Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 21:45:52 (11406)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[21:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði hér áðan eftir ræðu hæstv. innanríkisráðherra að maður yrði alltaf ruglaðri og ruglaðri þegar liði á þetta mál. Ég verð að viðurkenna að ég var ekki búinn að átta mig á síðustu setningu eða því sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson benti á áðan, að Spölur sem rekur Hvalfjarðargöng greiði tekjuskatt en þetta fyrirtæki eigi ekki að gera það. Í mínum bókum er þetta mismunun. Ég kann ekki að skýra muninn á þessum tveimur verkefnum og fyrirtækjum og átta mig ekki á því hvernig í ósköpunum er hægt að fara fram með þessum hætti, ekki það að þessi fyrirtæki séu í samkeppni, göngin liggja ekki hlið við hlið, en það sama hlýtur að eiga við um bæði fyrirtækin og báðar framkvæmdirnar.

Það er líka mikilvægt að því sé haldið til haga að frekari breytingar þurfi, eins og hv. þingmaður benti á, á lagaumgjörð til að þetta geti gengið eftir. Ég verð að segja að það er svolítið sérstakt að fara fram með málið þegar það virkar eins og nokkur atriði séu ókláruð.

Ég held því miður að við munum seint læra en við skulum vona að við lærum einhvern tímann og að sá andi sé í þinginu að fjáraukalög og lokafjárlög muni verða vandaðri og betri þegar fram líða stundir.

Það er alveg rétt að verið er að taka verulega áhættu með ábyrgð ríkisins á sama tíma og fjallað er um lokafjárlög og ríkisábyrgð upp á 28 milljarða. Ég tek undir með þingmanninum um það.