Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 20:26:56 (11381)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[20:26]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er þetta með fordæmið sem við höfum aðeins rætt í dag, fordæmið í því að sniðganga ákveðna þætti laga um Ríkisábyrgðasjóð, fordæmið í því að hunsa alvarlegar ábendingar Ríkisábyrgðasjóðs og reyndar mun fleiri aðila og svo fordæmið að taka gríðarlega stórt og mikið mannvirki eins og þetta fram fyrir eðlilega röð út af vegtollum. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann út frá þessu heildarsamhengi samgöngumála, úr því að hann nefndi leið sem Pálmi Kristinsson hefur bent á og ýmis módel sem þyrfti að skoða í þessu samhengi: Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að það vanti enn miklu ítarlegri umræðu og umfjöllun um eftir hvaða módeli skuli farið, hvaða áhrif raunverulegir vegtollar eigi að hafa og í hvaða farveg þessi mál eigi að fara? (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður sammála mér um að við séum með þessu frumvarpi og þessu áliti meiri hluta fjárlaganefndar ekkert komin nær því sem ég nefndi (Forseti hringir.) en séum þvert á móti að skapa varasöm fordæmi fyrir framtíðina?