140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í þessari umræðu hefur auðvitað verið vikið að því áður en mér finnst þó rétt að árétta það með aðeins nákvæmari upplýsingum en hafa komið áður fram hér í dag hvernig gangur þessara mála hefur verið svona ef við horfum á dagsetningar og hvernig tímanum hefur verið háttað í þessum efnum. Ég held að það sé rétt að halda því til haga samhengisins vegna að allt frá því að aðildarumsókn var send af hálfu ríkisstjórnar Íslands eftir samþykkt Alþingis sumarið 2009 hefur verið auðvitað rætt um það að aðildarumsóknin og aðildarferlið gætu skapað Íslendingum möguleika til þess að sækja um styrki í tiltekna sjóði hjá Evrópusambandinu.

Hv. þm. Jón Bjarnason rifjaði upp áðan að upp úr miðju ári 2010 sendi forsætisráðherra bréf til allra ráðherra með ábendingu — ég vil frekar kalla það ábendingu en fyrirmæli — um að fara nú að hefjast handa við að sækja um styrkina. Það var hins vegar ekki fyrr en næstum því ári síðar að gengið var frá þeim samningi, rammasamningi milli Íslands og Evrópusambandsins um þessa styrki sem hér liggur til umræðu og eftir atvikum staðfestingar, því að samningurinn sem þingsályktunartillagan fjallar um er undirritaður í Brussel 8. júlí 2011, en eins og hv. þm. Jón Bjarnason gat um var forsætisráðherra kominn í það að ýta ráðuneytunum í að sækja um styrki næstum því ári fyrr. Á því kunna að vera einhverjar skýringar en þær hafa ekki komið fram við þessa umræðu.

Samningurinn var, eins og ég segi, undirritaður 8. júlí en þingsályktunartillagan sem hér liggur fyrir birtist þó ekki í þinginu fyrr en 2. desember, fimm mánuðum síðar, þannig að af einhverjum ástæðum tók það utanríkisráðuneytið fimm mánuði að útbúa þingsályktunartillögu upp úr samningi sem undirritaður var 8. júlí. Auðvitað þarf að vanda vel til þýðinga og frágangs svona skjala en eins og hv. þingmenn sjá er samningurinn ekki mikill að vöxtum þannig að hafi töfin eingöngu orðið vegna þýðingar samningsins hefur sú þýðingarvinna gengið venju fremur hægt því að þarna ekki um langan texta að ræða. Vera kann að einhverjar aðrar aðstæður hafi valdið því hversu seint þetta mál kemur inn í þingið.

Á sama tíma vann fjármálaráðuneytið að sérstöku skattafrumvarpi sem tengist þessu máli og við höfum aðeins byrjað að ræða hér á þinginu líka þó að við höfum ekki lokið 2. umr. eins og hæstv. forseti þekkir. Það frumvarp kom um svipað leyti inn í þingið, nánar tiltekið 30. nóvember 2011, en á sama tíma og þessi tvö mál, rammasamningurinn annars vegar og frumvarpið um skattfríðindin hins vegar, voru í einhvers konar vinnu í utanríkisráðuneyti og fjármálaráðuneyti var unnið með þessar styrkveitingar í fjárlagaferlinu eins og þessi peningur væri bara fastur í hendi og án allra fyrirvara. Í fjárlagafrumvarpi og síðan í endanlegri útgáfu fjárlaga sem var, ef ég man rétt, samþykkt 16. desember, er gert ráð fyrir fjárveitingum inn og út, bæði á tekju- og gjaldahlið. Var það gert á grundvelli þessara samninga þannig að embættismenn og hv. stjórnarliðar í þinginu treystu sér til þess að setja þetta inn í fjárlög, ganga út frá þessu og þá væntanlega skapa væntingar hjá stofnunum, samtökum og öðrum sem hugsanlega geta komið að því að fá þessa styrki löngu áður en búið var að ganga frá samningnum eða staðfestingu hans sem allar þessar styrkveitingar byggja á og því lagafrumvarpi sem er að því er virðist nauðsynleg forsenda þess að styrkirnir verði veittir.

Allt er þetta mjög sérkennilegt eins og fleiri hv. þingmenn hafa bent á. Fyrri umr. um málið fór fram 24. janúar og sama dag var rætt um frumvarpið við 1. umr. Málin fóru til nefnda og bara svo ég haldi mig við þetta mál virðist samkvæmt bókum þingsins hafa átt sér stað nokkur umræða um það í febrúar og mars á vettvangi utanríkismálanefndar. Svo liðu nokkrar vikur og málið datt inn á dagskrá hv. utanríkismálanefndar 26. apríl og var þar afgreitt út við þær sérkennilegu aðstæður eins og menn þekkja, að nánast enginn af aðalmönnum í nefndinni var viðstaddur. Ef ég man rétt var það þannig að minnihlutaálitið sem reynt hefur verið að skapa einhverja stöðu meirihlutaálits en eingöngu fengust fjórir til að skrifa upp á, var undirritað af tveimur af níu aðalmönnum í utanríkismálanefnd og tveimur sem sóttir voru yfir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í tvær mínútur á meðan málið var tekið út úr utanríkismálanefnd. Var það gert jafnvel þó að fundur væri nýhafinn og vitað að fleiri nefndarmenn væru á leiðinni sem látið höfðu berast um það skilaboð.

Það mundi auðvitað ekki sæta neinum tíðindum nema vegna þeirrar staðreyndar sem auðvitað hefur komið ítrekað fram í umræðunum að ef allir aðalmenn í utanríkismálanefnd, þeir níu þingmenn sem kjörnir eru til setu í utanríkismálanefnd, hefðu verið mættir á fundinn á þessum tíma þegar úttektin átti sér stað hefði málið ekki verið tekið út. Þá hefðu fimm af níu nefndarmönnum lagst gegn málinu. En það var greinilega ákveðið af hálfu stjórnarliða og hv. formanns utanríkismálanefndar að nýta tækifærið, einhverja glufu í upphafi fundar til þess að taka málið út sem hafði legið þar óhreyft í nokkrar vikur og menn sættu færis að gera það áður en aðalmennirnir mættu á fundinn. Verður það auðvitað lengi í minnum haft hér í þinginu hvernig staðið var að þessu.

Það sem ég er að benda á með því að rifja upp þessa sögu er að það hefur frá upphafi verið ætlunin að koma þessum málum í gegn á bjöguðum forsendum, á fölskum forsendum, hafa sumir hv. þingmenn sagt hér í dag að ekki hafi verið gengið hreint til verks. Ég held að það megi til sanns vegar færa, sérstaklega þegar horft er á söguna. Byrjað er á að samþykkja hvernig útdeila eigi þessum væntanlegu peningum eða fjárveitingum í fjárlögum til þess að skapa væntingar hjá mörgum ágætum stofnunum, landshlutasamtökum og sveitarfélögum sem sjá þarna von til að peningar fáist í verkefni sem þeir hafa lengi sóst eftir og lengi vonast til að geta ráðist í. Þegar það er búið, þegar búið er að setja þetta inn í fjárlög, búið að ráðstafa peningunum, ef svo má segja, er komið til okkar í þinginu og sagt: Nú verðið þið að samþykkja rammasamninginn, nú verðið þið að samþykkja lagafrumvarpið af því að það er hvort sem er búið að úthluta þessu í fjárlögum.

Þótt ekki væri annað en þetta er hér um að ræða vinnubrögð sem er ekki með nokkrum hætti hægt að sætta sig við. Þegar svo við bætist að styrkirnir eru tengdir órjúfanlegum böndum aðildarumsókninni og aðlögunarferlinu að Evrópusambandinu, sem trúlega meiri hluti í þinginu er á móti, verður þetta mál allt hið einkennilegasta. Það er einkennilegt hvernig þetta mál hefur verið rekið, bæði aðildarumsóknin sjálf og síðan þetta fylgimál, af því að auðvitað er þetta ekki stóra málið í sambandi við ESB-aðildina, þetta er hliðarmál. En það er mjög einkennilegt í sambandi við þennan málarekstur allan af hálfu ríkisstjórnarinnar hvernig stöðugt er verið að semja sig á meira og minna bjöguðum eða villandi forsendum í gegnum hvern liðinn í ferlinu á fætur öðrum án þess í raun og veru að hin eiginlegi meirihlutavilji í þinginu komi fram. Ég óttast raunar að svo verði einnig í þessu máli að þeim innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem eru í hjarta sínu sammála okkur í stjórnarandstöðunni (Forseti hringir.) og eru andvígir aðildarumsókninni verði stillt kirfilega upp við vegg og eins og oft áður hótað stjórnarslitum og ég veit ekki (Forseti hringir.) hvaða hörmungum, nái þetta mál ekki fram að ganga.