Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 12. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 12  —  12. mál.
Tillaga til þingsályktunarum úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

Flm.: Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Skúli Helgason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,
Margrét Tryggvadóttir, Guðmundur Steingrímsson, Ólína Þorvarðardóttir,
Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Árni Þór Sigurðsson,
Magnús Orri Schram, Mörður Árnason.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem geri úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði og setji fram tillögur um hvernig styrkja má stöðu neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum. Nefndin skoði verkaskiptingu Stjórnarráðsins og stöðu sjálfstæðra stofnana sérstaklega og geri tillögur um breytingar ef þörf krefur. Tillögur nefndarinnar miði að því að bæta stöðu neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum, auka ábyrgð fjármálafyrirtækja gagnvart neytendum, bæta samkeppni á fjármálamarkaði neytendum í hag, tryggja öflugt eftirlit stjórnvalda með fjármálamarkaði og auka fjármálafræðslu til neytenda. Við tillögugerðina hafi nefndin hliðsjón af stöðu neytenda samkvæmt reglum Evrópusambandsins og líti til framkvæmdar neytendaverndarmála annars staðar á Norðurlöndum, í Kanada, Bandaríkjum Norður-Ameríku og víðar ef nauðsynlegt reynist.

Greinargerð.


    Hrun íslenska fjármálakerfisins leiddi í ljós mikla ágalla á stöðu skuldara gagnvart fjármálafyrirtækjum. Starfshættir fjármálafyrirtækja voru um margt óvandaðir og eftirlit ríkisins með þeim ábótavant, enda hafa dómstólar þurft að grípa í taumana og skera úr um lögmæti lánasamninga. Af þessum ástæðum og vegna almenns skuldavanda í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2008 ríkir almennt mikil óánægja með fjármálastofnanir meðal landsmanna. Við þessu er nauðsynlegt að bregðast og ráðast í heildarúttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði og styrkja stöðu neytenda. Markmið stjórnvalda á að vera að íslensk neytendavernd á fjármálamarkaði sé ekki síðri en best gerist á Vesturlöndum.
    Reynslan hefur sýnt að nauðsynlegt er að ríkisvaldið hafi virkt eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Bankar og aðrar fjármálastofnanir hafa yfir að ráða sérfræðikunnáttu og styrk umfram einstaka neytendur og því er mikilvægt að vernda stöðu neytenda. Á síðustu árum hafa lög um fjármálafyrirtæki verið endurskoðuð, lög sett til að bæta réttarstöðu skuldara auk þess sem embætti umboðsmanns skuldara hefur verið stofnað. Að mati flutningsmanna er nú mikilvægt að taka næsta skref í þessum efnum og fara með heildstæðum hætti yfir réttarstöðu neytenda á fjármálamarkaði og skilgreina hvernig neytendavernd verði best fyrir komið hjá opinberum aðilum. Víða er pottur brotinn í þessum efnum og t.d. ljóst að betra eftirlit með gengistryggðum lánum hefði sparað mikla fjármuni og erfiðleika hjá skuldurum.
    Eitt af því sem nefndin þarf að fara yfir er skipan neytendaverndar í Stjórnarráðinu og hjá stofnunum ríkisins. Í kjölfar fjármálakreppunnar var í Bandaríkjunum sett upp sérstök stofnun til að sinna málefnum neytenda á fjármálamarkaði (e. Consumer Financial Protection Bureau) og tók hún nýlega til starfa með formlegum hætti. Þessi stofnun á sér að nokkru fyrirmynd frá Kanada, en þar hefur slík stofnun (e. Financial Consumer Agency of Canada) verið starfrækt síðan 2001 við góðan orðstír. Við uppstokkun þessara mála hlýtur ný stofnun af þessu tagi að koma til álita sem valkostur til að tryggja viðunandi neytendavernd til framtíðar og er því mikilvægt að nefndin fari yfir hlutverk hennar sérstaklega og meti í samanburði við aðra valkosti. Þess má geta að í könnun World Economic Forum á samkeppnishæfni ríkja 2011–2012 var Kanada efst á lista hvað varðaði traust á bankakerfinu.
    Eðlilegt er að forsætisráðherra skipi formann nefndarinnar án tilnefningar, en efnahags- og viðskiptaráðherra, innanríkisráðherra og velferðarráðherra tilnefni hver sinn fulltrúa. Auk þeirra er eðlilegt að Neytendasamtökin og Samtök fjármálafyrirtækja tilnefni fulltrúa í nefndina. Mikilvægt er að nefndin hafi í starfi sínu gott samstarf við Neytendastofu, Samkeppnisstofnun, talsmann neytenda og umboðsmann skuldara, auk hagsmunasamtaka á borð við ASÍ, BSRB, BHM og Hagsmunasamtök heimilanna. Nauðsynlegt er að ríkisstjórnin tryggi nefndinni starfsmann og aðgang að sérfræðiþjónustu jafnt innan lands sem utan.