Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 257. máls.

Þingskjal 267  —  257. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um happdrætti fyrir Samband íslenskra
berkla- og brjóstholssjúklinga, nr. 18/1959,
með síðari breytingum (breyting á hlutatölu).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    Í stað „75.000“ í a-lið 1. gr. laganna kemur: 80.000.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 13 16. mars 1949 var Sambandi íslenskra berklasjúklinga heimilað að stofnsetja og reka vöruhappdrætti og gilti heimildin í 10 ár. Var sú heimild framlengd um 10 ár í senn, síðast með lögum nr. 146 19. desember 2007 til ársloka 2018.
    Ágóða af happdrættinu skal varið til að greiða stofnkostnað við byggingarframkvæmdir Reykjalundar, endurhæfingarmiðstöðvar, til byggingar og rekstrar vinnustofu fyrir öryrkja og til annarrar félagsmálastarfsemi Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga sem viðurkennd er af ríkisstjórninni.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að happdrættinu verði veitt heimild til að auka hlutatölu happdrættisins úr 75.000 hlutum í 80.000 hluti, en það er til samræmis við heimild sem happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna hefur haft í langan tíma, sem einnig rekur flokkahappdrætti. Hefur happdrættið óskað eftir þessari breytingu. Ekki hefur verið leitað umsagnar annarra um hana. Breytingin mun ekki hafa áhrif á hlutfall vinninga en slíkt er bundið í lögunum. Hins vegar mun heildarfjárhæð vinninga hækka þar sem miðafjöldi verður meiri. Þá mun aukning hlutatölunnar opna fyrir nýja miðanúmeraseríu hjá happdrættinu, þ.e. miðanúmer frá 75.000 til 80.000.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um happdrætti fyrir
Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, nr. 18/1959,
með síðari breytingum (breyting á hlutatölu).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að happdrættinu verði veitt heimild til að auka hlutatölu happdrættisins úr 75.000 í 80.000, en það er til samræmis við heimild sem happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna hefur haft til þessa.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóðs.