Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 588. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1423  —  588. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um reiðhallir.

     1.      Hvernig hefur stuðningi og eftirfylgni við byggingu reiðhalla verið háttað undanfarin ár?
    
Hinn 15. mars 2003 var samþykkt á Alþingi ályktun þess efnis að landbúnaðarráðherra skyldi skipa nefnd sem gerði úttekt á aðstöðu til hestamennsku á landsbyggðinni og leggja fram tillögur um stuðning ríkissjóðs við uppbyggingu hennar. Téð nefnd skilaði skýrslu um málið 18. febrúar 2005 og lagði til að ríkisvaldið styrkti byggingu reiðhúsa á ákveðnum stöðum samkvæmt skilgreiningu nefndarinnar á slíkum mannvirkjum (sjá síðar) en í skýrslunni komu fram ýmsar viðmiðanir, svo sem um flokkun reiðhúsa eftir stærð og umfangi í reiðhallir, reiðskemmur og reiðskála og úttekt á aðstöðu hjá hestamannafélögunum um land allt. Í framhaldi þessa eða í mars 2006 samþykkti ríkisstjórnin að veita verkefninu brautargengi og voru 330 millj. kr. veittar til þess með samþykkt Alþingis, sbr. fjárlagalið 04-891-69200. Þáverandi landbúnaðarráðherra skipaði nefnd til að annast úthlutun fjárins. Auglýst var eftir umsóknum um styrki og barst 41 umsókn og var styrkjum úthlutað til 28 reiðhúsa. Við úthlutunina var tekið mið af þeirri úttekt sem þegar hafði farið fram, sbr. skýrslu, gæðum umsókna, rökstuðningi og markmiðssetningu og fjárhagslegu bolmagni aðilanna er í hlut áttu, þ.m.t. bakhjarli er þeir nytu heima í héraði frá sveitarfélögum og e.t.v. fleirum, sjá nánar í svari við 2. lið fyrirspurnarinnar.
    Landbúnaðarráðuneytið, og frá 1. janúar 2008 sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, hefur séð um eftirfylgni málsins gagnvart styrkþegum. Í öllum tilvikum var gerður samningur um styrkina og var útgreiðsla háð því að framvísað væri fokheldisvottorði fyrir byggingarnar.
    Tekið skal fram að þó að fyrirspurnin snúist öll um reiðhallir er gengið út frá því að fyrirspyrjandi eigi við reiðhús almennt, en þau voru við styrkveitingarnar flokkuð í reiðhallir, reiðskemmur og reiðskála eins og fyrr hefur verið vikið að samkvæmt eftirfarandi skilgreiningu, sem sett er fram í fyrrnefndri skýrslu:

     Reiðhöll er húsnæði til hvers konar þjálfunar og sýningar á hrossum innan húss þar sem aðstaða er fyrir nokkurn fjölda áhorfenda, ásamt nauðsynlegri hreinlætis- og salernisaðstöðu. Gólfflötur reiðvallar er 40x20 m og stærri.
     Reiðskemma er húsnæði til þjálfunar og reiðnámskeiðahalds þar sem hvorki er gert ráð fyrir fjölda áhorfenda né miklu öðru rými en gólffleti hússins sjálfs. Gólfflötur reiðskemmu er á bilinu 12x10 m til u.þ.b. 40x20 m. Húsnæði er ekki ætlað til sýningahalds eða fyrir stóra viðburði.
     Reiðskáli er aðstaða fyrir tamningamann til vinnu með hest innan dyra. Gólfflötur reiðskála er almennt um 12x10 m eða minni.

     2.      Hvernig hefur fjármunum til þessara bygginga verið úthlutað?
    Eftirfarandi atriði sem hér eru birt orðrétt, voru höfð til viðmiðunar þegar ákveðið var hvernig styrkjum úr 330 millj. kr. sjóðnum sem getið er um í svari við 1. lið yrði úthlutað og voru þau lögð fram í fylgiskjali með minnisblaði til ríkisstjórnarinnar í mars 2006.
          Einungis hestamannafélög innan Landssambands hestamannafélaga eiga þess kost að sækja um styrk.
          Viðkomandi sveitarfélag/félög skal vera aðili að umsókninni.
          Tilgreina skal hver sé rekstraraðili og þinglýstur eigandi byggingarinnar.
          Grunnhugmyndir að fyrirhuguðu húsi eða teikningar skulu fylgja umsókninni.
          Miða skal við að uppbygging reiðhúss sé mikilvæg vegna atvinnusjónarmiða í viðkomandi byggðarlagi, þ.e. ef mikil atvinnustarfsemi tengd hestamennsku er rekin á viðkomandi svæði og í nærliggjandi héruðum, svo sem hestabúgarðar, tamningastöðvar og hestatengd ferðaþjónusta, sem notað gæti mannvirkið og notið góðs af starfsemi sem þar færi fram. Þá skal og horft til þess í slíkum undantekningartilvikum hvort möguleikar til mótahalds séu fyrir hendi í næsta nágrenni.
          Einungis þær umsóknir koma til greina sen skila inn raunhæfri rekstraráætlun.
          Taka skal tillit til núverandi aðstöðu til hestamennsku á svæði umsækjenda og hvernig bygging reiðhúss fellur að því skipulagi og fyrirkomulagi sem fyrir er á viðkomandi félagssvæði.
          Ef öll önnur aðstaða til hestamennsku er á svæðinu eykur það líkur á stuðningi.
          Ef engin aðstaða er til hestamennsku á svæði minnkar það líkur á stuðningi.
          Ef reiðhús í eigu viðkomandi hestamannafélags er fyrir hendi eða í námunda við viðkomandi svæði skal skoða sérstaklega hvort þörf sé á viðbótarhúsi.
          Mestar líkur skulu þau félagssvæði eiga þar sem öll aðstaða til hestamennsku er fyrir hendi, önnur en reiðhús.
          Horft skal til þess hvort viðkomandi reiðhús gæti nýst til reiðkennslu fyrir nærliggjandi skóla.
          Sérstaklega skal horft til þess hvort framhaldsskólar séu á viðkomandi svæði sem gætu nýtt sér aðstöðuna til að bjóða upp á sérstakar hestanámsbrautir.
          Samningur um rekstur, nýtingu eða stuðning til uppbyggingar mannvirkis við aðila aðra en viðkomandi sveitarfélag, t.d. nágrannasveitarfélög, nágrannahestamannafélög eða samtök fatlaðra, styrkir umsóknina.
          Ef gert er ráð fyrir sérstakri aðstöðu fyrir fatlaða reiðmenn í mannvirkinu er það til styrkingar umsókninni.

     3.      Hverjir hafa hlotið styrki til byggingar reiðhalla?
    
Hér á eftir eru taldir upp þeir aðilar sem styrki hlutu til byggingar á reiðhöllum ( H), reiðskemmum ( S) eða reiðskálum ( Sk). Jafnframt er getið um upphæð styrks hverju sinni og hvort byggingu á umræddu húsi sé lokið og þá hvaða ár styrkur var greiddur út:

     1.      Hestamannafélögin í Borgarfirði 25 millj. kr. til byggingar á H      Lokið,    greitt 2008.
     2.      Hestamannafélagið Snæfellingur 15 millj. kr. til byggingar á S      Lokið,    greitt 2010.
     3.      Hestamannafélagið Glaður í Dölum 5 millj. kr. til byggingar á Sk      Lokið,    greitt 2009.
     4.      Hestamannafélagið Stormur, Vestfj. 12 millj. kr. til byggingar á S      Lokið,    greitt 2006.
     5.      Hestamannafélagið Þytur, V.-Hún. 15 millj. kr. til byggingar á S      Lokið,    greitt 2008.
     6.      Hestamannafélagið Neisti, Blönduósi 3 millj, kr. til lokafrágangs á H      Lokið,    greitt 2007.
     7.      Hestamannafélögin í Skagafirði 3 millj. kr. til lokafrágangs á H      Lokið,    greitt 2007.
        Hafði áður hlotið styrk úr verkefninu „Hestamiðstöð Íslands“.
     8.      Hestamannafélagið Glæsir á Sigluf. 5 millj. kr. til byggingar á S      Lokið,    greitt 2008.
     9.      Hestamannafélagið Hringur á Dalvík 5 millj. kr. til byggingar á H      Lokið,    greitt 2007.
     10.      Hestamannafélagið Léttir á Ak. 29 millj. kr. til byggingar á H      Lokið,    greitt 2007.
     11.      Hestamannafélagið Funi, Eyf. 5 millj. kr. til byggingar á Sk      Lokið,    greitt 2008.
     12.      Hestamannafélagið Þráinn, Grýt. 5 millj. til byggingar á Sk      Lokið,    greitt 2008.
     13.      Hestamf. Þjálfi og
     14.      Grani í S-Þing. 13 millj. kr. til byggingar á S      Lokið,    greitt 2011.
     15.      Hestamannaf. Feykir, Öxarf. 5 millj. kr. til byggingar á Sk      Lokið,    greitt 2008.
     16.      Hestamannaf. Snæfaxi, Þórshöfn 5 millj. kr. til byggingar á Sk      Lokið,    greitt 2010.
     17.      Hestamannaf. Freyfaxi á Héraði 20 millj. kr. til byggingar á H      Lokið,    greitt 2009.
     18.      Hestamannaf. Blær í Fjaraðbyggð 10 millj. kr. til byggingar á S      Lokið,    greitt 2010.
     19.      Hestamannaf. Hornfirðingur 15 millj. kr. til byggingar á S      Lokið,    greitt 2010.
     20.      Hestamannafélagið Kópur, Skaft. 5 millj. kr. til byggingar á Sk      Lokið,    greitt 2009.
     21.      Hestamannaf. Geysir 7 millj. kr. til byggingar á S á Hvolsv.      Lokið,    greitt 2008.
     22.      Hestamannaf. Geysir 26 millj. kr. til byggingar á H á Gaddastaðafl.      Lokið,    greitt 2008.
     23.      Smári og
     24.      Logi, Árn. 20 millj. kr. til byggingar á S      Lokið,    greitt 2008.
     25.      Hestamannafélagið Sleipnir á Self. 25 millj. kr. til byggingar á H      Lokið,    greitt 2010.
     26.      Hestamf. Máni á Suðurn. 20 millj. kr. til byggingar á H í Reykjanb.      Lokið,    greitt 2008.
     27.      Hestamannafélagið Máni 7 millj. kr. til byggingar á S í Grindav.,
        húsið er í byggingu en ekki orðið fokhelt.      Samn.
     28.      Hestamf. Hörður í Mosfb. 25 m. kr. til bygg. á H m. aðstöðu f. fatl.      Lokið,    greitt 2009.

Alls 330 milljónir.

     4.      Hver eru framtíðaráform varðandi stuðning við byggingu reiðhalla?
    Reiðhús eru ómissandi þáttur í nútímahestahaldi, inniaðstaða oftast í formi einhvers konar reiðskála, jafnvel með endurnýtingu gamalla bygginga á hrossabúum, er nauðsynleg til að geta stundað tamningu og undirstöðuþjálfun á hrossum. Stærri hús, t.d. reiðskemmur, þurfa síðan að koma til við framhaldsþjálfun hrossa og til kennslu. Reiðhallir eru fyrst og fremst nauðsynlegar til sýningahalds og geta þannig nýst mjög stórum svæðum. Minni hús þurfa hins vegar að vera víðar. Reiðskemmur í öllum hesthúsahverfum og á stórum hrossabúum og einhvers konar reiðskálar alls staðar þar sem tamning hrossa í einhverjum mæli fer fram. Mikið hefur áunnist við byggingu reiðhúsa á síðustu árum, fjölmargir hrossabændur og tamningamenn hafa komið sér upp inniaðstöðu og hestamannafélögin og jafnvel einstaklingar hafa komið sér upp stærri húsum. Bæjarfélög hafa víða komið að þessum málum auk þess sem fjárveiting sú úr ríkissjóði sem hér er til skoðunar markaði þáttaskil víða. Á þessu starfi þarf að verða framhald og í því sambandi skal bent á að æskilegt og sjálfsagt er að hestamennskan njóti jafnstöðu við aðrar íþróttagreinar varðandi uppbyggingu mannvirkja, þ.m.t. bygging reiðhúsa. Skal þessu beint til þeirra aðila sem hafa með þau mál að gera á héraða- og landsvísu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur þó engin frekari áform að sinni á þessum vettvangi enda er stórátaki á vegum ráðuneytisins nýlokið.