Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 18:44:53 (451)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[18:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir ágæta ræðu. Það var reyndar ýmislegt í henni sem truflaði mig eins og t.d. þessi frasi, „græða á daginn og grilla á kvöldin“. Ég skil ekki hvaða erindi hann á í þessa umræðu, ég næ því ekki. Svo var líka þessi lítilsvirðing á þeim sem vilja halda í það sem er gamalt. Það eru sumir sem óttast breytingar á stjórnarskránni — ég vil breyta stjórnarskránni en ég skil þennan ótta vel. Um leið og við breytum stjórnarskránni breytum við líka allri túlkun dómstóla. Dómstólar hafa myndað sér ákveðna túlkun á hverju einasta atriði í stjórnarskránni í dag. Ef stjórnarskránni er breytt geta liðið áratugir þar til aftur kemur fram sama túlkun eða ein túlkun á hverju einasta atriði. Svona miklar breytingar geta því valdið mikilli lögfræðilegri óvissu. Menn eiga að bera virðingu fyrir skoðunum þeirra sem vilja fara sér hægt í því að breyta stjórnarskránni. Þó að ég vilji breyta henni ber ég virðingu fyrir þeim, og mér fannst hv. þingmaður ekki sýna þeim virðingu. Rök þeirra eru væntanlega þau að ef við breytum mjög miklu valdi það mikilli óvissu. Og hverjir skyldu nú líða mest fyrir lögfræðilegu óvissuna, frú forseti? Það eru þeir sem veikast standa í þjóðfélaginu, þeir standa alltaf verst þegar mikil óvissa ríkir.

Það er því viðbúið að ný stjórnarskrá þýði nýja óvissu og alveg sérstaklega þegar orðalagið í henni er ekki nákvæmt og meitlað. Mér finnst ýmislegt í þessari stjórnarskrá, og ég mun koma inn á það í ræðu minni, ekki vera nægilega meitlað þannig að menn viti nákvæmlega hvað er átt við.