Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 75. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 75  —  75. mál.
Tillaga til þingsályktunar

um ljóðakennslu og skólasöng.

Flm.: Árni Johnsen, Ólína Þorvarðardóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir,
Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Tryggvi Þór Herbertsson, Vigdís Hauksdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálamálaráðherra að vinna að því að auka hlut ljóðakennslu og skólasöngs í námskrá grunnskóla og framhaldsskóla.

Greinargerð.

    Reynslan hefur sýnt að ljóðakennsla í skólum landsins hefur leitt til betri málnotkunar nemenda og styrkari tengingar þeirra við hrynjandi og myndræna möguleika íslenskrar tungu. Ljóðakennslan hefur reynst mörgum sem traustur lífsförunautur og styrkt málnotkun á áberandi hátt. Fátt er eins brothætt og orð og því skiptir höfuðmáli fyrir notkun íslenskrar tungu að ræktuð sé tilfinning fyrir myndauðgi tungunnar og fátt styrkir þann þátt betur en ljóðalestur, lestur Íslendingasagna og lestur vel skrifaðrar bókar. Styrkur ljóðanna í þessu efni er hins vegar nákvæmni þeirra og hnitmiðuð orðanotkun sem kallar á sjálfstæða hugsun og mat lesandans.
    Skólasöngur er að mörgu leyti tengdur ljóðunum því að mörg ljóð, ekki síst eldri ljóð, eiga kjól sem heitir lag og ef vel tekst til spretta ljóð og lag eins og eineggja tvíburar. Að auki er eðlilegt í almennum skólasöng að syngja hefðbundin fjöldasöngslög sem oft byggjast á söngtextum frekar en beinum ljóðum. Það fer ekkert á milli mála að samsöngur af öllu tagi er þroskandi og mikilvægur félagslegur þáttur og ekki skemmir að hann er að öllu jöfnu mjög skemmtilegur þáttur hins daglega lífs bæði hversdags og á góðum stundum. Í öllum byggðum landsins og líkast til í öllum skólum er fólk sem getur á auðveldan hátt staðið fyrir fjöldasöng og virkjað þannig jákvæða hlið nemenda.