Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 673. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1842  —  673. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um greiðsluþjónustu.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björgu Finnbogadóttur, Kjartan Gunnarsson og Þóru Hjaltested frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Lindu Kolbrúnu Björgvinsdóttur og Hildi Jönu Júlíusdóttur frá Fjármálaeftirlitinu, Tryggva Axelsson frá Neytendastofu, Erlu Þuríði Pétursdóttur og Margréti Kjartansdóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Sigríði Rafnar Pétursdóttur frá Seðlabanka Íslands. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitinu, Kauphöll Íslands, Kortaþjónustunni hf., Neytendasamtökunum, Neytendastofu, Ríkisendurskoðun, ríkislögreglustjóranum, ríkisskattstjóra, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands og tollstjóranum í Reykjavík.
    Með frumvarpinu er lagt til að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2007/64/EB um greiðsluþjónustu á innri markaðnum verði innleidd í íslenskan rétt. Með tilskipuninni er nokkrum fyrri tilskipunum breytt og ein tilskipun afnumin. Tilskipunin var tekin upp í EES- samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2008 7. nóvember 2008. Viðskiptaráðherra skipaði nefnd helstu hagsmunaaðila sem hafði það hlutverk að aðstoða við innleiðingu tilskipunarinnar og skilaði hún ráðherra tillögum sínum. Markmið tilskipunarinnar er að skapa heildstætt, samstætt og nútímalegt regluverk um greiðsluþjónustu innan EES-svæðisins.
    Í 4. gr. frumvarpsins er talið upp í nokkrum töluliðum hvað það er sem felst í greiðsluþjónustu. Sem dæmi um það sem fellur undir hugtakið má nefna hefðbundin banka- og kortaviðskipti, svo sem það að leggja reiðufé inn á greiðslureikning og taka reiðufé út af greiðslureikningi ásamt aðgerðum sem eru nauðsynlegar vegna rekstrar greiðslureikninga, millifærslur fjármuna o.fl. (1.–4. tölul.). Þá heyrir útgáfa greiðslumiðla og færsluhirðing undir greiðsluþjónustu. Með greiðslumiðli, en það hugtak er skilgreint í 10. tölul. 7. gr. frumvarpsins, er átt við debet- og kreditkort og jafnvel síma. Svokölluð færsluhirðing telst einnig til greiðsluþjónustu en í henni felst að veita seljanda vöru eða þjónustu heimild til að taka við greiðslum með greiðslukortum, taka við kortafærslum og greiða síðan seljanda út þegar handhafi korts greiðir reikninginn. Þá heyra peningasendingar undir greiðsluþjónustu en með því er átt við það þegar tekið er við fjármunum frá sendanda og þeir sendir viðtakanda án þess að sérstakur reikningur sé stofnaður. Í athugasemdum við greinina kemur fram að ganga verði út frá því að greiðsluþjónusta muni þróast og að erlendis sé slík þjónusta fjölbreytilegri en hér á landi.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði sameiginlegt heildarregluverk um greiðsluþjónustu en fram að þessu hefur þetta svið aðeins heyrt undir ákvæði á víð og dreif í lögum, svo sem lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um neytendalán. Við umfjöllun um málið kom fram í máli gesta að frumvarpið styrkti réttarstöðu neytenda og að það byggðist að mörgu leyti á þeim venjum sem hefðu viðgengist á þessu sviði.
    Eitt af markmiðum tilskipunarinnar er að efla réttarstöðu neytenda. Í III. kafla eru til að mynda ítarleg ákvæði um upplýsingagjöf og gagnsæi við veitingu greiðsluþjónustu. Má þar nefna 35. gr. um almenna upplýsingagjöf og 36. gr. um upplýsingar og skilmála í tengslum við stakar greiðslur. Í C-lið kaflans eru sérákvæði um rammasamninga sem eru samningar um greiðsluþjónustu þar sem kveðið er á um framkvæmd einstakra greiðslna og röð greiðslna í framtíðinni sem fela í sér skyldu til stofnunar greiðslureiknings. Kveðið er á um að ekki sé heimilt að krefjast gjalds fyrir upplýsingar sem eru veittar skv. III. kafla. Í IV. kafla eru ákvæði um réttindi og skyldur í tengslum við veitingu og notkun greiðsluþjónustu. Þar eru m.a. reglur um framkvæmd greiðslu og hvenær hún telst heimiluð og kveðið er á um skyldur aðila hvað varðar notkun greiðslumiðla.
    Með frumvarpinu er starfsemi þeirra fyrirtækja sem undir lögin heyra sérgreind, þ.e. aðgreint er hvers konar starfsemi heimilt er að stunda. Í 19. gr. er kveðið á um að greiðslustofnun sé heimilt að stunda aðra starfsemi auk greiðsluþjónustu en slíkum heimildum eru þó sett takmörk í ákvæðinu.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu.
    Lögð er til lagfæring á skilgreiningu a-liðar 14. tölul. 7. gr.
    Í 3. mgr. 15. gr. er kveðið á um að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að banna greiðslustofnun að stunda aðra starfsemi en veitingu greiðsluþjónustu og að um slíkt bann gildi 1. og 2. mgr. sömu greinar. Í 19. gr. er kveðið á um heimildir greiðslustofnunar til að stunda aðra starfsemi en greiðsluþjónustu. Þar sem í 15. gr. felast heimildir Fjármálaeftirlitsins til afturköllunar starfsleyfis telur meiri hlutinn að heimild eftirlitsins til að banna greiðslustofnun að stunda aðra starfsemi eigi fremur heima í 19. gr. Því er lagt til að við 19. gr. bætist ný málsgrein þess efnis að Fjármálaeftirlitið geti bannað tiltekna starfsemi greiðslustofnunar og að um slíkt bann skuli farið eftir 1. og 2. mgr. 15. gr.
    Í 2. mgr. 16. gr. er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti sett reglur um hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir og venjur. Í III. og IV. kafla eru ítarlegar reglur um upplýsingagjöf og gagnsæi við veitingu greiðsluþjónustu og um réttindi og skyldur aðila í tengslum við veitingu og notkun greiðsluþjónustu. Meiri hlutinn telur ákvæðið óþarft enda tekur 1. mgr. 16. gr. við þar sem ákvæðum III. og IV. kafla sleppir en þar er kveðið á um að greiðslustofnun skuli viðhafa heilbrigða viðskiptahætti og venjur. Fjármálaeftirlitið hefur einnig heimild skv. 2. mgr. 8. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi til að gefa út og birta opinberlega almenn leiðbeinandi tilmæli um starfsemi eftirlitsskyldra aðila, varði málefnið hóp eftirlitsskyldra aðila. Meiri hlutinn leggur því til að ákvæðið verði fellt brott.
    Í 17. gr. er mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitið skuli halda skrá yfir greiðslustofnanir sem er ný tegund þjónustuveitenda á sviði fjármálaþjónustu. Við umfjöllun um málið var bent á að skráin ætti einnig að ná yfir greiðsluþjónustuveitendur. 17. gr. er í II. kafla frumvarpsins en sá kafli gildir aðeins um greiðslustofnanir og peninga- og verðmætasendingarþjónustu. Meiri hlutinn leggur því til að 17. gr. falli brott en að við I. kafla bætist ákvæði þess efnis að Fjármálaeftirlitið skuli halda skrá yfir greiðsluþjónustuveitendur og almenningur skuli hafa aðgang að þeirri skrá.
    Við umfjöllun um málið í nefndinni kom fram að í efnahags- og viðskiptaráðuneyti sé unnið að drögum að reglugerð um varðveislu greiðslustofnana á fjármunum. Meiri hlutinn telur tilefni til að breyta 18. gr. svo hún verði ítarlegri og nái einnig til greiðsluþjónustuveitenda en að ráðherra hafi auk þess heimild til að setja reglugerð um varðveislu fjármuna samkvæmt greininni.
    Í 1. mgr. 19. gr. er kveðið á um heimild greiðslustofnunar til að stunda aðra starfsemi en greiðsluþjónustu. Í 2. mgr. sömu greinar er greiðslustofnun veitt heimild til að sinna rekstrarþjónustu og nátengdri stoðþjónustu auk þess sem greiðslustofnun verður heimilt að starfrækja greiðslukerfi. Við umfjöllun um málið voru rök færð fyrir því að heimildir greiðslustofnunar til að stunda aðra starfsemi væru ekki eins víðtækar og kveðið er á um í tilskipuninni. Leggur meiri hlutinn því til að 1. og 2. mgr. verði sameinaðar og orðalagi lítillega breytt. Í 6. mgr. 19. gr. er greiðslustofnun veitt heimild til að veita „minni háttar“ lán. Bent var á við umfjöllun um málið að líklega væri um þýðingarvillu úr tilskipuninni að ræða og leggur meiri hlutinn því til að orðið minni háttar falli brott. Þær lánveitingar sem hér um ræðir skulu samkvæmt greininni vera veittar í tengslum við veitingu greiðsluþjónustu, sbr. nánari tilvísun til töluliða 4. gr. þar sem hugtakið greiðsluþjónusta er skilgreint. Sem dæmi má nefna svokallaða raðgreiðslusamninga. Meiri hlutinn leggur til að við 6. mgr. bætist heimild fyrir Fjármálaeftirlitið til að setja nánari reglur um lánveitingar greiðslustofnunar.
    Í 4. mgr. 23. gr. er lögð skylda á lögbær yfirvöld annarra ríkja til að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um ákveðin atriði. Meiri hlutinn leggur til breytt orðalag málsgreinarinnar enda ætti sú skylda sem þarna er átt við að beinast að Fjármálaeftirlitinu.
    Í 2. mgr. 64. gr. er vísað til 67. gr. um það hvenær fjármunir séu til reiðu fyrir viðtakanda greiðslu. Í 2. málsl. 1. mgr. 67. gr. er kveðið á um að greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu skuli tryggja að fjárhæð greiðslu sé viðtakanda til ráðstöfunar þegar í stað eftir að hún hefur verið eignfærð á reikning greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda. Við umfjöllun um málið í nefndinni kom fram að það hefði tíðkast áratugum saman hér á landi að seljendur vöru eða þjónustu gerðu upp mánaðarlega við greiðslukortafyrirtæki og að óbreytt frumvarp gæti raskað slíkum samningum. Meiri hlutinn leggur því til viðbót við 2. mgr. 64. gr. þess efnis að tímafrestur skv. 67. gr. eigi ekki við sé um annað samið.
    Í 74. gr. er mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með framkvæmd laganna. Fram kom við umfjöllun um málið að efni greinarinnar væri of víðtækt, enda heyrði það t.d. ekki til verkefna eftirlitsins að hafa eftirlit með póstrekendum og seðlabönkum annarra ríkja, sbr. tilvísun í II. kafla frumvarpsins. Meiri hlutinn leggur því til að tilvísun í þá aðila sem Fjármálaeftirlitið skal hafa eftirlit með verði skilgreint betur og að Póst- og fjarskiptastofnun hafi eftirlit með póstrekendum með rekstrarleyfi samkvæmt lögum um póstþjónustu.
    Í 75. gr. er kveðið á um að Seðlabanki Íslands hafi eftirlit með framkvæmd 6. gr. en hún fjallar um þátttöku í greiðslukerfum. Bent var á við umfjöllun um málið að eftirlit af þessu tagi samræmdist ekki lögbundnum verkefnum bankans enda beinir hann einkum sjónum sínum að hinu þjóðhagslega umhverfi fjármálakerfisins og kerfinu í heild. Leggur meiri hlutinn því til að ákvæðið verði umorðað á þann veg að um aðgengi greiðsluþjónustuveitenda að greiðslukerfum fari samkvæmt samkeppnislögum.
    Meiri hlutinn leggur auk þess til að lögin öðlist gildi 1. desember 2011.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 30. ágúst 2011.Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Guðlaugur Þór Þórðarson,


með fyrirvara.Valgerður Bjarnadóttir.


Auður Lilja Erlingsdóttir.


Sigurður Kári Kristjánsson,


með fyrirvara.Skúli Helgason.