Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 198. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 203  —  198. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar



um vestnorrænt samstarf um meðferð á endurvinnanlegu brotajárni.

Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta, í samvinnu við Færeyjar og Grænland, skilgreina sameiginlega hagsmuni landanna með tilliti til meðferðar á endurvinnanlegu brotajárni og gefa Vestnorræna ráðinu skýrslu um hvernig meðferð þess er háttað í löndunum þremur.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 4/2011 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 24. ágúst 2011 á Bifröst.
    Vestnorrænu löndin einkennast af því að vera eyríki þar sem öll meðhöndlun á endurvinnanlegu brotajárni veltur á að járnið sé flutt sjóleiðis þangað sem hægt er að taka það til frekari meðhöndlunar. Til að geta varpað ljósi á möguleika þeirra sem áhuga kynnu að hafa á að kaupa og selja endurvinnanlegt brotajárn í vestnorrænu löndunum er nauðsynlegt að hafa yfirsýn yfir hvernig meðferð þess er hagað.
    Skorað er á ríkisstjórnir landanna að kanna möguleika á að byggja upp sameiginlegt kerfi í kringum söfnun á endurvinnanlegu brotajárni og sérstaklega möguleikana á flutningi þess. Ríkisstjórnirnar skiptist á upplýsingum um þær áskoranir og vandamál sem upp koma hvað varðar meðferð á endurvinnanlegu brotajárni til að hægt sé að byggja upp hagkvæmt og umhverfisvænt kerfi til að safna því og endurnýta það sem hægt er.
    Vegna krafna nútímasamfélagsins um meðferð á endurvinnanlegu brotajárni og endurnýtingu þess er þörf á að þeir sem kynnu að vilja koma inn á markaðinn hafi yfirsýn yfir hvernig löndin þrjú haga meðferð þess. Vestnorræna ráðið telur að sameiginleg skýrslugjöf ríkisstjórnanna um þetta efni gæti orðið til þess að fyrirtæki sem áhuga kynnu að hafa gætu betur en ella áttað sig á möguleikum þess að fjárfesta í endurnýtingu brotajárns í löndunum, t.d. með tilliti til hugsanlegrar stærðarhagkvæmni.