Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 170. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 360  —  170. mál.
    Leiðrétting.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Svein Guðmundsson frá Hjartaheillum, Guðmund Löve og Sigmar B. Hauksson frá Sambandi íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga og Lilju Þorgeirsdóttur og Hjördísi Önnu Haraldsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands. Við undirbúning frumvarpsins fékk nefndin jafnframt á sinn fund Einar Magnússon og Sindra Kristjánsson frá velferðarráðuneyti. Umsagnir bárust frá Apóteki Vesturlands, Hjartaheillum, Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Lyfju hf., lyfjagreiðslunefnd, Lyfjavali ehf., Lyfjaveri ehf. og Læknafélagi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að frestað verði gildistöku ákvæðis lyfjalaga sem bannar afslætti á lyfjaverði í smásölu en ella tekur bannið gildi 1. janúar nk. Ákvæðið hefur aldrei tekið gildi þar sem gildistökunni hefur áður verið frestað fjórum sinnum um eitt ár í senn og er því lögð til fimmta frestun gildistökunnar og nú til 1. janúar 2015.
    Frumvarp um nýtt greiðsluþátttökukerfi í lyfjakostnaði bíður nú fyrstu umræðu á Alþingi (þskj. 266, 256. mál) en með því eru lagðar til grundvallarbreytingar á greiðsluþátttöku sjúklinga. Nefndinni hafa verið kynnt sjónarmið þess efnis að við upptöku á nýju greiðsluþátttökukerfi megi ætla að verulega dragi úr afsláttum af þeim lyfseðilsskyldu lyfjum sem falla undir kerfið. Áhrif hins nýja kerfis eru þó enn óljós, auk þess sem það mun vart koma til framkvæmda í byrjun næsta árs, og telur nefndin mikilvægt að tryggja að áfram verði hægt að veita afslátt af hlut sjúklings í verði lyfja í smásölu. Nefndin kynnti sér auk þess sjónarmið sjúklingasamtaka og leggja þau áherslu á að gildistökunni verði frestað áfram eða að ákvæði um bann við að veita afslætti í smásölu verði afnumið enda hefur afslátturinn skilað sér beint til skjólstæðinga þeirra.
    Nefndin óskaði upplýsinga frá velferðarráðuneyti um það hvernig ákvæðið sem bannar afslætti hefur reynst og fékk þær upplýsingar að bann við afsláttum í heildsölu hafi gefist vel og náð þeim tilætlaða árangri að leiða til meiri samkeppni í lyfjaverðskrá og lægri lyfjaútgjalda ríkissjóðs. Að auki óskaði nefndin upplýsinga um ástæður þess að ákveðið var að banna einnig afslátt af lyfjum í smásölu. Ein helsta röksemd fyrir banninu á sínum tíma var sú að afsláttur leiddi til sóunar lyfja. Því stærri skammt sem sjúklingar fengu því meiri afslátt fengu þeir á sínum greiðsluhlut, en kostnaður Sjúkratrygginga Íslands jókst. Í gildandi greiðsluþátttökukerfi greiðir sjúklingur að hámarki ákveðna upphæð án tillits til heildarkostnaðar lyfsins. Hlutfallslegur afsláttur apóteksins minnkar þannig eftir því sem heildarkostnaður lyfjaafgreiðslunnar eykst. Verði fyrirliggjandi frumvarp um breytt greiðsluþátttökukerfi að lögum gildir þessi röksemd ekki lengur þar sem sjúklingur mun greiða hlutfallslega miðað við heildarkostnað lyfjaafgreiðslunnar þegar hann er kominn yfir lágmarksupphæðina.
    Í ljósi alls framangreinds leggur nefndin til að bann við veitingu afslátta í smásölu verði fellt brott úr lögunum í stað þess að fresta gildistöku þess enn einu sinni. Telji löggjafinn síðar ástæðu til að lögfesta slíkt bann getur hann gert það með lagasetningu þess efnis.
    Breyting nefndarinnar felur í sér að í stað þess að lagt sé til að breyta lögum nr. 97/2008, sem breyttu lyfjalögum, nr. 93/1994, verði lyfjalögum breytt. Í samræmi við 2. mgr. 30. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, skal tekið fram að ekki er áætlað að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. gr. orðist svo:
                      Orðin „eða smásöluaðilar“ í 3. málsl. 42. gr. laganna falla brott.
     2.      2. gr. orðist svo:
                      Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012.
     3.      Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

    Amal Tamimi var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 23. nóvember 2011.



Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Kristján L. Möller.



Valgerður Bjarnadóttir.


Pétur H. Blöndal.


Unnur Brá Konráðsdóttir.



Guðmundur Steingrímsson.