Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 602. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1347  —  602. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Ragnheiðar E. Árnadóttur um afdráttarskatt á vaxtagreiðslur úr landi.

     1.      Hverjar eru tekjur ríkissjóðs af afdráttarskatti á vaxtagreiðslur úr landi skv. 8. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, frá því að sú skattlagning var lögfest og tók gildi 1. september 2009, sbr. 6. gr. laga nr. 70/2009?
    Í eftirfarandi töflu má sjá innheimtar tekjur ríkissjóðs af afdráttarskatti á vaxtagreiðslur úr landi árin 2009, 2010 og fyrstu tvo mánuði ársins 2011:

2009 112 millj. kr.
2010* 2.862 millj. kr.
Janúar–febrúar 2011* 1.120 millj. kr.
*Bráðabirgðatölur

    Skattskyldir aðilar geta sótt um endurgreiðslur á grundvelli tvísköttunarsamninga og kann því hluti teknanna að verða endurgreiddur á næstu árum. Frá gildistöku laganna nema endurgreiðslur 21 millj. kr. en búist er við að þær verði mun meiri enda hafa aðilar fjögur ár til að sækja um þær.

     2.      Hafa ráðuneytinu borist kvartanir, erindi eða annars konar athugasemdir frá íslenskum fyrirtækjum vegna vandkvæða við fjármögnun, eða erfiðleika við greiðslu vaxta af núverandi lánum, vegna hins nýja afdráttarskatts?
    Ráðuneytinu hafa borist einhverjar athugasemdir eins og oft vill verða við nýja skattlagningu. Nefna má athugasemdir frá fyrirtækjum með erlenda lánasamninga sem gerðir voru fyrir gildistöku afdráttarskattsins. Einhverjir þeirra innihalda skilyrði þess efnis að verði slík skattlagning tekin upp verði það lántaki en ekki lánveitandi sem beri þann skatt. Í þessu samhengi hafa hagsmunaaðilar bent á að þessi skattlagning muni leiða til lakari lánskjara fyrir íslensk fyrirtæki í samningum við erlend fyrirtæki. Þá hafa einhverjir aðilar leitað til ríkisskattstjóra vegna erfiðleika við framkvæmd, einkum þegar ekki liggur skýrt fyrir hvert sé skattalegt heimilisfesti hins raunverulega eiganda vaxtanna.