Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 197. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 202  —  197. mál.
Flutningsmenn.
Tillaga til þingsályktunarum að gefa íbúum vestnorrænu landanna kost á að flytja inn matvörur
til eigin neyslu við millilendingu á Íslandi.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að finna leiðir til þess að gera íbúum vestnorrænu landanna kleift að flytja inn tilgreindar þjóðlegar matvörur til eigin neyslu þegar millilent er á Íslandi á leiðinni til annarra vestnorrænna landa.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 5/2011 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 24. ágúst 2011 á Bifröst.
    Eitt af því sem vestnorrænu löndin eiga sameiginlegt er einmitt að kunna að meta þjóðlegar matvörur sem framleiddar eru með hefðbundnum aðferðum í löndunum þremur. Ekki er hins vegar hægt að taka með sér matvörur frá hinum vestnorrænu löndunum til Íslands jafnvel þótt um sé að ræða varning sem er eingöngu ætlaður til eigin neyslu.
    Farþegar sem millilenda á Íslandi verða fyrir því að matvörur þeirra eru gerðar upptækar við komu. Það kemur einnig fyrir að farþegar sem koma með flugi frá Austur-Grænlandi til Íslands eingöngu vegna þess að ekki var hægt að lenda á áfangastað þeirra á Grænlandi vegna veðurs og verða að gista eina nótt á Íslandi verða fyrir því að matvörur þeirra, sem aldrei var ætlunin að flytja til Íslands heldur aðeins innan lands á Grænlandi, eru gerðar upptækar.
    Vandamálið er einnig til staðar hvað varðar áhafnir fiskiskipa, sem geta ekki heldur tekið með sér matvörur til eigin nota þrátt fyrir að aðeins eigi að flytja þær frá flugvelli til skips.
    Ísland hefur á síðari árum orðið í æ ríkari mæli miðstöð fyrir farþegaflutninga milli vestnorrænu landanna og því er mikilvægt að leitað verði leiða til að leysa þetta vandamál svo að íbúar vestnorrænu landanna verði ekki fyrir ónauðsynlegum hindrunum á ferðum milli landanna.
    Ákvörðun um hvaða matvæli yrði leyft að flytja inn á þennan hátt yrði tekin í samráði við viðeigandi stofnanir, t.d. Matvælastofnun.