Staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 14:32:13 (5390)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[14:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Er raunhæft að tryggja verðtryggð lífeyrisréttindi? spyr hv. þingmaður. Það er hægt að gera það, sú regla hefur gilt hér. Ég held að spurningin ætti frekar að vera: Er raunhæft að tryggja fólki verðtryggingu og 3,5% ávöxtun, eins og við höfum verið að reyna að gera? Það er býsna bratt loforð. Ég er enginn hagfræðingur en fróðir menn segja mér að það þurfi líklega að jafnaði 3,5% hagvöxt til þess að geta staðið undir því.

Ég held að við þurfum að horfast í augu við að við höfum kannski sett okkur of metnaðarfull markmið í þessu efni sem óraunhæft er að standa við til langs tíma. Það er raunveruleg spurning sem við eigum að takast á við. Ég ætla ekki að svara henni héðan úr þessum ræðustól í dag.

Ég vil biðja hv. þingmann um að leita annað með svör við annarri spurningunni, þ.e. hvenær raunávöxtunin varð jákvæð hjá lífeyrissjóðunum. Það verður að leita í einhver önnur gögn en til hv. þingmanns til að finna út úr því. (Gripið fram í: A eða B?)

Er ég sammála því að færa beri niður höfuðstól lána? Ég get ekki samþykkt aðgerðir sem ganga gegn stjórnarskrárvörðum réttindum kröfuhafa. Ég held að það sé ein af niðurstöðum þess dóms sem féll í Hæstarétti í gær að dómstólarnir á Íslandi munu standa vörð um eignarréttinn, þeir munu gera það, þannig að tilraunir til þess að fara í almennar aðgerðir sem höggva á réttindi kröfuhafa sem fara með verðtryggð eignarréttindi verða þá að minnsta kosti að taka tillit til stjórnarskrárinnar. En ég er tilbúinn að ræða leiðir til að rétta stöðu skuldara sem eru með verðtryggð lán. Við eigum að leita allra leiða til að koma þeim út úr óviðráðanlegri stöðu. (Forseti hringir.) En almenn niðurfærsla getur stangast á við stjórnarskrárákvæði. (Forseti hringir.)

Já, ég tel að það beri að draga úr (Forseti hringir.) einsleitni í framboði á húsnæðislánum sem hafa fyrst og fremst verið verðtryggð. Það ber að draga úr því.