Hækkun fargjalda Herjólfs

Mánudaginn 28. nóvember 2011, kl. 16:50:31 (1903)


140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

hækkun fargjalda Herjólfs.

234. mál
[16:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir þessa fyrirspurn. Hún setur fram tvær spurningar. Í fyrsta lagi hver sé rökstuðningur fyrir hækkun fargjalda Herjólfs. Í öðru lagi hver sé afstaða ráðherra til hækkunarinnar.

Varðandi fyrri spurninguna vil ég segja þetta: Gjaldskrá Herjólfs hefur hækkað í samræmi við hækkanir á rekstrarkostnaði ferjunnar árlega og þá oftast í janúar ár hvert. Fyrir gjaldskrárhækkun 1. nóvember síðastliðinn höfðu fargjöld síðast verið hækkuð 1. janúar 2010. Vegna erfiðleika við siglingar Herjólfs í Landeyjahöfn síðastliðinn vetur var ákveðið að bíða með hækkun gjaldskrár 1. janúar 2011 þrátt fyrir hækkanir á rekstrarkostnaði. Við áframhaldandi hækkun á kostnaði, svo sem eldsneytisverði og launum, áframhaldandi niðurskurði í ríkisrekstri auk mikils kostnaðarauka vegna siglinga til Þorlákshafnar, var ekki unnt að bíða lengur með hækkun gjaldskrár, enda duga fjárveitingar ekki lengur fyrir rekstrinum og munu ekki gera þrátt fyrir hækkun fargjalda miðað við óbreytt ástand í siglingum. Frá opnun Landeyjahafnar og fram í ágúst 2011 hefur rekstrarkostnaður ferjunnar hækkað um rúmlega 15% og við það var miðað.

Síðan er það síðari spurningin, hver afstaða ráðherra sé til hækkunarinnar. Að mínu mati var ekki undan því vikist að hækka gjaldskrá Herjólfs og skýra ofangreind rök af hverju.