Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 793. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1681  —  793. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um skiptingu mánaðarlauna eftir atvinnugreinum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig er skipting þeirra sem eru með mánaðarlaun yfir 1 millj. kr. eftir atvinnugreinum?

    Svarið byggist á upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra um skil launa í staðgreiðslu fyrir árið 2010. Skipting launagreiðenda eftir atvinnugreinum kann að vera ónákvæm, einkum þegar í hlut eiga stærri fyrirtæki sem stunda margs konar starfsemi. Sem dæmi má taka að fyrirtæki með sjómenn í vinnu kann að vera skráð með atvinnugreinanúmer fiskvinnslu eins og upplýsingar hér fyrir neðan bera með sér. Atvinnugreinaskipting mun vera ófullkomin hjá opinberum aðilum og mikill fjöldi skráður í greinina opinber stjórnsýsla og löggjöf, þótt þeir starfi í raun við annað. Þá er þess að geta að í atvinnugreininni starfsemi lífeyrissjóða er að finna bæði starfsmenn sjóðanna og lífeyrisþega.
    Alls eru í staðgreiðsluskrám ríkisskattstjóra rúmlega 51.000 greiðslur sem voru hærri en ein milljón króna árið 2010 eða um 4.300 að meðaltali í mánuði hverjum. Samtals voru rúmlega 800 einstaklingar með yfir eina milljón króna í laun frá einum launagreiðanda alla mánuði ársins 2010. Alls fengu 13.500 manns launagreiðslu sem var hærri en ein milljón króna einhvern mánuð ársins, þar af um helmingur einungis einu sinni meðan 1.149 einstaklingar fengu svo há laun alla tólf mánuði ársins. Tæplega 400 manns fengu fleiri en 12 launagreiðslur yfir einni milljón króna árið 2010.
    Í eftirfarandi töflu eru upplýsingar um fjölda launagreiðslna yfir einni milljón króna að meðaltali árið 2010 eftir svokölluðum bálkum ásamt sams konar upplýsingum fyrir þær atvinnugreinar innan bálkanna þar sem fleiri en 50 einstaklingar voru með laun yfir einni milljón króna á mánuði að meðaltali árið 2010.

Meðalfjöldi launagreiðslna yfir einni milljón króna í staðgreiðslu árið 2010 eftir atvinnubálkum og atvinnugreinum.


Atvinnubálkur/atvinnugrein Meðalfjöldi
Fiskveiðar og fiskeldi 797
Framleiðslustarfsemi 1.024
Fiskvinnsla 763
Álframleiðsla 70
Annað 194
Veitur 78
Mannvirkjagerð 65
Verslun og viðgerðarþjónusta 269
Hótel og veitingahúsarekstur 11
Samgöngur 310
Farþegaflutningar með áætlunarflugi 209
Annað 101
Fjármála- og vátryggingastarfsemi 592
Bankar, sparisjóðir o.fl. 223
Starfsemi eignarhaldsfélaga 113
Lífeyrissjóðir 100
Annað 156
Fasteignaviðskipti 26
Ýmis sérhæfð þjónusta 33
Opinber stjórnsýsla 453
Almenn stjórnsýsla og löggjöf 422
Annað 31
Fræðslustarfsemi 19
Heilbrigðis- og félagsþjónusta 34
Menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi 10
Félagasamtök og önnur þjónusta 36
Samtals 4.298