Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 640. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1401  —  640. mál.
Svar
utanríkisráðherra við fyrirspurn Birgis Ármannssonar um styrki vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu.

     1.      Hver er staða styrkja og umsókna, bæði vegna beinna styrkja og óska um sérfræðilega aðstoð (IPA, TAIEX o.fl.), af hálfu íslenskra stjórnvalda í tengslum við umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu?
                  a.      Hversu margar umsóknir um styrki eða sérfræðilega aðstoð hafa þegar verið sendar stofnunum Evrópusambandsins frá því að Alþingi samþykkti aðildarumsóknina sumarið 2009? Til hvaða verkefna hefur verið sótt um styrki eða aðstoð? Hversu margar umsóknir af því tagi hafa þegar verið samþykktar af ESB og til hvaða verkefna?

    Stækkunarstefna Evrópusambandsins felur í sér að þau lönd sem sækjast eftir aðild geti fengið stuðning til að gera stjórnsýslunni kleift að takast á við umsóknarferlið og til að tryggja að umsóknarríki verði sem best undirbúið komi á endanum til aðildar. Allur stuðningur sem ætlaður er til þessa fellur undir svokallaða IPA-aðstoð en á henni eiga einnig kost umsóknarríkin Króatía, Tyrkland og Makedónía auk mögulegra umsóknarríkja sem eru Albanía, Bosnía, Serbía, Svartfjallaland og Kósóvó. Hvað Ísland varðar var ákveðið af ráðherraráði Evrópusambandsins 14. júlí 2010 að Ísland ætti kost á þessum stuðningi. Gert hefur verið ráð fyrir að stuðningurinn gæti skipst í tvennt. Annars vegar landsáætlun IPA en í henni felst samsafn nokkurra verkefna sem íslensk stjórnvöld velja. Áætlunin miðast við fyrir fram ákveðna upphæð (28 milljónir evra fyrir árin 2011–2013) sem ætluð er til að styðja sérstaklega við Ísland enda uppfylli þær verkefnahugmyndir sem settar eru fram viðmið aðstoðarinnar. Mögulegt framlag til Íslands er 0,24% af heildarfjárveitingu IPA á árunum 2007–2013 sem er 11,5 milljarðar evra. Tyrkland fær stærstan hluta fjárveitingarinnar, um 50% heildarupphæðarinnar. Allur samanburður Íslands við önnur umsóknarríki er erfiður þar sem Ísland mun væntanlega eiga kost á stuðningi í styttri tíma, eiga kost á lægri fjárhæðum og ekki eiga kost á stuðningi á eins mörgum sviðum.
    Hins vegar stendur Íslandi til boða að taka þátt í svokölluðum fjölþegaáætlunum en þær eiga það sameiginlegt að hægt er að sækja aðstoð í sjóði sem ætlað er að styðja við öll ríkin og því er Íslandi ekki úthlutað fyrir fram ákveðnum upphæðum innan þeirra. Ein þessara fjölþegaáætlana er TAIEX en hún veitir ekki beina fjárhagslega styrki heldur aðstoð í formi mannauðs. TAIEX-aðstoð getur hver sem er innan stjórnsýslu Íslands, á öllum stigum, sótt um að því gefnu að um sé að ræða verkefni sem tengist löggjöf Evrópusambandsins, þar með talin EES-tengd verkefni. Aðstoðin er einnig opin aðilum utan stjórnsýslunnar á sömu forsendum. Aðstoðin hefur verið Íslendingum aðgengileg síðan sumarið 2010. TAIEX-aðstoð felur t.d. það í sér að starfsmenn stjórnsýslunnar geta hitt sérfræðinga á sínu sviði og þá sem vinna samsvarandi störf og þeir innan aðildarríkja Evrópusambandsins sér að kostnaðarlausu. Hægt er að óska eftir heimsókn sérfræðings til Íslands, ferð til einhvers aðildarríkis og/eða á ráðstefnu. TAIEX er einungis ætlað að veita upplýsingar og tækifæri til að fylgjast með fyrirmyndarstarfsháttum auk þess sem það veitir tækifæri til tengslamyndana sem þannig gerir stjórnsýslunni í viðkomandi umsóknarríki betur kleift að takast á við umsóknarferlið og mögulega aðild.
    Málefni þessi hafa verið kynnt utanríkismálanefnd auk þess sem nefndarálit hennar vegna aðildarumsóknar víkur sérstaklega að fjárhagsaðstoð Evrópusambandsins við afmarkaðan þátt ferlisins.
    Í lok mars sl. höfðu Evrópusambandinu verið sendar 37 umsóknir um TAIEX-stuðning (sjá fylgiskjal). Af þeim hafa 25 þegar verið samþykktar og þremur verið hafnað. Aðrar eru enn til skoðunar. Auk þess hafa með stuðningi TAIEX og að frumkvæði Evrópusambandsins verið haldin námskeið fyrir þá sem vinna að verkefnahugmyndum í IPA-landsáætlun 2011. Unnin hafa verið drög að tveimur verkefnalýsingum vegna stuðnings úr einni fjölþegaáætlun sem lýtur að fjárhagslegum stuðningi til Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins vegna þýðinga á regluverki Evrópusambandsins annars vegar og til Hagstofunnar hins vegar vegna vinnslu tiltekinna hagtalna. Verið er að vinna úr þeim athugasemdum sem gerðar voru við þær lýsingar. Engar endanlegar verkefnahugmyndir hafa verið sendar Evrópusambandinu vegna IPA-landsáætlunar 2011 en unnið hefur verið að þróun nokkurra slíkra hugmynda.

                  b.      Hvaða umsóknir eru nú í undirbúningi af hálfu einstakra ráðuneyta, ráðherranefndar um Evrópumál, einstakra stofnana, samninganefndar Íslands eða annarra aðila á vegum stjórnvalda?

    Fyrir liggur að á vegum nokkurra samningahópa eða aðila sem eiga fulltrúa í þeim eru umsóknir um TAIEX-sérfræðiaðstoð, námskeið og upplýsingaöflun um ýmis ESB-tengd mál í undirbúningi. Hvað varðar IPA-landsáætlun ársins 2011 hefur verið unnið að frekari þróun verkefnahugmynda á vegum ráðuneyta, stofnana og annarra aðila. Ekki liggur endanlega fyrir hvaða verkefni kunna að verða hluti af IPA-landsáætlun 2011.

                  c.      Liggja fyrir upplýsingar um áætlaðan fjölda umsókna meðan á aðildarferlinu stendur og líklegar fjárhæðir í því sambandi, bæði varðandi beina styrki og greiðslur fyrir sérfræðilega aðstoð?
    Ekki liggja fyrir áætlanir um heildarfjölda umsókna eða verkefnahugmynda. Ef horft er til áætlaðs fjármagns til IPA-landsáætlana er gert ráð fyrir að 28 milljónir evra verði til ráðstöfunar í þremur árlegum landsáætlunum 2011 (10 M.), 2012 (12 M.) og 2013 (6 M.). Auk þess má gera ráð fyrir sérstökum framlögum úr fjölþegaáætlun sambandsins en vegna fjárhagsársins 2010 voru skuldbundnar þrjár milljónir evra úr henni til tveggja verkefna, um þýðingar og vinnslu hagtalna eins og áður var nefnt. Að því er varðar TAIEX-stuðning þá liggja hvorki fyrir áætlanir né fyrirframskuldbindingar af hálfu Evrópusambandsins hvað varðar stuðning í formi sérfræðilegrar aðstoðar.

     2.      Hvernig er málsmeðferð varðandi undirbúning umsókna um styrki og aðstoð háttað af hálfu íslenskra stjórnvalda? Hver er þáttur einstakra ráðuneyta, ráðherranefndar, stofnana og samninganefndar í því ferli?
    Rétt er að greina hér á milli annars vegar TAIEX-aðstoðar og hins vegar IPA-landsáætlunar.
    Allt frá því að aðildarríki Evrópusambandsins samþykktu breytingar á reglugerð þar um hefur verið unnt að sækja um TAIEX-aðstoð, eða frá miðju ári 2010. Möguleikar þar að lútandi hafa verið kynntir einstökum ráðuneytum, samningahópum og fleiri aðilum sem hagsmuna eiga að gæta. Frumkvæði og undirbúningur umsókna er í höndum þeirra sem óska eftir TAIEX-stuðningi, svo sem ráðuneyta og stofnana, en einnig samningahópa og hagsmunaaðila sem öll koma að ferlinu með einum eða öðrum hætti. Ráðgjöf um umsóknir er veitt í utanríkisráðuneytinu sem annast milligöngu um umsóknir, samræmir þær og samþykkir gagnvart framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
    Hvað varðar IPA-landsáætlun þá er þar ekki um að ræða eiginlegar umsóknir heldur voru í upphafi lagðar fram stuttar lýsingar á verkefnum sem féllu að meginmarkmiðum IPA sem áttu uppruna sinn í stjórnsýslunni og í sumum tilvikum hjá sveitarfélögum eða öðrum aðilum. Unnið hefur verið á grunni þessara verkefnahugmynda í samræmi við ferli sem kynnt hefur verið í ráðherranefnd um Evrópumál og ríkisstjórn. Stjórnvöld hafa haldið utan um þessar tilgreindu verkefnahugmyndir og aðstoðað ábyrgðarmenn þeirra við frekari þróun þeirra í samræmi við kröfur sem gerðar eru til slíkra verkefna og samþykkt ráðherranefndar um Evrópumál.

     3.      Hver tekur endanlegar ákvarðanir um það hvaða umsóknir eru sendar stofnunum ESB?
    Þeir sem óska eftir að nýta TAIEX-aðstoð geta leitað til skrifstofu landstengiliðs í utanríkisráðuneytinu þar sem viðkomandi fær aðstoð og ráðgjöf við umsókn. Hann leggur frummat á umsókn með tilliti til þeirra skilyrða sem sett eru fyrir samþykkt hennar. Sé umsókn talin fullnægjandi er hún send til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til ákvörðunar.
    Endanleg ákvörðun um hvaða verkefnahugmyndir verða settar fram fyrir IPA-landsáætlun Íslands er í höndum ráðherranefndar um Evrópumál. Það er síðan stjórnarnefnd IPA, sem skipuð er fulltrúum aðildarríkja Evrópusambandsins, sem tekur endanlega ákvörðun um samþykkt IPA-landsáætlana.

     4.      Hefur ríkisstjórnin tekið ákvarðanir um einhverjar breytingar á vinnu við undirbúning og ákvarðanir vegna styrkumsókna á þeim tíma sem aðildarferlið hefur staðið yfir?
    Ríkisstjórnin ákvað í desembermánuði sl. að formfesta umsóknarferlið með því að samninganefndin eða einstakir samningahópar skilgreini verkefni sem óskað er TAIEX-aðstoðar við ef verkefni er talið nauðsynlegt til undirbúnings vegna samningaviðræðna.Fylgiskjal.


Yfirlit yfir TAIEX-umsóknir.

                   

Samþykktar umsóknir.


Nr. Umsækjandi Samningskafli Efni Felur í sér
1 Hagstofan 18
Hagtölur
Að stytta tímann sem það tekur að birta skammtímahagtölur. Einnig markmið að kynnast gerð þjónustuframleiðsluvísitölu hjá dönsku og finnsku hagstofnunum. Vinnufundir í Danmörku 4.–6. okt. og Finnlandi 6.–8. okt. 2010.
2 Hagstofan 18
Hagtölur
Fjárhagsuppgjör. Markmiðið að kynna sér fjárhagsuppgjör innan ESB-landa til þess að auka getuna til að safna saman upplýsingum
svo hægt sé að senda mikilvæg gögn til Eurostat, fljótt og örugglega.
Vinnufundir í Svíþjóð 18.–22. okt. 2010.
3 Forsætisráðuneytið 35
Annað
Byggðaþróun á Íslandi (National Development Plan for Iceland) Vinnufundir á Íslandi 16.–20. ágúst 2010.
4 Samnningahópur um byggðamál 22
Uppbyggingarstyrkir
Svæðaskipting í byggðamálum. Markmiðið að kynna þrepaskiptingu NUTS á Íslandi í tengslum við styrkhæfni landsins og fá upplýsingar um hvaða tölfræði þarf í tengslum við slíka skiptingu. Vinnufundir 26. okt. 2010 með sérfræðingum frá Eurostat, stækkunardeild ESB og Byggðadeild ESB.
5 Mannréttindastofnun HÍ 23
Réttarvarsla og grundvallarréttindi
Ráðstefna um réttindaskrá ESB og áhrif Lissabonsáttmálans (Mannréttindamál). Markmið ráðstefnunnar að kynna regluverk ESB í málum er varða réttindaskrá ESB og stöðu mannréttindamála innan sambandsins. Ráðstefna haldin í Háskóla Íslands 28. jan. 2011.
6 Garðyrkjubændur 11 Landbúnaður Upplýsingaöflun um garðyrkju í ESB. Markmiðið að auka þekkingu á garðyrkju innan ESB og skoða áhrif regluverks ESB á greinina í Finnlandi. Vinnuferð farin til Finnlands janúar 2011.
7 Utanríkisráðuneytið 22
Uppbyggingarstyrkir
Byggðamál. Námskeið í Reykjavík þar sem fjallað var um undirbúning íslenskra stjórnvalda í byggðamálum og stöðu málaflokksins innan ESB. Vinnufundir í desember 2010. Heimsókn sérfræðinga á sviði byggðastefnu ESB til Íslands.
8 Utanríkisráðuneytið 35
Annað
Upplýsingamál. Markmiðið að kynna sér útgáfu- og upplýsingamál. Vinnuferð til Póllands í desember 2010.
9 Hagstofan 18
Hagtölur
Hagtölur um þjónustuviðskipti. Markmiðið að kynna sér notkun á svokölluðu INTRASTAT- kerfi sem ríki ESB nota til þess að safna saman upplýsingum um viðskipti milli aðildarríkja. Vinnuferð til Danmerkur og Eistlands í mars 2011.
10 Iðnaðarráðuneytið 15
Orka
Olíubirgðir. Leitað er upplýsinga um innleiðingu regluverks ESB varðandi olíubirgðir. Óskað er eftir vinnufundi á Íslandi með sérfræðingum frá aðildarríkjum ESB og framkvæmdastjórninni. Ekki komið til framkvæmda.
11 Iðnaðarráðuneytið 15
Orka
Orkunýtni bygginga. Reglur um hvernig hús skuli byggð til að lágmarka hitunarkostnað. Leitað er upplýsinga um framkvæmd regluverksins. Óskað er eftir heimsókn sérfræðings frá norrænu aðildarríki. Ekki komið til framkvæmda.
12 Hagstofan 18
Hagtölur
Árstíðaaðlögun þjóðhagsreikninga. Leitað leiða til að bæta aðferðir Hagstofunnar við að aðlaga þjóðhagsreikninga að sveiflum vegna árstíða. Áætlaður er vinnufundur með erlendum sérfræðingi til að leiðbeina starfsmönnum Hagstofunnar. Ekki komið til framkvæmda
13 Neytendastofa 28
Neytenda- og heilsuvernd
Óskað er eftir sérfræðiaðstoð vegna framkvæmdar ESB-reglna um forpakkaðar vörur (e- Merki). Áætlað að halda ráðstefnu.
14 Forsætisráðuneytið 20
Iðnstefna
Áætlað að kynnast reynslu annarra landa af því að setja saman iðnstefnu á landsvísu. Áætlaður er vinnufundur með erlendum sérfræðingi.
15 Landbúnaðarháskólinn 11 Landbúnaður Sameiginleg landbúnaðarstefna ESB – hagsmunaaðilar. Áætlað að kynna sameiginlega stefnu ESB í landbúnaðarmálum fyrir þeim sem starfa á vettvangi landbúnaðar á Íslandi, bæði starfsmönnum ráðuneyta og stofnana sem og þeim sem starfa innan greinarinnar. Áætlað að halda ráðstefnu.
16 Samningahópur um landbúnað 11 Landbúnaður Sameiginleg landbúnaðarstefna ESB – aukin þekking og geta innan stjórnsýslunnar. Óskað eftir aðstoð við að meta stöðu stjórnsýslunnar á sviði landbúnaðarmála og tillögum að úrbótum ef þörf þykir á. Áætlaður er vinnufundur með erlendum sérfræðingi.
17 Samningahópur um landbúnað 11 Landbúnaður Landupplýsingakerfi. Leitað er eftir aðstoð sérfræðinga til að kynna landupplýsingakerfi ESB og mati á uppbyggingu slíks kerfis á Íslandi. Áætlaðir eru vinnufundir með erlendum sérfræðingum.
18 Utanríkisráðuneytið 15
Orka
Endurnýtanleg orka. Leitað er eftir aðstoð sérfræðinga til að efla þekkingu á löggjöf ESB um endurnýjanlega orku og hvað Ísland gæti lagt meira af mörkum í því sambandi. Áætlaðir eru vinnufundir með sérfræðingi og að haldin verði ráðstefna á Íslandi.
19 Forsætisráðuneytið 30
Utanríkistengsl
Undirbúningur landsáætlunar IPA fyrir Ísland. Fræðsla um gerð IPA-landsáætlunar fyrir fulltrúa forsætisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins. Auk þess var óskað eftir námskeiði í símatskerfi verkefnastjórnunar fyrir þá sem vinna að gerð verkefnalýsinga. Vinnuferð til Brussel í desember 2010. Námskeið haldið á Íslandi fyrir þá sem vinna að verkefnalýsingum í febrúar 2011.
20 Samningahópur EES I 12
Matvælaöryggi
Verkefni frá mars 2011 – mars 2012. Áætlað er að aðstoðin styrki íslensk stjórnvöld og stofnanir til að annast matvælaeftirlit og framfylgja lögum og reglugerðum ESB um öryggi dýra og plantna, þ.m.t. EES-reglna.
21 Fjármálaeftirlitið 32 Fjárhagslegt eftirlit Verkefni frá mars 2011 – mars 2012. Markmiðið að auka þekkingu á sviði fjármálaeftirlits, gerð áhættulíkana og á þeirri upplýsingatækni sem best þykir á þessu sviði.
22 Samningahópur um byggða- og sveitarstjórnarmál 22
Uppbyggingarstyrkir
Verkefni frá febrúar 2011 – febrúar 2012. Markmiðið að auka skilning á byggðastefnu ESB og þeirri stofnanauppbyggingu sem í henni felst.
23 Samningahópur um utanríkisviðskipti, utanríkis- og öryggismál 30
Utanríkistengsl
Þróunarsamvinna. Markmiðið að afla frekari þekkingar á starfi ESB á sviði þróunarsamvinnu. Áætlaðir vinnufundir og ráðstefna á Íslandi með erlendum sérfræðingum.
24 Svínaræktarfélag Íslands 11
Landbúnaður
Svínarækt og Evrópusambandið. Svínabændur á Íslandi hafa óskað eftir aðstoð til að auka við skilning sinn á því hvað þátttaka í landbúnaðarstefnu ESB hefur mögulega í för með sér fyrir þá. Áætluð er vinnuferð til Finnlands.
25 Samningahópur um sjávarútvegsmál 9
Sjávarútvegur
Skipaskrá. Áætlað er að fá stuðning til að kortleggja breytingar á skipaskrá við mögulega aðild að ESB með það að markmiði að finna fýsilega uppbyggingu á nýju skráningarkerfi. Áætlaður er vinnufundur með sérfræðingi sem kæmi til Íslands.

     Umsóknir sem bíða ákvörðunar.
1 Ríkisendurskoðun 32 Fjárhagslegt eftirlit Innra fjárhagseftirlit hins opinbera. Áætluð er vinnuferð til Möltu og vinnufundir með sérfræðingi á Íslandi.
2 Samningahópur EES I 12
Matvælaöryggi
Flokkun á þeim fyrirtækjum sem sinna matvælavinnslu en aðstoð er ætlað að auka færni og getu íslenskra stjórnvalda og stofnana til að sinna matvælaeftirliti og framfylgja lögum og reglugerðum ESB um öryggi dýra og plantna, þ.m.t. EES-reglum. Áætlaðir eru vinnufundir með sérfræðingum á sviðinu auk námskeiðs/ráðstefnu um málefnið.
3 Samningahópur um sjávarútvegsmál 9
Sjávarútvegur
Hafrannsóknir. Áætlað er að meta hvort og þá að hve miklu leyti gagnasöfnun Hafrannsóknastofnunar samræmist regluverki ESB, auk þess kortleggja hugsanlegar breytingar ef til aðildar kæmi. Áætlaðir eru vinnufundir hér á landi.
4 Þýðingamiðstöð UTN 35
Annað
Þýðing laga og reglna ESB á íslensku. Markmið að auka við þekkingu á innviðum og hefðum sambandsins sem og þeirri íðorðafræði sem stunduð er innan sambandsins. Gert er ráð fyrir vinnuferð til Eistlands, Slóveníu, Brussel og Lúxemborgar. Einnig námskeið á Íslandi og vinnufundir fyrir þýðendur.
5 Samningahópur um sjávarútvegsmál 9
Sjávarútvegur
Vigtun útsjávarafla. Áætlað er að senda íslenska eftirlitsmenn til aðildarríkja ESB til að fylgjast með löndunarferlinu og hvernig ákvæðum reglugerðar 1542/2007 um löndun og vigtun á síld, makríl og brynstirtlu er fylgt eftir í framkvæmd.
6 Samningahópur um sjávarútvegsmál 9
Sjávarútvegur
Afladagbækur. Markmiðið að kynna sér fyrirkomulag ESB. Áætlað að senda íslenska sérfræðinga út til að kynna sér afladagbókarkerfi aðildarríkja ESB og skoða þær leiðir sem þar eru farnar og kortleggja mögulegar breytingar á núverandi rafrænni afladagbók
7 Samningahópur um sjávarútvegsmál 9
Sjávarútvegur
Vigtun við sölu á sjávarafla. Áætlað er að senda íslenska sérfræðinga til að kynna sér hvernig umrætt skráningarkerfi ESB er uppbyggt.
8 Samband íslenskra sveitarfélaga 27
Umhverfismál
Hauggas. Áætlað er að sérfræðingur komi til Íslands og geri úttekt á stöðu söfnunar hauggass. Áætlað er að sérfræðingur komi til Íslands um nokkurt skeið.
9 Samningahópur um utanríkisviðskipti, utanríkis- og öryggismál 30
Utanríkistengsl
Verkefni frá maí 2011 – apríl 2012. Markmiðið er að auka þekkingu innan íslenskrar stjórnsýslu á málefnum ESB á sviði utanríkismála, varnar- og öryggismála og hættustjórnunar.