Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 885. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1908  —  885. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um kostun á stöðum fræðimanna.

     1.      Hversu margar stöður fræðimanna í háskólum landsins hafa verið kostaðar af einstaklingum, fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum á árunum 2001–2011, hverjar eru þessar stöður og hverjir hafa setið í þeim?
    Kallað var eftir svörum frá öllum háskólum landsins, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands, Hólaskóla – Háskólanum á Hólum, Háskólanum í Reykjavík, Háskólanum á Bifröst og Listaháskóla Íslands.
    Engar kostaðar stöður hafa verið í Listaháskóla Íslands, Háskólanum á Bifröst, Landbúnaðarháskóla Íslands né Hólaskóla – Háskólanum á Hólum.
    Í töflunni hér á eftir eru taldar upp kostaðar stöður fræðimanna á þessu tímabili við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Háskólann í Reykjavík, hvaða stöður þetta eru, hverjir hafa setið í þeim og hver hafi kostað þær. Sérstök athygli er vakin á því að í mörgum tilvikum nægði veittur fjárstuðningur við tiltekið starf einungis fyrir hluta launakostnaðar, en það er ekki sérstaklega tiltekið.

Háskóli – deild Staða Tímabil Kostun
læknadeild dósent (37%) öldrunarfræði 2000–2001 Pálmi V. Jónsson Framkvæmdasjóður aldraðra
læknadeild dósent (37%) ónæmisfræði 2000–2010 Unnur Steina Björnsdóttir Astra Zeneca
læknadeild dósent (50%) svæfingarlækningar 2000–2003 Gísli H. Sigurðsson Pharmaco & Ísaga
læknadeild prófessor (50%) svæfingarlækningar 2004–2008 Gísli H. Sigurðsson Að hluta kostuð af Actavis og AGA Linde
læknadeild dósent heilbrigðisfræði 2006–2011 Sigurður Thorlacius Tryggingastofnun ríkisins (50%), Landssamtök lífeyrissjóða (25%),
Samband íslenskra tryggingafélaga (25%)
læknadeild sérfræðingur augnrannsóknir 2009–2010 Sveinn Hákon Harðarson Oxymap ehf.
félagsvísd. lektor félagsráðgjöf 2002–2005 Freydís J. Freysteinsdóttir Félagsþjónustan
félagsvísd. lektor félagsráðgjöf 2002–2006 Steinunn Hrafnsdóttir Rauði Krossinn
félagsvísd. lektor félagsráðgjöf 2003–2007 Sigurveig H. Sigurðardóttir Framkv.sjóður aldraðra
lagadeild lektor 2007–2010 Eiríkur Jónsson LOGOS
lagadeild verkefnisstjóri (50%) rannsóknarverkefni 2007–2008 Hrafnhildur Bragadóttir LEX ehf.
Lagastofnun sérfræðingur 2006–2010 Margrét Guðlaugsdóttir Samorka
Lagastofnun sérfræðingur 2006–2011 Helgi Áss Grétarsson LÍÚ
viðskipta- og hagfræðideild frumkvöðlafræði 2004–2009 Örn Daníel Jónsson Bakkavör
guðfræðideild lektor (25%) sálgæslufræði 2004–2005 Sigurfinnur Þorleifsson Þjóðkirkjan
guðfræðideild lektor (50%) litúrgísk fræði 2005–2009 Kristján Valur Ingólfsson Þjóðkirkjan
hugvísindad. lektor menningarmiðlun 2006–2008 Eggert Þór Bernharðsson Landsbanki Íslands
hugvísindad. lektor japanska 2006–2008 Kaoru Umezawa Lýsi ehf. og
Toyota á Íslandi hf.
hugvísindad. aðjúnkt kvikmyndafræði 2006–2008 Björn Ægir Norðfjörð Samskip
hugvísindad. lektor rússneska 2007–2009 Olga Korotkova Samson 2007–2008,
Neptún ehf. 2009
verkfræði- og náttúruv.svið dósent (40%) umhverfiss- og byggingavfr. 2007–2010 Björn Marteinsson Efla
HA auðlindadeild prófessor jarðhitafræði 2002–2010 Hrefna Kristmannsdóttir Landsvirkjun
HR viðskiptadeild kennslu- og rann.staða sölu- og markaðsfræði frá des. 2008 Valdimar Sigurðsson Nova
HR viðskiptadeild lektor reikningshald og endursk. 2007–2010 Guðrún Baldvinsdóttir KPMG
HR     tækni- og verkfræðideild prófessor flugleiðsögutækni frá 2010 Þorgeir Pálsson Isavia
HR tækni- og verkfræðideild prófessor fjármálaverkfræði 2008–2010 Marco Roberto Landsbanki Íslands

     2.      Hvaða reglur eru í gildi í háskólunum um hagsmunaskráningu starfsmanna vegna starfa eða tengsla fyrir utan háskólasamfélagið og eru þær upplýsingar aðgengilegar almenningi?
    Í Háskóla Íslands er fjallað um hugsanlega hagsmunaárekstra starfsmanna háskólans í reglum um aukastörf akademískra starfsmanna Háskóla Íslands, nr. 1096/2008, með síðari breytingum, og í siðareglum Háskóla Íslands sem samþykktar voru á háskólafundi 7. nóvember 2003.
    Hvað varðar skráningu tengsla starfsmanna Háskóla Íslands fyrir utan háskólasamfélagið skila akademískir starfsmenn árlega til vísindasviðs skólans sundurliðuðu framtali um störf sín, bæði fyrir skólann og aukastörf sem þeir vinna utan skólans. Þessar upplýsingar eru skráðar og varðveittar í rafrænu formi hjá vísindasviði skólans en hafa ekki verið aðgengilegar almenningi.
    Tekið er fram að í samningum sem Háskóli Íslands gerir við stofnanir og fyrirtæki um kostuð akademísk störf er gengið út frá eftirfarandi forsendum: Samningar eru gerðir á grundvelli 3. mgr. 26. gr. laga um opinbera háskóla, nr. 85/2008, sem heimilar Háskóla Íslands að semja við aðrar stofnanir og fyrirtæki sem tengjast starfi skólans um kennslu, rannsóknir og ráðningu kennara og annarra starfsmanna. Tilgangur samninga er að efla og styrkja rannsóknir og kennslu á tilgreindu fræðasviði. Um störfin gilda almennar reglur Háskóla Íslands eins og þær eru á hverjum tíma. Í samningi er kveðið á um að starfsmaðurinn (prófessor, dósent, lektor, vísindamaður, fræðimaður, sérfræðingur) sem í hlut á ákveði sjálfur námsefni og efnistök í kennslu og rannsóknum og velji sér viðfangsefni til rannsókna án íhlutunar annarra, innan þess ramma sem viðkomandi deild setur. Um réttindi og skyldur fer að öðru leyti eftir lögum og reglum fyrir Háskóla Íslands, en laun ákvarðast af þeim samningum eða lagafyrirmælum sem gilda hverju sinni.
    Í Háskólanum í Reykjavík skila allir akademískir starfsmenn árlega ítarlegri skriflegri skýrslu á stöðluðu formi til sinna deildarforseta um sín störf. Þar koma meðal annars fram öll þau verkefni sem starfsmenn taka að sér utan háskólans. Í starfsmannaviðtölum sem fylgja í kjölfarið er farið yfir verkefnin, meðal annars með tilliti til mögulegra hagsmunaárekstra. Þessar upplýsingar eru ekki aðgengilegar almenningi, enda trúnaðarmál milli forseta og akademískra starfsmanna.
    Rétt er að hafa í huga að fræðimenn innan HR búa við akademískt frelsi með þeirri ábyrgð sem því fylgir, þ.e. að þeir fylgi akademískum siðareglum og gæti þess að þeir láti hagsmunaárekstra – komi þeir upp – ekki hafa áhrif á störf sín. Í HR eru í gildi siðareglur og starfandi er siðanefnd sem hefur það hlutverk að taka afstöðu til og gefa stjórnendum HR umsögn um mál sem til hennar er beint vegna meintra brota á siðareglum. Aðild að málum fyrir siðanefnd eiga þeir sem telja að nemendur eða starfsmenn Háskólans í Reykjavík hafi brotið gegn siðareglunum.
    Engar sérstakar reglur gilda um hagsmunaskráningu starfsmanna vegna starfa utan háskólasamfélagsins hjá hinum háskólunum, en þeir vísa í siðareglur skólanna þar sem það á við. Sem dæmi má nefna að í siðareglum Háskólans á Bifröst segir m.a.: „Kennarar, rannsakendur og nemendur skulu ávallt vinna samkvæmt eigin sannfæringu óháð því hver samstarfsaðili er eða hver fjármagnar þá vinnu sem unnin er. Ávallt skal upplýsa um hagsmunatengsl, séu þau til staðar.“

     3.      Hvernig hafa háskólar landsins brugðist við þeirri gagnrýni sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á samskipti atvinnulífsins og fræðasamfélagsins?
    Í svari Háskóla Íslands kemur fram að strax eftir útkomu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis ákvað stjórn Háskóla Íslands að taka þann hluta hennar sem fjallar sérstaklega um háskólasamfélagið (8. bindi, viðauka 1, kafla III.3) til vandlegrar umfjöllunar og draga af henni lærdóm. Var fjallað ítarlega um skýrsluna á fundi háskólaráðs 6. maí og á háskólaþingi 7. maí 2010. Samþykkti háskólaþing svohljóðandi tillögu til ályktunar sem var staðfest af háskólaráði 3. júní 2010: „Gæðanefnd háskólaráðs er falið að fara yfir þær ábendingar í skýrslu rannsóknanefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna er snúa að háskólasamfélaginu, í samráði við aðrar starfsnefndir háskólaráðs og höfunda viðaukans. Leitað verði álits félaga akademískra starfsmanna og Stúdentaráðs Háskóla Íslands og tekið mið af framkomnum sjónarmiðum á háskólaþingi 7. maí 2010.“ Í kjölfarið fjallaði gæðanefnd ítarlega um skýrsluna og fundaði m.a. með höfundum viðaukans. Skilaði gæðanefnd umsögn sinni um haustið og var hún afgreidd í háskólaráði og kynnt víða innan Háskóla Íslands. Var umsögn gæðanefndar meðal þeirra gagna sem lögð voru til grundvallar við mótun nýrrar Stefnu Háskóla Íslands 2011–2016 sem kynnt var í upphafi aldarafmælis skólans í byrjun janúar sl. (Sjá www.hi.is/files/Stefna_HI_A4_net.pdf). Fjallar einn af fjórum meginköflum stefnunnar sérstaklega um „ábyrgð gagnvart samfélaginu og umheiminum“ og eru þar teknar upp helstu tillögur í umsögn gæðanefndar. Úrvinnsla stefnunnar og gerð ítarlegrar tíma- og framkvæmdaáætlunar stendur nú yfir.
    Í Háskólanum á Akureyri hefur skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis verið rædd og kynnt í ýmsum nefndum og ráðum háskólans og innan starfsmannahópa. Í háskólaráði kom fram hugmynd um málþing um efni skýrslunnar en ekki hefur gefist tími til að framfylgja hugmyndinni.
    Háskólinn í Reykjavík hefur lagt áherslu á að sinna vel hlutverkum sínum í rannsóknum, kennslu og þátttöku í umræðu í tengslum við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Má meðal annars nefna ráðstefnu í samvinnu við Háskólann á Akureyri og Háskólann á Bifröst um skýrsluna sjálfa, ráðstefnu í samvinnu við Háskóla Íslands um þátt mannauðsstjórnunar í hruninu, málstofur og erindi innan Háskólans í Reykjavík um aðdraganda og áhrif bankakreppunnar, og fjölmörg rannsóknarverkefni tengd þessu sem mörg hver hafa þegar leitt til birtra ritverka.
    Þá hefur viðskiptadeild háskólans fjallað ítarlega um viðbrögð deildarinnar við hruni fjármálakerfisins með tilliti til rannsókna og kennslu.
    Innan Háskólans á Bifröst hafa miklar umræður verið í öllum deildum skólans um tengsl atvinnulífs og fræðasamfélagsins og þátt þeirra í hruninu. Brugðist hefur verið við með ýmsum hætti, m.a. hefur kennsla í siðfræði verið tekin upp sem kjarnagrein í öllum deildum, leshringir hafa verið haldnir á meðal nemenda og kennara um rannsóknarskýrsluna og sameiginlegar ráðstefnur haldnar um hana með Háskólanum á Akureyri og Háskólanum í Reykjavík. Viðskiptafræðinámið hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum og mikil áhersla lögð á sjálfbærnihugsun, góða stjórnarhætti og samfélagsábyrgð. Skólinn hefur nýverið skráð sig til þátttöku í átaki Sameinuðu þjóðanna til menntunar ábyrgra stjórnenda (UN Principles for Responsible Management Education) og er fyrstur íslenskra háskóla til að skrá sig þar til þátttöku. Fjölmargir háskólar víða um heim eru hins vegar skráðir til leiks í átakinu sem m.a. miðar að því að efla meðvitund um samfélagsábyrgð, góða stjórnarhætti og gott siðferði stjórnenda.
    Innan Hólaskóla – Háskólans á Hólum hefur mikil umræða farið fram um þessi mál og skólinn leggur áherslu á að efla hlutverk sitt og starf með það að leiðarljósi að stuðla að faglegri vinnubrögðum og efla siðferði í stjórnsýslunni og samfélaginu, og hvetja háskólamenn til að taka þátt í opinberri umræðu. Þetta á m.a. við um samskipti atvinnulífs og fræðasamfélags.
    Listaháskóli Íslands er hvergi til umræðu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og engin gagnrýni komið þar fram sem beinist að honum sérstaklega.

     4.      Hefur einhver úttekt verið gerð á áhrifum kostunar á störf viðkomandi starfsmanna, að frátalinni skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis?
    Háskóli Íslands hefur ekki gert sérstaka úttekt á áhrifum kostunar á störf viðkomandi starfsmanna, enda vandséð við hvað slík úttekt ætti að styðjast. Akademískir starfsmenn Háskóla Íslands hafa frelsi um val á viðfangsefnum og aðferðum rannsókna og kennslu, í samræmi við skilgreiningu viðkomandi og innan þess fræðasviðs sem þeir eru ráðnir til í krafti sérþekkingar sinnar og innan marka laga og reglna sem gilda um akademísk störf. Leiki vafi á heilindum starfsmanna eru fyrir hendi skýrar reglur um kæruleiðir og meðferð slíkra mála.
    Hjá Háskólanum á Akureyri hefur ekki farið fram úttekt á kostun á stöðu prófessors við skólann.
    Engin formleg úttekt hefur verið gerð í Háskólanum í Reykjavík á áhrifum kostunar á störf viðkomandi starfsmanna en háskólinn áréttar að árleg skýrsla starfsmanna gefur deildarforseta skýra mynd af viðfangsefnum þeirra bæði innan og utan skólans.