Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 23:02:14 (11427)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[23:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er mál málanna á dagskrá, dagsins í dag alla vega. Hér ræðum við Vaðlaheiðargöng. Þetta er nokkuð erfitt mál að mínu mati vegna þess að verið er að skapa togstreitu milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar og svo er líka verið að skapa togstreitu meðal alþingismanna vegna þess að í þessu máli blikka öll rauð ljós, því miður.

Ég get nefnt aðra framkvæmd hér sem er alveg sambærileg þessu, það er Landspítalaverkefnið sem farið var af stað með. Jú og eitt í viðbót, frú forseti, ég verð náttúrlega líka að telja Hörpu með því að þetta er allt mjög sambærilegt. Farið var af stað með hugmyndirnar fyrir hrun og svo er einhvern veginn ekki hægt að vinda ofan af þeim og svo er talað um að ríkið komi að verkunum með ríkisábyrgð. Í tilfelli Hörpu kom Reykjavíkurborg líka að verkinu en þá tóku ríkið og Reykjavíkurborg yfir það verkefni af einkaaðilum vegna þess að þeir fóru hreinlega á hausinn og stóðu ekki undir væntingum og allir vita hvernig það var. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði á sínum tíma þegar verkið og vinnan við Hörpuna var farin út í sandinn: Við skulum stoppa verkefnið og láta Hörpu vera minnisvarða þess brjálæðis og yfirveðsetningar sem hér var í gangi.

Það blikka öll rauð ljós varðandi þetta verkefni. Þetta er í sjálfu sér ekki stórt verkefni miðað við til dæmis Landspítalaverkefnið en það er algjörlega sambærilegt að ýmsu leyti. Þetta verk gengur þó skrefinu lengra vegna þess að það er beinlínis sagt varðandi það að vikið sé frá reglum laga um ríkisábyrgðir. Þegar lög um ríkisábyrgðir eru skoðuð kemur það raunar fram í 1. gr., en 1. gr. laga er alltaf lýsandi grein á viðkomandi lögum.

Með leyfi forseta, langar mig til að lesa hana:

„Ríkissjóður má aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar, nema heimild sé veitt til þess í lögum. Ríkissjóður má ekki ganga í sjálfskuldarábyrgð, nema sérstaklega sé kveðið á um það í lögum þeim sem ábyrgð heimila.“

Með þessu frumvarpi er verið að uppfylla 1. gr. laganna vegna þess að þetta kemur frá fjármálaráðuneytinu, frá hæstv. fjármálaráðherra, þar sem farið er fram á að þessi ríkisábyrgð skuli heimiluð, en svo kemur í 2. og 3. gr. útlistun á því sem ríkisábyrgðarþegi þarf að uppfylla, sem vikið er frá í frumvarpi þessu. Það finnst mér ekki nógu ábyrgt miðað við þá tíma sem við göngum í gegnum núna og eftir bankahrunið sem skrifuð var margra binda skýrsla um hvað betur mætti fara í íslenskri stjórnsýslu. Þess vegna tel ég að við ættum að læra af reynslunni, ekki bara í þessu máli heldur almennt í þinginu, og sveigja ekki frá gildandi lögum eða fara í verkefni sem ekki er vitað hvort standa undir sér.

Ég tel að við þurfum að sýna mikla ábyrgð. Í frumvarpinu á bls. 3 í V. kafla er umsögn Ríkisábyrgðasjóðs. Ríkisábyrgðasjóður getur ekki gefið fullt samþykki sitt fyrir þessu verkefni. Í fskj. II í frumvarpinu, á bls. 43 er farið yfir þetta. Mig langar aðeins til að grípa hér ofan í það sem Ríkisábyrgðasjóður segir um fyrirhugað lán til Vaðlaheiðarganga:

„Gert er ráð fyrir að ríkissjóður fái lán sitt endurgreitt árið 2018. Geta lántaka til að endurgreiða lánið byggist á því að fjárfestar muni árið 2018, þegar göngin eru komin í notkun, veita Vaðlaheiðargöngum lán án ríkisábyrgðar. Ef slíkt lán fengist yrðu vextir sem þá byðust og önnur lánakjör einn af afgerandi þáttum um rekstrarhæfi framkvæmdarinnar. Vaxtakjör lánsins réðust af því hvernig fjárfestar litu á tekjumöguleika lántaka, getu hans til að standa undir greiðslu vaxta og afborgana sem og aðra þætti sem mundu draga úr áhættu lánveitenda svo sem eigið fé. Þess vegna verður ekki undan því vikist að skoða einnig þær forsendur.“

Síðan segir aðeins aftar í fskj. II frá Ríkisábyrgðasjóði að grundvallarforsenda í fyrirliggjandi áætlun sé að vaxtakjör á langtímaláni verði fastir verðtryggðir 3,7% vextir. Þannig fáist að öðrum forsendum óbreyttum 9% líkur á greiðslufalli verkefnisins.

IFS Greining hefur einnig reiknað út líkur á greiðslufalli með öllum sömu forsendum nema með 4,7% verðtryggðum vöxtum og eru þá líkur á greiðslufalli 40%. Þarna sjáum við þennan 1% mun í vöxtum, þá hækkar greiðslufallsáhættan úr 9% og upp í 40%. Mér finnst þetta mjög mikil næmni við ekki meiri hækkun en þetta að það skuli vera svo yfirgnæfandi líkur á greiðslufalli. Við erum ekki að bíða eftir því að ríkið taki til sín enn eitt verkefnið því að eins og ég hef farið yfir í andsvörum í dag hefur hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra verið mjög duglegur við að dæla ríkisábyrgðum út í loftið. Fram kemur í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar að í lokafjárlögum fyrir árið 2010 þurfti að gjaldfæra ríkisábyrgðir upp á tæplega 28 milljarða. Mér finnst það alvarlegur hlutur að veittar skuli hafa verið ríkisábyrgðir sem þarf svo að innheimta með þessum hætti.

Því miður er það ekki sundurgreint í nefndarálitinu hvaða verkefni voru gjaldfærð. Ég fann ekki lokafjárlög 2010 hér frammi áðan þannig að ég ætla að kíkja á það síðar en þetta er mjög alvarlegur hlutur. Það má alveg segja að Vaðlaheiðargöng séu lítill hluti af þessu en allt tínist þetta saman og verður að stórri skuld þegar upp er staðið. Þess vegna verður fjárveitingavaldið, við alþingismenn, að vera mjög varkárt og stíga varlega til jarðar í öllu því sem heitir veiting ríkisábyrgða.

Ég hef verið mjög gagnrýnin á bókhaldið á ríkisábyrgðunum og farið hefur fram sérstök umræða hér um það hvernig þessu er háttað og hversu há ríkisábyrgðin er, hún er einhvers staðar undirliggjandi og ekki færð sem skuld hjá ríkissjóði. Hér var farin gríska leiðin, það var nú líklega þetta sem leiddi Grikkland mögulega í gjaldþrot, þar voru einkaframkvæmdir með ríkisábyrgð sem ekki fóru inn í ríkisreikning. Svo hrynur spilaborgin meira og minna, einkafyrirtækin fara á hausinn og þar með virkjast ríkisábyrgðin sem kemur hvergi fram í ríkisreikningi.

Ég ætla ekki að fara að halda aftur ræðu um þau verkefni sem sett hefur verið ríkisábyrgð á og sóttar svo heimildir fyrir því inn í fjárlög hvers árs síðan ég tók sæti hér en upphæðin skiptir fleiri hundruðum milljarða ef allt er tekið með, þá er ég líka með inni í því ríkisábyrgð sem ekki er bókfærð sem er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

Ríkisábyrgðasjóður telur að athuga verði sérstaklega vaxtaþáttinn og svo leggur hann mikla áherslu á að lagt verði sjálfstætt mat á líkleg kjör við endurfjármögnun án ríkisábyrgða 2018. Stærsta óvissuþáttinn varðandi framkvæmd Vaðlaheiðarganga telur Ríkisábyrgðasjóður vera hvernig tekst til við að endurfjármagna framkvæmdalánið 2018. Þeir telja í fyrsta lagi að það sé óvissa um þróun vaxta til svo langs tíma. Þeir velta fyrir sér hversu lengi gjaldeyrishöftin verða. Fram kemur í skýrslunni að samkvæmt núgildandi lögum eigi þau bara að vera til 2013 en hvorki Seðlabanki Íslands né þessi ríkisstjórn virðast vera áfjáð í að aflétta gjaldeyrishöftunum, í það minnsta er lítið verið að gera í því þar til í dag þegar stækkunarstjóri sveiflaði töfrasprotanum og tók það upp hjá sér að bjóða fram hjálp Evrópusambandsins við að aflétta höftunum. Ég veit ekki alveg hvernig það á að gerast en mér skilst að ríkisstjórnin ætli að ganga að því tilboði. En þá er það náttúrlega um leið sú gulrót sem á að beita fyrir okkur að Evrópusambandið komi hér sem frelsandi engill og losi okkur undan höftunum. En þetta eru einhver orð sem ekki eru komin í framkvæmd þannig að ég trúi tæpast á það að sinni, en gjaldeyrishöftin leika líka mikið óvissuhlutverk í þessu efni.

Mig langar aðeins til að lesa niðurstöðukaflann frá Ríkisábyrgðasjóði þar sem hugleiðingar um þetta efni eru dregnar saman, með leyfi forseta:

„IX. kafli, niðurstöður. Afar ólíklegt að unnt verði að endurfjármagna framkvæmdalán vegna Vaðlaheiðarganga án ríkisábyrgðar með þeim lánskjörum að verkefnið standi undir sér og ríkissjóður fái lán sitt þannig endurgreitt. Ríkið yrði því bundið áfram með það fjármagn sem nú er ráðgert að veita til framkvæmdarinnar. Standi vilji Alþingis til þess að ríkið fjármagni gerð Vaðlaheiðarganga telur Ríkisábyrgðasjóður raunhæfara að ríkissjóður lágmarki áhættu sína með því að fjármagna langtímalánið á markaði áður en framkvæmdir hefjast. Í ljósi þess að vaxtastig er nú í sögulegu lágmarki væri skynsamlegast að tryggja langtímafjármögnun verkefnisins nú en ekki eftir tæp sex ár.“

Svo voru þau mörg orð, frú forseti. Eins og ég sagði blikka nokkuð margar rauðar perur í þessu máli. Þess vegna verðum við að ná einhverri lendingu í þetta. Ég get alveg tekið undir með hv. þm. Merði Árnasyni, við erum ekki oft sammála en við erum sammála um þetta og ætla ég að taka undir orð hans um að rétt sé að málið fari aftur til nefndar eftir þessa umræðu. Þá legg ég til að málið fari til sameiginlegra nefnda, í sameiginlega verkefnisvinnu hjá fjárlaganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd, því að það hefur meira að segja verið gagnrýnt í dag að málið hefur flakkað á milli nefnda. Það verður að vera alveg skýrt hvar svona mál liggur. Þetta er frumvarp til laga um ríkisábyrgð en hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur það til umfjöllunar vegna þess að það snýr að samgöngumálum. Ég tel að núna verði þessar tvær nefndir að setjast niður saman og reyna að finna einhverja lausn á þessu.

Hér kom fram hugmynd frá hv. þm. Merði Árnasyni um að fyrsta greinin tæki gildi en ekki önnur. Ég ætla ekki að leggja mat á það en mér finnst verst hvað þetta veldur mikilli togstreitu bæði hér í þinginu og úti í samfélaginu því að þeir sem gagnrýna verkefnið mest eru þeir sem beðið hafa lengi eftir vegabótum í sínu heimahéraði sem eru inni á vegáætlun. Þeir vinna eftir því plaggi að langtímamarkmiðum, hvaða verkefni eru brýnust og búið er að raða verkefnum þar inn. Svo finnst fólki að verið sé að taka hér verkefni fram fyrir, sérstaklega í ljósi þess hvernig það hefur þróast. Hæstv. innanríkisráðherra fór mjög vel yfir það í ræðu sinni hvernig málið byrjaði og hvar það er núna allt frá því þegar samþykkt var að ráðast í gerð Vaðlaheiðarganga sem einkaframkvæmdar sumarið 2008, svo varð bankahrun og þar til núna þegar lagt er til, samanber til dæmis skýrslu Ríkisábyrgðasjóðs, að framkvæmdin verði þá algjörlega á forsendum ríkisins og á vegum þess.

Þá segir hæstv. innanríkisráðherra: Er þá ekki rétt að framkvæmdin fari inn í samgönguáætlun þannig að allir sitji við sama borð? Það er ein af þeim siðferðislegu spurningum sem við stöndum frammi fyrir.

En svo að hinum þættinum sem ekki má gleyma. Ég hef til dæmis stórar áhyggjur af vegamálum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ég ber fulla virðingu fyrir landsbyggðinni, ég hef margoft farið hringinn í kringum landið, ég hef komið í hvern einasta fjörð á landinu, ég hef meira að segja farið í Árneshrepp á Ströndum og átt þar góðar stundir þannig að ég þekki … (Gripið fram í: Meira að segja?) Ég segi nú „meira að segja Árneshrepp“ (Gripið fram í.) af því að hann (Gripið fram í.) er svo afskekktur, hv. þingmenn. Ég held að það sé ekki hægt að komast á afskekktari stað, alla vega ekki keyrandi. Ég hef að vísu ekki gengið á … (JBjarn: Afskekktur? Þetta er miðja alheimsins.) Hv. þm. Jón Bjarnason, (BJJ: Hneyksli.) já, þetta er miðja alheimsins, það er afar fallegt þarna.

Ég hef því notað vegakerfið mjög mikið og þekki það mjög vel. Ég er til dæmis stundum undrandi yfir því að þjóðvegur 1 skuli ekki vera allur með tvíbreiðum brúm því að svo koma útlendingar hér og telja sig vera að keyra þjóðveg 1 og átta sig ekki á því að hér eru víða einbreiðar brýr, þá hafa orðið mörg slys, og þannig og lengi mætti telja.

Vegamálin á höfuðborgarsvæðinu hafa alltaf setið á hakanum. Eins og tilfellið er með Vaðlaheiðargöng man ég nánast varla eftir öðru en að verið væri að tala um Sundabraut. Ég sagði það í ræðu í dag að það var alltaf verið að segja: Hvenær kemur Sundabraut eða einhver tenging upp á Kjalarnes? Það er eins og barnið sem spurt var fyrir austan: Hvað ætlar þú að gera þegar þú verður stór? Þá sagði barnið: Ég ætla að bíða eftir álveri eins og afi. Það er svona svipað ástand í vegamálum í Reykjavík.

Ég hef verið að benda á það og spurði að því í umhverfis- og samgöngunefnd um daginn: Er til viðbragðsáætlun á höfuðborgarsvæðinu eða erum við á einhvern hátt undirbúin undir það að hér brjótist út náttúruhamfarir? Ég er ekki með neina bölsýnisspá en við verðum að vera raunsæ því að landið hefur verið að hreyfa sig meira en oft áður. Við munum náttúrlega eftir Eyjafjallajökulsgosinu, þá hafði ekki gosið þar í 200 ár. Jarðfræðingar segja að við séum að fara inn í mikið óróleikatímabil. Talið er að það verði kannski eitthvað um að vera á Reykjanesi eða við Kleifarvatn eða í Bláfjöllum eða hvar sem er. Þá höfum við Reykvíkingar eina Ártúnsbrekku til þess að forða okkur landleiðina, þ.e. ef hún lokast ekki. Ég mundi því telja að það væri líka brýnt að fara að huga að einhverri tengingu upp á Kjalarnes þannig að það sé þó alla vega hægt að komast burtu af Stór-Reykjavíkursvæðinu á tveimur stöðum. Það er náttúrlega hægt að fara Krýsuvíkurleiðina hjá Hafnarfirði en ef það fer að gjósa þar fer náttúrlega enginn þar um.

Þetta verðum við að leggja mat á allt saman en það er lítill vilji til þess. Oft hefur verið sagt: Af hverju berjist þið þingmenn Reykjavíkur ekki meira fyrir samgöngubótum í Reykjavík? Ég get alveg tekið undir það, það hafa orðið litlar úrbætur hér. Í ljósi nýjustu frétta batnar það ekki því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að efla almenningssamgöngur vegna þess að samgöngukostnaður heimilanna er kominn yfir 16%. Ég spyr: Er það ekki heimilanna sjálfra að ráðstafa tekjum sínum? Þarf ríkisstjórnin að fara af stað með það verkefni að öllu framkvæmdafé fyrir höfuðborgarsvæðið hafi verið varið næstu tíu árin í að bæta almenningssamgöngur? Ég get sagt það að síðustu átta til tíu ár hefur strætóferðum fækkað svo mjög að fólk getur tæpast notað þær, það hefur verið svo mikill sparnaður að hann hefur snúist upp í andhverfu sína, en nú á að stíga það skref til baka. Ég er ekkert sátt við að allt þetta fé fari í verkefnið Allir í strætó, allir út að ganga og allir að hjóla í vinnuna, eins og ég kalla það. Við búum náttúrlega bara í þessu landi, það er tæpast hægt að ganga eða hjóla í vinnuna, ætli það séu ekki svona 20–30 dagar á ári þar sem er logn og sól þannig að fólk kemur ekki niðurrignt í vinnuna.

Þetta er eitthvað sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ákváðu. Ég er aðallega hissa á því að jaðarsveitarfélögin skyldu hafa gengið að þessu en ég er nú svo sem ekki hissa á því að Reykjavíkurborg, eins og henni er stjórnað í dag, hafi gengið að þessu, enda er Samfylkingin náttúrlega bæði í ríkisstjórn og við stjórn borgarinnar. En mér er sagt að það hafi verið svo miklar samgönguumbætur í Kraganum að þeir hafi gefið þetta eftir til þess að efla samgöngur, ég skal ekki segja um það. En það er alveg ljóst að við það verður ekki unað lengi enn að ekki verði gert eitthvað í vegamálum í Reykjavík varðandi þessar útgönguleiðir. Við vitum að það er slæmt ástand á Kjalarnesi, sem tilheyrir Reykjavík eins og allir vita. Það þurfti einhvern tíma mótmælastöðu þangað til gerð voru undirgöng á Kjalarnesi þar sem þar voru mörg börn í umferðinni og var nú farið í það á sínum tíma. Kjalarnesið verður til dæmis alveg út undan í þessu Allir í strætó-verkefni, þeir hjóla ekkert niður í 101 og fara í vinnuna.

Þetta eru svo rangar áherslur hjá þessari ríkisstjórn og ekki er verið að eyða slysagildrum á höfuðborgarsvæðinu. Hv. innanríkisráðherra sagði að við Reykvíkingar sæjum ekkert annað en mislæg gatnamót upp á einn milljarð hver. Það er bara rangt. Ég er ekki að fara fram á það. Ég fer fram á að hér sé gætt að öryggismálum (Forseti hringir.) og að við séum trygg í borginni.