Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 895. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1820  —  895. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008, með síðari breytingum.

Frá menntamálanefnd.


1. gr.

    3. mgr. 23. gr. laganna orðast svo:
    Þeir sem hófu kennaranám fyrir 1. júlí 2008 og hafa lokið bakkalárprófi og tilskildu námi í uppeldis- og kennslufræðum fyrir 1. janúar 2012 eiga rétt til leyfisbréfs til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskólum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Við samþykkt laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008, var ákveðið að 3., 4. og 5. gr. laganna tækju til þeirra sem byrjuðu kennaranám eftir gildistöku laganna (1. júlí 2008). Jafnframt var ákveðið að þeim sem byrjað hefðu kennaranám fyrir þann tíma veittist frestur til 1. júlí 2011 til að fá leyfisbréf til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskóla að loknu bakkalárprófi og tilskildu námi í uppeldis- og kennslufræðum.
    Lögin eru afdráttarlaus og gera ekki ráð fyrir neinni aðlögun eða undanþágum, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna. Þrátt fyrir það hafa mennta- og menningarmálaráðuneyti borist fyrirspurnir frá aðilum sem hafa ekki getað lokið námi sínu til kennsluréttinda eftir eldra kerfi innan tímamarkanna, 1. júlí 2011. Í flestum tilvikum er um að ræða töf á námi vegna veikinda. Um er að ræða takmarkaðan fjölda námsmanna sem eiga ólokið fáum námskeiðum en ættu að geta lokið námi sínu fyrir áramót.
    Þrátt fyrir að lögin séu afdráttarlaus hvað varðar gildistöku má telja það sanngirnismál að þessum einstaklingum sem hafa orðið fyrir töfum í námi vegna veikinda og eiga fá námskeið eftir í námi sínu verði gert kleift að ljúka því fyrir áramót og fá útgefið leyfisbréf á grundvelli ákvæða eldri laga nr. 86/1998. Því er lagt til að þeir sem eiga ólokið námi til kennsluréttinda (BEd) fái tækifæri til að ljúka náminu fyrir 1. janúar 2012 og útgefið leyfisbréf að því loknu.