140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Á fyrri stigum þessarar umræðu hef ég getið þess að ég hef varað mikið við þessum styrkjum. Í fyrsta lagi er skattamálið sem fylgir með alveg með ólíkindum og sýnir þann ákveðna vanda að fjöldi fólks í heiminum borgar ekki skatta til ríkjanna þótt það njóti velferðarkerfanna. Þá á ég við utanríkisþjónustu allra ríkja og þessa styrki. Hér á að veita mönnum skattfrelsi þannig að einhver getur verið að vinna á Íslandi án þess að borga til velferðarkerfisins, hvorki hér né annars staðar.

Það sem er kannski verst við þetta er þessi freistnivandi sem hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gat um, frú forseti, sem ég mundi vilja kalla bara mútur. Það er verið að lokka fólk með styrkjum til ýmissa framkvæmda sem það getur fengið vinnu við, t.d. getur Hagstofan gert hluti sem hún gat ella ekki miðað við núverandi stöðu ríkissjóðs. Þetta fólk þrýstir á að fá þessa styrki, að sjálfsögðu. Þetta er spurning um að halda vinnunni eða fá vinnu. Þó að því sé sagt að þessu tengist aðild að Evrópusambandinu, að þetta sé aðlögun að Evrópusambandinu, vegur bara þyngra að fá vinnu í núverandi atvinnuástandi.

Þetta er því mjög lúmsk og ósiðleg aðferð til þess að afla skilnings og velvildar gagnvart aðild að Evrópusambandinu. Ég vara eindregið við þessari aðferð. Ég mun greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi og hef lýst því áður, þannig að ég fer ekki lengra út í það.