Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 713. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1913  —  713. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um endurútreikning gengistryggðra lána.

     1.      Hefur ráðuneytið gefið út leiðbeiningar fyrir fjármálafyrirtækin um hvernig eigi að reikna ólögmæt gengistryggð lán í samræmi við lög nr. 151/2010? Ef svo er, hvernig eru þær leiðbeiningar? Ef ekki, af hverju?
    
Í lögum nr. 151/2010 er breyttu ýmsum ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, er að finna ákvæði um endurútreikning ólögmætra gengisbundinna lána. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði XI við lögin er ráðherra heimilt að kveða nánar á um framsetningu útreiknings á uppgjöri vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar í reglugerð. Þessi heimild ráðherra til setningar reglugerðar kom inn í frumvarp til breytinga á vaxtalögunum við þinglega meðferð málsins. Heimildin felur í sér að ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framsetningu á útreikningi, þ.e. hvernig útreikningurinn er útskýrður og settur fram gagnvart lánþega, en með henni er ráðherra ekki fengið vald til að kveða frekar á um hvernig endurreikna eigi umrædd lán. Um það er fjallað í ákvæðum laganna. Í bráðabirgðaákvæðinu er jafnframt kveðið á um að ráðherra sé heimilt að fela umboðsmanni skuldara að hafa eftirlit með útreikningum fjármálafyrirtækja samkvæmt ákvæðinu, óska eftir upplýsingum um forsendur útreikninga og kveða á um úrbætur ef þörf krefur. Með reglugerð nr. 178/2011 fól ráðherra umboðsmanni skuldara slíkt eftirlit.
    Ráðuneytið hefur ekki gefið út leiðbeiningar fyrir fjármálafyrirtæki um það hvernig beri að endurreikna umrædd lán. Lögin kveða nokkuð skýrt á um hvernig beri að endurreikna lán hafi þau verið dæmd ólögmæt og endurmat embættis umboðsmanns skuldara á aðferðum við endurreikning bendir ekki til að þörf hafi verið á samræmdum leiðbeiningum, enda lítill munur á aðferðum sem beitt var við útreikninginn. Þá ber að hafa í huga að fyrir löggjafanum vakti að halda inngripi því sem fólst í lögum nr. 151/2010 eins hóflegu og kostur var, enda um íþyngjandi inngrip í stjórnarskrárvarin eignarréttindi að ræða. Með lögunum voru þannig ekki felld úr gildi önnur samningsákvæði en þau sem tengjast gengistryggingu með beinum hætti og því eðlilegt að samningsákvæði ráði því að öðru leyti uppgjöri sem kostur er. Um leið er ljóst að fyrirtækjum er heimilt að endurreikna lánin á þann veg að komi skuldurum betur. Komi upp ágreiningur um hvernig beri að túlka einstök ákvæði laga verða dómstólar að leysa úr honum.

     2.      Hvernig endurreikna fjármálafyrirtæki ólögmæt gengistryggð lán og er sú aðferðafræði í samræmi við 1. gr. laga nr. 151/2010? Óskað er skriflegra skýringa á aðferðafræðinni við útreikningana og sýnidæma um:
                  a.      bílalán,
                  b.      húsnæðislán,
                  c.      önnur veðlán til einstaklinga, og
                  d.      fyrirtækjalán?
    
Eins og áður segir annast embætti umboðsmanns skuldara eftirlit með endurútreikningi gengistryggðra lána. Í athugun umboðsmanns skuldara á endurútreikningi gengistryggðra lána kemur fram að ekki sé um misræmi að ræða varðandi endurútreikning íbúðarlána en að munur sé á endurútreikningi bílalána milli fyrirtækja. Sá mismunur liggur í því að flest fjármálafyrirtækin leggja ógreidda vexti við höfuðstól skuldarinnar með árs millibili og reikna síðan vexti af nýjum höfuðstól þannig reiknuðum. Þrjú fyrirtækjanna leggja hins vegar vexti við höfuðstól bílalána við hvern áfallinn gjalddaga og má því til einföldunar segja að vaxtavextir reiknist mánaðarlega. Áfallnir vextir geta verið hærri með síðarnefndu aðferðinni.
    Þótt þessar tvær útreikningsaðferðir geti leitt til mismunandi niðurstöðu er mikilvægt að hafa í huga að ekki skeikar miklu í öllum þorra uppgjöra.
    Ekki verður betur séð en að hvor aðferðafræðin um sig geti rúmast innan ákvæða laga nr. 151/2010, enda fólu þau lög ekki í sér að felld væru úr gildi önnur samningsákvæði en þau sem tengjast gengistryggingu með beinum hætti. Því ráða samningsákvæði því hvort leggja megi vaxtavexti við hvern áfallinn gjalddaga. Um leið er ljóst að fyrirtækjum er heimilt að endurreikna lánin á þann veg að komi skuldurum betur.
    Hvað fyrirtækjalánin varðar gilda ákvæði 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu og bráðabirgðaákvæðin eftir því sem við á þegar vextir eða verðtrygging láns hafa verið dæmd ólögmæt, hvort heldur sem lán eru til einstaklinga eða fyrirtækja. Dómstólar hafa þegar dæmt lán veitt fyrirtækjum, svo sem húsnæðislán ólögmæt gengistryggð lán og hefur ráðuneytið ekki upplýsingar um annað en að í slíkum tilvikum séu fyrirtækja lán endurreiknuð í samræmi við ákvæði laganna.
    Til frekari svara við spurningunni leitaði ráðuneytið til umboðsmanns skuldara og eru eftirfarandi upplýsingar þaðan fengnar:
    Umboðsmaður skuldara hefur eftirlit með endurútreikningum fjármálafyrirtækja á gengislánum neytenda samkvæmt reglugerð nr. 178/2011. Af þeim sökum ákvað umboðsmaður skuldara í apríl sl. að leita til Raunvísindastofnunar Háskólans til að fara yfir svör fjármálafyrirtækja við fyrirspurnum um endurútreikning lána. Annars vegar var lagt fyrir dæmi um 15 millj. kr. húsnæðislán og hins vegar 3 millj. kr. bílasamning sem bæði voru tekin árið 2006. Í ljós kom ákveðinn mismunur á niðurstöðum fjármálafyrirtækja, sem byggist á því að fjármálafyrirtækin beita mismunandi útreikningsaðferðum.
    Meginmismunurinn byggist á því hvaða vextir eru notaðir við útreikning lána skv. 4 gr. laga nr. 38/2001. Þannig beita SP-fjármögnun og Lýsing því sem kallast mánaðarlegir vextir, en Íslandsbanki Fjármögnun (Ergo) og Avant nota árlega vexti. Mánaðarlegir vextir eru hærri en árlegir vextir, en sem dæmi þá voru árlegir vextir í desember 2008 21% á ársgrundvelli samkvæmt vaxtatöflu Seðlabanka Íslands. Þetta jafngildir mánaðarlegum vöxtum upp á 23,14% á ársgrundvelli.
    Í niðurstöðu Raunvísindastofnunar Háskólans kom fram að húsnæðislán Landsbankans, Íslandsbanka, Arion banka, Byrs og Dróma skiluðu öll sömu niðurstöðum. Hins vegar kom í ljós að útreikningar frá SP-fjármögnun, Lýsingu og Íslandsbanka hf. (nú Ergo) voru með öðrum hætti og skiluðu verri niðurstöðum fyrir skuldara. Innbyrðis munur á endurútreikningum þriggja síðastnefndu fjármálafyrirtækjanna gerir það að verkum að niðurstöður þeirra gefa mismunandi eftirstöðvar. Fleiri en einn skýringarkostur er mögulegur og er það á valdi dómstóla að skera úr um hvernig eigi að túlka vaxtalögin og hvaða reikningsaðferð sé sú rétta. Það eru því fleiri en einn skýringarkostur. Umboðsmaður skuldara hefur hins vegar beint því til fjármálafyrirtækja að skuldarar njóti vafans þar sem hann er fyrir hendi.

    a.    bílalán:
    Aðferð við útreikning bílalána er í meginatriðum eftirfarandi:
    Forsendur útreiknings eru þær að 1. janúar 2006 hafi aðili tekið 2 millj. kr. lán til 7 ára og voru mánaðarlegar afborganir af láninu 30.000 kr.

Útgáfudagur 1.1.2006
Fyrsti vaxtadagur 1.1.2006
Fyrsti gjalddagi 1.2.2006
Fjöldi mánaða milli gjalddaga 1
Upphaflegur lánstími (árafjöldi) 7,00
Upphaflegur höfuðstóll 2.000.000

    Óverðtryggðir vextir Seðlabanka yfir lánstímann voru eins og hér er sýnt:
1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12
2009 21 20 19 18 18 10,5 10,5 10,5 10,5 10,5 10,5 9
2010 8,5 8,5 8,5 8,5 8,5 8,25 8,25 7,75 7,75 6,75 6,30 5,75
2011 5,55 5,55 5,25 5,25

    Sem jafngilda mánaðarlegum vöxtum:
1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12
2009 23,1 21,9 20,8 20,8 20 11 11 11 11 11 11 9,4
2010 8,8 8,8 8,8 8,8 8,8 8,6 8,6 8 8 7 6,5 5,9
2011 5,7 5,6 5,4 5,4

    1.    Lánið er reiknað frá upphafsdegi lánsins miðað við óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands og notaður er upphaflegur höfuðstóll þess.
    2.    Lánið er látið bera mánaðarlega vexti og skiptast greiðslur upp í afborganir af höfuðstól og vexti. Saman mynda þessar tvær upphæðir heildargreiðslu lánsins um hver mánaðamót.

Gjalddagar Eftirstöðvar fyrir Afborgun Vextir Heildargreiðsla Eftirstöðvar eftir
    1.2.2006 2.000.000 15.009 20.833 35.842 1.984.990
    1.3.2006 1.984.990 15.165 20.676 35.842 1.969.825
    1.4.2006 1.969.825 15.323 20.519 35.842 1.954.501
    1.5.2006 1.954.501 15.483 20.359 35.842 1.939.018
    1.6.2006 1.939.018 15.644 21.006 36.650 1.923.374
    1.3.2011 729.701 28.241 3.344 31.585 701.460
    1.4.2011 701.460 28.535 3.068 31.604 672.924
    1.5.2011 672.924 28.832 2.944 31.776 644.091
    1.6.2011 644.091 29.133 2.817 31.951 614.958
    1.7.2011 614.958 29.436 2.690 32.127 585.522

    3.    Heildargreiðsla lánsins er síðan dregin frá raungreiðslum. Af þessum tveimur upphæðum myndast mismunur, annaðhvort vangreiðsla eða ofgreiðsla, sem er síðan lagður inn á veltureikning. Sú upphæð er síðan vaxtareiknuð í samræmi við lög nr. 38/2001.

Gjalddagar Raungreiðslur Mismunur Uppsafnaðir vextir
    1.2.2006 30.000 -5.842 -5.525
    1.3.2006 30.000 -5.842 -5.412
    1.4.2006 30.000 -5.842 -5.300
    1.5.2006 30.000 -5.842 -5.188
    1.6.2006 30.000 -6.650 -5.774
    1.3.2011 30.000 -1.586 -28
    1.3.2011 30.000 -1.586 -28
    1.4.2011 30.000 -1.604 -21
    1.5.2011 30.000 -1.777 -16
    1.6.2011 30.000 -1.951 -9
    1.7.2011 30.000 -2.127 0

    4.    Að því loknu eru eftirstöðvar lánsins lagðar saman við of-/vangreiðslu lánsins ásamt uppsöfnuðum vöxtum af of-/vangreiðslum. Samtalan af þessum tveimur upphæðum myndar síðan endurreiknaðan höfuðstól lánsins.

Eftirstöðvar eftir síðasta gjalddaga: 585.522
Samtals of- og vangreiðslur: -504.919
Samtals uppsafnaðir vextir: -229.281
Eftirstöðvar eftir endurútreikning: 1.319.723

    Athygli skal vakin á því að blæbrigðamunur er á því hvernig fjármögnunarfyrirtækin SP- fjármögnun og Lýsing meðhöndla veltureikninginn. Af þessum sökum verða til nokkrar mismunandi leiðir við útreikning bílalána.

    b.    húsnæðislán:
    Húsnæðislán (og bílasamningar Avant) reiknast með þeim hætti að upphaflegur höfuðstóll skuldar er vaxtareiknaður með lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabanka Íslands hverju sinni. Að tólf mánuðum liðnum er vöxtunum bætt við upphaflega höfuðstólinn og myndar sú upphæð nýjan stofn til vaxtaútreiknings fyrir næstu tólf mánuðina á eftir. Ferlið endurtekur sig árlega yfir lánstímann til uppgjörsdags. Greiðslur sem lántakandi innir af hendi eru vaxtareiknaðar hverju sinni með sama hætti frá innborgunardegi til uppgjörsdags. Mismunurinn af þessu tvennu myndar nýjan endurreiknaðan höfuðstól. Eftirfarandi er dæmi um endurútreikning láns.
    Gert er ráð fyrir að 10. janúar 2009 hafi verið tekið 1 millj. kr. lán, að 1. maí 2009 og aftur 1. júní 2010 hafi verið greiddar 100 þús. kr. auk 250 kr. seðilgjalds, og að lánið skuli gert upp 18. apríl 2011. Óverðtryggðir vextir Seðlabanka yfir lánstímann voru eins og hér er sýnt:

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12
2009 21 20 19 18 18 10,5 10,5 10,5 10,5 10,5 10,5 9
2010 8,5 8,5 8,5 8,5 8,5 8,25 8,25 7,75 7,75 6,75 6,3 5,75
2011 5,55 5,5 5,25 5,25

    Upphaflegur höfuðstóll lánsins vaxtareiknast svo:
Dagsetning Meðalvextir Vaxtadagar Vaxtaupphæð Staða
10.01.2009 1.000.000
10.01.2010 13,7708% 360 137.708 1.137.708
10.01.2011 7,7013% 360 87.618 1.225.326
18.04.2011 5,3908% 98 17.982 1.243.308

    Skýringar við töflu: Fyrstu meðalvextirnir fást með því að leggja saman 21/360 af vöxtum í janúar 2009, 1/12 af vöxtum febrúar til desember 2009 og 9/360 af vöxtum janúar 2010. Síðustu meðalvextirnir ná yfir 98 daga og eru (21 x 5,55% + 30 x 5,5% + 30 x 5,25% + 17 x 5,25%)/98. Vaxtaupphæðin 17.982 er 98/360 af 5,3908% af stöðunni 10. janúar 2011. Reiknað er með 30 dögum í mánuði, sbr. 12. gr. laga 38/2001, og að vextir mánaðar gildi fram yfir nóttina í lok mánaðarins.

    Greiðslur af láninu vaxtareiknast svo:
Dags. Nr. Greiðsla Seðilgjald Meðalvextir Vaxtadagar Vaxtaupphæð Staða Lokastaða
01.05.2009 1 100.250 250 100.000
01.05.2010 10,3333% 360 10.333 110.333
18.04.2011 6,7932% 347 7.225 117.558 117.558
01.06.2010 2 100.250 250 100.000
18.04.2011 6,6317% 317 5.840 105.840 105.840
Samtals 223.398

    Eftirstöðvar þessa láns á uppgjörsdeginum 18. apríl 2011 væru því 1.243 - 223.398 = 1.019.910 kr.

    c.    önnur veðlán til einstaklinga:
    Engin lán önnur en bíla- og fasteignalán hafa komið inn á borð til umboðsmanns skuldara.

     d.    fyrirtækjalán:
    Umboðsmaður skuldara sinnir eingöngu erindum er berast frá einstaklingum. Í þeim tilfellum þegar um persónulegar ábyrgðir er að ræða eða einstaklingur hefur yfirtekið lán fyrirtækis er þeim erindum sinnt.

     3.      Hvernig er eftirliti með endurútreikningi ólögmætra gengistryggðra lána háttað?
    
Eftirlit með endurútreikningi ólögmætra gengistryggðra lána er samkvæmt reglugerð nr. 178/2011 hjá umboðsmanni skuldara. Einnig er lögbundið eftirlit hjá Fjármálaeftirliti og almennum dómstólum. Varðandi eftirlitshlutverk umboðsmanns skuldara er það með þeim hætti að skuldari getur leitað til embættisins og óskað eftir að mál hans sé kannað. Umboðsmaður skuldara vinnur úr beiðnum skuldara og svarar fyrirspurnum þess efnis. Umboðsmaður skuldara á einnig að fylgjast með framgangi endurútreiknings og óska eftir upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum. Embættið fylgist með dómum varðandi málefnið og beinir tilmælum til fjármálafyrirtækja í samræmi við þá. Umboðsmaður skuldara mun einnig kynna skuldurum rétt sinn og skyldur vegna framangreindra lána.

     4.      Af hverju tók það ráðuneytið um tvo mánuði frá samþykkt laga nr. 151/2010 að gefa út reglugerð sem heimilaði umboðsmanni skuldara að hafa eftirlit með útreikningum fjármálafyrirtækjanna?
    
Lög nr. 151/2010 voru samþykkt á Alþingi 22. desember 2010 og birt í Stjórnartíðindum 28. desember sama ár. Reglugerð nr. 178/2011 um eftirlit umboðsmanns skuldara með endurútreikningum fjármálafyrirtækja á gengislánum neytenda var birt í Stjórnartíðindum 23. febrúar 2011, eða tæpum tveimur mánuðum síðar.
    Frá gildistöku laganna var ljóst að umboðsmanni skuldara yrði falið eftirlit með endurútreikningi og hafði embætti umboðsmanns raunar þegar hafið slíkt eftirlit á grundvelli almennra heimilda í lögum um embætti umboðsmanns skuldara áður en lögin voru samþykkt. Lögin gera ekki kröfu til þess að umboðsmanni sé falið það hlutverk með reglugerð þó að sú leið hafi verið farin. Því hafði umboðsmaður þegar frá gildistöku laganna hafið eftirlit með endurútreikningi fjármálafyrirtækjanna. Því er ekki rétt að líta svo á að eftirlit umboðsmanns með endurreikningum hafi tafist vegna tímasetningar reglugerðarinnar. Þvert á móti var talin ástæða til að freista þess að orða reglugerðina með þeim hætti að hún greiddi fyrir eftirlitinu, í ljósi þeirrar reynslu sem þá þegar var komin á framkvæmdina.

     5.      Hver eru áhrifin af dómi Hæstaréttar nr. 604/2010, þess efnis að Hæstiréttur taldi að lengd lánstíma, ólík veð eða heimild til að breyta vöxtum hefðu ekki þýðingu er varðar ólögmæti gengistryggingar? Hvernig hefur ráðuneytið fylgt því eftir að fjármálafyrirtæki hlíti niðurstöðu dómsins?
    
Með dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 var skorið úr ágreiningi lánveitanda og lántaka þar sem deilt var um höfuðstól svonefndra bílalána. Niðurstaðan var sú að um væri að ræða lán í íslenskum krónum og að tenging höfuðstóls lánanna við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla hafi verið ólögmæt.
    Með dómi Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 þar sem um var að ræða sams konar bílalán og í fyrrnefndum málum, var leyst úr hvernig færi um vexti að fenginni niðurstöðu um að gengistrygging væri ólögmæt. Niðurstaðan varð þar sú að greiddir skyldu vextir jafnháir þeim sem Seðlabanki Íslands ákveður af nýjum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
    Í greinargerð með lögum nr. 151/2010, sem tóku gildi 29. desember 2010, segir um nauðsyn lagasetningarinnar: „Þó að dómar Hæstaréttar hafi létt af mestu óvissunni er engu síður hætt við að ágreiningur verði gerður um lögmæti fjölda samninga á víðtæku sviði skammtíma- og langtímafjármögnunar. Þá hafa vaknað spurningar um jafnræði meðal skuldara, einkum á neytendamarkaði. Meginmarkmið frumvarpsins er því að draga úr þessari óvissu. Til grundvallar eru lögð þau sanngirnisrök að sambærileg mál fái sambærilega niðurstöðu auk þess að tryggja réttaröryggi við uppgjör lána með óskuldbindandi gengisviðmiðun.“ Í frumvarpinu segir jafnframt: „Gildissvið frumvarpsins nær […] til lána einstaklinga vegna húsnæðiskaupa eins og nánar er skilgreint í frumvarpinu og lána til bifreiðakaupa hvort heldur sem þau lán eru á grundvelli lánssamninga eða eignarleigusamninga, enda er löggjöfinni ætlað að skýra almennt réttarástand. Ef ekki verða sett almenn lög um uppgjör samninganna munu skuldarar verða í mismunandi stöðu eftir því hjá hvaða banka þeir hafa tekið lán, jafnvel þótt aðstæður þeirra séu fyllilega sambærilegar að öllu öðru leyti.“
    Eins og áður segir var, í rökstuðningi fyrir lagasetningu, talið nauðsynlegt að leysa úr því hvaða tegundir lánasamninga féllu undir lögin umfram það sem þá hafði verið leyst úr fyrir dómstólum. Hvernig framkvæmd uppgjörs samninganna yrði háttað var síðan í samræmi við fordæmi Hæstaréttar.
    Með dómi Hæstaréttar 14. febrúar 2011 í máli nr. 604/2010 heldur rétturinn sig við fordæmi sín í þeim málum sem tiltekin eru hér að ofan. Á þeim málum var byggt við setningu laga nr. 151/2010. Verður því ekki séð að uppi sé önnur staða eftir uppkvaðningu téðs dóms en var fyrir. Hefur niðurstaðan í málinu því ekki kallað á sérstakar ráðstafanir af hálfu ráðuneytisins hvað varðar eftirfylgni eða eftirlit með uppgjöri gengistryggðra lána, en ráðuneytið hefur fylgst með endurútreikningnum í gegnum umboðsmann skuldara og Samtök fjármálafyrirtækja.

     6.      Hver er afstaða ráðuneytisins til þess hvort lög nr. 151/2010 stangist á við 12. viðauka EES-samningsins um neytendavernd?

    Samkvæmt upplýsingum frá Alþingi á fyrirspyrjandi hér við 19. viðauka EES-samningsins um neytendavernd, en ekki 12. viðauka um frjálsa fjármagnsflutninga.
    Eins og segir hér að framan þá er lögum nr. 151/2010 ekki ætlað að kveða á um það hvort tiltekin samningsákvæði séu ógild, fyrir eða eftir setningu laganna heldur er í lögunum kveðið á um að um uppgjör vegna þeirra samninga sem undir þau falla skuli fara eftir 18. gr. frumvarpsins. Valdið til að kveða á um gildi samninga er sem fyrr hjá dómstólum.
    Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 151/2010 er tilefni framlagningar frumvarpsins dómar Hæstaréttar frá 16. júní 2010 sem skáru úr um ólögmæti bindingar lána í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og dómur réttarins frá 16. september 2010 um vaxtareikning slíkra ólögmætra gengistryggðra lána. Byggjast ákvæði frumvarpsins um uppgjör lánanna á forsendum dóms Hæstaréttar frá 16. september 2010. Í dómnum kom skýrlega fram að vextir láns þess sem deilt var um í málinu voru tengdir beint við vexti á millibankamarkaði í London af lánum í jenum og svissneskum frönkum, sem hin ógilda gengistrygging samkvæmt samningi aðilanna miðaðist við. Taldi rétturinn að slík vaxtakjör af láninu gætu ekki komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess. Því var talið að hvorki væri unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda lá fyrir að á millibankamarkaði í London hafa aldrei verið skráðir LIBOR-vextir af lánum í íslenskum krónum. Vegna þessa var óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð.
    Í samningum um gengistryggð lán er almennt ákvæði um að skuld beri vexti. Þar sem ekki er hægt að beita fyrirmælum samninganna um útreikning vaxtanna taldi Hæstiréttur í dómnum frá 16. september að atvik svöruðu til þess að samið hefði verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Þegar slík staða væri uppi skyldu vextir af láni fara skv. 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.
    Dómur Hæstaréttar gengur því út frá því að ákvarða þurfi vexti af samningum frá upphafsdegi á grundvelli ákvæða 3. og 4. gr. vaxtalaga þar sem ekki var hægt að styðjast við ákvæði samnings um útreikning vaxta. Ákvæði laga nr. 151/2010 um uppgjör lána eru í samræmi við þessa niðurstöðu. Lögin mæla þannig ekki fyrir um leiðréttingu eða breytingu vaxtaútreiknings eða vaxtaálags á of- eða vangreiðslur, heldur útreikning vaxta frá upphafi samningsins út frá nýjum forsendum þar sem upphaflegar forsendur vaxtaútreiknings eru ólögmætar.
    Þar sem lögum nr. 151/2010 er sem fyrr segir ekki ætlað að kveða á um það hvort tiltekin samningsákvæði séu ógild heldur um uppgjör vegna þeirra samninga sem falli undir þau verður ekki séð að lögin stangist á við XIX. viðauka EES-samningsins um neytendavernd.