Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 269. máls.

Þingskjal 296  —  269. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 45/1997, um vörumerki,
með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 13. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „vörur“ og „vörum“ í 1. málsl. kemur: og þjónustu.
     b.      Á eftir orðunum „vörunnar“ og „framleidd“ í 2. málsl. kemur: eða þjónustunnar, og: eða þjónustan látin í té.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „vel þekkt“ í 7. tölul. kemur: alþekkt.
     b.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: ef villast má á merkinu og merki sem verið hefur í notkun í öðru landi, á þeim tíma er umsókn var lögð inn eða frá forgangsréttardegi, og er enn notað þar fyrir sömu eða líkar vörur/þjónustu og yngra merkið óskast skráð fyrir og umsækjandi vissi eða hefði mátt vita um erlenda merkið.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „jafnframt veittur frestur til að skýra mál sitt“ í lok fyrri málsliðar kemur: honum veittur kostur á að tjá sig eða lagfæra umsóknina innan tilskilins frests.
     b.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Komi ekki fram athugasemdir frá umsækjanda né lagfæring á umsókninni innan tilskilins frests skv. 1. mgr. skal umsókn felld úr gildi.
                  Að beiðni umsækjanda skal umsókn tekin fyrir á ný ef hann, innan tveggja mánaða frá því að tilskilinn frestur skv. 1. mgr. rann út, tjáir sig um málið eða lagfærir umsóknina enda greiði hann endurupptökugjald.

4. gr.

    Við síðari málslið 1. mgr. 22. gr. laganna bætist: og þeim fylgja tilskilið gjald.

5. gr.

    Á eftir 24. gr. laganna kemur ný grein, 24. gr. a, sem orðast svo:
    Einkaleyfastofan getur að beiðni eiganda og gegn greiðslu tilskilins gjalds hlutað umsókn sem inniheldur fleiri en einn vöru- eða þjónustuflokk sundur í tvær eða fleiri umsóknir. Í beiðni skal tilgreint til hvaða vöru- eða þjónustuflokks hver umsókn skuli taka eftir hlutunina. Þegar beiðni um hlutun hefur verið meðhöndluð fær sú umsókn sem verður til nýtt sjálfstætt umsóknarnúmer en sama umsóknar- og forgangsréttardag og grunnskráningin. Ákvörðun um hlutun skal birt í ELS-tíðindum.
    Einkaleyfastofan getur að beiðni eiganda og gegn greiðslu tilskilins gjalds hlutað skráningu sem inniheldur fleiri en einn vöru- eða þjónustuflokk sundur í tvær eða fleiri skráningar. Í beiðni skal tilgreint til hvaða vöru eða þjónustuflokks hver skráning skuli taka eftir hlutunina. Þegar beiðni um hlutun hefur verið meðhöndluð fær sú skráning sem verður til nýtt sjálfstætt skráningarnúmer en sama umsóknar-, forgangsréttar- og skráningardag og grunnskráningin. Ákvörðun um hlutun skal birt í ELS-tíðindum.

6. gr.

    Í stað orðanna „með dómi, sbr. 28. gr.“ í 1. mgr. 25. gr. laganna kemur: með dómi eða ákvörðun Einkaleyfastofunnar, sbr. 28. gr. og 30. gr. a.

7. gr.

    Við 27. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Að beiðni eiganda vörumerkjaskráningar skal umsókn um endurnýjun tekin fyrir ef hann innan tveggja mánaða frá því að frestur skv. 1. mgr. rann út leggur inn umsókn um endurnýjun og greiðir tilskilið endurupptökugjald.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „með dómi“ í 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. kemur: eða ákvörðun Einkaleyfastofunnar.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Sé ógildingar krafist á grundvelli ruglingshættu við eldra merki er aðeins hægt að verða við þeirri kröfu að sá sem krefst ógildingar sýni fram á að notkun hins eldra merkis hafi verið í samræmi við 25. gr. Ef aðeins er sýnt fram á notkun fyrir hluta þeirrar vöru eða þjónustu gildir ákvæði 5. mgr. 25. gr.

9. gr.

    Á eftir 30. gr. laganna kemur ný grein, 30. gr. a, sem orðast svo:
    Eftir að merki hefur verið skráð og andmæla- og/eða áfrýjunarfrestir eru liðnir getur hver sá sem hefur lögmætra hagsmuna að gæta krafist þess að Einkaleyfastofan felli úr gildi skráningu ef skilyrði 28. gr. eru uppfyllt. Krafan skal vera skrifleg og henni skal fylgja rökstuðningur og tilskilið gjald.
    Tilkynna skal eiganda skráningarinnar um kröfuna og hefur hann rétt til að tjá sig um málið innan tilskilins frests áður en Einkaleyfastofan tekur ákvörðun í málinu. Taki Einkaleyfastofan ákvörðun um ógildingu skráningar í heild eða að hluta skal birta tilkynningu þar að lútandi í ELS-tíðindum. Ekki er unnt að gera kröfu skv. 1. mgr. um ógildingu ef mál vegna sömu skráningar er til meðferðar fyrir dómstólum.
    Ef dómsmál er höfðað vegna skráningar á sama grundvelli og fram kemur í kröfu skv. 1. mgr. og áður en Einkaleyfastofan hefur tekið endanlega ákvörðun skal Einkaleyfastofan fresta meðhöndlun málsins þar til niðurstaða dómstóls liggur fyrir.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
     a.      Orðin „innan þriggja mánaða frá skráningar- eða innfærsludegi“ í fyrri málslið falla brott.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Eigandi umsóknar eða skráningar vörumerkis getur lagt fram beiðni um að augljósar villur sem fram koma í umsókn eða skráningu verði leiðréttar.

11. gr.

    Við 1. mgr. 32. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: samkvæmt ákvörðun Einkaleyfastofunnar ef skráning uppfyllir ekki skilyrði 28. gr., sbr. 30. gr. a.

12. gr.

    1. mgr. 35. gr. laganna orðast svo:
    Eigandi vörumerkis sem ekki hefur lögheimili á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum skal hafa umboðsmann búsettan á einhverju framangreindra landsvæða.

13. gr.

    64. gr. laganna orðast svo:
    Öllum er heimilt að kynna sér efni vörumerkjaumsókna og skráninga. Vörumerkjaumsóknir eru aðgengilegar frá fyrsta virka degi eftir móttöku.
    Einkaleyfastofunni er óheimilt að veita almenningi aðgang að fylgiskjölum eða gögnum í heild eða að hluta sem geyma viðskiptaleyndarmál og varða almennt ekki skráningu merkis eða einkarétt á merki.

14. gr.

    65. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra setur nánari reglur um frágang vörumerkjaumsókna og meðferð þeirra eða skráðra vörumerkja hjá Einkaleyfastofunni, um form vörumerkjaskrárinnar og færslu, útgáfu skráningarskírteina og efni þeirra og meðferð andmæla- eða ógildingarmála, svo og um gjöld fyrir áfrýjanir. Þá setur ráðherra nánari reglur um áfrýjun og áfrýjunarnefnd.

15. gr.

    Á eftir 65. gr. laganna kemur ný grein, 65. gr. a, sem orðast svo:
    Í reglugerð sem ráðherra setur skal kveðið á um gjöld samkvæmt lögum þessum og þóknun fyrir þá þjónustu sem Einkaleyfastofan veitir.
    Gjöld, þar á meðal umsóknar- og endurnýjunargjöld, skulu standa undir kostnaði við rekstur Einkaleyfastofunnar vegna vörumerkja og við þjónustu sem veitt er, m.a. fyrir landsbundnar og alþjóðlegar umsóknir um vörumerki, könnun Einkaleyfastofunnar á form- og efnisskilyrðum umsókna, þjónustu vegna rannsókna vörumerkjaumsókna, útgáfu og framsendingu forgangsréttarskjala, skráningu vörumerkja og endurupptöku, meðferð skv. 22. gr., birtingu í ELS-tíðindum, breytingar á vörumerkjaskrá og útskriftir úr skránni og önnur þjónustuverkefni.
    Gjaldskrá þjónustugjalda skal m.a. taka mið af launum og launatengdum gjöldum, þjálfun og endurmenntun, aðkeyptri sérfræðiþjónustu, húsnæði, starfsaðstöðu, búnaði og tækjum og alþjóðlegri samvinnu.
    Gjöld samkvæmt lögum þessum renna til Einkaleyfastofunnar og innheimtir hún gjöldin.

16. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög þessi eiga jafnframt við um vörumerkjaumsóknir sem fengið hafa umsóknardag fyrir gildistöku laga þessara, svo og vörumerki sem voru skráð fyrir gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er endurflutt frá síðasta löggjafarþingi, 139. þingi, með örlitlum breytingum, m.a. á grundvelli breytingartillagna frá áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar og Einkaleyfastofunnar, sbr. athugasemdir við einstakar greinar. Felur frumvarpið í sér tillögur um breytingar á lögum um vörumerki, nr. 45/1997, með síðari breytingum. Hluti breytinganna er til kominn vegna aðildar Íslands að Singapúrsamningnum um vörumerkjarétt frá 2006. Aðrar breytingar eru í samræmi við norræna framkvæmd. Enn fremur eru lagðar til breytingar í þeim tilgangi að auka á skýrleika einstakra ákvæða í gildandi lögum. Vikið er að tilefni lagasetningar í eftirgreindum köflum í athugasemdum við lagafrumvarpið og eftir atvikum í athugasemdum við einstakar greinar. Við gerð upphaflega frumvarpsins var haft ítarlegt samráð við Félag umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa.
    Við meðferð frumvarpsins á 139. löggjafarþingi 2010–2011 bárust umsagnir frá ríkisskattstjóra og Viðskiptaráði Íslands sem ekki gerðu athugasemdir við frumvarpið. Þá barst einnig umsögn frá áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Í samræmi við þær ábendingar voru gerðar breytingar á orðalagi 2. gr. frumvarpsins er varðar vörumerki sem ekki má skrá og 13. gr. er lýtur að aðgangi að vörumerkjaskrá. Þá voru gerðar smávægilegar breytingar í samræmi við ábendingar Einkaleyfastofu m.a. til að tryggja betra samræmi við Singapúrsamninginn.
    Samhliða framlagningu frumvarpsins á síðasta þingi var af hálfu utanríkisráðherra lögð fyrir Alþingi tillaga til þingsályktunar varðandi aðild Íslands að Singapúrsamningnum um vörumerkjarétt en samningurinn var fylgiskjal með þingsályktunartillögunni. Samráð var haft við utanríkisráðuneytið um þýðingu á samningnum og við gerð tillögunnar sem var samþykkt.

1.     Singapúrsamningurinn um vörumerkjarétt.
    Singapúrsamningurinn um vörumerkjarétt var undirritaður árið 2006. Um er að ræða endurbætta útgáfu af alþjóðlegum samningi um vörumerkjarétt frá árinu 1994 (Trademark Law Treaty, eða TLT 1994). Alþjóðahugverkastofnunin (World Intellectual Property Organization-WIPO) hefur yfirumsjón með samningnum sem tók gildi 16. mars 2009 eða þremur mánuðum eftir að tíu ríki eða milliríkjastofnanir höfðu afhent fullgildingar- eða aðildarskjöl til vörslu.
    Efni samningsins varðar skilyrði varðandi form og meðhöndlun vörumerkjaumsókna og skráninga. Markmið samningsins er að koma á samræmdu skipulagi og framkvæmd vegna umsókna um skráningu vörumerkja. Samningurinn gerir ráð fyrir því að umsóknir um vörumerki geti verið með rafrænum hætti. Vörumerkjaumsóknir og -skráningar munu því hljóta sams konar meðferð, hvað form varðar, í aðildarríkjum samningsins.
    Hinn 1. janúar 2011 höfðu 59 ríki undirritað samninginn, m.a. Ísland, og 25 ríki fullgilt hann. Þau ríki, sem hafa fullgilt samninginn, eru Ástralía, Bandaríkin, Belgía, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Frakkland, Holland, Ítalía, Kirgistan, Lettland, Liechtenstein, Lúxemborg, Makedónía, Malí, Moldavía, Mongólía, Pólland, Rúmenía, Rússland, Serbía, Singapúr, Slóvakía, Spánn og Sviss.
    Þær breytingar, sem lagt er til að gerðar verði í samræmi við efni samningsins, eru m.a. ívilnandi úrræði, þegar tímamörk eru ekki virt, og möguleiki á hlutun umsókna og skráninga.

2.     Ákvæði úr norrænni framkvæmd.
    Í frumvarpinu er að fyrirmynd dönsku vörumerkjalaganna og nýrra norskra vörumerkjalaga sem tóku gildi 1. júlí 2010 lagt til að Einkaleyfastofunni verði veitt heimild til að fella niður skráningu vörumerkja, bæði í þeim tilvikum er notkun vörumerkis hefur ekki átt sér stað, sbr. ákvæði 25. gr. gildandi laga, og í þeim tilvikum er sá sem hefur lögmætra hagsmuna að gæta óskar eftir því að fá fellda úr gildi skráningu sem hann telur brjóta í bága við ákvæði laganna.

3.     Ákvæði sem auka skýrleika einstakra ákvæða í gildandi lögum.
    Í frumvarpinu er einnig að finna tillögur um breytingar á ákvæðum í því skyni að auka skýrleika einstakra ákvæða vörumerkjalaga. Má þar nefna breytingar á ákvæðum 13. gr. laganna sem lagt er til að tilgreini jafnt vöru og þjónustu, í stað þess að í gildandi 13. gr. er einungis talað um vörur. Þá kveður 13. gr. frumvarpsins skýrt á um rétt almennings til að kynna sér efni vörumerkjaumsókna og skráninga. Orðalagi hefur verið breytt lítillega frá frumvarpinu á síðasta þingi eins og vikið er nánar að í athugasemdum við greinina.
    Einnig er lögð til sú breyting í frumvarpinu að í þeim tilvikum þegar umsækjandi er ekki búsettur á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum sé honum skylt að tilnefna umboðsmann, búsettan á einhverju þeirra landsvæða. Í gildandi lögum þarf umboðsmaður hins vegar að hafa búsetu hér á landi. Þessi breyting kemur til af því að Evrópusambandið hefur talið að krafa um búsetu í tilteknu ríki stríði gegn reglum sambandsins um frjálsa þjónustu milli ríkja þess.
    Samskipti umsækjanda eða eiganda vörumerkis við Einkaleyfastofuna munu áfram vera á íslensku. Í undantekningartilvikum hefur stofnunin tekið við skjölum á erlendum tungumálum, svo sem framsölum, og er gert ráð fyrir að framkvæmdin verði óbreytt að þessu leyti. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur til umboðsmanna, eingöngu að um sé að ræða einstakling eða lögaðila.
    Frumvarpið felur jafnframt í sér heimild Einkaleyfastofunnar til að innheimta sérstök gjöld vegna andmæla, beiðni um ákvörðun Einkaleyfastofu til að fella skráð merki úr gildi, beiðni um hlutun umsókna og skráninga og beiðni um endurupptöku.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 13. gr. gildandi laga er fjallað um almenn skilyrði þess að vörumerki teljist skráningarhæf. Greinin tekur aðeins til vöru samkvæmt orðalagi hennar en ekki til þjónustu þó að hún hafi í framkvæmd bæði verið talin ná til vöru og þjónustu. Rétt þykir hins vegar að auka skýrleika ákvæðisins og er því lagt til að bæta því við að krafan til sérkennis og aðgreinanleika vörumerkja taki einnig til þjónustu.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að orðið „alþekkt“ komi í stað orðanna „vel þekkt“ í 7. málsl. 14. gr. laganna, í samræmi við umsögn frá fyrrverandi formanni áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar við þinglega meðferð á sl. þingi. Með breytingunni er gerður greinarmunur á merkjum sem vísað er til annars vegar í 4. gr. laganna og hins vegar 7. málsl. 14. gr. laganna en sama hugtakanotkun yfir ólík tilvik skapar óvissu og þykir rétt að skýra. Breytingin er í samræmi við hugtakanotkun í dönsku vörumerkjalögunum, 6. gr. a Parísarsamþykktarinnar um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar og TRIPS-samninginn (viðauki C við Marakess-samning um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar).
    Nýr 9. tölul. 1. mgr. 14. gr. svarar til greinar 4.4. g í tilskipun ráðsins 2008/95/EB (áður grein 4.4. g í tilskipun ráðsins 89/104/EBE ). Ákvæðinu er einnig ætlað að koma til móts við kröfu 6. gr. g (septies) Parísarsamþykktarinnar frá 1883 um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar, með síðari breytingum, þar sem fram kemur að eigandi merkis hafi möguleika á að hindra óheimila skráningu merkja sem umboðsmaður hans hefur markaðssett í öðru landi og fengið skráð í sínu nafni.
    Það er meginregla að vörumerkjarétturinn sé landsbundinn og því þykir rétt að undirstrika að ákvæðið á aðeins við í undantekningartilvikum, eins og t.d. því sem hér að framan er lýst.
    Aðeins er unnt að beita ákvæðinu þegar merkið, sem sótt er um, er eins eða næstum því eins og erlenda merkið, auk þess sem notkunin þarf að taka til sömu eða sambærilegrar vöru eða þjónustu. Þess er ekki krafist að merkið sé vel þekkt í skilningi 7. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna, sbr. fyrirhugaða breytingu á þeim tölulið yfir í orðið alþekkt.
    Sönnunarbyrðin um að umsækjandi hafi verið í vondri trú hvílir á þeim sem andmælir slíkri skráningu. Teljist vond trú umsækjanda ekki sönnuð með óyggjandi hætti verða andmæli ekki tekin til greina.

Um 3. gr.

    Í 19. gr. gildandi laga er fjallað um meðferð Einkaleyfastofunnar á umsóknum sem fullnægja ekki ákvæðum laga eða reglna. Ef umsókn er synjað fær umsækjandi möguleika á að tjá sig um synjunina eða lagfæra umsóknina innan tiltekins frests.
    Í nýrri 2. mgr. 19. gr. er kveðið skýrt á um heimild Einkaleyfastofunnar til að fella umsókn úr gildi hafi athugasemdir eða lagfæringar umsækjanda ekki verið gerðar innan tilskilins frests. Synjanir Einkaleyfastofunnar taka bæði til forms og efnis umsókna. Einkaleyfastofan getur veitt umsækjanda kost á að tjá sig oftar en einu sinni um annmarka umsóknar. Ákvæði 3. mgr. um endurupptöku yrði nýmæli og er í samræmi við rétt umsækjanda að eiga kost á ívilnandi úrræðum eftir lok tímamarka skv. 14. gr. Singapúrsamningsins um vörumerkjarétt. Í frumvarpi sem rætt var á sl. þingi var ákvæði um að endurupptaka gæti eingöngu átt stað sér einu sinni. Til að tryggja að skuldbindingar samkvæmt Singapúrsamningnum væru örugglega virtar þótti rétt að fella niður þá takmörkun.

Um 4. gr.

    Samkvæmt 22. gr. laganna er heimilt að andmæla skráningu vörumerkis innan tveggja mánaða frá birtingu skráningar. Í frumvarpinu er lagt til að sérstakt gjald skuli greitt þegar skráningu vörumerkis er andmælt. Gjald fyrir slíka þjónustu er ákveðið af ráðherra skv. 65. gr. vörumerkjalaga. Samkvæmt gildandi vörumerkjalögum má ekki skrá vörumerki ef merkið uppfyllir ekki kröfur laganna um sérkenni og eins ef einhverjar hindranir 14. gr. laganna koma í veg fyrir skráningu. Það fer því ávallt fram rannsókn áður en merki er skráð. Lagt er mat á skráningarhæfi merkis með hliðsjón af rannsókninni áður en tekin er ákvörðun um að skrá merki. Einkaleyfastofan gætir því hagsmuna þeirra sem talið er að eigi betri rétt að því marki sem rannsókn leiðir slíkt í ljós. Skráningum er ávallt unnt að andmæla innan tveggja mánaða frá birtingu skráningar, m.a. í því skyni að tryggja það að sá sem telur sig hafa betri rétt geti fengið skráninguna ógilta.
    Samkvæmt gildandi lögum er ekki tekið gjald fyrir slíka þjónustu. Mikill tími fer hins vegar í vinnu við að úrskurða í málum þessum. Þá má benda á að samkvæmt vörumerkjalögum Norðurlandanna er innheimt sérstakt gjald vegna andmæla á skráðu vörumerki. Gjaldtaka þessi er einnig í samræmi við fyrirhugaða gjaldtöku samkvæmt hinu nýja fyrirhugaða úrræði í 30. gr. a í lögunum sem felur í sér heimild til að óska eftir því að Einkaleyfastofan ógildi skráningu vörumerkis í nánar tilgreindum tilvikum.

Um 5. gr.

    Greinin er nýmæli og er lagt til að hún sé sett inn í vörumerkjalög vegna fyrirhugaðrar aðildar Íslands að Singapúrsamningnum um vörumerkjarétt. Ákvæði 7. gr. samningsins kveður á um hlutun umsókna og skráninga. Samningurinn felur í sér að aðildarríki hans beri að gera bæði umsækjendum og eigendum vörumerkja kleift að óska eftir hlutun á umsókn eða skráningu gegn gjaldi. Ákvæðið kveður á um það að sú umsókn eða skráning, sem verður til við hlutun, fái nýtt sjálfstætt umsóknarnúmer eða skráningarnúmer en slík umsókn eða skráning fái sama umsóknar- og forgangsréttardag og grunnskráningin/ -umsóknin. Ákvæðið getur því verið til hagsbóta fyrir umsækjendur eða eigendur skráninga þar sem unnt er að óska eftir hlutun umsóknar á meðan umsóknarferli stendur yfir og hlutun skráningar eftir að merki hefur verið skráð, t.d. í þeim tilvikum sem meðferð stendur yfir vegna áfrýjunar merkis.

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. 25. gr. gildandi laga er kveðið á um að ógilda megi skráningu með dómi ef eigandi vörumerkis hefur sannanlega ekki notað skráð merki sitt í fimm ár.
    Lagt er til að Einkaleyfastofan geti, auk dómstóla, fellt skráningu úr gildi þegar skráð vörumerki hefur sannanlega ekki verið notað skv. 25. gr., sbr. nýja 30. gr. a vörumerkjalaga. Ákvæði um notkunarskyldu kom inn í vörumerkjalögin árið 1993 með breytingalögum nr. 67/1993. Megintilgangur setningar ákvæðisins var að reyna að sporna við hinum mikla fjölda formskráninga (varnarskráninga), en það eru þær skráningar kallaðar þegar merki er eingöngu skráð til þess að koma í veg fyrir að samkeppnisaðili geti notað merki en er svo ekki notað af eiganda merkisins.
    Segja má að ákvæðið um notkunarskyldu hafi takmarkaða þýðingu ef ekki kemur til einfaldari og ódýrari leið til að fá skráningu fellda úr gildi. Þá má einnig halda því fram að Einkaleyfastofan/stjórnvöld styðji þetta ástand af sjálfsdáðum (ex officio) þrátt fyrir að heimilt sé samkvæmt lögunum að fella skráninguna úr gildi (þ.e. með dómi).
    Fjöldi skráðra vörumerkja hefur aukist gífurlega hér á landi og á alþjóðavísu undanfarin ár. Þekkt er að einstaklingar og fyrirtæki eigi fjölda skráðra vörumerkja sem ekki eru notuð hér á landi. Með því að heimila einkaleyfayfirvöldum, auk dómstóla, að fella skráningu úr gildi þegar skilyrði 25. gr. laganna eru uppfyllt er stefnt að því að gera það aðgengilegra að fá skráningar, sem hafa ekki verið notaðar, felldar úr gildi. Dómstólaleiðin getur verið kostnaðarsamt úrræði auk þess sem sú leið tekur að jafnaði lengri tíma en afgreiðsla mála hjá stjórnvöldum. Ákvæðinu er þannig m.a. ætlað að stuðla að því að vörumerkjaskráin hafi ekki að geyma fjölda skráðra vörumerkja sem eru ekki í notkun.
    Notkunarskyldan miðast við skráningardag. Ákvörðunum Einkaleyfastofunnar er alltaf unnt að áfrýja til áfrýjunarnefndar og fara með fyrir dómstóla, sbr. 63. gr. laganna. Greinin er í samræmi við dönsk og norsk vörumerkjalög.

Um 7. gr.

    Fyrirhugað ákvæði 4. mgr. 27. gr. laganna er nýmæli og kveður á um þá heimild eiganda skráðs vörumerkis, sem ekki leggur inn umsókn um endurnýjun innan þeirra tímamarka sem fram koma í 1. mgr., að óska eftir því að umsókn hans um endurnýjun verði tekin fyrir. Er þessi heimild í samræmi við skyldu aðildarríkja Singapúrsamningsins um vörumerkjarétt að veita ívilnandi úrræði eftir lok tímamarka, sbr. 14. gr. samningsins. Beiðnin þarf að berast innan tveggja mánaða frá því frestur skv. 1. mgr. rann út, ásamt umsókn um endurnýjun og greiðslu endurupptökugjalds. Í frumvarpi sem rætt var á sl. þingi var ákvæði um að endurupptaka gæti eingöngu átt sér stað einu sinni. Til að tryggja að skuldbindingar samkvæmt Singapúrsamningnum væru örugglega virtar þótti rétt að fella niður þá takmörkun.

Um 8. gr.

    Í 28. gr. laganna eru talin upp þau tilvik sem leiða til þess að unnt sé að fella skráningu úr gildi með dómi. Samkvæmt þessari grein eru það aðeins skráningar andstæðar efnisreglum laganna sem unnt er að ógilda. Í samræmi við breytingar á 25. gr. og nýja 30. gr. a í lögunum er nú lagt til að Einkaleyfastofan geti, ásamt dómstólum, fellt skráningu úr gildi. Ef dómsmál er höfðað áður en Einkaleyfastofan hefur tekið ákvörðun í máli frestar Einkaleyfastofan frekari afgreiðslu máls þar til niðurstaða dómstóls liggur fyrir.
    Ný málsgrein bætist við 28. gr. laganna. Um er að ræða breytingu sem stuðlar að einfaldari málsmeðferð. Samkvæmt ákvæðinu getur Einkaleyfastofan nú metið það hvort notkunarskylda skv. 25. gr. vörumerkjalaga hafi verið uppfyllt, þ.e. varðandi það merki sem krafist er að fellt verði niður, án þess að eigandi yngra merkisins þurfi að krefjast niðurfellingar fyrir dómi. Sjá að öðru leyti skýringar við 6. gr. frumvarpsins um breytingar á 25. gr. laganna.

Um 9. gr.

    Lagt er til að á eftir 30. gr. laganna komi ný grein, 30. gr. a, sem felur í sér það nýmæli að Einkaleyfastofan geti, ásamt dómstólum, fellt skráð vörumerki úr gildi með ákvörðun, sbr. 25. og 28. gr. laganna. Eins og orðalag greinarinnar segir til um verður merki að vera skráð, þ.e. skráningarferli lokið og andmæla- og áfrýjunarfrestir liðnir, á þeim tíma sem krafa skv. 1. mgr. er sett fram. Skilyrði er að fram komi rökstudd krafa og greiðsla tilskilins gjalds sé innt af hendi. Slík krafa er ekki bundin neinum tímamörkum svo lengi sem skilyrði 25. og 28. gr. eru uppfyllt. Þá er einnig mögulegt að gera kröfu um að skráning verði felld úr gildi þrátt fyrir að skráningu merkisins hafi verið andmælt og áfrýjað ef fram koma ný gögn sem geta haft þýðingu fyrir gildi merkisins. Höfð var hliðsjón af sambærilegum ákvæðum í dönsku og norsku vörumerkjalögunum. Gert er ráð fyrir að þeir sem krefjast niðurfellingar skv. 30. gr. a verði að hafa lögvarða hagsmuni (sbr. 25. gr. laganna (5. gr. frumvarpsins)) og er það í samræmi við norska ákvæðið. Ekki þykir þörf á því að taka sérstaklega fram að eigandi merkis gæti hvenær sem væri krafist þess að fá úr þessu atriði skorið.

Um 10. gr.

    Einkaleyfastofunni er samkvæmt greininni veitt heimild til að leiðrétta bersýnilegar villur sem fram koma í umsóknum og skráningum vörumerkja. Greininni er ætlað að taka af allan vafa um að slíkar leiðréttingar Einkaleyfastofunnar séu lögmætar. Ákvæðið veitir jafnframt eiganda umsóknar eða skráningar vörumerkis kost á að leggja fram beiðni um leiðréttingu á slíkum villum sem fram koma í umsókn eða skráningu.
    Þar eð bersýnilegar villur geta komið í ljós hvenær sem er í skráningarferlinu eða eftir skráningu þykir nú rétt að Einkaleyfastofan hafi ávallt heimild til að leiðrétta slíkar villur enda er það bæði eiganda skráningarinnar og neytendum almennt í hag að vörumerkjaskráin sé rétt. Sama á við heimild eiganda umsóknar og skráningar vörumerkis. Það er gert að skilyrði að um augljós mistök sé að ræða, t.d. misritun á orði, nafni, tölu eða aðrar bersýnilegar villur er varða form. Ákvæðið er í samræmi við 12. gr. Singapúrsamningsins um vörumerkjarétt.

Um 11. gr.

    Í 32. gr. laganna eru talin upp þau tilvik sem leiða til þess að vörumerki verði afmáð úr vörumerkjaskrá.
    Lagt er til að bætt sé nýjum tölulið við greinina þar sem fram kemur að vörumerki verði afmáð úr vörumerkjaskrá samkvæmt ákvörðun Einkaleyfastofunnar í samræmi við 28. gr., sbr. 30. gr. a.

Um 12. gr.

    Í 35. gr. vörumerkjalaga, nr. 45/1997, er ákvæði um skyldu þeirra aðila, sem ekki hafa lögheimili hér á landi og sækja um skráningu vörumerkis hér á landi, til að hafa umboðsmann búsettan hérlendis. Lögð er til breyting á því nú hvar umsækjandi og umboðsmaður geti verið búsettir. Samkvæmt frumvarpinu þarf umsækjandi að vera búsettur innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Sama gildir um umboðsmann. Þessi breyting kemur til af því að Evrópusambandið hefur talið að krafa um búsetu í tilteknu ríki stríði gegn reglum sambandsins um frjálsa þjónustu milli ríkja þess. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur til umboðsmanna, eingöngu að um sé að ræða einstakling eða lögaðila.
    Samskipti umsækjanda eða eiganda vörumerkja við Einkaleyfastofuna munu áfram vera á íslensku. Í undantekningartilvikum hefur stofnunin tekið við skjölum á erlendum tungumálum, svo sem framsölum, og er gert ráð fyrir að framkvæmdin verði óbreytt að þessu leyti.
    Hér skal það undirstrikað að í reglugerð nr. 310/1997 kemur fram að umsóknum skuli skila inn á íslensku og á það jafnframt við um öll formleg samskipti vegna umsókna. Með breytingu á búsetuskilyrði umboðsmanna er ekki ætlunin að breyta tungumálaskilyrðinu.

Um 13. gr.

    Í gildandi 64. gr. laganna er aðeins talað um að vörumerkjaskrá skuli vera aðgengileg almenningi. Í nýrri 64. gr. er lagt til að umsóknir og önnur móttekin gögn skuli jafnframt vera aðgengileg almenningi, að undanskildum gögnum er varða viðskiptaleyndarmál. Lagt er til að umsókn ásamt fylgiskjölum verði aðgengileg almenningi frá fyrsta virka degi eftir móttöku umsóknar eða annarra gagna. Sama gildir um önnur gögn er varða umsókn eða skráningu. Dæmi um önnur gögn, sem almennt mundu falla undir meginregluna, eru gögn til stuðnings þeirri kröfu að Einkaleyfastofan skrái, breyti, leiðrétti eða afturkalli umsókn, eða endurnýi, breyti, leiðrétti, ógildi eða felli niður skráningu. Einkaleyfastofunni er óheimilt að veita aðgang í heild eða að hluta að fylgiskjölum eða gögnum sem geyma viðskiptaleyndarmál og varða almennt ekki skráningu merkis eða einkarétt á merki. Sem dæmi mundu upplýsingar um greiðslu vegna kaupa á vörumerki eða fyrir nytjaleyfi falla undir undantekninguna. Einkaleyfastofan tekur afstöðu til þess hvort gögnin eða tilteknar upplýsingarnar séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings.
    Orðalagi greinarinnar var breytt lítillega frá frumvarpi á síðasta þingi. Vegna athugasemda í umsögn frá fyrrverandi formanni áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar þótti rétt að gera ákvæðið skýrara. Af orðalaginu er ljóst að öllum er heimilt að kynna sér efni vörumerkjaumsókna og skráninga, þar á meðal vörumerkjaskrá stofnunarinnar sem felur í sér bókfræðilegar upplýsingar auk upplýsinga um merki.

Um 14. gr.

    Í greininni um heimild ráðherra til að setja reglur er vegna fyrirhugaðra breytinga með 5. gr. frumvarpsins ekki einungis vikið að frágangi vörumerkjaumsókna og meðferð þeirra heldur einnig skráðra vörumerkja og ekki aðeins, sbr. 9. gr. frumvarpsins, að efni og meðferð andmælamála heldur einnig ógildingarmála. Auk þess lagt til að gerðar verði tæknilegar breytingar, sbr. 15. gr. frumvarpsins um gjaldskrárreglugerð, en mögulegt er þó að áfrýjunargjöld verði ákveðin í reglugerðinni eins og verið hefur að undanförnu.

15. gr.

    Með ákvæði þessu, sem samið er í samráði við Einkaleyfastofuna, er lagt til að heimild ráðherra til að ákveða gjöld, sem taka mið af kostnaði við rekstur Einkaleyfastofunnar vegna vörumerkjamálefna og þeirrar þjónustu sem veitt er, verði gerð skýrari og færð betur til samræmis við þær kröfur sem gerðar eru til innheimtu þjónustugjalda.
    Í frumvarpi þessu er kveðið á um heimildir Einkaleyfastofunnar til að innheimta gjöld með sérstakri gjaldskrárreglugerð, sem ráðherra setur, fyrir þá þjónustu sem stofnunin veitir aðilum sem sækja um skráningu vörumerkis.
    Þá er kveðið á um að gjöld samkvæmt gjaldskrá skuli standa undir rekstri Einkaleyfastofunnar vegna umsýslu með umsóknum og skráningu vörumerkja. Nefnd eru dæmi um þau þjónustugjöld sem fallið geta til í tengslum við umsókn en undir önnur þjónustugjöld geta til að mynda fallið beiðnir um endurbirtingu vörumerkis, beiðni um takmörkun á verndarsviði, leit í vörumerkjaskrá, veiting afrita af umsóknum og skráningum vörumerkja o.fl.
    Loks er tilgreint á hvaða kostnaðarliðum gjaldskrá skuli byggð.

Um 16. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/1997,
um vörumerki, með síðari breytingum.


    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 139. löggjafarþingi en hlaut ekki endanlega afgreiðslu og er nú endurflutt með lítils háttar breytingum.
    Breytingartillögur frumvarpsins eru að meginstofni af þrennum toga. Í fyrsta lagi eru tillögur um breytingar í samræmi við efni Singapúrsamningsins um vörumerkjarétt, m.a. um ívilnandi úrræði þegar tímamörk eru ekki virt og um möguleika á hlutun umsókna og skráninga. Í öðru lagi eru tillögur í samræmi við norræna lagaframkvæmd. Annars vegar er um að ræða breytingar sem miða að því að auka heimildir Einkaleyfastofunnar til að ákvarða afnám á skráningu vörumerkis. Hins vegar er lögð til breyting sem heimilar eiganda vörumerkis sem ekki á lögheimili hér á landi að tilnefna umboðsmann búsettan á Evrópska efnahagssvæðinu en samkvæmt gildandi lögum þarf umboðsmaður að vera búsettur hérlendis. Í þriðja lagi eru tillögur sem miða að því að auka skýrleika einstakra ákvæða í gildandi lögum. Þar á meðal eru tillögur um auknar og skýrari gjaldtökuheimildir Einkaleyfastofunnar.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs. Ítarlegri gjaldtökuheimildir miða að því að tryggja betur að kostnaður Einkaleyfastofu af vörumerkjamálum verði borinn uppi af þjónustugjöldum í samræmi við kostnað við veitta þjónustu.