Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 787. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1689  —  787. mál.
Svarutanríkisráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um Þróunarsjóð EFTA.

     1.      Hver hafa verið framlög Íslands til Þróunarsjóðs EFTA (svonefnds EES-fjármagnskerfis, sbr. 61. mál 139. þings), sundurliðað eftir árum á núverandi verðlagi?
    Svar við þessum lið fyrirspurnarinnar er að finna í töflunni hér á eftir. Rétt er að benda á eftirfarandi:
     1.      Þróunarsjóður EFTA hefur gegnum tímann töluvert breyst við stækkanir á ESB. Þekking á þeirri sögu gæti skerpt skilning á inntaki neðangreindra talna. Í því efni er bent á stutta sögulega úttekt í greinargerð með frumvarpi á þskj. 62, 61. mál á yfirstandandi þingi um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með síðari breytingum.
     2.      Skuldbindingar Íslands og annarra EES/EFTA-ríkja ná yfir fimm ára tímabil en greiðslur vegna verkefna sem samþykkt eru innan heimilla tímafresta spanna lengri tíma. Þetta endurspeglast í greiðsluflæði til sjóðanna í gegnum árin.
     3.      Þá kynnu að vakna spurningar um þau ár sem engar greiðslur reiðast fram. Ekki hefur fundist önnur skýring á því en að þau árin var ekki um neinar styrkveitingar að ræða auk þess sem á árinu 2002 var um að ræða endurgreiðslu á fjármunum sem ekki voru veittir til verkefna.

Ár Á verðlagi hvers árs Á verðlagi ársins 2010
1994 88.875.608 189.545.630
1995 93.637.328 196.357.261
1996 93.201.846 191.140.093
1997 106.256.000 214.044.255
1998 101.993.108 202.094.363
1999 0 0
2000 0 0
2001 35.111.600 60.040.175
2002 -20.686.560 -33.752.734
2003 0 0
2004 0 0
2005 107.011.490 159.223.979
2006 20.534.697 28.619.347
2007 215.383.989 285.814.632
2008 347.526.338 410.209.834
2009 920.715.540 970.411.736
2010 1.345.976.048 1.345.976.048
Samtals 3.455.537.032 4.219.724.619


     4.      Hvenær átti greiðslum að ljúka samkvæmt bókun 38 við EES-samninginn? Hvers vegna var haldið áfram að greiða?
    Skuldbindingu fjármagns til verkefna á grundvelli upphaflegu bókunar 38 var lokið 1999 en greiðslur voru hins vegar inntar af hendi á lengri tíma í takt við framvindu verkefna. Nýtt samkomulag var í kjölfarið gert um greiðslur fyrir tímabilið 1999–2004 og er andlag þeirra framhaldsgreiðslna sem innt er eftir.

     5.      Hvenær átti greiðslum að ljúka samkvæmt framlengdum samningum um Þróunarsjóð EFTA frá 2004?
    Gert er ráð fyrir að greiðslum vegna skuldbindinga sjóðsins 2004–2009 ljúki 2012. Það helgast af því sem þegar er útskýrt að skuldbindingum er lokið innan samningstímans, en greiðslur taka lengri tíma í samræmi við framvindu skuldbundinna verkefna.

     6.      Voru greiðslur inntar af hendi til Þróunarsjóðsins að liðnum gildistíma samninga um sjóðinn og áður en skrifað var undir nýtt samkomulag um framlög í Þróunarsjóð EFTA í ágúst 2010? Ef svo er, hvers vegna var haldið áfram að greiða?
    Svo er. Greiðslurnar byggðust á skuldbindingum sem samþykktar voru áður en frestur til samþykktar á nýjum verkefnum rann út. Hér enn bent á það sem fyrr er brýnt um tímasetningu skuldbindingar annars vegar og greiðslutímabil hins vegar.

     7.      Hvaða ríki hafa fengið fjárhagsaðstoð úr sjóðnum og undir hvaða formerkjum, t.d. með vaxtaafslætti af lánum, beinum styrkjum o.s.frv.? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Grikkland, Írland, Bretland (Norður Írland), Portúgal og Spánn (10 héruð) nutu aðstoðar úr sjóði EES/EFTA-ríkjanna á tímabilinu 1994–1999. Fyrirkomulag stuðnings var ýmist í formi beinna fjárhagslegra framlaga eða niðurgreiðslu lána frá Fjárfestingabanka Evrópu (2% árleg niðurgreiðsla vaxta á 1.500 millj. evra lánasafn). Skipting fjárhæðar milli þessara ríkja á þessu tímabili var með eftirgreindum hætti:

Ríki Styrkir (evrur) Lánaniðurgreiðslur (evrur)
Grikkland 121.500.000 364.500.000
Írland 35.500.000 106.500.000
Bretland (N-Írland) 11.000.000 33.000.000
Portúgal 105.000.000 315.000.000
Spánn (10 héruð) 227.000.000 681.000.000
Alls 500.000.000 1.500.000.000

    Vakin er athygli á að Austurríki, Finnland og Svíþjóð tóku þátt í þessum sjóði sem EFTA- ríki. Það skýrir meðal annars hve há fjárhæðin er miðað við tímabilið þar á eftir. Framkvæmdastjórn ESB innti af hendi framlög ríkjanna til sjóðsins eftir aðild þeirra að ESB sem tók gildi 1. janúar 1995.
    Á tímabilinu 1999–2004 voru svo til ráðstöfunar alls 119 millj. evra sem skiptust á milli sömu ríkja og getur að framan með eftirgreindum hætti. Eingöngu var um að ræða beina styrki.

Ríki Styrkir (evrur)
Grikkland 22.000.000
Írland 5.500.000
Bretland (N-Írland) 500.000
Portúgal 21.000.000
Spánn 70.000.000
Alls 119.000.000

    Þau ríki sem hafa fengið aðstoð á tímabilinu 2004–2009 og 2009–2014 eru 15 ríki ESB, Búlgaría, Eistland, Grikkland, Lettland, Litháen, Malta, Kýpur, Pólland, Portúgal, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Tékkland og Ungverjaland. Eingöngu er þar um beina styrki að ræða við verkefni í styrkþegaríkjum. Skipting heildarframlaga samkvæmt þessum tveimur samningum um sjóðinn er með neðangreindum hætti (brúttó í evrum):

Ríki 2004–2009 (evrur)1 2009–2014 (evrur)
Búlgaría 21.500.000 78.600.000
Rúmenía 50.500.000 190.750.000
Kýpur 1.260.000 3.850.000
Tékkland 48.540.000 61.400.000
Eistland 10.080.000 23.000.000
Grikkland 34.260.000 63.400.000
Ungverjaland 60.780.000 70.100.000
Lettland 19.740.000 34.550.000
Litháen 27.000.000 38.400.000
Malta 1.920.000 2.900.000
Pólland 280.800.000 266.900.000
Portúgal 31.320.000 57.950.000
Slóvakía 32.340.000 38.350.000
Slóvenía 6.120.000 12.500.000
Spánn 45.840.000 45.850.000
Alls 672.000.000 988.500.000
1 Búlgaría og Rúmenía fyrir tímabilið 2007–2009.