Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 87. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 87  —  87. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Flm.: Árni Johnsen, Björgvin G. Sigurðsson, Jón Gunnarsson,
Kristján Þór Júlíusson, Pétur H. Blöndal.


1. gr.

    Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Ökumanni sem hyggst beygja til hægri við gatnamót á umferðarljósum er heimilt að beygja á móti rauðu ljósi nema sérstaklega sé tekið fram að það sé óheimilt. Hann skal þó ætíð stöðva ökutæki sitt eins og við stöðvunarskyldu og veita umferð sem kemur úr öðrum áttum forgang.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var áður flutt á 135., 136., 138. og 139. löggjafarþingi.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að heimila ökumönnum að taka hægri beygju á ljósastýrðum gatnamótum gegn rauðu ljósi þar sem það er óhætt, einkum með það fyrir augum að greiða fyrir umferð. Þannig má stytta nokkuð biðtíma við ljósastýrð gatnamót og jafnvel sums staðar draga úr þörf fyrir afreinar. Gert er ráð fyrir að ökumönnum beri ávallt að stöðva ökutæki sitt algerlega eins og um stöðvunarskyldu væri að ræða áður en hægri beygja er tekin gegn rauðu ljósi.
    Ef frumvarp þetta verður að lögum mun gilda sú almenna regla að heimilt sé að taka hægri beygju gegn rauðu ljósi nema það sé sérstaklega bannað.
    Flutningsmenn telja að þessi leið geti greitt fyrir umferð á vissum stöðum en vekja athygli á að því fylgir ábyrgð að aka gegn rauðu ljósi og að ökumenn sem nýta sér þennan rétt til hagræðis verði að gæta fyllstu varúðar, meta aðstæður og virða almennar umferðarreglur.