Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Miðvikudaginn 18. janúar 2012, kl. 17:41:49 (3985)


140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

278. mál
[17:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Oft og tíðum hefur maður séð, sérstaklega varðandi EES-gerðir, frumvörp til laga um hluti sem virðast vera afskaplega litlir og skipta litlu máli. Ég held að það væri því áhugavert, þó ekki væri annað, að fara aðeins yfir þetta. Hér er sérstaklega tilgreint að um breytingar sé að ræða varðandi persónuskilríki en ég hélt einhvern veginn að viðurkennd persónuskilríki væru vel þekkt fyrirbæri og þyrfti ekki að tilgreina sérstaklega.

Það er auðvitað þróun í þessu eins og öðru en ég hefði ekki talið að menn þyrftu að hlaupa eftir því og breyta öllum lögum, til dæmis þegar menn hafa breytt vegabréfum, þau hafa tekið nokkrum breytingum með nýrri tækni. Svona fljótt á litið, þegar maður skoðar þetta frumvarp, sér maður ekki alveg í hverju breytingin felst frá því sem nú er. Ef ég hef skilið vörnina gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka rétt hefur hún fyrst og fremst gengið út á að vita hver á peningana. Það er til lítils að vera með varnir gegn peningaþvætti ef hér er hægt að „sirkúlera“ með peninga sem enginn veit hvaðan koma, þá væri algjör gósentíð fyrir þá sem vildu stunda slíka starfsemi.