Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 14. desember 2011, kl. 20:10:39 (3162)


140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[20:10]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða innsýn inn í afstöðu þingflokks sjálfstæðismanna til skattahækkana sem lagðar eru til af núverandi stjórnarmeirihluta. Ég kem upp til að spyrja hv. þingmann út í það hvernig þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hugðist fjármagna allar þær breytingartillögur sem komu frá fulltrúum flokksins þegar við ræddum fjárlagafrumvarpið. Allar breytingartillögurnar fólu í sér útgjaldaaukningu. Ég átti von á því þá að í umræðu um tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins kæmu fram tillögur um hvernig Sjálfstæðisflokkurinn vildi fjármagna þessar útgjaldatillögur. Þær hafa ekki litið dagsins ljós.

Ég vil því spyrja hv. þingmann: Hvernig ætluðuð þið að fjármagna þessar útgjaldatillögur? Ef svarið verður það sem mig grunar, að það eigi að draga allar skattahækkanir til baka frá 2009 og treysta á að veltan í samfélaginu aukist í gegnum aukinn hagvöxt, þá spyr ég: Hefur hv. þingmaður trú á því að veltan muni aukast svo mjög að skatttekjur sem ríkið verður af, sem verða væntanlega um 90 milljarðar, komi inn í ríkissjóð á einu ári og hvar á þá að fjármagna þann halla sem er núna á ríkissjóði, 21 milljarð?