Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 142. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 142  —  142. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

Flm.: Bjarni Benediktsson, Ólöf Nordal, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson,
Birgir Ármannson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Einar K. Guðfinnsson,
Illugi Gunnarsson, Jón Gunnarsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Pétur H. Blöndal,
Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Með hliðsjón af mikilvægi þess að leysa fjárhagsvanda heimila og fyrirtækja, endurskoða og skipuleggja hagstjórnina, endurskoða regluumgjörð fjármálamarkaða, og endurvekja traust á efnahagslífinu og tryggja hvata til atvinnusköpunar og hagvaxtar, ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að grípa til eftirfarandi aðgerða:

     1.      Fjármál heimilanna.
     a.      Allar skattahækkanir sem ríkisstjórnin hefur lagt á síðan 2009 verði dregnar til baka.
     b.      Ríkisendurskoðun og viðeigandi aðilum (bönkunum, FME og Seðlabanka Íslands) verði falið að leggja fram upplýsingar fyrir 1. desember 2011 um hve stór hluti lána heimilanna sem fluttur var milli gömlu og nýju bankanna hafi verið afskrifaður. Jafnframt skal það útskýrt hvernig það svigrúm sem myndaðist við flutninginn hafi verið nýtt í þágu heimilanna.
     c.      Lokið verði endurskipulagningu fjármála heimilanna. Miðað verði við svokallaða 110%- leið á grundvelli fasteignamats eða markaðsvirðis eftir því hvort viðmiðið er hagstæðara fyrir skuldarann. Mikilvægt er að allar fjármálastofnanir noti sömu viðmið við beitingu úrræðisins. Kanna þarf með hvaða hætti er hægt að koma til móts við þá sem fengið hafa lánsveð en ekki notið úrræða 110%-leiðarinnar þrátt fyrir yfirskuldsetningu.
     d.      Öllum viðskiptavinum Íbúðalánasjóðs verði boðið að skipta úr verðtryggðum fasteignalánum í óverðtryggð lán með föstum vöxtum til fimm ára en að þeim tíma liðnum verði vextir endurskoðaðir.
     e.      Ef þau úrræði sem verða í boði duga ekki til þess að viðkomandi fjölskyldur geti staðið við skuldbindingar sínar þarf þeim að vera heimilt að afsala fasteign til viðkomandi fjármálastofnunar og falli þá niður allar kröfur á skuldara vegna húsnæðis í framhaldinu. Þetta úrræði sem hugsað er til að forðast óþarfa gjaldþrot verði í boði til loka árs 2013.
     f.      Stimpilgjöld verði afnumin í þeim tilgangi að auka samkeppni fjármálastofnana og auðvelda einstaklingum að njóta bestu kjara við endurfjármögnun skulda.
     g.      Tryggt verði að afskrifaðar skuldir einstaklinga myndi ekki stofn til álagningar tekjuskatts.
     h.      Endurskoðaðar verði reglur um endurreikning ólöglegra gengislána.
     i.      Leitað verði leiða til að auðvelda fyrstu fasteignakaup.
     j.      Grundvöllur vaxta- og húsaleigubóta verði styrktur í þágu þeirra sem búa við bágust kjörin.
     k.      Tollar, vörugjöld og aðflutningsgjöld af nauðsynjavörum verði endurskoðuð með það að markmiði að lækka vöruverð og örva verslun í landinu.
     l.      Tekið verði sérstakt tillit til bænda vegna þess vanda sem felst í misræmi á milli eignastöðu og afkomu.
     m.      Virðisaukaskattur á barnaföt og nauðsynjavörur tengdar barnauppeldi verði færður í neðra skattþrepið.

     2.      Fjárfesting.
Fjárfestingar atvinnulífsins.
     a.      Fallið verði frá þeim hugmyndum sem birtust í frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða. Þess í stað verði staðið við þá sátt sem náðist haustið 2010 og fól í sér að gerðir yrðu nýtingarsamningar við útgerðir til lengri tíma, með skýrum endurnýjunarrétti. Fyrir þennan nýtingarrétt greiði útgerðir gjald í ríkissjóð. Þannig verði óvissu eytt um mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar og lagður grunnur að fjárfestingum greinarinnar.
     b.      Skattahækkanir sem orðið hafa síðan 2009 verði dregnar til baka á næstu tveimur árum.
     c.      Ráðist verði í endurskoðun á skattaumhverfi fyrirtækja í samstarfi við atvinnulífið með það fyrir augum að einfalda skattkerfið og auka skilvirkni þess.
     d.      Fyrirtækjum sem fjárfesta árabilið 2012–2013 verði gefinn kostur á að afskrifa fjárfestingarnar 30% hraðar en núverandi skattareglur leyfa.
     e.      Ríkið endurgreiði fyrirtækjum ígildi tryggingagjalds í tvö ár fyrir hvern starfsmann sem það ræður til sín varanlega af atvinnuleysisskrá í störf sem eru til viðbótar við þau sem eru þegar hjá fyrirtækinu. Hærra endurgjald verði greitt vegna þeirra einstaklinga sem hafa verið á atvinnuleysisskrá lengur en í þrjá mánuði.
     f.      Aðilar vinnumarkaðarins taki yfir verkefni Vinnumálastofnunar.
     g.      Lokið verði við endurskipulagningu skulda fyrirtækja eigi síðar en 31. mars 2012 og verði tækjum löggjafans beitt til að þvinga bankakerfið til að hlíta þeirri dagsetningu.

Fjárfesting í innviðum.
     a.      Hafist verði þegar handa við undirbúning átaks sem miði að því að fjárfesta í innviðum samfélagsins. 22,6 milljörðum kr. verði varið til verkefnisins hvort ár 2012 og 2013. Sérstakt átak verði gert í umferðaröryggismálum.
     b.      Framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar verði lögð til grundvallar við uppbyggingu orkuframleiðslu á næstu árum. Þó hefjist framkvæmdir í neðri hluta Þjórsá strax á næsta ári.
     c.      Lífeyrissjóðum verði gert kleift að taka þátt í verkefnafjármögnun með orkufyrirtækjunum, bæði með lánsfé og hlutafé.

     3.      Hagstjórnin og fjármálakerfið.
     a.      Gjaldeyrishöft verði afnumin innan árs.
     b.      Sett verði sparnaðarkrafa á ríkissjóð um 17,6 milljarða kr.
     c.      Löggjöf um fjármálamarkaði verði endurskoðuð til að tryggja fjármálalegan stöðugleika. Alþingi hafi aðkomu að endurskoðuninni.
     d.      Viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi verði aðskilin til að minnka áhættu í fjármálakerfinu.
     e.      Peningastefnan og gjaldeyrismál verði endurskoðuð með það í huga að auka stöðugleika gjaldmiðilsins. Alþingi hafi aðkomu að endurskoðuninni.
     f.      Bankaeftirlitshlutverk FME verði fært til Seðlabanka Íslands til að tryggja betur eftirlit með fjármálalegum stöðugleika.
     g.      Neytendavernd FME verði efld.
     h.      Innleidd verði formleg fjármálaregla í ríkisfjármálum til að styðja betur við peningamálastjórnina og koma í veg fyrir skuldasöfnun.
     i.      Hafin verði skattlagning inngreiðslna séreignarlífeyrissparnaðar í stað útgreiðslna.

Greinargerð.


    Í þriðja skipti á þessu kjörtímabili leggur Sjálfstæðisflokkurinn fram ítarlegar efnahagstillögur sem miða að því að skapa störf, efla atvinnulíf og kaupmátt heimila og renna traustari stoðum undir stöðu ríkissjóðs.
    Framvinda efnahagsmála hefur orðið mun óhagstæðari en vonir stóðu til þegar efnahagsáætlun stjórnvalda og AGS var gerð haustið 2008. Þar munar mestu um hve slakinn í hagkerfinu hefur verið mikill og fjárfestingar dregist. Í stað þess að fylkja þjóðinni um að taka sameiginlega á efnahagsvandanum með hvetjandi aðgerðum hefur ríkisstjórnin vanmetið vanda heimilanna og valdið algjörri óvissu um rekstrarumhverfi atvinnulífsins. Stöðugar skattahækkanir hafa dregið úr ráðstöfunartekjum fólks og bælt fjárfestingu.
    Hér eru lagðar fram tillögur til mikilvægra úrbóta í þessari viðkvæmu stöðu. Megináherslan er lögð á að skapa umgjörð um efnahagslífið sem efli atvinnu og bæti afkomu heimilanna. Það verði gert með raunhæfum áætlunum í ríkisfjármálum, skattalækkunum, nýjum framkvæmdum, vinveittu efnahagsumhverfi og umbótum í skuldamálaum heimila og fyrirtækja. Háir skattar draga án nokkurs vafa kraftinn úr efnahagslífinu og þar með seinkar efnahagsbatanum.
    Samkeppnishæfni þjóðarinnar hefur hrapað, skattbyrðin er orðin sú þyngsta meðal aðildarríkja OECD (að teknu tilliti til fyrirkomulags lífeyrismála) og loks má nefna að landið er í flokki með Egyptalandi, Sambíu, Sádí-Arabíu, Rússlandi og Kína hvað varðar pólitíska áhættu samkvæmt mælingum áhættumatsfyrirtækisins Aon. Þá hefur nýlega komið fram hjá OECD að Ísland sé það land meðal aðildarríkja sem girðir sig mest af frá erlendum fjárfestum. Ef fram heldur sem horfir er ljóst að enn mun vandinn aukast. Í máli Samtaka atvinnulífsins hefur komið fram að verði ekki gripið í taumana nú sé raunveruleg hætta á því að þessi efnahagslægð vari út áratuginn. Miðstjórn ASÍ hefur einnig gagnrýnt þá stefnu sem liggur til grundvallar nýframkomnu fjárlagafrumvarpi og sagt forsendur þess reistar á bjartsýni sem lítil innstæða sé fyrir.
    Markmiðið með þessum tillögu er að bæta stöðu heimilanna í landinu. Það verður aðeins gert með heilbrigðu atvinnulífi og sjálfbærum ríkissjóði. Það er úrslitaatriði að endurheimta þær þúsundir starfa sem tapast hafa. Það þarf að lækka skatta og sækja fram. Þannig mun sterkari staða fyrirtækja og minni ásókn ríkisvaldsins í vasa skattgreiðenda auka tekjur heimilanna. Það þarf að stöðva skuldasöfnun ríkisins, skera niður útgjöld og auka fjárfestingu í atvinnulífinu. Með þessu móti mun Ísland endurheimta stöðu sína meðal þeirra þjóða heims sem bjóða íbúum sínum best lífskjör.

I. Tökum til hendinni í ríkisfjármálunum.
    Ríkissjóður hefur verið rekinn með miklum halla undanfarin ár. Þannig var uppsafnaður halli frá byrjun árs 2008 fram til júní á þessu ári rúmir 550 milljarðar kr. að raunvirði. Það er sláandi há upphæð. Hún nemur um níu ára útgjöldum ríkissjóðs til mennta- og menningarmála eða fimm ára framlagi til heilbrigðismála, svo dæmi séu tekin. Sumt af þessum útgjöldum er svokallaður einskiptiskostnaður vegna hrunsins, en stór hluti er vegna þess að ríkissjóður eyðir mun meiru en hann aflar.
    Áætlun AGS miðaði að því að ríkisfjármál yrðu komin í jafnvægi árið 2012 og að skuldasöfnun yrði stöðvuð. Þetta hefur ekki gengið eftir. Þannig var hallinn á ríkissjóði fyrstu sex mánuði ársins 37 milljarðar kr. og allt útlit er fyrir að hallinn á síðari helming ársins verði enn meiri vegna launahækkana og vegna þess að ekki er brugðist við með raunhæfum aðgerðum. Ríkisstjórnin hefur boðað að það muni taka mun lengri tíma að koma ríkissjóði á réttan kjöl en upphaflega var áætlað. Með þessu ýtir ríkisstjórnin vandanum á undan sér.

Ríkisrekstur er of umsvifamikill.
    Þegar horft er til baka sést að umfang hins opinbera hefur aukist mjög undanfarinn áratug og er nú orðið allt of mikið. Raunútgjöld ríkissjóðs hafa aukist um rúm 27% frá árinu 2006. Það er því augljóslega svigrúm til að lækka útgjöldin umtalsvert. Það verður hins vegar að gera á vel ígrundaðan hátt – hallanum verður ekki eytt með hagræðingu einni saman.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í kjölfar minni umsvifa skruppu skattstofnar saman. Eins og sjá má á myndinni hafa raunskatttekjur ríkissjóðs vegna fyrirtækja, einstaklinga og fjármagns dregist saman jafnt og þétt frá árinu 2008. Nú er svo komið að skatttekjur vegna þessara þriggja liða eru um 54 milljörðum kr. minni en þær voru árið 2007. Í heild hafa tekjur ríkisins dregist saman um 150 milljarða kr. á sama tímabili.
    Ef útgjöld hefðu hins vegar staðið í stað hefði halli ríkissjóðs verið um 35 milljarðar kr. í fyrra í stað 123 milljarða kr. Þessi mikli halli stafar af því að á sama tíma og tekjur hafa minnkað hafa útgjöld aukist mjög. Raunútgjöld ríkissjóðs jukust um 87 milljarða kr. milli 2007 og 2010 og var það fyrst og fremst vegna aukinna vaxtagreiðslna, útgjalda til félagslega kerfisins og óreglulegra liða eins og framlags til Íbúðalánasjóðs (33 milljarðar kr.) og framlags vegna ábyrgðar á Ábyrgðarsjóði landbúnaðarins (27 milljarðar kr.).

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Mennta- og velferðarmál taka mest til sín af útgjöldum ríkissjóðs, eða um 60% (af útgjöldum án fjármagnskostnaðar). Eins og sést á myndinni lækka útgjöld til heilbrigðis- og menntamála en útgjöld til félagsmála vaxa gríðarlega. Reyndar átti sér stað tilfærsla verkefna milli félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis sem skýrir að hluta lækkun til heilbrigðismála. Hækkun útgjalda til félagsmála milli 2008 og 2009 stafaði þó fyrst og fremst af auknu atvinnuleysi – 22 milljarðar kr. – en milli 2009 og 2010 var hækkunin vegna aukinna bóta almannatrygginga. Þetta er alvarleg þróun vegna þess að heilsugæsla og menntun er fjárfesting í mannauði og minni fjárfesting í honum leiðir til minni hagvaxtar og lakari lífskjara í framtíðinni.

Hallarekstur leiðir til skuldasöfnunar og hærri vaxtabyrði.
    Hallarekstur leiðir óhjákvæmilega til skuldasöfnunar og um leið til þess að stærri hluta af tekjum ríkissjóðs er varið til þess að greiða vexti af lánum. Eðli málsins samkvæmt verður þeim peningum ekki varið til þjónustu við borgarana.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eins og sést á myndinni hafa skuldir og þar með vaxtakostnaður ríkissjóðs vaxið gríðarlega frá 2007. Þannig nam hrein vaxtabyrði (vaxtakostnaður að frádregnum vaxtatekjum) um 1,6 milljarði kr. árið 2007, 90 milljörðum kr. árið 2009 og rúmum 50 milljörðum kr. árið 2010. Þessi aukni vaxtakostnaður eru sannkallaðir blóðpeningar. Hann nemur tvöföldum þeim sparnaði sem orðið hefur í heilbrigðis- og menntamálum. Við söfnum skuldum og skerum niður þjónustu við borgarana til að fjármagna vaxtagreiðslur. Það er algjörlega óásættanlegt og Sjálfstæðisflokkurinn hafnar þeirri leið.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.803 milljörðum kr. í lok júní eða sem svarar 111% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Að teknu tilliti til peningalegra eigna var hrein peningaleg eign ríkissjóðs, þ.e. peningalegar eignir umfram skuldir, neikvæð um 686 milljarða kr. í lok þessa ársfjórðungs eða sem svarar 42% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Til samanburðar var hrein peningaleg eign ríkissjóðs neikvæð um rúm 35% af landsframleiðslu á sama ársfjórðungi 2010 og rúm 27% á sama ársfjórðungi 2009. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs versnaði því um 140 milljarða kr. milli annars ársfjórðungs 2010 og 2011. Þessari skuldasöfnun, sem lýst er á myndinni, verður að snúa við því vaxtagreiðslur taka undir sig stöðugt aukinn hluta skatttekna.
    Af framangreindri umföllun má draga þrjár ályktanir:
     1.      Leita þarf allra leiða til að koma atvinnulausum í vinnu og minnka með því kostnað ríkissjóðs og atvinnulífsins og endurheimta skattgrunna.
     2.      Endurskipuleggja þarf rekstur ríkissjóðs með það fyrir augum að fá meiri þjónustu fyrir skattfé.
     3.      Greiða þarf niður skuldir ríkissjóðs til að minnka vaxtabyrðina.

II. Rjúfum kyrrstöðuna, sköpum störf.
    Hlutverk ríkisins er ekki að búa til störf. En það er hlutverk hins opinbera að mynda þannig umgjörð um efnahagslífið að einkaaðilar fjárfesti og ráði nýja starfsmenn. Til að svo megi verða þarf að vera fyrir hendi trú á efnahagslífið. Einkaaðilar verða að vera þess fullvissir að stjórnvöld á hverjum tíma leitist við að eyða óvissu um skattaumhverfið, að hagstjórninni sé þannig háttað að menn eigi ekki á hættu að tapa fjármunum sem lagðir eru í áhætturekstur vegna stjórnvaldsaðgerða og að innviðir þjóðfélagsins (menntun, heilsugæsla, fjarskipti, vegir o.fl.) sé samkeppnishæfir við það sem best gerist í samkeppnislöndum okkar. Jafnframt er það hlutverk hins opinbera að laða erlenda fjárfestingu, fremur en erlent lánsfé, til landsins.
    Frá árinu 2008 hefur störfum á landinu fækkað verulega. Fólki í fullu starfi hefur fækkað um 16 þúsund en fjöldi í hlutastarfi hefur aukist um 4 þúsund. Þessi fækkun hefur nær öll orðið á einkamarkaði. Störfum hjá hinu opinbera hefur fækkað hlutfallslega óverulega. Á sama tíma hafa nýir árgangar komið á vinnumarkað sem eru fjölmennari en þeir sem fara af vinnumarkaði. Atvinnulausir hafa á þessu tímabili verið á bilinu 13–16 þúsund manns. Hluti af þeim eru atvinnulausir í stuttan tíma þar til þeir finna sér nýtt starf. Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir í meira en sex mánuði eru á bilinu 7.500–8.000 manns og fjöldi þeirra sem verið hefur atvinnulaus lengur en eitt ár eru á bilinu 4.600–4.800.
    Á árunum 2008–2010 fluttu um 5.900 fleiri frá landinu en til þess. Þar af fluttu um 3.600 fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu en til þess. Af íslenskum ríkisborgurum voru 38% á aldrinum 30–44 ára og 12% á aldrinum 45–54 ára.
    Erfitt er að meta með nákvæmni þörfina á nýjum störfum svo að unnt sé að bjóða þeim atvinnu sem hér vilja starfa. Að framangreindu er þó ekki óraunhæft að ætla að á næstu tveimur til þremur árum þurfi að verða til um 15 þúsund ný störf til að fullt atvinnustig náist.
    Til að ný störf verði til á almennum vinnumarkaði þurfa fyrirtækin að fjárfesta. Jafnframt er mikilvægt að opinberir aðilar fjárfesti til að styrkja innviði samfélagsins og koma hagvexti af stað. Þetta hefur ekki orðið raunin og stöðugur samdráttur hefur verið í fjárfestingu frá árinu 2007. Árið 2010 nam heildarfjárfesting á Íslandi um 13% af vergri landsframleiðslu sem er lægsta hlutfall fjárfestingar á lýðveldistímanum. Það er því mikilvægt að stjórnvöld vinni með atvinnulífinu að því að koma á fjárfestingu á ný svo unnt sé að veita þeim fjölmörgu sem eru án atvinnu störf og draga úr flutningi faglærðs fólks til annarra landa.
    
A. Störfin verða til í litlum og meðalstórum fyrirtækjum.
    Flestöll fyrirtæki á Íslandi teljast vera lítil eða meðalstór. Einungis örfá stór fyrirtæki eru í landinu og þau er helst að finna í sjávarútvegi, stóriðju og ríkisrekstri. Það er því mjög mikilvægt að hlúa sem best að smáum og meðalstórum fyrirtækjum því þar er þorri starfanna.
    Ýmsar leiðir eru að því markmiði og nauðsynlegt að efnahagsstefna stjórnvalda endurspegli mikilvægi þessara fyrirtæki í atvinnu- og verðmætasköpun landsmanna.
    Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja geri þeim kleift að fjölga starfsmönnum með hagkvæmum og varanlegum hætti. Jafnframt er mikilvægt að framleiðni aukist jafnt og þétt, en velmegun þjóðarinnar hvílir á því.
    Hér verða nefnd nokkur atriði sem hafa afgerandi áhrif á rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Að auki skal það nefnt að til lengri tíma litið skiptir höfuðmáli að fyrirtækin hafi aðgang að vel menntuðu vinnuafli og að vísindi og rannsóknir styðji við verðmætasköpunina í landinu. Því er mikilvægt að stefna stjórnvalda og fjárfesting í menntun og vísindum endurspegli þessar áherslur.
     Pólitískur stöðugleiki. Lykilforsenda þess að fyrirtæki séu reiðubúin til að fjárfesta er að stöðugleiki ríki í efnahags- og stjórnmálum þjóðarinnar. Við því var að búast að í kjölfar efnahagsáfallsins yrði bæði pólitísk og efnahagsleg óvissa um stund. Það er verkefni ríkisstjórnar og Alþingis að vinna markvisst að því að draga úr þeirri óvissu. Því fyrr sem það tekst, því fyrr fá stjórnendur fyrirtækja og almenningur trú á framtíðina. Á grundvelli þess trausts eiga fjárfestingar sér stað.
    Því miður hefur pólitísk óvissa aukist jafnt og þétt frá hruni bankakerfisins. Ríkisstjórnin hvílir á eins manns meiri hluta og því hefur sérhver stuðningsmaður hennar úrslitavald um það til hvaða aðgerða er gripið og hvað er látið ógert.
    Yfirlýsingar einstakra ráðherra hafa valdið tortryggni og vantrú fjárfesta á íslensku efnahagslífi. Með yfirlýsingum sínum um mögulega þjóðnýtingu og að stórfelldar skattahækkanir séu í farvatninu hafa ráðherrar grafið undan tiltrú. Jafnframt hafa vanhugsaðar tilraunir til að umbylta undirstöðu atvinnugrein landsmanna, fiskveiðum, dregið úr trausti á stjórnvöldum.
    Það er óþolandi að pólitísk áhætta sé meðal helstu áhættuþátta við að fjárfesta á Ísland og því verður að breyta. Nauðsynlegt er að forystumenn ríkisstjórnarinnar láti af glannalegum yfirlýsingum um efnahags- og skattamál. Jafnframt verði fallið frá öllum tilraunum til að kollvarpa grundvelli einstakra atvinugreina.
    Þegar traust myndast hefjast fjárfestingar á ný. Gott dæmi um þetta er sjávarútvegurinn. Um leið og óvissunni um framtíðarfyrirkomulag greinarinnar hefur verið létt mun fjárfesting vaxa. Það þýðir að sjávarútvegurinn mun auka kaup á alls kyns þjónustu og vörum frá innlendum iðn- og þjónustufyrirtækjum.
    Skattalækkanir. Skattar eru alltof háir og verða að lækka. Fyrir ríkissjóð skiptir mestu að skattstofnarnir stækki. Lágir skattar og einfalt skattkerfi er mun líklegra til þess að skila árangri en háir skattar og flókið kerfi.
    Efnahagsumhverfið. Nauðsynlegt er að allt opinbert eftirlit með atvinnustarfseminni í landinu sé skilvirkt og vandað. Um leið þarf að gæta þess að hið opinbera nálgist atvinnulífið á jákvæðan og uppbyggilegan hátt þar sem kraftmikið atvinnulíf er forsenda þess að þjóðin njóti góðra lífskjara og hægt sé að bjóða upp á öflugt velferðarkerfi.
    Nauðsynlegt er að ríkisstjórnin sendi þau skilaboð til þeirra ríkisstofnana sem snúa að atvinnulífinu að þær framfylgi lögum og reglum af festu, en gæti þess um leið að markmið þeirra er að hlúa að atvinnulífinu og gera landsmönnum betur kleift að stunda arðbæra verðmætasköpun í landinu.
    Lítil og meðalstór fyrirtæki eru sérlega viðkvæm fyrir reglugerðarfargani og auknum kostnaði í tengslum við ýmiss konar skjalagerð vegna margháttaðs eftirlits með starfsemi þeirra.
    Nauðsynlegt er að fara vandlega yfir allt regluverk hins opinbera og leita allra mögulegra leiða til að einfalda rekstrarumhverfi fyrirtækja. Eins og sást vel í hruninu þá er það ekki magn reglugerða sem afstýrir slysum heldur hve vel hannaðar og gagnsæjar þær eru.
    Þá þarf almennt efnahagsumhverfi að vera vinveitt og óvissa í lágmarki. Að þeim atriðum er vikið nánar hér á eftir.

Aðgerðir til að örva fjárfestingu og ráðningar nýrra starfsmanna.
    Til að örva ráðningu starfsmanna af atvinnuleysisskrá er lagt til að ríkið endurgreiði fyrirtækjum ígildi tryggingagjalds í tvö ár fyrir hvern starfsmenn sem það ræður til sín varanlega í starf, til viðbótar við þau störf sem eru þegar til staðar hjá fyrirtækinu. Um væri að ræða samtals 557 þús. kr. á ári á hvert starf (miðað við meðallaun). Jafnvel væri hægt að greiða enn hærri styrk tímabundið ef starfsmaður kæmi af langtímaatvinnuleysisskrá eða af örorkubótum. Við útreikning á endurgreiðslu yrði gengið út frá fjölda starfsmanna í fullu starfi í lok árs samanborið við lok ársins á undan. Upplýsingarnar væru unnar á grundvelli staðgreiðsluupplýsinga.
    Annar grunnur að endurgreiðslu gæti verið sú fjárhæð sem viðkomandi fyrirtæki legði til fjárfestinga og væri þá miðað við einhverja lágmarksfjárhæð á ársgrundvelli, t.d. 20 millj. kr. Fyrirtæki gætu fengið endurgreitt sem svara t.d. til 3% af fjárfestingu á bilinu 20–100 millj. kr. og 2% af fjárfestingu umfram 100 millj. kr. Þess má geta að fjárfesting atvinnuvega nam 122 milljörðum kr. á árinu 2010, 2% af þeirri fjárhæð nemur um 2,4 milljörðum kr. og 3% nema um 3,7 milljörðum kr.
    Fleiri leiðir koma til greina til að hvetja til fjárfestinga og atvinnusköpunar. Markmið laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja með því að veita þeim rétt til skattafrádráttar vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni. Nýsköpunarfyrirtæki sem hlotið hafa staðfestingu Rannsóknamiðstöðvar Íslands eiga rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti sem nemur 20 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði vegna þessara verkefna. Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hjá hverju fyrirtæki skal vera 100 millj. kr. á rekstrarári. Ef um er að ræða aðkeypta rannsóknar- eða þróunarvinnu skal hámark kostnaðar samtals vera 150 millj. kr.
    Lagt er til að aðilar vinnumarkaðarins taki yfir verkefni Vinnumálastofnunar. Með því eru málefni atvinnulausra færð nær atvinnulífinu en það auðveldar allt eftirlit og eftirfylgni. Þá er ástæða til að endurskoða, samræma og gera almennan stuðning ríkis og sveitarfélaga til fyrirtækja sem veita störf fólki með skerta starfsgetu eða fólki sem þarf mikið liðsinni.
    Hér er jafnframt lagt til að fyrirtækjum sem fjárfesta árabilið 2012–2013 verði gefinn kostur á að afskrifa fjárfestingarnar 30% hraðar en núverandi skattareglur leyfa. Það mundi skapa aukinn hvata til fjárfestingar.

B. Ónýtt tækifæri í orkuframleiðslu – lykill að endurreisn efnahagslífsins.
    Efnahagsleg endurreisn Íslands felst ekki síst í því að orkulindir landsins verði virkjaðar. Aukin orkuframleiðsla er ávísun á fleiri störf, aukinn hagvöxt, auknar tekjur ríkissjóðs og batnandi hag almennings. Við Íslendingar eigum einstakt tækifæri til þess að endurreisa efnahagsstarfsemina með kraftmiklum og viðvarandi hætti. Hrein orka, hugvit og fjármagn er grunnur að nýrri velferðarsókn þjóðarinnar.
    Framkvæmdir vegna orkuframleiðslu skila árangri samstundis á mælikvarða þjóðarframleiðslu. Ekki er hætta á að þensla verði vegna framkvæmda ef rétt er á málum haldið. Þegar til lengri tíma er litið skiptir máli að fjöldi starfa myndast með beinum og óbeinum hætti í iðnaði hvers konar sem nýtir orkuna. Ekki er síður mikilvægt að tekjur ríkissjóðs stóraukast, bæði á framkvæmdatíma og í framtíðinni. Gangi spár um þróun orkuverðs eftir munu arðgreiðslur Landsvirkjunar skipta gríðarlegu máli í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Gríðarleg tækifæri bíða.
    Landsvirkjun hefur sett fram metnaðarfulla áætlun um hvernig staðið skuli að nýtingu þeirra möguleika sem þjóðin á til orkuöflunar. Áætlunin byggist á því að þeir kostir verði nýttir sem líklegt má telja að hægt sé að ná sátt um í ljósi umhverfissjónarmiða. Nauðsynlegt er að hafa í huga að nýting og verndun náttúruauðlinda verður að haldast í hendur. Gæta verður þess að öfgasjónarmið ráði ekki för í þessum mikilvæga málaflokki, hvorki þeirra sem lítið tillit vilja taka til náttúrunnar, né þeirra sem setja sig upp á móti öllum framkvæmdum.
    Samkvæmt framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar er gert ráð fyrir að fjárfest verði í orkumannvirkjum fyrir um 400 milljarða kr. á næstu 10 árum og fyrir um 185 milljarða kr. til viðbótar á árunum 2021–2025. Þessar framkvæmdir munu kalla á iðnaðaruppbyggingu. Áætlað er að ef af framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar verður muni framkvæmdir vegna uppbyggingar í iðnaði nema tæplega 520 milljörðum kr. fram til ársins 2020. Þessar iðnaðarframkvæmdir munu eðli máls samkvæmt falla til litlu seinna en framkvæmdirnar í orkuöflun.
    Samtals eru áætlaðar fjárfestingar vegna orku- og iðnaðaruppbyggingar rúmlega 900 milljarðar kr. fram til ársins 2020.

Við megum engan tíma missa.
    Núverandi áætlun Landsvirkjunar byggist á því að hafist verði handa við virkjanir í neðri Þjórsá á árinu 2013. Jafnframt er gert ráð fyrir því að framkvæmdum við Búðarháls ljúki á því ári. Í þessum efnahagstillögum er lagt til að reynt verði eins og unnt er að flýta því að ráðist verði í framkvæmdir í neðri hluta Þjórsár og miðað við að hægt verði að hefjast handa við virkjanaframkæmdir á árinu 2012. Meginþungi þeirra framkvæmda mun þá verða á árinu 2013 og á næstu árum þar á eftir.
    Til þess að svo megi verða þarf Alþingi að beita sér strax fyrir því að veitt verði nauðsynleg framkvæmdaleyfi, en nú þegar hefur mikil undirbúningsvinna farið fram vegna þeirra hagkvæmu kosta sem neðri hluti Þjórsár býður upp á. Fyrir liggur að þeir virkjanakostir sem um er að ræða þar standast mjög vel allar kröfur um umhverfismat, enda eru þeir flokkaðir í hæsta flokki í rammaáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi. Því miður eru innbyrðis átök á milli ríkisstjórnarflokkanna um þetta mál og því mikilvægt að Alþingi grípi inn í og komi þannig í veg fyrir að deilur í ríkisstjórninni valdi þjóðinni efnahagslegum skaða.
    Sjálfstæðisflokkurinn leggur því til að gengið verði frá nauðsynlegum leyfum til handa Landsvirkjun þannig að framkvæmdir geti örugglega hafist við Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár á næsta ári.
    Til þess að þessi áætlun gangi eftir þarf eftirfarandi að koma til:
     1.      Fullur stuðningur ríkisstjórnar og Alþingis við áætlun Landsvirkjunar.
     2.      Aðgangur að fjármagni til að framkvæmda.
    Samkvæmt skýrslunni Orkustefna fyrir Ísland sem unnin var fyrir iðnaðarráðuneytið á þessu ári má ætla að mögulegt afl í vatnsorku og jarðvarma sé á bilinu 75–95 teravattstundir á ári. Ef einungis er litið til þeirra kosta sem ætla má að raunhæft sé að ná samstöðu um að virkja er talið að vinnanlegt afl sé að lágmarki 30 teravattstundir. Nú þegar hafa verið virkjaðar 17 teravattstundir og því ljóst að hægt er að allt að því tvöfalda orkuframleiðslu Íslendinga.
    Framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar byggist á því að nýttir verði virkjunarkostir sem falla undir þá skilgreiningu að auðvelt eigi að vera að ná sátt í samfélaginu um að ráðast í. Ekki er um ræða einstakar stórar virkjanir, heldur fjölda minni kosta sem dreifast um landið. Á myndinni hér á eftir eru taldir upp þeir virkjanakostir sem lagðir eru til grundvallar í áætlun Landsvirkjunar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Virkjanirnar sem ráðist verður í eru af mjög hentugri stærð fyrir íslensk fyrirtæki þegar kemur að því að bjóða verkin út. Það er því mjög líklegt að stór hluti verklegra framkvæmda verði unninn af Íslendingum, íslensk verktakafyrirtæki sem standa mjög illa eftir hrunið mundu geta styrkt stöðu sína og ráðið til sín fólk og nýtt vélar sínar.
    Þann hluta kostnaðarins sem fellur til á Íslandi er hægt að fjármagna innan lands. Lífeyrissjóðirnir verða að ávaxta það fé sem til þeirra er greitt og það fellur vel að fjárfestingastefnu lífeyrissjóðanna að lána fé til virkjanaframkvæmda. Jafnframt er sá möguleiki til staðar að lífeyrissjóðirnir taki beinan þátt í uppbyggingu einstakra virkjana, ef Landsvirkjun metur það sem svo að nauðsynlegt sé að fá aukið eigið fé til framkvæmdanna. Þannig er arðsemi virkjana slík að lífeyrissjóðir gætu mjög vel við unað að vera hluthafar í einstökum virkjunum. Því er hér lagt til að lagaumhverfi verði þannig hagað að lífeyrissjóðum verði gert kleift að fara út í verkefnafjármögnun með orkufyrirtækjunum, bæði með lánsfé og hlutafé.
    Erlendan kostnað vegna aðfanga sem nauðsynlegt er að flytja til landsins vegna framkvæmda þarf að fjármagna í erlendri mynt. Ef fjárfestingarkosturinn er skynsamlegur og fyrir liggur trúverðug áætlun um endurreisn íslenska hagkerfisins, festa ríkir í skattamálum og komin er til valda ríkisstjórn sem vinnur með atvinnulífinu en ekki á móti því, þá verður án nokkurs vafa auðvelt að afla þess fjár sem til þarf. Rétt er að hafa í huga að nú þegar hefur Landsvirkjun aflað sér fjár á erlendum mörkuðum.

Aukin fjárfesting.
    Með því að flýta framkvæmdum í neðri hluta Þjórsár þannig að þær hefjist árið 2012 og með því að koma af stað framkvæmdum við álver í Helguvík eykst fjárfesting í íslensku atvinnulífi til mikilla muna. Gangi það eftir má reikna með að fjárfestingar vegna framkvæmda Landsvirkjunar, framkvæmda HS-Orku, Landsnets og iðnaðar tengdum orku verði um 25,5 milljörðum kr. meiri á næsta ári en ef ekkert verður að gert og 52,6 milljörðum kr. meiri árið 2013.

Fjölgun starfa.
    
Framkvæmdir í orku og iðnaði munu getað skapað 1.000–2.000 störf á ári. Þegar mest verður má ætla að um það bil 11.000 manns verði að störfum vegna orkuframkvæmda, uppbyggingar í iðnaði og vegna óbeinna áhrifa af þessum framkvæmdum.
    Atvinnulausir er nú um 16 þúsund. Atvinnuleysi er mikið efnahagsmein. Þeir sem enga vinnu fá búa við skert kjör og eftir því sem lengri tími líður án atvinnu aukast félagsleg vandamál sem rekja má til atvinnuleysis. Ríkissjóður verður af skatttekjum þeirra sem atvinnulausir eru en þess í stað þarf ríkissjóður að greiða atvinnuleysisbætur sem nema tugum milljarða króna. Atvinnuleysisbætur eru síðan fjármagnaðar af atvinnulífinu. Þær verka sem skattur á öll umsvif fyrirtækjanna sem aftur dregur úr þeim mátt til fjárfestingar og mannaráðninga.
    Með því að ráðast af krafti í orkuframkvæmdir flýtum við því að atvinnulaust fólk fái aftur störf. Framkvæmdirnar draga til sín mannafla sem nú er ónýttur, en einnig munu framkvæmdirnar kalla á fólk sem sinnir nú þegar öðrum störfum. Þar með þarf að ráða fólk til þeirra starfa sem áður voru unnin af þeim sem ráðnir eru til verkefna tengdum virkjanaframkvæmdum.
    Mestu máli skiptir að þau störf sem verða til séu hagkvæm og hægt sé að greiða góð laun fyrir þau. Það gerist ef fjárfest er skynsamlega í arðbærum atvinnurekstri. Orkufrekur iðnaður skapar örugg störf fyrir fjölda fólks og mikill fjöldi vel launaðra starfa verður til í tengslum við orkufrekan iðnað, svo sem í verkfræði- og tæknigeiranum.

Aukinn hagvöxtur.
    Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir í orkuvinnslu og iðnaðaruppbyggingu muni leiða til þess að hagvöxtur aukist um 1,4% á ári að meðaltali allt fram til ársins 2017. Þá verður samanlagður hagvöxtur vegna þessara framkvæmda orðinn rúmlega 10%.
    Takist að flýta framkvæmdum í neðri hluta Þjórsár má hins vegar ætla að verulegur hagvaxtarkippur fylgi þeim framkvæmdum. Í ljósi þess hversu sárlega íslenskt efnahagslíf vantar fjárfestingu er sú krafa gerð af hálfu Sjálfstæðisflokksins að Alþingi og ríkisstjórn geri allar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að Landsvirkjun geti hafist handa sem fyrst í neðri hluta Þjórsár.

C. Byggjum upp innviðina.
    Eins og áður segir er það ekki hlutverk ríkisins að búa til störfin. Of há skattlagning treður niður allan nýgræðing og heldur þjóðfélaginu í stöðnun. Þrátt fyrir þetta gegnir hið opinbera mikilvægu hlutverki í atvinnustarfseminni – innviðir þjóðfélagsins, svo sem samgöngumannvirki og fjarskipti, eru á ábyrgð ríkisins. Nú er kjörið tækifæri til að ráðast í uppbyggingu innviða. Framleiðslugetan er fyrir hendi, fjárfestingin ýtir þjóðfélaginu af stað og bættir innviðir leiða til aukinnar framleiðni hjá fyrirtækjunum og þar með til aukins hagvaxtar.
    Rétt er að árétta að það eru einkafyrirtæki sem sjá um að vinna þau verk sem boðin eru út af Vegagerðinni. Verktakaiðnaðurinn varð fyrir verulegum skakkaföllum í kjölfar hruns bankanna og því munu vegaframkvæmdir styðja mjög við þá iðngrein.
    Nú eru tilbúnar til útboðs fjölmargar framkvæmdir sem hægt yrði að ráðast í strax á næsta ári. Hér er lagt til að árinu 2012 verði 26,4 milljörðum kr. varið til fjárfestinga í innviðum þjóðfélagsins og 29,5 milljörðum kr. árið 2013. Þetta mun þýða að útgjöld ríkissjóðs verða rúmum 45 milljörðum kr. hærri fyrir vikið en afkoma ríkissjóðs versnar þó ekki nema um tæpa 12 milljarða kr. hvort ár þar sem virðisaukaskattur, aðflutningsgjöld og aðrir skattar vegna umsvifanna koma fram tekjumegin í bókhald ríkisins. Þá er gert ráð fyrir því að Vaðlaheiðargöng verði í einkaframkvæmd og því koma þau ekki fram í ríkisreikningi þrátt fyrir að hugmyndin sé að ríkið láni tímabundið fyrir framkvæmdinni – lánin hafa einungis áhrif á greiðslustöðu ríkissjóðs (og reyndar áhættu líka ef enginn fer um göngin í framtíðinni).
    Í áætluninni er gert ráð fyrir að sérstakt átak verði gert til að auka umferðaröryggi á vegum landsins, svo sem með því að fækka einbreiðum brúm. Nú eru til að mynda um 42 einbreiðar brýr á hringveginum, 39 á suðausturlandi og þrjár á norðausturlandi. Áætlað er að 15 milljörðum kr. verði varið til átaks um aukið umferðaröryggi á næstu tveimur árum.
    Árið 2014 verði útgjöld til innviða færð aftur í eðlilegt horf enda er gert ráð fyrir því að þá verði hagvöxtur kominn af stað og að fullu atvinnustigi verði náð.

Veiðum meira án þess að ganga á höfuðstólinn.
    Með mikilli einföldun má líkja sjávarauðlind Íslendinga við bankabók. Ef við veiðum of mikið þá göngum við á höfuðstólinn – stofnarnir minnka. Sé hins vegar veitt minna stækkar stofninn – innstæðan eykst. Árið 2007 var tekin ákvörðun um að byggja upp fiskistofnana hraðar en verið hafði. Forsætisráðherra benti á að nú væri ástand efnahagsmála þannig að við gætum tekist á við þann samdrátt sem yrði í kjölfar minni tímabundins þorskafla. Því væri rétti tíminn til þess að byggja stofnana hratt upp. Í meginatriðum gekk þetta eftir. Þorskstofninn hefur rétt mjög úr kútnum.
    Við Íslendingar búum nú við alvarlega efnahagserfiðleika. Með sömu rökum og forsætisráðherra beitti fyrir sig árið 2007 er hér lagt til að við hægjum á vexti fiskistofnana – við veiðum meira.
    Samkvæmt mati Hafrannsóknastofnunarinnar er viðmiðunarstofn þorsks nú 969 þúsund tonn og hefur ekki mælst stærri frá árinu 1989 þegar hann var 1.004 þúsund tonn. Það ár nam þorskveiðin um 363 þúsund tonnum. Aflaregla við þorskveiðar gerir ráð fyrir því að þegar veiðistofn sé lítill séu veidd 20% af viðmiðunarstofni, (fjögurra ára fiskur og eldri) en allt að 23% þegar veiðistofninn hefur náð tiltekinni stærð. Við ákvörðun á aflamarki er jafnframt innbyggð jöfnunarregla sem gerir ráð fyrir því að tekið sé að hálfu tillit til þorskveiðikvóta ársins á undan. Jöfnunarreglunni er ætlað að koma í veg fyrir miklar sveiflur á úthlutun árlegra aflaheimilda. Hér er lagt til að jöfnunarreglan verði ekki notuð í eitt ár, en verði síðan virkjuð að nýju á næsta fiskveiðiári.
    Ef farið yrði að þessum tillögum yrði leyfður þorskafli á þessu fiskveiðiári 223 þúsund tonn í stað 177 þúsund tonna eins og ráðherra hefur ákvarðað. Með þessu væri ekki gengið á stofninn en hægt á uppbyggingu hans. Þessi 46 þúsund tonna aflaaukning yki útflutningstekjur um 18–19 milljarða kr. Fjölga þyrfti störfum og ráðast í nýfjárfestingu. Eftir sem áður yrðu þorskveiðar okkar sjálfbærar og nýting vel innan varúðarmarka.
    Fjárfesting í sjávarútvegi hefur verið í algjöru lágmarki síðastliðin tvö ár. Þannig var hún einungis um 2% af heildartekjum á síðasta ári. Það jafngildir um 4,5 milljörðum kr. Meðalfjárfesting áranna 2002–2008 var um 8% á ári eða um 17 milljarðar kr. að raunvirði. Frá árinu 2009 hefur ríkt mikil óvissa um skipulag við stjórn fiskveiða. Afleiðingarnar hafa meðal annars birst í þessum mikla samdrætti í fjárfestingu, þrátt fyrir að almennt hafi afkoma greinarinnar verið góð. Á óvissutímum halda menn að sér höndum hvað varðar fjárfestingu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Gera má ráð fyrir því að uppsöfnuð fjárfestingarþörf sé orðin mikil í íslenskum sjávarútvegi. Með því að eyða þeirri óvissu sem ríkir um framtíð sjávarútvegsins er líklegt að fjárfesting í greininni muni aukast mikið. Þetta hafa talsmenn útgerðanna staðfest í fréttaviðtölum. Hér er gert ráð fyrir að fyrstu tvö árin muni fjárfesting verða um fjórum prósentustigum meiri en í meðalári, vegna uppsafnaðrar fjárfestingarþarfar, en verði síðan á ný sambærileg við meðaltal áranna 2002–2008. Með því að eyða óvissu í greininni er því gert ráð fyrir að fjárfesting verði um 22 milljörðum kr. meiri á ári en ella fyrstu tvö árin en verði síðan um 17 milljarðar kr. á ári.

Tillögurnar leiða af sér aukna fjárfestingu og atvinnu.
    Áætlað er að framangreindar tillögur muni leiða til a.m.k. 120 milljarða kr. fjárfestingu á næsta ári, sem hækkar fjárfestingu í hlutfalli við landsframleiðslu í nærri 20%, og 130 milljarða kr. á árinu 2013.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Með því að taka ákvörðun um að ráðast í framkvæmdir í neðri hluta Þjórsár myndast borð fyrir báru hvað varðar umfang fjárfestinga í efnahagslífinu. Með því að nýta þetta tækifæri sem þjóðin á í Þjórsá aukast líkurnar mjög á því að forsendur um heildarfjárfestingu í efnahagslífinu gangi eftir.
    Auk þeirra þátta sem taldir hafa verið upp hér að framan þarf að grípa til aðgerða sem leiða til öruggara efnahagsástands, minni pólitískrar óvissu og heilbrigðari ramma um efnahagslífið en það er efni næsta kafla.
    Ef framangreind fjárfesting gengur eftir leiðir hún af sér fjölda starfa, Þannig er gert ráð fyrir að fjárfesting í virkjunum, flutningskerfi og iðnaði tengdum raforkusölu leiði til 2 þúsund nýrra starfa á næsta ári og 1,5 þúsund árið 2013. Uppbygging innviða skapar 850 ný störf á því næsta en engin aukning verður á árinu 2013. Fjárfestingar tengdar sjávarútvegi auka störf um 1 þúsund á næsta ári og 500 árið 2013. Ný störf í litlum og meðalstórum fyrirtækjum eru áætlað að verði um 5 þúsund á næsta ári og 3 þúsund árið 2013. Er þar bæði átt við bein störf en einnig afleidd störf af fjárfestingum í orkuverum, sjávarútvegi og innviðum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ef sú hóflega fjárfesting sem hér er gert ráð fyrir – að hún fari úr 13% af landsframleiðslu tæp 20% – mun fullt atvinnustig nást á næstu tveim árum.

III. Ríkissjóð verður að hemja.
    Augljóst er að skattalækkunum og auknum útgjöldum til fjárfestinga fylgir kostnaður fyrir tóman ríkissjóð. Þegar um er að ræða jafn róttækar tillögur og hér eru settar fram er nauðsynlegt að gera um leið grein fyrir því hvernig fjármagna á tillögurnar.

Ávinningur samfélagsins af hverju nýju starfi eru um 4,2 millj. kr. á ári.
    
Meðallaun á mánuði á árinu 2010 námu 438 þús. kr. Sé það framreiknað með launavísitölu má ætla að meðaltalið verði um 464 þús. kr. á árinu 2011. Af þeirri fjárhæð greiðist til sveitarfélaga útsvar 66,9 þús. kr. og til ríkisins tekjuskattur 69,5 þús. kr., tryggingagjald (5% án atvinnutryggingagjalds) 23,2 þús. kr. og óbeinir skattar 80,9 þús. kr. Skatttekjur hins opinbera nema því samtals 240,5 þús. kr. á mánuði af meðallaunum, eða 51,8%.
    Óbeinir skattar ríkissjóðs (VSK, vörugjöld, bifreiðagjald, tollar) námur árið 2010 samtals 194,5 milljörðum kr. eða sem svarar til 24,7% af einkaneyslu þess árs. Í þessu dæmi er gert ráð fyrir að launum eftir skatt, 327,7 þús. kr., sé öllum ráðstafað í einkaneyslu, sem felur í sér þá forsendu að megnið af einkaskuldum séu í skilum. Því fer um fjórðungur launaafgangsins til ríkisins, eða 80,9 þús. kr. á mánuði.
    Atvinnuleysisbætur á mánuði nema 161,5 þús. kr. Af þeirri fjárhæð greiðist nettóútsvar til sveitarfélaga 16 þús. kr. og óbeinir skattar til ríkisins 36 þús. kr. eða samtals 52 þús. kr. á mánuði, sem er 32,2% af bótafjárhæð. Ávinningur hins opinbera fari einstaklingur af bótum og í vinnu fyrir meðaltekjur er því verulegur, eða samtals 188,5 þús. kr. á mánuði. Þar af er ávinningur ríkisins 145,9 þús. kr.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Myndist eitt þúsund ný störf fyrir þá sem nú þiggja atvinnuleysisbætur aukast tekjur ríkis um 1,74 milljarða kr. á ári og tekjur sveitarfélaga um 520 millj. kr. eða samtals um 2,26 milljarða kr. á ári. Miðað við 15 þúsund ný störf væri ávinningur hins opinbera 34 milljarðar kr. á ári. Þá er ótalinn allur sá kosnaður hins opinbera sem sparast og tengist þeim sem þiggja atvinnuleysisbætur en ekki þeim sem eru starfandi. Að auki spara atvinnurekendur greiðslur atvinnuleysisbóta sem nemur 161,5 þús. kr. á mánuði eða 1,94 millj. kr. fyrir hvert starf á ári. Þessum ábata fyrirtækjanna mætti síðan ráðstafa til fjárfestinga eða hækkunar launa. Samtals batnar afkoma samfélagsins um 4,2 millj. kr. á hvert starf.
    Stjórnvöld hafa því gríðarlegan fjárhagslegan ávinning af því að fjölga störfum og fækka þeim sem þiggja atvinnuleysisbætur. Það er því eðlilegt og rökrétt að stjórnvöld grípi til sérstakra tímabundinna ráðstafana til að hvetja til nýrra starfa, t.d. næstu tvö ár eða á þeim tíma sem rekstrarstaða fyrirtækja er veik og gefur að óbreyttu ekki mikið svigrúm til fjárfestinga.

Vindum ofan af skattanauð ríkisstjórnarinnar.
    Frá því að núverandi ríkisstjórn komst til valda hafa skattar verið hækkaðir og nýir innleiddir. Þessu vilja sjálfstæðismenn skila til baka til fólks og fyrirtækja til að auka kaupmátt og umsvif á ný.
    Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við efnahagsvandanum hafa hingað til verið mjög máttvana. Einna alvarlegustu mistökin voru þau að bregðast við vanda ríkissjóðs með því að hækka skatta á launafólk og fyrirtæki. Þar með var dreginn kraftur úr atvinnulífinu og tafið fyrir því að atvinnulífið kæmist aftur á réttan kjöl. Aukið atvinnuleysi, minni kaupmáttur og verri staða ríkissjóðs en ella hefði orðið er afleiðingin.
    Árið 2009 var birt viðamikil rannsókn sem unnin var af hagfræðingum við Harvard- háskóla. Þar voru viðbrögð 21 ríkis innan OECD við efnahagskreppu metin og náði rannsóknin aftur til ársins 1971. Borið var saman árangurinn af því að annars vegar auka ríkisútgjöld til að örva hagkerfið og hins vegar árangurinn af því að lækka skatta. Niðurstaða þessarar rannsóknar var eindregið sú að þau ríki sem höfðu farið þá leið að lækka skatta náðu árangri fyrr og það sem meira var, árangur þeirra var viðvarandi.
    Með því að lækka skatta og einfalda skattkerfið munu líkurnar aukast til muna á því að þjóðin vinni sig úr efnahagsvandanum. Jafnframt er líklegra að ábatinn verði varanlegri og leiði til þess að lífskjör verði til jafns og best gerist annars staðar. Það sýna hagfræðirannsóknir.

Aldrei hafa jafnfáir staðið undir jafnmörgum.
    Í nýlegri rannsókn OECD á ríkisfjármálum aðildarríkja stofnunarinnar kemur í ljós að skattbyrði er mest á Íslandi þegar tilliti hefur verið tekið til fyrirkomulags lífeyrismála. Lífeyrissjóðir eru fjármagnaðir af launagreiðslum launþega á Íslandi en í flestum öðrum ríkjum er um gegnumstreymisfyrirkomulag að ræða. Þessi munur leiðir til þess að ríkisútgjöld virðast vera minni sem nemur framlagi í lífeyrissjóði á Íslandi. Sanngjarnt og rétt er að tekið sé tillit til þessa þegar skattheimta milli landa er borin saman alveg eins og OECD hefur gert.
    Hið opinbera er orðið alltof umsvifamikið. Á síðasta ári báru um 125 þúsund starfsmenn í einkageiranum uppi um 42 þúsund opinbera starfsmenn, um 14 þúsund atvinnulausa og 137 þúsund aðra einstaklinga sem voru utan vinnumarkaðar, oftast sökum aldurs. Sú þróun sem hefur orðið undanfarna áratugi er ekki sjálfbær eins og sést á fjármálum hins opinbera. Aldrei hafa færri starfsmenn í einkageiranum staðið undir jafn mörgum. Ríkið má ekki verða upphaf og endir alls í lífi okkar. Það gefur stjórnmála- og embættismönnum of mikil völd og líkur aukast á því að skattfé sé ráðstafað með óhagkvæmum hætti eða í óþarfa. Því mun Sjálfstæðisflokkurinn á næstu missirum móta sér stefnu sem miðar að því að vinda ofan af opinberum rekstri og hefja aftur til virðingar frelsi einstaklinsins til athafna. Það er enginn betur til þess fallinn að ákvarða hvernig aflafénu er ráðstafað en sá sem stritar fyrir því.     
    Brýnt er að tekist verði sem fyrst á við það verkefni að endurskilgreina þjónustuframboð ríkisins með það að meginmarkmiði að fá meiri þjónustu fyrir minna fé. Byggja þarf upp hvatakerfi í ríkisrekstri til að ná fram hagræðingu, auka samkeppni, setja raunhæf markmið um þjónustu, gæði og magn og mæla árangur í rekstri. Æskilegt er að skilið sé á milli kaupa og sölu á þjónustu, sjálfstæði stofnana aukið og að þær bjóði í verkefni á vegum ríkisins. Áríðandi er að á þessum grunni verði unnin áætlun til lengri tíma um þjónustu ríkisins við skattgreiðendur. Að öðrum kosti verður svokallaður niðurskurður í ríkisrekstrinum hvorki markviss né til gagns. Grundvallaratriði er að koma böndum á hallarekstur ríkissjóðs með þeim hætti að stilla rekstrarkostnað af með tilliti til þeirra tekna sem úr er að spila hverju sinni.
    Brýnt er að ná tökum á útgjöldum ríkissjóðs og hér er lagt til að þau verði dregin saman um 17,6 milljarða kr. milli áranna 2011 og 2012. Megnið af þessum sparnaði, um 16 milljarðar kr., má rekja til þess að fólk fer af atvinnuleysisbótum í vinnu.
    Þá er lagt til að sparaðar verði 2,2 milljarðar kr. við æðstu stjórn ríkisins, forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, efnahags- og viðskiptaráðuneytið og umhverfisráðuneytið. Gert er ráð fyrir að útgjöld verði aukin um 1,5 milljarða kr. í velferðarráðuneytinu vegna heilbrigðismála og að útgjöld vegna atvinnuleysistrygginga dragist saman um 16 milljarða kr. vegna minni kostnaðar vegna 9 þúsund nýrra starfa. Þá er gert ráð fyrir að útgjöld til löggæslu verði aukin um 100 millj. kr. á næsta ári.
    Lagt til að fjárfesting verði aukin um 22,6 milljarða kr. í innanríkisráðuneytinu vegna átaks til fjárfestingar í samgöngubótum á næsta ári. Útgjöld árið 2013 til velferðarráðuneytisins minnki um 9 milljarða kr. vegna meiri atvinnu og seinni hluti fjárveitingar vegna fjárfestinga í innviðum, 22,6 milljarðar kr., komi til útgjalda.
    Ekki er lagt til að fjárveitingar til mennta- og menningarmála, félagsmála og heilbrigðismála verði skornar niður næstu tvö árin. Þessi tími verði notaður til að leita hagræðingarmöguleika í samvinnu við starfsmenn og notendur þjónustunnar. Vel má hugsa sér að hægt sé að ná fram hagræðingu á háskólastiginu með sameiningu háskóla, á framhaldskólastiginu með styttingu námstíma og í heilbrigðiskerfinu með sameiningum og hagræðingu sjúkrastofnana í kjölfar stórbættra samgangna.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hér er lagt til að allar skattahækkanir sem vinstristjórnin hefur lagt á fólk og fyrirtæki frá því að hún tók völdin árið 2009 verði afturkallaðar. Með aukinni fjárfestingu aukast umsvifin í hagkerfinu, fólk fer af atvinnuleysisskrá í vinnu, skattgrunnar styrkjast.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af skatti á einstaklinga og fyrirtæki lækki nokkuð að raunvirði milli áranna 2010 og 2012 þegar tekjuskattsprósenta er færð til fyrra horfs. Aukin umsvif og lengri vinnutími vega þó skattalækkunina upp að einhverjum hluta, sérstaklega þegar líður fram á árið 2013. Gert er ráð fyrir að tekjur af fjármagnstekjuskatti hækki um 5% milli áranna. Auðlegðarskattur verði afnuminn og liðurinn aðrir skattar lækkaður um 3 milljarða kr. Tekjur af virðisaukaskatti og vörugjöldum hækka vegna aukinna umsvifa. Tryggingagjald lækki vegna nýrra starfa en tekjur aukist vegna hærra atvinnustigs. Þá komi til tekjur vegna fjárfestingarátaks í innviðum og er hér gert ráð fyrir að um 40% af heildarfjárfestingu renni í ríkissjóð í formi virðisaukaskatts og annarra skatta vegna framkvæmdanna. Þá er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs, svo sem vegna aðflutnings- og leyfisgjalda, sem rekja má til aukinnar fjárfestingar skili auknum tekjum í ríkissjóð.
    Afkoma ríkissjóðs snýst á betri veg ef farið verður að tillögunum. Þannig fer afkoma án vaxtagjalda og -tekna (frumjöfnuður) úr því að vera neikvæð um 37,3 milljarða kr. 2011 í að vera jákvæð um tæpan 21 milljarð kr. árið 2012 og 56 milljarða kr. árið 2013.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Halli á ríkissjóði miðað við gefnar forsendur yrði um 36 milljarðar kr. á næsta ári en kæmist í jafnvægi árið 2013.
    Ef útgjöld ríkissjóðs yrðu eins og tillögurnar gera ráð fyrir tæki ríkið undir sig um 28% af landsframleiðslunni árið 2012 og 26% árið 2013.
    Þá er gert ráð fyrir að hafin verði skattlagning inngreiðslna í séreignalífeyrissjóði og yrðu tekjur vegna þess, um 70 milljarðar kr. árið 2012, notaðar til að standa straum af óvissuþáttum, svo sem skattalækkunum og til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Mikilvægt er að tekjur sveitarfélaganna, sem mörg standa afar illa fjárhagslega, mundu aukast um 40 milljarða kr. á næsta ári við aðgerðina.

IV. Góð hagstjórn og heilbrigt fjármálakerfi er lykillinn að góðum lífskjörum.
    Í kjölfar hruns fjármálakerfisins í október 2008 var komið á gjaldeyrishömlum til þess að stöðva fall krónunnar og mynda gengisstöðugleika. Gjaldeyrishömlunum var ekki ætlað að standa nema fáeina mánuði, eða fram í mars 2009. Núverandi ríkisstjórnin hefur hins vegar ekki viljað aflétta þessum hömlum og raunar hert þær. Þetta eru alvarleg efnahagsleg mistök, sem eiga sinn þátt í því að viðhalda kreppunni.
    Eitt brýnasta verk stjórnvalda nú um stundir er að afnema gjaldeyrishöftin. Umgjörð fjármálamarkaðar, peninga- og gengisstefnuna þarf að endurbæta samhliða. Óháð því hvaða skoðun menn hafa á hvaða gjaldmiðlastefna sé farsælust fyrir Ísland þá þarf að ráðast í umbætur. Svo heppilega vill til að til sömu aðgerða þarf að grípa hvort sem vilji er til að halda krónunni eða gerast aðilar að myntsamstarfi við önnur ríki eða taka einhliða upp aðra mynt. Grunnforsendan er stöðugleiki í fjármálum einstaklinga og fyrirtækja og heilbrigt fjármálakerfi. Miklar sveiflur og óvissa um gengi gjaldmiðils geta orðið til þess að fólk og fyrirtæki flytji úr landi og leiti til landa þar sem viðskiptaumhverfið er stöðugra.

Afnám gjaldeyrishafta eykur trú á efnahagslífið.
    Ísland býr nú eitt vestrænna ríkja við gjaldeyrishöft. Erfitt er að mæla sóun á verðmætum vegna haftanna en ljóst er að hún er gríðarleg. Jafnframt er nær ómögulegt að koma böndum á spillingu og svindl sem þrífst í skjóli þeirra. Reynslan af haftabúskap eftirstríðsáranna var skelfileg og lífsnauðsynlegt er að Ísland feti ekki sama veg nú og gert var þá. Velferðartapið sem höftin leiða yfir Íslendinga er slíkt að leita verður allra leiða til að afnema þau strax. Þetta kennir sagan okkur.
    Áður en höftum er létt þarf raunhæf efnahagsáætlun að liggja fyrir. Þannig verður dregið úr þeirri hættu að innlendir aðilar skipti sparnaði sínum í erlenda mynt vegna vantrúar á íslenskt efnahagslíf. Tilvist haftanna ein og sér sendir út þau skilaboð að gjaldmiðilinn þjóni ekki hlutverki sínu og því mun afnám þeirra sennilega auka tiltrú á gjaldmiðilinn og auka gjaldeyrisstreymi til landsins sem í sjálfu sér styrkir krónuna. Þá verður að hafa í huga að höftin fæla frá erlenda fjárfesta en erlend fjárfesting er mikilvæg til að skapa auknar gjaldeyristekjur. Erlend fjárfesting styrkir gjaldmiðilinn og styrkir krónuna með öflugum og heilbrigðum hætti. Jafnframt skilar gjaldeyrir vegna vöruviðskipta sér þá betur til landsins. Allar tilraunir til að styrkja krónuna með gjaldeyrisinngripum eru dæmdar til að mistakast eins og reynsla annarra þjóða sýnir. Íslendingar hafa ekki efni á að eyða dýrmætum gjaldeyri til að fjármagna fjármagnsflótta.
    Gjaldeyrishöftin hafa í för með sér mjög umtalsverðan þjóðhagslegan kostnað hvort heldur sem er til skamms eða langs tíma:
          þau veikja samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum sem ekki þurfa að glíma við þessar hömlur,
          þau valda þeim sem viðskipti vilja eiga á gjaldeyrismarkaði óþarfa kostnaði og erfiðleikum,
          þau falsa gengi krónunnar sem brenglar framleiðslu og aðra starfsemi í hagkerfinu,
          þau draga úr trausti innlendra og erlendra aðila á íslenskri efnahagsstjórn,
          þau leiða til spillingar og óréttlátri misskiptingu gæða.
    Af þessum ástæðum m.a. draga gjaldeyrishöftin úr hagvexti og leiða til verri lífskjara og þeim mun meira sem þau standa lengur. Það er því afar brýnt að aflétta þessum gjaldeyrishömlum sem allra fyrst. Áætlun sú sem Seðlabankinn hefur samið í samvinnu við ríkisstjórnina er allt of hægfara þrátt fyrir að stjórnarandstöðunni hafi nú í september tekist að stytta hana um rúm tvö ár.
    Sjálfstæðisflokkurinn telur að unnt sé að aflétta gjaldeyrishömlunum á mun skemmri tíma án þess að tefla fjármálalegum stöðugleika í tvísýnu. Ein leið til að gera það gæti falist í eftirfarandi skrefum:
          Sett verði fram trúverðug efnahagsstefna sem miði að sjálfbærum ríkisrekstri, fullu atvinnustigi og hagvexti.
          Meta þarf með áreiðanlegum hætti hvert jafnvægisgengi krónunnar er. Þetta er hægt að gera með því að setja upp tilboðsmarkað fyrir kaup og sölu gjaldeyris með sem almennastri þátttöku stofnana, fyrirtækja og einstaklinga.
          Miða þarf gengiskráninguna við niðurstöðuna á þessum markaði og afnema gjaldeyrishöftin síðan á skömmum tíma í skrefum.
    Allt bendir til að með þessum hætti sé unnt að afnema gjaldeyrishömlurnar á innan við einu ári. Til þess að tryggja árangur er afar mikilvægt að ná samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um útfærslu á þessu ferli.

Ramma peningamálastjórnarinnar þarf að endurbæta.
    Frumforsenda stöðugs gjaldmiðils er að fjármálum hins opinbera sé þannig fyrir komið að þau styðji við peningastefnuna. Ef ríkisútgjöld eru þensluvaldandi vinna þau á móti peningastefnunni og vextir verða hærri fyrir vikið. Mikil eftirspurn ríkisins eftir lánsfé á innanlandsmarkaði þrýstir vöxtum upp og eykur kostnað fyrir heimili og fyrirtæki. Þar með dregur úr fjárfestingu og hagvexti sem er forsenda velmegunar í framtíðinni. Hér á eftir er fjallað betur um það hvernig fjármálastjórnin getur stutt við peningamálastjórnina og til hvaða þátta er nauðsynlegt að horfa við endurskoðun peningastefnunnar.
    Endurskoða þarf hvernig eftirliti með fjármálafyrirtækjum er háttað. Reynsla síðustu ára hefur leitt í ljós hve brýnt er að bankaeftirlit sé á sama stað og eftirlit með fjármálalegum stöðugleika. Því þarf að færa bankaeftirlit FME til Seðlabanka Íslands og breyta hlutverki FME þannig að stofnunin hafi fyrst og fremst neytendavernd á sinni könnu en slíkri vernd er ábótavant, sbr. að stofna þurfti sérstakt embætti umboðsmanns skuldara. Jafnframt þarf að færa Seðlabanka auknar heimildir til inngripa í ákvarðanir fjármálafyrirtækja ef sýnt þykir að þær ógni fjármálalegum stöðugleika. Þá þarf Seðlabanki að fá vald til að geta heft vaxtamunaviðskipti og stórar fjármálahreyfingar ef þau ógna stöðugleika. Seðlabanki þarf að leggja ofuráherslu á að safna gjaldeyrisvarasjóði sem ekki byggist á lántökum.
    Íslenskir bankar eru á botninum í mati World Economic Forum á heilbrigði banka í 143 löndum. Á lista yfir aðgengi að fjármálaþjónustu er Ísland í 97. sæti, í 116. sæti þegar lagt er mat á kostnað við slíka þjónustu, 83. sæti yfir aðgengi að lánum, 70. sæti yfir aðgengi að áhættufjármagni og í 92. sæti þegar mat er lagt á reglur um hlutabréfamarkað. Brýnt er að endurheimta aftur trú á bankakerfið og það verður aðeins gert með því að ljúka endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja á þann hátt að efnahagsreikningur bankanna endurspegli heilbrigt fjármálakerfi og að umgjörð um fjármálamarkaði verði endurbætt.
    Endurskoða þarf lög og reglur um fjármálamarkað. Innstæðutryggingakerfi er nauðsynlegt en það þarf að byggja upp á annan veg en hingað til. Þannig er ófært að fjárfestingabankastarfsemi sé leyfð innan viðskiptabanka. Starfsemi fjárfestingabanka er í eðli sínu mun áhættusamari en viðskiptabankastarfsemi. Það skapar mikla áhættu að hafa þessa starfsemi undir sama þaki. Áföll geta leitt til þess að hættara er við því en ella að reyni á innstæðutryggingar og hugsanlega baktryggingu skattgreiðenda. Þetta hefur hrunið kennt okkur. Starfsemi fjárfestingabanka þarf að vera algjörlega á ábyrgð eigenda og lánardrottna og þess gætt að þeir ógni ekki fjármálalegum stöðugleika.
    Mikilvægt er að setja skýrar reglur um bankastarfsemi sem nær yfir landamæri, ekki síst um hvers konar afleiður. Gera þarf grein fyrir heildaráhættu fjármálastofnana á skýran hátt í efnahagsreikningi. Umbunarkerfi fjármálastofnana má aldrei vera þannig að það auki áhættu þeirra en það má heldur ekki eyða þeim hvötum sem vel hannað launakerfi inniheldur. Þá þurfa reglur um eigið fé sem telst sem lausafé að vera þannig að þrátt fyrir að verðhrun verði á eignamörkuðum þurrkist það ekki út í sviphendingu og fjármálastofnunin velti á hliðina líkt og gerðist í hruninu. Setja þarf mun strangari reglur um hvernig fjármálastofnanir gera grein fyrir lausafjáráhættu sinni.
    Árið 2001 var Seðlabanka Íslands sett verðbólgumarkmið. Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt okkur að afar hæpið sé að seðlabankar í litlum opnum hagkerfum geti starfað eftir hreinu verðbólgumarkmiði. Því þarf að endurskoða markmið Seðlabankans og gefa um leið bankanum fleiri tæki til að kljást við óstöðugleika og verðbólgu. Gengisstöðugleiki og atvinnustig ásamt verðlagi gæti verið grunnur að nýju markmiði Seðlabankans. Það er svipuð leið og seðlabanki Bandaríkjanna hefur farið. Þá þarf að minnka vægi verðtryggingar í neytenda- og húsnæðislánum til að auka virkni peningamálastefnunnar. Sjálfsagt er þó að bjóða áfram upp á verðtryggð ríkisskuldabréf.

Fjármálastjórnin verður að styðja við peningamálastjórnina.
    Þróun gengis krónunnar undanfarin ár hefur verið með þeim hætti að margir hafa snúist á þá skoðun að eina færa leiðin í gjaldmiðlamálum Íslendinga sé að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Rétt er að benda á að nær sömu skilyrði þurfa að ríkja í efnahagsmálum þjóðarinnar til að evran henti sem þjóðargjaldmiðill og þurfa að vera fyrir hendi til að krónan geti gegnt því hlutverki eða einhver annar gjaldmiðill. Til að evran gagnist Íslendingum sem gjaldmiðill þarf hagstjórnin að vera með þeim hætti að hún sé trúverðug og skapi stöðugleika. Munurinn á þessum tveim gjaldmiðlum í hagstæðu efnahagsumhverfi er að krónan verður áfram fljótandi – hugsanlega seigfljótandi – og þjónar áfram því hlutverki sínu að aðlaga hagkerfið, en upptaka evru er fastgengisstefna. Fastgengisstefna kallar á að hagkerfið sé aðlagað um vinnumarkað sem leiðir oftar en ekki til atvinnuleysis þegar illa árar. Það er sársaukafyllra. Jafnframt eru hagkerfi fljótari að jafna sig ef aðlögun hefur átt sér stað með gengisbreytingum, en ef hún verður um vinnumarkað vegna þess hversu erfitt er t.d. að lækka laun svo um munar. Þegar gengi krónunnar lækkar fá útflutningsfyrirtæki hærra verð í krónum fyrir sína vöru en verðlag á innflutningi hækkar. Þegar gengið hækkar hefur það gagnstæð áhrif. Gallinn við krónuna og fljótandi gengi er, eðli máls samkvæmt, meiri sveiflur. Þær er hægt að hemja með réttri hagstjórn.
    Sem lið í því að leysa hagstjórnar- og gjaldmiðlavanda þjóðarinnar er hér lagt til að tekin verði upp fjármálaregla, sem styður við peningamálastefnuna á þann hátt að ekki þurfi að beita vaxtatækjum Seðlabankans á jafn afdrifaríkan hátt og verið hefur. Fjármálareglan felst í því að ríkisútgjöld vaxi sem nemur meðalhagvexti undanfarinna 10 ára, óháð árferði.
    Ef þessi regla væri við lýði yrði ríkissjóður rekinn með afgangi í góðæri en halla í óáran. Reglan mundi dempa hagsveifluna og leggja léttari byrðar á peningamálastefnuna. Af rannsóknum má draga þá ályktun að ef fylgt hefði verið þeirri stefnu í opinberum fjármálum hér á landi árin 1964–2001, að láta samneyslu aukast á hverju ári sem nemur langtímahagvexti, hefðu hagsveiflur árin 1978–2001 orðið um þriðjungi minni en raunin varð. Notkun reglunnar hefði haft í för með sér þjóðhagslegan ávinning sem falist hefði í aukinni framleiðslu, minni óvissu, jafnari neyslu og meiri efnahagslegri velferð.
    Ábati af þessari fjármálareglu er minna álag á peningamálastefnuna, lægri og stöðugri vextir og þar með stöðugra gengi. Þessi stöðugleiki og minni óvissa leiðir aftur til meiri framleiðslu og efnahagslegrar velferðar til langs tíma litið. Sem dæmi má nefna að hvert prósentustig í hærri vöxtum leiðir til um 8,8 milljarða kr. hærri vaxtabyrði fyrir heimilin, fyrirtækin og ríkissjóð á ári. Reglan leiðir einnig til þess að hægt er að framfylgja Maastricht- skilyrðunum mun betur en ella og fyrr yrði hægt að taka upp evru á Íslandi. En það sem meira er um vert: Reglan mundi leiða til mun betri hagstjórnar og þar með yrði stöðugleiki mun meiri, óháð því hvaða gjaldmiðill er notaður, því sjálfstæður gjaldmiðill endurspeglar aðeins undirliggjandi stjórn efnahagsmála og væntingar um hana – ekkert annað.

V. Vandi heimilanna.
    Íslensk heimili standa frammi fyrir miklum vanda. Bágborin staða fyrirtækja og heimila veldur því að vantraust ríkir á fjármálakerfinu, sem gerir ástandið hálfu verra. Við þessu þarf að bregðast á fjármálamarkaðinum og á vettvangi stjórnmálanna. Stjórnvöld verða að viðurkenna þann forsendubrest sem varð haustið 2008. Mikilvægt er að viðhaldið verði þeirri stefnu sem fylgt hefur verið undanfarna áratugi að heimilin eigi þak yfir höfuðið. Til að svo megi verð þarf að tryggja umhverfi sem gerir heimilunum kleift að vinna á skuldavandanum.
    Allt frá hruni hafa heimilin kallað á aðgerðir. Margar misraunhæfar hugmyndir hafa verið settar fram til lausnar vandanum og mörgum hefur verið hrint í framkvæmd. Stefnan sem stjórnvöld hafa fylgt er að einblína á aðgerðir sem miðast að hverjum og einum. Strax vorið 2009 var varað eindregið við að fara þá leið vegna þess hve tafsöm hún er. Tíminn sem farið hefur til spillis hefur magnað skuldavandamálið og gert það nær óleysanlegt – mikilvægt tækifæri rann okkur úr greipum þegar bankarnir voru færðir skilanefndunum. Þá hefur allt of mikill kraftur hefur verið settur í að einblína á útgjaldahlið heimilisbókhaldins. Tekjuhliðin hefur orðið útundan en hún mikilvægari en skuldahliðin til lengri tíma litið.

Tekjuhliðin.
    Í kjölfar hrunsins varð mikill samdráttur í efnahagslífinu. Vandamálin hlóðust upp en í grunninn má segja að þau felist í ofvöxnum skuldum heimila og fyrirtækja í kjölfar hárra vaxta, verðbólgu, gengisfalls íslensku krónunnar, lækkandi ráðstöfunartekna og fallandi eignaverðs. Þessir þættir voru ófyrirséðir og afleiðing af ójafnvægi í efnahagslífinu og hruni fjármálakerfisins. Fjöldi fólks varð atvinnulaus, margir þurftu að minnka við sig vinnu, laun lækkuðu og sparnaður margra hvarf með bönkunum. Á sama tíma hækkuðu afborgarnir snögglega vegna stökkbreyttra skulda. Jafnframt hækkaði allt verðlag. Verð á útgjaldakörfu heimilanna hefur til að mynda hækkað um 22% frá í ágúst 2008. Á sama tíma hafa ráðstöfunartekjur flestra lækkað af fyrrgreindum ástæðum en einnig vegna þess að skattbyrðin hefur verið þyngd. Skattbyrðin á fólk og fyrirtæki var aukin um tæpa 24 milljarða kr. árið 2009, um 52 milljarða kr. 2010, um rúma 14 milljarða kr. 2011 og ætlunin er að auka hana enn um 18 milljarða kr. á næsta ári. Afleiðingarnar af verðbólgu, lægri launum og skattahækkunum eru þær að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna lækkaði um 16,4% að meðaltali árið 2009 og 12,6% árið 2010 þrátt fyrir að fólk hafi gengið á séreignarlífeyrissparnað sinn.
    Stökkbreyttar afborganir og lægri ráðstöfunartekjur hafa leitt til þess að fjöldi venjulegra heimila stendur nú frammi fyrir stórkostlegum fjárhagsvandræðum. Því er eitt brýnasta verkefnið nú um stundir að auka kaupmátt þeirra. Það verður aðeins gert með því að auka umsvifin í hagkerfinu en það er megintónninn í þessum efnahagstillögum. Aukin fjárfesting leiðir til fjölda nýrra starfa og hærri launa. Jafnframt leiða skattalækkanir beint til aukinna ráðstöfunartekna heimilanna og óbeint til aukinna umsvifa. Þannig leiðir fjárfesting til hagvaxtar sem leiðir aftur til hærri launa og það sem meira er, hækkandi fasteignaverðs. Tillögur okkar sjálfstæðismanna verða því til þess að afborganir í hlutfalli við rástöfunartekjur lækka.
    En það er ekki nóg að auka ráðstöfunartekjur heimilanna til að vinna á vandanum. Til þess er hann of mikill.

Ráðstöfunarhliðin.
    Auknar ráðstöfunartekjur leysa vanda margra heimila en ekki allra. Því er brýnt að styrkja þær leiðir til skuldaaðlögunar sem nú eru í boði. Hin svokallaða 110%-leið er lausn fyrir flest heimili sem nú eru ofurskuldsett ef þau sjá fram á að ráðstöfunartekjur aukist og eignaverð hækki. En leiðin þarf að vera sambærileg milli allra fjármálastofnana. Íbúðalánasjóður býður nú leið sem gengur út á að skuldir umfram 110% af fasteignamati eru afskrifaðar. Um 5.500 fjölskyldur hafa sótt um að fara hana og er talið að hún muni kosta Íbúðarlánasjóð um 11 milljarða kr. sem sóttir verða í ríkissjóð. Einhverjar fjármálastofnanir bjóða upp á sambærilega leið en aðrar miða við markaðsverð sem leiðir til þess að grunnurinn að afskriftunum er um 6–7% hærri að meðaltali sem aftur leiðir til þess að minna er afskrifað. Eðlilegt er að allar fjármálastofnanir séu með sambærilega kosti í boði til að meðferð ólíkra heimila sé ekki háð tilviljunum. Það er réttlátt.
    Mikilvægt er að tryggt verði að þeim sem missa atvinnu verði veittur réttur til frystingar á greiðslum vegna húsnæðisskulda í allt að sex mánuði. Þá verði þeim sem misst hafa fasteignir sínar vegna mikillar skuldsetningar eða gjaldþrota gert kleift að leigja þær fasteignir gegn hóflegri greiðslu húsaleigu sem endurspegli markaðsverð. Sömu aðilum verði tryggður kaupréttur á fasteigninni sem gildi í allt að fimm ár frá undirritun húsaleigusamnings.
    Mikið hefur verið fjallað um að afnám verðtryggingar sé nauðsynleg til að hjálpa skuldugum heimilum. Það er byggt á misskilningi. Afnám verðtryggingar ein og sér leiðir ekki til bættrar stöðu. Hins vegar er æskilegt að þau heimili sem það kjósa geti valið um óverðtryggð lán. Þannig er hægt að endurheimta aftur trú á fjármálakerfið og heimilin verða ekki jafn háð sveiflum í verðbólgu, a.m.k. ef um er að ræða fastvaxtalán.
    Æskilegt er til framtíðar litið að losna við verðtryggingu af neytenda- og húsnæðislánum. Eftir fall bankanna 2008 hafa óverðtryggð útlán innlánsstofnana aukist úr 17% í 35% sem hlutfall af heildarútlánum. Fjármálastofnanir bjóða nú flestar óverðtryggð fasteignalán og virðast viðskiptavinir kunna að meta það. Þannig eru nú um 90% nýrra fasteignalána óverðtryggð. Leið Arion banka að bjóða fólki upp á óverðtryggð fasteignalán til 5 ára með föstum 6,25% vöxtum er til fyrirmyndar. Þetta er sambærilegt við það sem tíðkast til að mynda í Bretlandi en þar býður HSBC viðskiptavinum sínum tveggja ára fastvaxtalán á 6,5% vöxtum og RSB býður sínum fimm ára lán á 4%–5,85% vöxtum, allt eftir því hve innborgun á íbúð er há. Raunvextir íbúðarlána með föstum vöxtum virðast því vera lægri hér á landi en til að mynda í Bretlandi.
    Nýverið var lögfest að Íbúðalánasjóður geti boðið óverðtryggð fasteignalán og fylgir stofnunin þar með nýbreytni á fasteignamarkaði sem drifinn er af bönkunum, rétt eins og var árið 2004. Hér er lagt til að Íbúðalánasjóður bjóði viðskiptavinum sínum að breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð með föstum vöxtum til fimm ára en að þeim tíma liðnum verði vextir endurskoðaðir. Það mundi hraða því að verðtryggingu neytenda- og húsnæðislána yrði útrýmt og heimilin öðluðust fyrr trú á fjármálakerfið, auk þess sem peningamálaaðgerðir Seðlabankans yrðu áhrifameiri. Hvetja ætti aðrar fjármálastofnanir til að bjóða upp á sambærilega valkosti.
    Mikilvægt er að fjármálastofnanir sýni fram á með sannfærandi hætti hve stór hluti lána til heimilanna sem fluttur var milli gömlu og nýju bankanna var afskrifaður. Sýna þarf fram á hve mikill hluti svigrúmsins hefur þegar verið notaður í þágu heimilanna. Stjórnendur fjármálastofnana verða að gera sér grein fyrir því traust á bankakerfið er í algjöru lágmarki og að það verður ekki endurheimt fyrr en þjóðin er sannfærð um að ekki sé verið að hlunnfara hana. Þá er mikilvægt að embætti umboðsmanns skuldara verði lagt niður þegar úrvinnslu skuldavanda heimilanna er lokið. Jafnframt er æskilegt að FME leggi meiri áherslu á neytendavernd en hefur verið.
    Hugsanlegt er að einhver heimili geti ekki staðið við skuldbindingar sínar þrátt fyrir þá kosti sem hér eru lagðir til eða eru í boði. Þeim fjölskyldum þarf að vera heimilt að afsala fasteign til viðkomandi fjármálastofnunar og falli þá allar kröfur á skuldara vegna húsnæðis niður í framhaldinu – gefa þarf spilin upp á nýtt. Þetta úrræði er algjört neyðarbrauð og eingöngu lagt til vegna þess forsendubrests sem varð haustið 2008 og þess hversu hægt hefur gengið með skuldaúrvinnsluna. Úrræðið ætti einungis að gilda á takmarkaðan tíma.
    Til lengri tíma litið ber að stefna að lækkun virðisaukaskatts og jafnframt að einfalda innheimtu hans með einu almennu skattþrepi. Núverandi aðstæður í ríkisbúskapnum koma í veg fyrir að því markmiði verði náð á kjörtímabilinu samhliða öðrum skattalækkunum. Hins vegar er skynsamlegt að nýta lægra skattþrepið til að styðja betur við barnafjölskyldur. Samkvæmt samantekt Seðlabankans frá því í apríl 2010 á stöðu heimilanna er ótvírætt að barnafjölskyldur hafa orðið verst úti í efnahagsþrengingum undanfarinna missira. Hér er því lagt til að færa allar barnavörur í neðra virðisaukaskattsþrepið. Þannig mundi virðisaukaskattur á þessar vörur lækka úr 25,5% í 7%.
    Barnafólk eyðir stórum hluta ráðstöfunartekna sinna í að fæða og klæða börn sín. Barnaföt og aðrar nauðsynjavörur tengdar barnauppeldi, bleiur, barnamatur, kerrur og öryggisbúnaður er dýr hér á landi í samanburði við mörg nágrannalönd. Það kemur m.a. til af því að víða er virðisaukaskatturinn mun lægri en hér eða enginn, eins og við á um barnaföt í Bretlandi. Þetta hefur leitt til þess að verslunin hefur í nokkrum mæli flust úr landi sem aftur hefur áhrif á íslenska verslun. Það er ótvírætt að með þessari aðgerð væri komið mjög til móts við þennan hóp í samfélaginu sem hefur orðið illa úti í efnahagsþrengingunum. Um leið mundi verslunin styrkjast.
    Vandi margra bænda er mikill. Í þriðju skýrslu eftirlitsnefndar um sértæka skuldaaðlögun kemur fram að staða þeirra einkennist jafnan af góðri eignastöðu en takmarkaðri greiðslugetu sem leiðir til þess að fjármálastofnanir setja hlutfallslega háar upphæðir á biðlán. Kerfislegt ofmat á verðmæti jarða skapar mismun á milli úrlausna sem rekstraraðili búrekstrar fær og úrlausna sem aðili í annars konar rekstri fær sé litið til raunverulegrar eignastöðu. Þessa skekkju þarf að leiðrétta. Þá liggur ekkert fyrir um það hvað skuli gera við biðlánin og skapar það mikla óvissu.
    Hægt er að lækka kostnað heimilanna með því að endurskoða tolla, vörugjöld og aðflutningsgjöld á nauðsynjavörum. Margar vörutegundir eru umluktar verndarmúrum sem ekki þjóna hagsmunum neytenda. Takmarkað tollfrelsi hefur verið innleitt á grundvelli WTO- samstarfsins og með samningum við önnur ríki um gagnkvæma lækkun tolla. Eðlilegt er að sú vinna haldi áfram, ekki síst vegna þess að miklir útflutningsmöguleikar eru nú að opnast fyrir viðskipti með ýmsar landbúnaðarvörur, svo sem lambakjöt og mjólkurafurðir, í öðrum löndum. Útflutningshagsmunir okkar á sviði landbúnaðar fara því vaxandi. Hverfa ber frá því fyrirkomulagi sem nú hefur nýverið verið innleitt með verðtollum á landbúnaðarvörum og magnað hefur upp neikvæða umræðu um íslenskan landbúnað. Þess í stað verði að nýju byggt á útboðum á grundvelli magntolla sem var til hagsbóta fyrir neytendur og framleiðendur íslenskra búvara.
    Nauðsynlegt er að hvetja til aukins sparnaðar til að ekki myndist líkt ástand og var á áttunda áratugnum þegar sparifé brann allt upp í verðbólgu og fólk hætti að spara. Nú er um 75% af frjálsum sparnaði heimilanna á óverðtryggðum innlánsreikningum. Nafnvextir mynda skattandlag sem gerir það að verkum að verðbótaþáttur vaxtanna er skattlagður. Það er ósanngjarnt og letur fólk til að spara. Þessa skattframkvæmd þarf að endurskoða.
    Við endurreikning gengislána kom inngrip ríkisstjórnar sér illa fyrir lántakendur þar sem það gengur gegn meginreglum kröfuréttar. Það er ekki einfalt að leiðrétta þann gjörning en verkefni löggjafans er að fara yfir hvernig hægt er að lágmarka skaðann sem orðið hefur án þess að skapa ríkinu skaðabótaskyldu.
    Ljóst er að á næstu árum verður mun erfiðara en hefur verið um langa hríð fyrir fólk að kaupa sína fyrstu íbúð. Það stafar af aðgerðum sem miða að því að koma í veg fyrir lánsveð og litlum ráðstöfunartekjum ungs fólks. Huga þarf að stöðu þeirra sem eru að eignast sína fyrstu íbúð.

VI. Áhrif tillagna á efnahagslífið.
    Drifkrafturinn í efnahagstillögunum sem settar eru fram hér er fjárfesting og atvinna. Orsakasamhengið sem hér er byggt á er að aðgerðirnar leiði til aukinnar fjárfestingar sem leiða aftur til aukinnar atvinnu. Aukin fjárfesting og atvinna leiða síðan til aukins hagvaxtar og þar með meiri landsframleiðslu, styrkari skattstofna og betri afkomu ríkissjóðs.
    Til að sýna áhrifin var sett fram einfalt þjóðhagslíkan. Borin var saman leið Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar og er þar gert ráð fyrir að fjárfestingar verði svipaðar á næstu árum og því sem er að líða, um 11–13% af landsframleiðslu. Þá er gert ráð fyrir að atvinnuleysi verði um 6% á næsta ári. Leið Sjálfstæðisflokksins gerir hins vegar ráð fyrir að fjárfesting verði um 19% á næsta ári og atvinnuleysi um 4%. Nær fullu atvinnustigi verði síðan náð árið 2013.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Aukið atvinnustig og aukin fjárfesting leiðir til aukins hagvaxtar. Á næstu tveimur myndum má sjá áhrifin af aukningu þessara tveggja þátta á hagvöxt og áhrif hans á landsframleiðslu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á næstu mynd má sjá afkomu ríkissjóðs miðað við stefnurnar tvær.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eins og sést á myndinni kæmist jafnvægi á í ríkisfjármálum árið 2013 ef stefnu Sjálfstæðisflokksins verður fylgt og er það í samræmi við áætlun þá sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gerði í í samvinnu við AGS haustið 2008. Jafnframt sést af myndinni að ef núverandi stefnu ríkisstjórnarinnar verður fylgt næstu ár mun ríkissjóður vera rekinn með viðvarandi halla og skuldasöfnun. Árið 2014 hæfist uppgreiðsla skulda af fullum krafti og er gert ráð fyrir að um 20 milljarðar kr. verði greiddir niður af skuldum á ári eftir það.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Forsendur tillagnanna gera ráð fyrir að fjárfestingu og atvinnustigi verði þannig háttað að ekki myndist framleiðsluspenna í hagkerfinu. Ef hins vegar fólk sem flutt hefur af landi brott snýr aftur er hægt að auka fjárfestingu frá því sem hér er gert ráð fyrir sem leiðir til enn fleiri starfa, aukins hagvaxtar og betri afkomu ríkissjóðs. Ef sú yrði raunin væri hægt að auka kaupmátt og greiða niður skuldir ríkissjóðs enn hraðar en hér er gert ráð fyrir.
    Þær niðurstöður sem hér eru birtar byggjast á hefðbundnu einföldu þjóðhagslíkani. Forsendur þess eru almennar, en gefa góða vísbendingu um mismunandi niðurstöður vegna áhrifa af ólíkum efnahagsstefnum.