Aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf

Þriðjudaginn 08. nóvember 2011, kl. 16:20:39 (1305)


140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:20]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vona að þessi ræða mín verði ekki túlkuð þannig að ég sé að skila auðu en ég ætla að fjalla um áhrifin af þeim efnahagstillögum sem við sjálfstæðismenn leggjum til. Hér er búið að fara yfir margar tillögur okkar en prímus mótor í þessu öllu saman er fjárfesting.

Hér er gert ráð fyrir að fjárfestingin verði á fjórum stöðum. Í fyrsta lagi er það fjárfesting í innviðum, í öðru lagi fjárfesting í sjávarútvegi, í þriðja lagi fjárfesting í orkuverum og iðnaði og í fjórða og síðasta lagi fjárfesting lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem skiptir langmestu máli í þessu sambandi vegna þess að flestöll störf á Íslandi eru í litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Hvernig á að laða fram þessa fjárfestingu? Jú, við gerum ráð fyrir því að fjárfesting í innviðum sé einföld stjórnvaldsákvörðun og á næsta ári verði fjárfest fyrir 26,4 milljarða í innviðum og fyrir 29,5 milljarða árið 2013. Eitthvað af þessum innviðafjárfestingum eru einkafjárfestingar, t.d. Vaðlaheiðargöng, annað lendir beint á ríkissjóði. Það er ljóst að ríkisútgjöld munu hækka sem nemur þessum útgjöldum en tekjur koma líka á móti vegna þess að fjárfestingar í innviðum bera virðisaukaskatt og alls konar skatta sem talið er að séu u.þ.b. 40% af þeim fjárfestingum sem ráðist er í. Nettóáhrifin á ríkissjóð eða verri staða ríkissjóðs verður í kringum 12 milljarðar hvort ár.

Síðan er það fjárfesting í sjávarútvegi. Fjárfesting í sjávarútvegi er í sögulegu lágmarki núna eða um 4,5 milljarðar á ári og hefur verið það síðastliðin þrjú ár. Fyrir hrun var meðalfjárfesting í kringum 17 milljarðar í vélum, tækjum, húsnæði og skipum. Síðan voru aðrar fjárfestingar eins og í kvótum og annað slíkt en við teljum það ekki með. Við gerum ráð fyrir því að vegna mjög lítilla fjárfestinga undanfarin þrjú ár verði fjárfestingastökk og fjárfesting stökkvi úr því að vera í kringum 4,5–5 milljarðar á þessu ári upp í í kringum 26,5 milljarða. Forráðamenn í sjávarútvegi telja að þetta sé jafnvel vanmetið hjá okkur, þeir tala um að við fulla vissu um sjávarútvegskerfið mundu þeir fjárfesta fyrir um það bil 30 milljarða.

Hver er leiðin til þess að laða fram þessa fjárfestingu í sjávarútvegi? Jú, það er að skapa vissu um sjávarútvegskerfið og í því sambandi leggjum við til að farin verði svokölluð samningaleið sem sáttanefndin lagði til. Hún byggir á því að gerðir verði langtímanýtingarsamningar sem útgerðirnar borgi fyrir.

Síðan er það fjárfesting í orkuverum og iðnaði. Á næsta ári er gert ráð fyrir að hún verði um 25,5 milljarðar og 52 milljarðar árið 2013. Þetta eru fjárfestingar í virkjunum og verkefnum tengdum þeim og þetta er ekki mikil fjárfesting á nokkurn hátt ef haft er í huga að það þarf mjög mikla fjármuni til að byggja upp orkuver og stórorkunotendur.

Síðan er það fjárfesting í litlum og meðalstórum fyrirtækjum með öllum þeim ráðum sem hér eru borin fram. Ásamt með fjárfestingu í innviðum, sjávarútvegi, orkuverum og iðnaði og með skattalækkunum og öðru slíku, teljum við að fjárfesting lítilla og meðalstórra fyrirtækja geti orðið allt að 41,6 milljarðar á næsta ári og 21,3 milljarðar árið 2013. Þessu fylgir að ný störf verða til. Miðað við mjög hógvært mat verða til í tengslum við þessa fjárfestingu í kringum 9 þús. störf á næsta ári og 5 þús. störf árið 2013. Stefnan hjá okkur er sú að ná fullu atvinnustigi í gegnum þessar fjárfestingar.

Hvaða áhrif hefur þetta á efnahagskerfið? Það vill svo vel til að í þjóðhagslíkani sem keyrt var í tengslum við þessa vinnu sjáum við að fjárfestingin í hlutfalli við landsframleiðslu fer úr því að vera í sögulegu lágmarki, í kringum 13%, í það að skjótast yfir 20% á næsta ári. Hún fer síðan niður, rétt undir eðlilegt fjárfestingarstig sem er á milli 19 og 20%. Það er sú tala af landsframleiðslu sem ríki OECD hafa búið við, fjárfesting hefur að vísu minnkað örlítið núna, en þetta er samt þó nokkuð minna en Ísland hefur búið við marga undanfarna áratugi.

Ég hef lýst atvinnustiginu en það fer í fullt stig á þarnæsta ári. Fullt atvinnustig þýðir að fyrir hendi verður það sem kallað er náttúrulegt atvinnuleysi eða leitaratvinnuleysi og verður á svipuðu stigi og það var hér fyrir hina miklu þenslu árin 2006, 2007 og jafnvel 2008.

Drifkraftar hagvaxtar eru annars vegar fjárfesting og hins vegar atvinna. Með því að taka fjárfestinguna upp á það stig sem við tölum hér um og atvinnuna stekkur hagvöxtur á næsta ári og þarnæsta ári upp fyrir 4%. Síðan dregur úr og hann fer niður í um það bil 2,5% í kringum árin 2016–2017 og helst þar. Talið er að hagkerfi með fulla nýtingu framleiðsluþátta vaxi með í kringum 2,5% hraða á ári og þá er hvorki um að ræða það sem við köllum framleiðsluspennu eða framleiðsluslaka, þ.e. við eigum ekki að búa við erfiðleika með verðlag og annað slíkt.

Þetta hefur bein áhrif á landsframleiðsluna en hún eykst. Skattgrunnarnir margfrægu stækka og ríkissjóður fer fyrr í plús en ella. Hér er miðað við að árið 2013 verði ríkissjóður kominn á núllið og verði rekinn eftir það með 1–1,5% afgangi sem fer í að borga niður skuldir. Skuldirnar greiðast nokkuð hratt niður og útkoman úr þjóðhagslíkaninu sem var keyrt í tengslum við þetta sýnir að á um það bil fimm til sex árum komast ríkissjóðsskuldirnar niður fyrir 60%.

Þegar hv. þm. Helgi Hjörvar talar um að þetta sé kosningaplagg og algjörlega óraunhæft og það eigi að fara að rústa ríkissjóð og annað slíkt, ætla ég að biðja hann um að fara vel yfir útkomuna úr þjóðhagslíkaninu sem birt eru með þessu. Ég ætla að sannfæra hann um að staða ríkissjóðs verður betri við þessar ráðstafanir en við þá stefnu sem nú er rekin. Ef hann finnur veilu í þessu skal ég biðja hann opinberlega afsökunar á því, en ég hlusta ekki á svona rugl eins og áðan þar sem þingmaðurinn kemur upp og gaggar eins og ég veit ekki hvað og niðurlægir verk þeirra sem hafa unnið þessa áætlun. Ég fullyrði að þetta er samkvæmasta plan í efnahagsmálum sem gert hefur verið á Íslandi síðan við sjálfstæðismenn bjuggum til áætlunina með AGS haustið 2008.

(Forseti (KLM): Ég vil biðja þingmenn að gæta orða sinna og beina máli sínu til forseta.)