Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 68. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 68  —  68. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

Flm.: Ólína Þorvarðardóttir, Helgi Hjörvar, Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Oddný G. Harðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Skúli Helgason,
Valgerður Bjarnadóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson,
Magnús Orri Schram, Lúðvík Geirsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar þar sem bornar verði upp grundvallarspurningar, m.a. um hvort taka eigi upp nýtt fiskveiðistjórnarkerfi, setja sérstakt stjórnarskrárákvæði um þjóðareign auðlindarinnar og innkalla aflaheimildir og endurúthluta þeim gegn gjaldi til þjóðarinnar.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 139. löggjafarþingi og er nú endurflutt.
    Í sáttmála stjórnarflokkanna er kveðið á um mikilvægi þess að standa vörð um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum. Þar er enn fremur kveðið á um breytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi að undangengnu samráði við hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Niðurstaða þess samráðs liggur fyrir í skýrslu starfshóps um endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun sem afhent var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 6. september 2010. Á grundvelli þeirrar skýrslu lagði ráðherra fram frumvarp að breyttu fiskveiðistjórnarkerfi á 139. löggjafarþingi en málið varð ekki útkljáð á því þingi.
    Skoðanakannanir undanfarinna mánaða og missira hafa sýnt ríkan vilja meðal þjóðarinnar til þess að fyrirheit ríkisstjórnarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu nái fram að ganga. Um fá mál hafa þó ríkt harðari deilur undanfarin tvö ár en fyrirhugaðar breytingar á fiskviðistjórnuninni. Er því brýnt að fá úr því skorið hver þjóðarviljinn er í þessu efni.
    Markmið sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fiskveiðar umhverfis landið séu hagkvæmar og skapi verðmæti og störf en séu jafnframt sjálfbærar og vistvænar og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um verndun vistkerfa, lífríkis og hafsbotns. Mörkuð er sú stefna að veiðiheimildir skuli ákvarðast af nýtingarstefnu sem byggist á aflareglu hverju sinni. Því er heitið í stjórnarsáttmálanum að með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá verði undirstrikað að fiskstofnarnir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar, enda segir í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildunum.
    Þá er því einnig heitið að brugðist verði frekar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 24. október 2007, m.a. með því að gæta atvinnufrelsis og tryggja að jafnræðis verði gætt við úthlutun afnotaréttarins og aðgengi að hinni sameiginlegu auðlind.
    Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn atvinnulífsins sem fram undan er. Það er því afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma, en jafnframt verði leitað sátta um stjórn fiskveiða eins og segir í stjórnarsáttmálanum. Meðal brýnna aðgerða sem stjórnarsáttmálinn kveður á um er að:
          takmarka framsal á aflaheimildum, auka veiðiskyldu og endurskoða tilfærslur á heimildum milli ára,
          stofna auðlindasjóð sem fer með ráðstöfun fiskveiðiréttinda í eigu þjóðarinnar, arður af rekstri sjóðsins renni til atvinnuuppbyggingar.
    Þá er því heitið að lög um stjórn fiskveiða verði endurskoðuð í heild með það að markmiði að:
          stuðla að vernd fiskstofna,
          stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávar,
          treysta atvinnu,
          efla byggð í landinu,
          skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar,
          leggja grunn að innköllun og endurráðstöfun aflaheimilda á 20 ára tímabili í samræmi við stefnu beggja flokka.
    Flutningsmenn tillögunnar telja að ekki verði undan því vikist að efna fyrirheit stjórnarflokkanna um breytingar á fiskveiðistjórninni. Niðurstaða starfshóps sjávarútvegsráðherra og málflutningur forsvarsmanna Landssambands íslenskra útvegsmanna undanfarið bendir hins vegar til þess að breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu muni vart nást fram í fullu samkomulagi við alla hagsmunaaðila.
    Flutningsmenn telja að full ástæða sé til þess að þjóðin fái að tjá hug sinn um þetta mikilvæga mál.
    Með þingsályktunartillögu þessari er ríkisstjórninni falið að vinna að framgangi málsins og láta orða þær spurningar sem æskilegt er að þjóðin svari.