarkrafa á ráðuneytið. Staðan væri því erfið. Langtímastefnumótun er einnig í vinnslu og áætlað að henni ljúki innan þeirra tímamarka sem sett hafa verið, þ.e. á vormánuðum 2011. Þá eru verklagsreglur í vinnslu. Nefndinni var jafnframt tjáð að ráðuneytið hefði frá upphafi lagt áherslu á samvinnu við starfsfólk sitt í breytingarferlinu og ekki stæði til að breyta neinu þar um.
    Nefndin fagnar því að forseti vísi skýrslum Ríkisendurskoðunar til faglegrar umfjöllunar fastanefnda. Þá telur nefndin mikilvægt að stjórnsýslan tileinki sér þá lærdóma sem finna má í skýrslum Ríkisendurskoðunar. Fyrirliggjandi skýrsla er um mestallt mjög jákvæð og má af því draga þá ályktun að eftirlit Ríkisendurskoðunar og upplýsingagjöf skili árangri. Fagnar nefndin því. Ljóst er af umfjöllun nefndarinnar að unnið er í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar og telur nefndin mikilvægt að þessar ábendingar verði hafðar til hliðsjónar við önnur verkefni er varða hagræðingu í ríkisrekstri með breyttri verkaskipan og sameiningu stofnana eða ráðuneyta.

Alþingi, 31. mars 2011.



Ólafur Þór Gunnarsson,


varaform.     


Pétur H. Blöndal.


Guðmundur Steingrímsson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.