Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 626. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1376  —  626. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um endurreisn bankakerfisins.

     1.      Hvernig var ákvörðun um endurreisn bankakerfisins og samninga við kröfuhafa tekin og á grunni hvaða laga byggðist sú ákvörðun?
    Ákvörðun um stofnun nýju bankanna (Nýja Kaupþings hf., Nýja Landsbankans og Nýja Glitnis hf.) í október árið 2008 var tekin á grunni laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., svokallaðra neyðarlaga.
    Fjármálaeftirlitið og fjármálaráðuneytið höfðu þar lykilhlutverki að gegna.
    A. Fjármálaeftirlitið tók ákvarðanir á grundvelli laganna um að flytja tiltekinn hluta eigna og skuldbindinga hinna föllnu banka til nýrra banka. Til að mæta skuldbindingunum, og tryggja áfram bankaviðskipti á Íslandi, voru jafnframt fluttar með eignir. Samkvæmt ákvæðum neyðarlaganna bar Fjármálaeftirlitinu að hlutast til um að gert yrði mat á verðmæti þeirra eigna sem fluttar voru til nýju bankanna. Þessar ákvarðanir voru teknar í október árið 2008. Mat á þeim eignum sem fluttust til nýju bankanna hófst í desember sama ár eftir að samið hafði verið við ráðgjafarfyrirtækin Deloitte í London og Oliver Wyman. Fljótlega varð ljóst að erfitt yrði að meta eignavirði við þær kringumstæður sem sköpuðust í bankahruninu og kom það á daginn að niðurstöður Deloitte voru á mjög breiðu verðbili. Haldnir voru fundir með hópi kröfuhafa hinna gömlu banka strax í nóvember og desember 2008 og bar þá strax á nokkrum vilja þeirra til að gömlu bankarnir tækju við endurgjaldi (fyrir nettóeignir) í formi hlutafjár í nýju bönkunum. Á þessum tíma var jafnframt fenginn til landsins til ráðgjafar Mats Josefsson, sænskur sérfræðingur á sviði bankaendurreisnar. Frá þessari atburðarás hefur nánar verið greint frá í sérstakri skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankakerfisins. En lagagrunnurinn er sem hér var lýst.
    B. Fjármálaráðuneytið fékk til þess heimildir samkvæmt neyðarlögunum að setja á fót nýjar fjármálastofnanir til að taka við hlutverki þeirra sem kynnu að falla. Þær heimildir voru sem kunnugt er nýttar í október 2008 til að stofna þá banka sem nú nefnast NBI hf., Íslandsbanki hf. og Arion banki hf. Íslenska ríkið var stofnandi bankanna.
    Eignarhlutir kröfuhafa komu svo til með því að skilanefndir gömlu bankanna ákváðu að breyta hlut uppgjörskrafna sinna í hlutafé í hinum nýju bönkum. Þetta var gert með þríhliða samkomulagi á milli hinna gömlu banka, nýju bankanna og fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins.
    Um heimildir fjármálaráðherra til að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í umræddum bönkum voru svo sett sérstök lög (nr. 138/2009, um heimild til að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf. ) og fela þau efnislega í sér að Alþingi samþykkti þær ráðstafanir sem gerðar höfðu verið.

     2.      Hvernig er áætlunin um endurreisn og framtíðarskipan bankakerfisins sem samningar við kröfuhafa byggðust á og hvernig var sú áætlun unnin?
    Rétt er um svar við þessari spurningu að vísa almennt til svars við fyrri lið fyrirspurnarinnar en mun nánari grein er gerð fyrir einstökum atriðum og útfærslum í áðurnefndri skýrslu fjármálaráðherra til Alþingis um endurskipulagningu bankakerfisins.