Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 15:08:45 (3127)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:08]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Við höldum áfram að ræða um bandorm ríkisstjórnarinnar, tillögur í skattamálum, tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Áður en ég sný mér að sjálfu frumvarpinu og efni þess vil ég fara örfáum orðum um þá efnahagsstefnu sem liggur hér að baki og þá möguleika sem við eigum um önnur úrræði og aðra stefnumótun, aðrar áherslur, sem ég hef sannfæringu fyrir að muni skila okkur meiri árangri.

Þá er það fyrsta að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í þrígang á þessu kjörtímabili lagt fram útfærðar efnahagstillögur sem miða að því að auka fjárfestingu og draga úr skattpíningu. Einnig hefur Framsóknarflokkurinn lagt fram tillögur sem eru um margt mjög samstofna og líkar áherslum Sjálfstæðisflokksins. Tveir helstu stjórnarandstöðuflokkarnir hafa þannig verið nokkuð á svipuðum nótum hvað þessa þætti varðar.

Áherslur Sjálfstæðisflokksins í þeim efnahagstillögum sem lagðar voru fram við upphaf þessa þings miðuðu fyrst og síðast að því að auka fjárfestingu í íslensku efnahagslífi. Það er algjört lykilatriði, herra forseti, vegna þess að þegar litið er til þeirra hagtalna sem hafa verið birtar, og nú síðast uppgjör á fyrstu níu mánuðum þessa árs frá Hagstofunni, blasir við að okkur hefur enn ekki tekist að auka fjárfestinguna þannig að við séum að nálgast það sem hefur verið hér að meðaltali. Þá er ég ekki að tala um þau ár sem hér var allt á fullu svingi heldur meðaltalið, þær aðstæður þar sem ekki er bóludrifinn hagvöxtur heldur hagvöxtur sem drifinn er áfram af fjárfestingum.

Það má slá á það að heildarfjárfesting við slíkar aðstæður, þ.e. eðlilegar aðstæður í íslensku efnahagslífi, sé um 20% af landsframleiðslunni. Þá eru taldar saman fjárfestingar atvinnuveganna, fjárfestingar í íbúðarhúsnæði og fjárfestingar hins opinbera.

Hvað varðar verðmætasköpun í landinu til lengri tíma litið skipta fjárfestingar atvinnuveganna mestu. Í tölum Hagstofunnar um fyrstu níu mánuði þessa árs voru alvarleg skilaboð um að okkur tekst ekki að lyfta fjárfestingunni upp úr hinu sögulega lágmarki sem var hér í fyrra. Það eru mjög alvarleg tíðindi.

Á fyrstu níu mánuðum ársins 2010 voru fjárfestingar atvinnuveganna 7,7% af landsframleiðslu. Á fyrstu níu mánuðum þessa árs voru fjárfestingar atvinnuveganna sem hlutfall af landsframleiðslu 8,4%. Þetta, herra forseti, er allt of lágt hlutfall, hættulega lágt hlutfall. Það segir okkur að þegar horft er til næstu ára verður hagvöxtur minni vegna þessa, og þar með kaupmáttaraukning og lífskjarabætur á Íslandi, vegna þess að okkur hefur ekki tekist að koma fjárfestingu atvinnuveganna aftur af stað svo einhverju muni.

Ég verð, herra forseti, að nefna hér eitt vegna þess að menn verða að gæta sín eilítið á prósentutölunum. Hæstv. fjármálaráðherra talaði hér á dögunum eins og að baki þeirri prósentuaukningu að fara úr 7,7 prósentustigum í 8,4 væri myndarlegur vöxtur en þá er rétt að hafa í huga sem dæmi að sjávarútvegurinn á Íslandi hefur fjárfest þetta plús einhvers staðar í kringum 20 milljarða á ári. Á síðustu árum hefur hann fjárfest um 5 milljarða á ári. Þótt svo færi að sjávarútvegurinn fjárfesti fyrir 6 milljarða í stað þess að fjárfesta fyrir 5 milljarða, og þar með væri um 20% vöxtur í þeim fjárfestingum, væri það ekki merki um að við værum komin fyrir vind, að það væri komin upp heilbrigð staða í sjávarútvegsmálum þjóðarinnar. Menn verða að gæta sín á slíkum ranghugmyndum og horfa á raunstærðirnar, horfa á það hvar við erum í raun og veru stödd.

Það sem veldur mér áhyggjum, herra forseti, er það að hagvöxtur ársins í ár er greinilega að stórum hluta drifinn áfram af aukinni einkaneyslu, aukningu í einkaneyslu skuldugustu heimila á byggðu bóli. Það hlýtur að vera áhyggjuefni, herra forseti.

Hvernig skyldi þessi aukna geta til að eyða hafa komið til? Jú, heimilin hafa gengið á séreignarsparnaðinn, hafa tekið hann út. Lán hafa verið fryst. Vextir hafa verið endurgreiddir og sérstakar vaxtabætur hafa verið greiddar. Við höfum farið yfir þetta hér áður, herra forseti, og augljóst má vera og ætti ekki að leynast nokkrum manni að þetta er ekki heilbrigður grunnur undir hagvexti. Við þessu vill Sjálfstæðisflokkurinn bregðast. Það er einmitt vegna þessarar þróunar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram efnahagstillögur sem snúa að því að auka atvinnuvegafjárfestinguna, tryggja að hagvöxtur næstu ára verði byggður upp með þeim hætti að kaupmáttaraukning heimilanna, tekjuauki ríkissjóðs, verði byggð á fjárfestingu atvinnulífsins.

Þegar maður horfir á fjárfestingartölurnar og tekur með í reikninginn þá þörf á fjárfestingum sem nú þegar liggur fyrir bara vegna þess að menn hafa haldið að sér höndum og haldið aftur af sér, tekur með þá uppsöfnuðu þörf sem komin er, sem bætist auðvitað við hina eðlilegu fjárfestingu sem ætti að eiga sér stað til að nýta þau tækifæri sem svo sannarlega eru til staðar á Íslandi, verður þetta enn stærra vandamál.

Við höfum því lagt þunga áherslu á að hið fyrsta verði gengið frá samkomulagi í til dæmis sjávarútvegsmálum og að þeirri óvissu sem þar er uppi verði eytt. Þó að mér þyki það fyrirkomulag sem stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um núna, að láta hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. velferðarráðherra setjast yfir sjávarútvegsmálin, alleinkennilegt og að halda hæstv. sjávarútvegsráðherra til hliðar frá málunum hlýt ég samt sem áður að bera þá von í brjósti að þetta leiði til skynsamlegrar niðurstöðu, sama hvernig hún er fengin, og það leiði til þess að hér náist sátt um málið. Ég vona að hún verði í takti við þá sátt sem hafði náðst á milli stjórnmálaflokkanna hér á Alþingi, þeirra sem hafa verið kosnir af landsmönnum til að fara með hin sameiginlegu mál, og einnig þeirra sem starfa í greininni. (Gripið fram í: Það á að breyta …) Það er eiginlega hörmulegra og þyngra en tárum taki, herra forseti, að við skulum hafa misst af því sögulega tækifæri sem við höfðum til að leiða þessi mál í sátt. Þarna var mikið og gott tækifæri. Mikil ábyrgð hvílir á þeim sem ákváðu að hlaupa frá þeirri sátt til að slá pólitískar keilur.

Herra forseti. Hvað varðar skattamálin og áherslur í þeim ætti það að vera góður og almennur skilningur að eftir því sem skattarnir eru hærri, því erfiðara er fyrir atvinnurekstur í landinu að standa undir þeim lífskjörum sem við svo sannarlega viljum bjóða þjóðinni, erfiðara að grípa til fjárfestinga o.s.frv. Mig langar í því tilefni að grípa niður í texta í athugasemdum við lagafrumvarpið. Á bls. 15 í kafla sem heitir Áhrif tillagna frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt, stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„Lækkun tryggingagjaldsins ætti hins vegar að hafa jákvæð áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna þar sem hún leiðir til lækkunar á tilkostnaði fyrirtækja sem gerir þau betur í stakk búin að greiða hærri laun, lengja vinnutíma eða fjölga starfsmönnum.“

Þetta er alveg hárrétt, herra forseti, sem birtist hér í frumvarpi ríkisstjórnarinnar, þetta eru áhrifin sem koma fram þegar við léttum álögurnar. Þá eru betri tækifæri fyrir fyrirtækin í landinu til að greiða hærri laun, fjárfesta, lengja starfstímann, fjölga störfunum, auka kaupmáttinn. Þetta er skoðun núverandi ríkisstjórnar.

Hærri skattar á heimilin, auknar álögur á fyrirtækin og hærri skattar á fyrirtækin virka akkúrat öfugt, draga úr hvatanum til að fjárfesta, draga úr getu fyrirtækjanna til að borga laun og gera okkur erfiðara fyrir á öllum sviðum. Til lengri tíma litið draga slíkir skattar úr tekjumöguleikum ríkissjóðs.

Ég hef áður úr þessum ræðustól, a.m.k. tvisvar eða þrisvar, minnt á ágæta rannsókn sem gerð var af hagfræðingum við Harvard-háskólann undir forustu dr. Mankiws sem benti einmitt til þess eftir að skoðuð hafði verið reynsla meira en 20 OECD-þjóða yfir langt tímabil um viðbrögð þeirra við efnahagskreppum í marga áratugi að þær þjóðir sem höfðu brugðist við með því að draga úr útgjöldum og lækka skatta voru fljótari að ná sér eftir efnahagsáföll en þær þjóðir sem reyndu að bregðast við með því að auka ríkisútgjöld. Ekki bara voru þær fljótari að ná sér upp, heldur stóðu endurbæturnar lengur og höfðu jákvæðari og meira langvarandi áhrif.

Þetta tel ég nauðsynlegt að hafa í huga þegar við ræðum viðbrögð okkar í ríkisfjármálunum, hvernig best verði á þeim haldið. Þess vegna, herra forseti, skiptir svo miklu máli að ná þessari fjárfestingu upp. Fjárfestingarnar þýða atvinnu. Hagvöxtur eins og sá sem við höfum séð á þessu ári sem er ekki drifinn áfram af þessum fjárfestingum, sá sem býr ekki til störf, hlýtur að vekja upp spurningar.

Herra forseti. Í nóvember á þessu ári var atvinnuleysið 7,1% samkvæmt tölum Hagstofunnar. Í nóvember fyrir ári var atvinnuleysið 7,7%. Í nóvember 2009 var atvinnuleysið 8%. Á þessum tíma, herra forseti, hafa að minnsta kosti 6 þús. Íslendingar flutt úr landi til að leita sér starfa. (Gripið fram í: 15.) Núna eru 11.348 atvinnulausir. Þar fyrir utan eru 6 þús. farnir. Ef það vekur ekki menn til umhugsunar að ef hagvöxturinn mælist á þessum fyrstu níu mánuðum ársins langt yfir 3 prósentustigum án þess að störf verði til þurfa menn auðvitað að horfa aðeins á það hver efnahagsstefnan er.

Vissulega er í þeim hagvexti aukning vegna útflutnings, vegna makrílútflutnings sérstaklega, á þriðja ársfjórðungi. Þá er rétt að hafa í huga að það þýðir að þegar við mælum hagvöxtinn á næsta ári kemur það ekki þar inn. Stóra atriðið er að það eru ákveðin batamerki í hagvaxtartölunni, það er rétt að halda því til haga, það er rétt að minnast á það sem þó er jákvætt, og það snýr að útflutningi.

Þá er líka rétt að hafa það í huga, frú forseti — herra forseti, aldrei þessu vant — hvað þetta varðar að samkeppnisstaða íslenskra útflutningsfyrirtækja hvílir einmitt mjög á því að gengi íslensku krónunnar féll. Þegar erlendir efnahagssérfræðingar hafa velt fyrir sér stöðu mála á Íslandi, viðbrögðum okkar við efnahagshruninu, er tvennt sem stendur eftir, annars vegar það að með því að gengi gjaldmiðilsins féll náðum við að bregðast við og laga hagkerfið að nýjum veruleika og hins vegar það að tekin var sú ákvörðun að bönkunum yrði ekki bjargað með peningum úr ríkissjóði. Þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli. Síðan geta menn horft til landa eins og Írlands þar sem írska ríkið tók ákvörðun um að ábyrgjast skuldir írsku bankanna fyrir hönd írskra skattgreiðenda og Írar búa við evruna sem gerir þeim ekki kleift að auka sinn útflutning í skjóli þess að gengið féll.

Sný ég mér þá að einstökum atriðum í þessu frumvarpi. Í sjálfu sér er af mörgu að taka en ég ætla að byrja á að ræða lífeyrismálin. Hér er verið að gera breytingar á séreignarsparnaðinum. Það er verið að draga úr frádráttarbærninni. Í staðinn fyrir að menn geti dregið 4% frá skatti vegna iðgjaldanna er sú tala færð niður. Ein af tillögum okkar sjálfstæðismanna strax haustið 2009 var að taka þá fjármuni sem voru til staðar í séreignarsparnaðinum og voru eign ríkisins, skatttekjur sem voru geymdar hjá þeim sem voru að ávaxta þessa fjármuni. Tilgangurinn með því fyrirkomulagi er sá að það er skynsamlegt að geyma þá fjármuni til síðari tíma til að bregðast við breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar. En við sjálfstæðismenn sögðum: Það eru það alvarlegir hlutir sem hér hafa gerst, það er það mikil þörf á því að nýta þessa fjármuni núna að við skulum gera það í staðinn fyrir að hækka skatta og álögur á almenning í landinu. Þá lá fyrir, og gerir reyndar enn, að það mundi draga úr vinnu, yfirvinna mundi minnka hjá fólki, það mundi missa atvinnuna og að skuldirnar hefðu vaxið. Ráðstöfunartekjurnar væru því mun minni þegar menn væru búnir að standa skil á afborgunum sínum.

Við slíkar aðstæður varaði Sjálfstæðisflokkurinn við því, og gerir enn, að hækka skatta á almenning. Við lögðum það til sem hluta af efnahagsprógammi okkar að þessir fjármunir yrðu nýttir til þess að koma í veg fyrir slíkt, koma í veg fyrir það að hækkaðar yrðu álögur á almenning. Við höfum haldið þessari stefnu fast fram, gerðum það í efnahagstillögum okkar nú síðast í haust, vegna þess að Ísland hefur ekki efni á því að missa fleiri þúsund manns út úr landinu. Ef 6 þús. manns á vinnualdri fara úr landinu er það alveg gríðarlegt áfall fyrir íslensku þjóðina. Það er varla við hæfi að reyna að setja einhvern peningalegan mælikvarða á það, af því að það er að svo mörgu öðru leyti mikið áfall, en ef við gerum ráð fyrir því að meðallaun séu einhvers staðar í kringum 400 þúsund þýðir það yfir árið þjóðarframleiðslu upp á tæpa 29 milljarða kr. Ef þessir 6 þús. einstaklingar hefðu haft störf við hæfi á Íslandi, og hér er oft um að ræða einmitt ágætlega vel menntað fólk, fólk sem vill ekki sitja aðgerðalaust og fer bara úr landinu af því að það fær ekki viðnám fyrir krafta sína, hefði þjóðarframleiðslan vaxið um um það bil 29 milljarða.

Ef allir þeir aðrir sem hér eru atvinnulausir núna, þessar 11.348 manneskjur sem ganga um atvinnulausar, hefðu líka að meðaltali haft þessi laun er þar um að ræða eina 54 milljarða. Samanlagt gerir þetta um 83 milljarða. Þetta eru mjög háar tölur þegar við setjum þetta í samhengi við landsframleiðslu, herra forseti, og um leið verður ríkissjóður af alveg gríðarlega miklum tekjum. Auðvitað sjáum við ekki fyrir okkur að atvinnuleysi hverfi algjörlega á Íslandi en þetta bregður upp mynd af því hversu mikilvægt það er að hagvöxturinn á Íslandi verði drifinn áfram af fjárfestingum.

Þess vegna lögðum við til þessar útfærslur í lífeyrissjóðamálunum, en það hefur verið farin allt önnur leið. Sú leið var farin að halda opnum þeim möguleika að menn geti tekið lífeyrissparnaðinn út, reyndar var það líka með samþykki okkar árið 2009, en hún hefur verið þannig framkvæmd að með því að hafa þetta opið áfram hefur útgreiðslan orðið grunnur að aukinni einkaneyslu.

Ég held að miklu nær hefði verið að fara þá leið að nota þessa peninga sem ríkið svo sannarlega á þarna til að koma í veg fyrir skattahækkanirnar og gera fólki betur kleift að standa í skilum með afborganir sínar og standa undir neyslu frekar en að byggja neysluna á því að taka þann sparnað sem fólk átti að eiga til elliáranna.

Síðan gerir þessi leið, að draga úr frádráttarbærninni, það að verkum að sparnaður mun minnka. Hvaða áhrif hefur það, herra forseti? Jú, það hefur bara ein áhrif. Fjárfestingar í framtíðinni verða minni sem því nemur. Það er alveg augljóst. Hvernig er sparnaðurinn ávaxtaður? Hann er ávaxtaður þannig að hann fer í fjárfestingar þegar allt er eðlilegt. Hluti af honum fer reyndar því miður núna til þess að fjármagna hallarekstur ríkisins. Þess vegna er svo mikilvægt að ríkið sé rekið með sem minnstum halla, m.a. til þess að sem mestir fjármunir verði eftir fyrir atvinnulífið til að fjárfesta. Fjárfesting dagsins í dag er atvinna og laun morgundagsins. Með því að draga úr sparnaðinum núna minnkum við fjárfestingarnar þegar fram er horft. Þetta er dæmi um ranga forgangsröðun. Sú aðferð sem lagt er upp með í þessu frumvarpi segir: Við ætlum að reyna að auka neysluna.

Herra forseti. Neyslan hefur aukist allt of mikið miðað við þær fjárfestingar sem liggja að baki. Í staðinn fyrir að fara þessa leið átti auðvitað að fara leið í anda þeirra hugmynda sem við sjálfstæðismenn og framsóknarmenn höfum lagt fram sem snúa að því að auka fjárfestingarnar, koma þannig af stað drift í samfélaginu og auka auðvitað tekjur ríkissjóðs en um leið gera atvinnulífinu kleift að borga betri laun, búa til fleiri störf, draga úr kostnaðinum við atvinnuleysið og auka tekjur alls fólksins í landinu. Það er það sem skiptir mestu máli hér.

Í athugasemdum um þetta frumvarp og umræðu um stöðu lífeyrissjóðanna hefur nokkuð verið rætt um það samkomulag sem gert var eða á að gera, herra forseti, um greiðslur lífeyrissjóðanna til sérstakra vaxtabóta.

Á vettvangi fjárlaganefndar spurðum við nefndarmenn á vegum Sjálfstæðisflokksins ítrekað eftir slíku samkomulagi vegna þess að við vildum fá það á hreint áður en fjárlög yrðu samþykkt um hvað þetta samkomulag snerist og hvort yfir höfuð slíkt samkomulag lægi fyrir. Við höfum séð á undanförnum dögum viðbrögð lífeyrissjóðanna og forustumanna þeirra við þessum hugmyndum. Þau eru nánast öll á einn veg. Í þessari hugmynd, herra forseti, er fólgið óréttlæti, það óréttlæti að þeir sem fá lífeyri hjá hinum almennu lífeyrissjóðum sem ekki njóta ríkisábyrgðar munu fá borgað ef þetta samkomulag verður gert eða þvingað fram með lögum. Þá eiga þeir lífeyrissjóðir að greiða til ríkisins og auðvitað þeir lífeyrissjóðir sem eru í umsjá ríkisins, lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna, en þá er bara til að taka og það hefur auðvitað verið nefnt hér áður að þar með liggur fyrir vegna ríkisábyrgðarinnar að þeim sjóðum verða bættar upp þær greiðslur sem fara út úr sjóðunum. Þeir sem þiggja lífeyri úr þeim sjóðum verða þannig ekki fyrir neinni skerðingu vegna þessa. Þeir sem eru hins vegar í almennu lífeyrissjóðunum munu sæta skerðingu og greiða síðan með sköttum sínum það sem upp á vantar í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna.

Mér er mjög til efs, herra forseti, að forustumönnum lífeyrissjóðanna sé yfir höfuð heimilt að gera slíkt samkomulag. Ég sé ekki að það sé heimilt að ákveða að greiða með þessum hætti út úr lífeyrissjóðunum. Með því er líka lífeyrisþegunum mismunað því að sumir þeirra eru skuldugir vegna húsnæðiskaupa, aðrir eiga til dæmis ekki hús, hafa ekki getað ráðist í neinar slíkar fjárfestingar og eru á leigumarkaði.

Ég held að það hefði verið nær að taka þá ákvörðun að halda lífeyrissjóðunum fyrir utan þetta og þá hefði þessi greiðsla komið úr ríkissjóði eftir venjulegum leiðum. Það hefði verið miklu sanngjarnara. Þetta er ósanngjörn leið og um leið er hún líka hættulegt fordæmi. Það er hættulegt að opna inn á það að ríkissjóður geti seilst inn í almennu lífeyrissjóðina til að standa fyrir prógrömmum eins og því sem hér er verið að ræða.

Því er rétt að fara mjög varlega með þetta. Ég tel í það minnsta að það væri skynsamlegt að leggja þessi áform algerlega til hliðar.

Herra forseti. Hér eru líka aðgerðir sem lúta að því að menn hafa þurft að horfast í augu við það að varað var við hugmyndum um afdráttarskatt af vaxtagjöldum aðila með takmarkaða skattskyldu, þ.e. þeirri framkvæmd sem síðan varð ofan á. Við henni var varað strax og hún var lögð til. Það var varað við því að fara þá leið vegna þess að þetta mundi skapa íslenskum fyrirtækjum umtalsverð vandamál með fjármögnun sína. Ég man mjög vel eftir þeirri umræðu í nefndum og hér í þingsalnum, og reyndar almennt. Einhverra hluta vegna var ekki hlustað á þessar viðvaranir heldur farið fram með málið án þess að taka tillit til þeirra. Síðan standa menn frammi fyrir því að þessar viðvaranir áttu fullan rétt á sér. Nú standa menn frammi fyrir því að það þarf að gera breytingar á þessu skattfyrirkomulagi vegna þess að þetta veldur skaða.

Herra forseti. Hér hefur oft verið rætt um nauðsyn þess að vanda vinnubrögð, breyta þeim og reyna að gera hlutina betur, og að í lagasetningu sé fyrst og síðast hugað að því að vanda allt vinnulag, hlusta á öll sjónarmið, taka tillit til þeirra, sama hvort þau koma frá pólitískum andstæðingum eða ekki, hlusta vel eftir athugasemdum hagsmunaaðila þannig að lagasetningin nái tilgangi sínum og valdi ekki skaða.

Það er alveg augljóst að þetta fyrirkomulag var óskynsamlegt. Nú stendur til af hálfu fjármálaráðuneytisins og annarra að endurskoða þetta allt saman. Hér stendur í athugasemdum frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga var boðuð lagabreyting þannig að skatturinn nái einungis til vaxtatekna af íslenskum verðbréfum en ekki til erlendra lánasamninga. Vinnu við þetta lagaákvæði er ekki lokið og er því lagt til að skatturinn verði lækkaður verulega með það fyrir augum að endurskoðað og breytt ákvæði taki gildi frá og með árinu 2013.“

Hér er viðurkennt, svo ég haldi áfram að lesa, herra forseti, að „ýmis álitamál [hafi komið upp vegna þessarar skattlagningar], bæði varðandi túlkun og framkvæmd þess. Jafnframt liggur fyrir að íslensk fyrirtæki eru í einhverjum mæli að taka á sig skattinn vegna ákvæða í lánasamningum sem tryggja lánveitanda vaxtatekjur án afdráttarskatta“.

Það er heila málið, herra forseti. En þetta kom ekkert upp núna við framkvæmdina. Það var búið að vara alveg eindregið við þessu. Menn gerðu sér grein fyrir að þetta mundi gerast. Samt var farið af stað. Á þetta var ekki hlustað. Þá komum við aftur að sama málinu.

Allt það sem við erum að gera á vettvangi ríkisfjármála og í lagasetningunni verður enn og aftur að miða að því að ríkissjóður sé í jafnvægi, skattlagningin sé skynsamleg og hófleg og að það sé búið til svigrúm fyrir atvinnulífið í landinu til að búa til störf. Að yfir 11 þús. einstaklingar séu atvinnulausir er hörmulegt. Það er hörmulegt fyrir hagkerfið, en enginn nema sá sem hefur lent í slíku og reynt það á eigin skinni veit hvaða sálarkvalir fylgja því að vera atvinnulaus, að geta ekki séð sjálfum sér og sínum farborða. Það eru ömurleg örlög og ömurlegar aðstæður, herra forseti, sem og það að 6 þús. einstaklingar skuli hafa þurft að flytja úr landi til að leita sér að atvinnu, ekki vegna þess að þetta fólk hafi ekki viljað búa á Íslandi heldur vegna þess að það fékk ekki tækifæri, það hafði ekki atvinnu.

Þetta litla mál sem ég nefndi hér áðan, sem auðvitað er ekkert lítið, sem snýr að því hvernig við byggjum skattalöggjöf okkar er dæmi um það þar sem okkur verður á — auðvitað er gott að menn skuli horfast í augu við það og ætla sér að breyta, en það var búið að vara svo ítrekað við þessu. Ef það snýr að því að í hvert skipti sem við gerum svona mistök, hvert skipti sem við hækkum skattana, hvert skipti sem við hækkum álögurnar erum við án vafa að draga úr möguleikum atvinnulífsins til að fjárfesta og til að búa til arðbær störf.

Þess vegna er efnahagsstefnan sem liggur að baki þessu plaggi röng, efnahagsstefnan sem birtist í fjárlagafrumvarpinu og efnahagsstefnan sem birtist í hagvexti án fjárfestinga atvinnuveganna, án þess að þar sé alvöruvöxtur, efnahagsstefna sem nær ekki að vinna niður atvinnuleysið, í það minnsta ekki nægjanlega hratt. Ef við bættum þessum 6 þús. manns sem fór úr landi við þau 11 þúsund sem eru atvinnulaus sjá menn auðvitað hver atvinnuleysistalan er í raun.

Síðan er hitt sem ég vil nefna undir lokin í mínu máli, við þurfum að athuga verklagið í þinginu varðandi fjárlögin og hvernig við vinnum þau. Á vettvangi fjárlaganefndar hefur myndast ágæt samstaða um það sem meðal annars birtist í tillögugerð um breytingar á 6. gr. heimildum svokölluðum sem voru samþykktar hér í þinginu. Þær snúa að því að auka eftirlitshlutverk og vald þingsins yfir fjárlögunum. Þá er auðvitað til umhugsunar það verklag okkar að ganga fyrst frá fjárlögum og síðan binda í lög þá skatta sem nauðsynlegir eru til að fylla út í tekjuhlið þess sama fjárlagafrumvarps. Það er í það minnsta þess virði að velta því fyrir sér, herra forseti, hvort ekki sé rétt að ganga fyrst frá skattahlutanum þannig að það liggi fyrir hvaða skattar hafa verið samþykktir þannig að menn geti gengið frá því og síðan tekið ákvarðanir um hvernig eigi að binda þetta inn í fjárlög. Með því að við höfum samþykkt fjárlögin verður umræðan um þessa skatta um margt önnur. Það er búið að samþykkja hversu mikið það er sem við ætlum að afla tekna til að standa undir þessu. Þingið er búið að segja að það eigi að afla svo og svo mikilla tekna, þá erum við sem hér erum að ræða þessi mál komin í allt aðra stöðu en ef við ræddum þann þátt málsins áður en kemur að samþykkt fjárlaga.

Ég held að það sé að minnsta kosti einnar messu virði að fara í nokkra umræðu og kannski vinnu um það hvernig mætti breyta þessu fyrirkomulagi.

Að lokum vil ég gera aðeins að umræðuefni að í öllu því sem við erum að gera hvað varðar fjárlög íslenska ríkisins, áætlanir okkar um tekjur o.s.frv., erum við mjög háð því hver þróun mála verður á alþjóðavettvangi og í alþjóðaefnahagsmálum. Það er ástæða fyrir okkur til að vera mjög svo á verði núna, sérstaklega hvað varðar samskipti okkar þar sem við eigum samskipti við Evrópuríkin sem auðvitað skiptir svo miklu máli fyrir okkur, aðalviðskiptalönd okkar og vinaþjóðir, að í þeim forsendum sem menn hafa gefið sér um afkomu atvinnuveganna er rétt að hafa í huga að í þeim hagspám sem hafa komið er til dæmis gert ráð fyrir því að á næsta ári muni verð á sjávarafurðum áfram hækka. Það hefur mikið með það að gera, herra forseti, hvernig kaupmáttarþróun verður í Evrópu. Því miður hefur maður auðvitað áhyggjur af því að á næsta ári muni heldur syrta í álinn þar á bæ frekar en að úr rætist. Hagvöxtur er mjög lítill.

Reyndar vil ég skjóta því að enn og aftur að nauðsynlegt er að hafa það í huga þegar við ræðum hér hagvaxtartölur að þegar við Íslendingar horfum á hagvöxtinn hér er það svo að enn fjölgar fólki sem kemur inn á vinnumarkaðinn miðað við það sem fer út — þjóðinni er enn að fjölga — og bara það eitt og sér gerir kröfu um að við þurfum að ná 1,5%–2% hagvexti til að mæta þeim fjölda. Það er nauðsynlegt að hafa það í huga.

Þegar við horfum á hagvaxtartölurnar í Evrópu blasir við að þær tölur eru mjög lágar. Miðað við þá umræðu og það sem maður heyrir og fylgist með í öllum þeim erfiðleikum er því miður ekki að sjá fram undan neinar slíkar lausnir sem gefi tilefni til að ætla að fram undan sé einhver kippur í hagvexti þar. Því miður.

Við þurfum að undirbúa það mjög vel hér og ég spyr: Höfum við gert allar okkar viðbragðsáætlanir og eigum við þær tilbúnar ef til dæmis svo hörmulega færi að evrusamstarfið gæfi eftir? Það er auðvitað möguleiki. Eru til einhverjar viðbragðsáætlanir um hvernig eigi að bregðast við? Eru tilbúnir einhverjir starfshópar á vegum hins opinbera um það hvernig skuli bregðast við?

Það er rétt að hafa í huga hvað varðar þær forsendur sem liggja hér undir þessum fjárlögum, því sem við erum að gera hér, að þessi þáttur málsins, viðskiptakjör okkar, möguleikar okkar á því að auka útflutning, fá hærra verð fyrir vörur okkar, er mjög svo háður því hvernig þróun mála verður, einkum og sér í lagi í Evrópu.