Þingskjal 370 — 316. mál.
Frumvarp til laga
um menningarminjar.
(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
1. ÞÁTTUR
Almenn ákvæði.
I. KAFLI
Tilgangur og skilgreiningar.
1. gr.
Tilgangur.
Menningarminjar teljast ummerki um sögu þjóðarinnar, svo sem fornminjar, menningar- og búsetulandslag, kirkjugripir og minningarmörk, hús og önnur mannvirki, skip og bátar, samgöngutæki, listmunir og nytjahlutir, svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar. Lög þessi ná einnig til staða sem tengjast menningarsögu.
Lög þessi eiga að tryggja eftir föngum varðveislu menningarminja í eigin umhverfi, auðvelda aðgang og kynni þjóðarinnar af menningarminjum og greiða fyrir rannsóknum á þeim.
2. gr.
Þjóðminjar og þjóðarverðmæti.
Til þjóðarverðmæta teljast hvers konar munir, gripir, myndir, skjöl, handrit og bækur í eigu opinberra stofnana, fyrirtækja, félagasamtaka eða einstaklinga sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenska þjóðmenningu.
Ráðherra getur ákveðið að einstakir hlutir í eigu einkaaðila teljist þjóðarverðmæti í merkingu laga þessara.
3. gr.
Fornminjar.
Forngripir eru lausamunir frá árinu 1900 eða eldri sem menn hafa notað eða mannaverk eru á og fundist hafa í eða á jörðu eða jökli, í vatni eða sjó. Skip og bátar frá því fyrir 1950 teljast til forngripa. Til forngripa teljast einnig leifar af líkömum manna og hræjum dýra sem finnast í fornleifum, svo sem fornum haugum, dysjum og leiðum.
Fornleifar teljast hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru frá árinu 1900 eða eldri, svo sem:
a. búsetulandslag, skrúðgarðar og kirkjugarðar, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi leifum mannvirkja og öskuhauga, húsaleifar hvers kyns, svo sem leifar kirkna, bænhúsa, klaustra, þingstaða og búða, leifar af verbúðum, naustum og verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum,
b. vinnustaðir þar sem aflað var fanga, svo sem leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, kolagröfum og rauðablæstri,
c. tún- og akurgerði, leifar rétta, áveitumannvirki og aðrar ræktunarminjar, svo og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita,
d. vegir og götur, leifar af stíflum, leifar af brúm og öðrum samgöngumannvirkjum, vöð, varir, leifar hafnarmannvirkja og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra,
e. virki og skansar og leifar af öðrum varnarmannvirkjum,
f. þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð,
g. áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum og minningarmörk í kirkjugörðum,
h. haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið,
i. skipsflök eða hlutar þeirra.
Fornminjar njóta friðunar nema annað sé ákveðið af Minjastofnun Íslands.
4. gr.
Byggingararfur.
a. stök hús eða hlutar þeirra og húsasamstæður, hvort sem er til íbúðar eða menningar- og atvinnustarfsemi í þéttbýli eða dreifbýli, húsaþyrpingar og götumyndir,
b. kirkjur og bænhús, ásamt tilheyrandi mannvirkjum, svo sem klukkuturnum, garðhleðslum og sáluhliðum, klaustur, samkomuhús, skólahús og nánasta umhverfi þeirra, aðrar opinberar byggingar, íþróttamannvirki og sundlaugar,
c. brýr og hvers konar samgöngumannvirki, virkjanir, stíflur, dælustöðvar og önnur orkumannvirki, hafnarmannvirki, vind- og vatnsmyllur, vitar, slippir, hjallar, manngerðir hellar og réttir.
5. gr.
Friðun og friðlýsing.
Friðlýsing fornleifa, húsa og mannvirkja getur falið í sér kvöð sem þinglýst er á fasteign og hefur þann tilgang að tryggja sem best varðveislu menningarminja.
6. gr.
Rannsóknir á fornleifum.
2. ÞÁTTUR
Skipulag.
II. KAFLI
Stjórnsýsla.
7. gr.
Yfirstjórn og framkvæmd.
Fornminjanefnd og húsafriðunarnefnd eru Minjastofnun Íslands til ráðgjafar.
Minjastofnun Íslands gerir tillögu til ráðherra um heildarstefnu og langtímaáætlun um verndun og varðveislu menningarminja í samráði við höfuðsöfn sem skilgreind eru samkvæmt safnalögum, svo og önnur helstu söfn og stofnanir sem vinna að varðveislu menningarminja.
8. gr.
Fornminjanefnd.
Fornminjanefnd hefur eftirfarandi hlutverk:
a. að vinna að stefnumörkun um verndun fornleifa og fornleifarannsóknir ásamt Minjastofnun Íslands,
b. að fjalla um tillögur stofnunarinnar um friðlýsingu fornleifa og afnám friðlýsingar samkvæmt ákvæðum laga þessara áður en þær eru sendar ráðherra,
c. að setja fornminjasjóði úthlutunarreglur sem ráðherra staðfestir,
d. að veita umsögn um styrkumsóknir úr fornminjasjóði,
e. að sinna öðrum verkefnum sem henni kunna að vera falin samkvæmt lögum.
Forstöðumenn Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands sitja fundi fornminjanefndar stöðu sinnar vegna.
Kostnaður af starfsemi fornminjanefndar greiðist úr fornminjasjóði.
9. gr.
Húsafriðunarnefnd.
Húsafriðunarnefnd hefur eftirfarandi hlutverk:
a. að vinna að stefnumörkun um verndun byggingararfs ásamt Minjastofnun Íslands,
b. að fjalla um tillögur stofnunarinnar um friðlýsingu húsa og mannvirkja, afnám friðlýsingar, breytingar á friðlýstum húsum og mannvirkjum eða förgun þeirra samkvæmt ákvæðum laga þessara áður en þær eru sendar ráðherra,
c. að setja húsafriðunarsjóði úthlutunarreglur sem ráðherra staðfestir,
d. að veita umsögn um styrkumsóknir úr húsafriðunarsjóði,
e. að sinna öðrum verkefnum sem henni kunna að vera falin samkvæmt lögum.
Forstöðumenn Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands sitja fundi húsafriðunarnefndar stöðu sinnar vegna.
Kostnaður af starfsemi húsafriðunarnefndar greiðist úr húsafriðunarsjóði.
10. gr.
Minjasvæði og minjaráð.
Á hverju minjasvæði starfar minjaráð. Minjaráð er samráðsvettvangur hvers minjasvæðis, sem ætlað er að fjalla um menningarminjar, varðveislu þeirra og nýtingu í þágu samfélagsins í samráði við Minjastofnun Íslands og höfuðsöfn.
Minjavörður stjórnar fundum minjaráðs, en auk hans geta fulltrúar samtaka sveitarfélaga og skipulagsyfirvalda á minjasvæðinu og forstöðumenn viðurkenndra safna átt sæti í ráðinu. Heimilt er að bjóða fulltrúum annarra hagsmunaaðila á minjasvæðinu sæti í minjaráði.
Í reglugerð má setja nánari fyrirmæli um störf og starfshætti minjaráða.
III. KAFLI
Minjastofnun Íslands.
11. gr.
Hlutverk.
a. hafa eftirlit með fornleifum í landinu og friðuðum húsum og mannvirkjum,
b. vinna að stefnumörkun um verndun fornleifa og byggingararfs ásamt fagnefndum,
c. setja reglur um og hafa yfirumsjón með skráningu friðaðra og friðlýstra fornleifa, húsa og mannvirkja,
d. halda heildarskrár um allar friðaðar og friðlýstar fornleifar, friðlýsta legsteina og minningarmörk og friðuð og friðlýst hús og mannvirki,
e. gera tillögur til ráðherra um friðlýsingu og afnám hennar,
f. ákveða skyndifriðun menningarminja ef þörf krefur,
g. setja reglur og skilyrði um rannsóknir fornleifa sem hafa jarðrask í för með sér og hafa eftirlit með öllum fornleifarannsóknum í landinu,
h. fjalla um og veita leyfi til stað- og tímabundinna fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér,
i. framkvæma nauðsynlegar rannsóknir, svo sem neyðarrannsóknir, vettvangskannanir til að staðfesta umfang og eðli minja og aðrar skyndirannsóknir,
j. hafa eftirlit með og annast leyfisveitingar vegna flutnings menningarminja til annarra landa,
k. úthluta úr fornminjasjóði og húsafriðunarsjóði að fengnum umsögnum fagnefnda og annast umsýslu þeirra,
l. hafa eftirlit með framvindu verkefna sem fá styrk úr sjóðunum,
m. ákveða aðra ráðstöfun fjár úr fornminjasjóði og húsafriðunarsjóði í samráði við húsafriðunarnefnd og fornminjanefnd,
n. annast framkvæmd laga um skil á menningarverðmætum til annarra landa,
o. setja á fót minjaráð á hverju minjasvæði og bera ábyrgð á starfsemi þeirra,
p. annast önnur verkefni samkvæmt ákvörðun ráðherra.
12. gr.
Forstöðumaður.
13. gr.
Minjaverðir.
Í þjónustusamningi milli Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands má fela minjavörðum eftirlit með minjum sem heyra undir Þjóðminjasafn Íslands.
14. gr.
Gjaldtökuheimild.
Stofnunin birtir gjaldskrá um gjaldtöku samkvæmt þessari grein.
3. ÞÁTTUR
Verndun og varðveisla menningarminja.
IV. KAFLI
Skráning fornleifa, húsa og annarra mannvirkja.
15. gr.
Skráning og skil á gögnum.
Stofnunin heldur heildarskrár yfir allar þekktar fornleifar og friðuð og friðlýst hús og mannvirki á landinu. Stofnunin birtir skrárnar og skulu þær vera aðgengilegar á miðlægum gagnagrunni.
Minjastofnun Íslands er heimilt að fela tilteknum einstaklingum eða stofnunum er búa yfir sérþekkingu og reynslu á sviði skráningar fornleifa, húsa og mannvirkja afmörkuð könnunar- og skráningarstörf fyrir stofnunina.
Öll gögn sem varða skráningu fornleifa, friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja skulu afhent Minjastofnun Íslands. Skráningarskýrslur skulu afhentar stofnuninni á rafrænu formi. Eintök af skránum skulu afhent hlutaðeigandi skipulagsyfirvöldum á rafrænu formi.
Fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskráningu á tilteknu svæði telst ekki lokið fyrr en skráin hefur hlotið staðfestingu Minjastofnunar Íslands. Stofnunin skal veita skipulagsyfirvöldum, byggingarfulltrúum og náttúruverndaryfirvöldum aðgang að skráningargögnum í vörslu stofnunarinnar.
Minjastofnun Íslands setur reglur um skráningu fornleifa og friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja og skil á gögnum þar að lútandi að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
16. gr.
Skráning vegna skipulags og undirbúnings framkvæmda.
Sá sem ber ábyrgð á skipulagsgerð í samræmi við skipulagslög skal standa straum af kostnaði við skráninguna. Ríkissjóður skal þó bera kostnað af fornleifaskráningu sem fram fer innan þjóðlendu nema um annað hafi verið samið. Skulu skipulagsyfirvöld hafa samráð við Minjastofnun Íslands um tilhögun skráningar eða endurskoðun á fyrri fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskrám með hliðsjón af fyrirhuguðum breytingum á skipulagi. Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda án undanfarandi fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskráningar. Þegar sérstaklega stendur á getur Minjastofnun Íslands veitt undanþágu fyrir framkvæmdum með tilteknum skilyrðum.
Skipulagsyfirvöld skulu tilkynna Minjastofnun Íslands um gerð skipulagsáætlana og verulegar breytingar á þeim og um gerð skýrslna um mat á umhverfisáhrifum.
Skylt er að heimila þá för um landareign sem nauðsynleg getur talist við framkvæmd skráningar sem gerð er fyrir opinbera aðila. Ber að sýna landeiganda tillitssemi og valda ekki raski eða ónæði að þarflausu.
17. gr.
Miðlun upplýsinga.
Heimilt er að veita afnot af öllum upplýsingum á sviði fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskráningar sem eru í vörslu Minjastofnunar Íslands að því tilskildu að uppruna sé getið og áreiðanleika upplýsinga sé ekki stefnt í tvísýnu.
V. KAFLI
Friðlýsing menningarminja.
18. gr.
Friðlýsing.
Minjastofnun Íslands skal hafa samráð við skipulagsyfirvöld þess landsvæðis sem menningarminjar tilheyra þegar fjallað er um friðlýsingu þeirra.
Ráðherra ákveður friðlýsingu eða afnám friðlýsingar að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands.
Friðlýsing húsa og mannvirkja og friðun kirkna sem ákveðin hefur verið á grundvelli eldri laga heldur gildi sínu.
19. gr.
Framkvæmd friðlýsingar.
Minjastofnun Íslands skal láta þinglýsa friðlýsingu sem kvöð á eign þeirri sem í hlut á. Greina skal í tilkynningu til hvers friðlýsingin nær. Ráðuneyti auglýsir friðlýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Um undirbúning og ákvörðun um friðlýsingu fer að öðru leyti eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Afnám friðlýsingar skal auglýst með sama hætti og friðlýsing.
Hinn friðlýsti minjastaður og ytri mörk hans skulu tilgreind á rafrænum kortagrunni. Minjastofnun Íslands tryggir að friðlýstar menningarminjar verði færðar á skipulagskort. Þinglýsingarstjóri skal tilkynna Minjastofnun Íslands ef þinglesin eru eigendaskipti að friðlýstu húsi, mannvirki eða landareign sem á eru friðlýstar fornleifar.
Heimilt er að lækka eða fella niður fasteignagjöld af friðlýstum fasteignum og landareignum sem á eru friðlýstar fornleifar.
20. gr.
Skyndifriðun.
Skyndifriðun tekur gildi þegar Minjastofnun Íslands hefur tilkynnt öllum hlutaðeigandi aðilum um ákvörðun sína með tryggilegum hætti. Ákvörðun er bindandi eftir að tilkynning um hana er komin til aðila og gildir í allt að sex vikur.
Ráðherra ákveður hvort friðlýsa skuli viðkomandi menningarminjar áður en skyndifriðun lýkur að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands.
VI. KAFLI
Verndun og varðveisla fornminja.
21. gr.
Verndun fornleifa.
Eigendur og ábúendur jarða skulu hlúa að fornleifum á landareignum sínum og viðhalda umhverfi þeirra eftir því sem sanngjarnt getur talist. Minjastofnun Íslands er skylt að veita ráðgjöf og leiðbeiningar í því sambandi.
Minjastofnun Íslands gerir nauðsynlegar ráðstafanir til verndar fornleifum, viðhalds eða endurbóta, en áður skal gera landeiganda eða ábúanda viðvart um þær. Ef nauðsyn krefur lætur Minjastofnun Íslands rannsaka fornleifar með uppgreftri eða á annan hátt.
Friðlýstum fornleifum skal viðhaldið á kostnað ríkisins. Minjastofnun Íslands ber ábyrgð á friðlýstum fornleifum og semur verk- og fjárhagsáætlun um viðhald þeirra.
22. gr.
Friðhelgun og merkingar.
Minjastofnun Íslands skal sjá til þess að friðlýstar fornleifar eða minjastaðir séu auðkennd með sérstökum merkjum. Upplýsingaskilti eða aðrar merkingar við friðlýstar fornleifar skulu vera í samræmi við reglur sem stofnunin setur og skal staðsetning þeirra vera háð samþykki stofnunarinnar. Minjastofnun Íslands er heimilt að fjarlægja skilti eða aðrar merkingar sé gerð þeirra og staðsetning ekki í samræmi við reglur sem stofnunin setur og kynnir.
23. gr.
Fornleifar í hættu.
Ef fyrirsjáanlegt er að minjastaður spillist vegna breyttrar landnotkunar eða framkvæmda skal framkvæmdaraðili eða viðkomandi sveitarfélag gera Minjastofnun Íslands viðvart með sannanlegum hætti með minnst fjögurra vikna fyrirvara áður en áætlaðar framkvæmdir hefjast og lýsa þeim breytingum er af framkvæmd mun leiða.
Minjastofnun Íslands ákveður að undangenginni vettvangskönnun hvort frekari rannsóknar er þörf, hvort gera skuli tillögu um friðlýsingu eða hvort fornleifarnar megi víkja og þá með hvaða skilmálum. Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda fyrr en ákvörðun Minjastofnunar Íslands liggur fyrir.
Stofnunin skal hafa samráð við Umhverfisstofnun þegar fjallað er um blandaðar minjar, þ.e. menningarminjar sem einnig teljast til náttúruminja.
24. gr.
Áður ókunnar fornminjar.
Ef fornminjar sem áður voru ókunnar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd án tafar. Skal Minjastofnun Íslands láta framkvæma vettvangskönnun umsvifalaust svo skera megi úr um eðli og umfang fundarins. Stofnuninni er skylt að ákveða svo fljótt sem auðið er hvort verki megi fram halda og með hvaða skilmálum. Óheimilt er að halda framkvæmdum áfram nema með skriflegu leyfi Minjastofnunar Íslands.
Minjastofnun Íslands er heimilt að stöðva framkvæmdir í allt að fimm virka daga meðan rannsókn fer fram hafi stofnunin rökstuddan grun um að fornminjar muni skaðast vegna framkvæmda. Verði ekki orðið við fyrirmælum stofnunarinnar um stöðvun framkvæmda er henni heimilt að leita atbeina lögreglu ef með þarf til að framfylgja þeim og beita dagsektum í því skyni, sbr. 55. gr.
25. gr.
Afnám friðunar.
26. gr.
Fundur forngripa.
Allir gripir sem grein þessi fjallar um eru eign ríkisins. Skulu þeir afhentir Þjóðminjasafni Íslands eins fljótt og unnt er.
27. gr.
Greiðslur fyrir forngripafund.
Nú finnst forngripur úr eðalmálmum eða eðalsteinum, þar á meðal gull- eða silfurpeningar, og skal þá Þjóðminjasafn Íslands meta verðgildi gripsins. Skal annar helmingur fjárhæðarinnar greiddur finnanda en hinn landeiganda.
Útgjöld samkvæmt grein þessari skulu greidd úr ríkissjóði.
28. gr.
Kostnaður við rannsóknir.
Framkvæmdaraðili greiðir kostnað við þær rannsóknir á fornleifum sem Minjastofnun Íslands ákveður að séu nauðsynlegar vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Við allar umfangsmiklar framkvæmdir skal sá sem fyrir þeim stendur bera kostnað af nauðsynlegum rannsóknum og vettvangsskráningu fornleifa.
Minjastofnun Íslands er heimilt að leiðbeina framkvæmdaraðilum um fagleg atriði, sé þess óskað.
VII. KAFLI
Verndun og varðveisla húsa og mannvirkja.
29. gr.
Friðuð mannvirki.
Óheimilt er að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.
Minjastofnun Íslands er heimilt að afnema friðun sem byggist á aldursákvæðum þessarar greinar.
30. gr.
Verndun annarra húsa og mannvirkja.
Byggingarfulltrúum ber að fylgjast með því að eigendur húsa og mannvirkja, svo og forráðamenn kirkna, sem fjallað er um í þessari grein leiti eftir áliti Minjastofnunar Íslands áður en leyfi er veitt til framkvæmda.
Álit Minjastofnunar Íslands skal liggja fyrir áður en byggingarleyfi er veitt til framkvæmda sem fjallað er um í þessari grein. Í byggingarleyfi skal taka tillit til skilyrða sem Minjastofnun leggur til í áliti sínu. Sama á við um útgáfu framkvæmdaleyfis samkvæmt skipulagslögum.
31. gr.
Friðlýst hús og mannvirki.
Vilji eigandi friðlýstrar eignar ráðast í framkvæmd sem leyfi þarf til skal hann í umsókn sinni til Minjastofnunar Íslands lýsa fyrirhuguðum framkvæmdum og láta uppdrátt fylgja. Stofnunin skal svo fljótt sem við verður komið og í síðasta lagi innan fjögurra vikna frá því að umsókn berst gera eiganda grein fyrir afstöðu sinni. Setji stofnunin það skilyrði fyrir samþykki sínu að verk sé framkvæmt á tiltekinn annan hátt en tilgreindur er í umsókn er eiganda skylt að hlíta því. Sæki eigandi um styrk úr húsafriðunarsjóði vegna aukakostnaðar sem hlýst af tilmælum stofnunarinnar skal hann njóta forgangs eftir því sem skyldur sjóðsins og fjárreiður leyfa.
Kostnaður sem hlýst af skilyrðum sem Minjastofnun Íslands setur, sbr. 2. mgr., greiðist úr húsafriðunarsjóði.
Leyfi stofnunarinnar þarf til að setja skilti eða aðrar áletranir á friðlýst hús eða mannvirki.
Brot á ákvæðum greinarinnar sæta viðurlögum skv. 177. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
32. gr.
Spjöll á friðlýstu húsi eða mannvirki.
33. gr.
Úrræði.
Ef viðhald friðlýsts húss eða mannvirkis er vanrækt getur Minjastofnun Íslands lagt fyrir eiganda að gera umbætur innan hæfilegs frests. Líði sá frestur án þess að úr sé bætt getur stofnunin látið framkvæma nauðsynlegt viðhald og umbætur á kostnað eiganda eða lagt á dagsektir, sbr. 55. gr.
34. gr.
Niðurrif eða flutningur á friðlýstu húsi eða mannvirki.
35. gr.
Eftirlit.
Minjastofnun Íslands hefur rétt til að framkvæma eiganda að kostnaðarlausu hvers konar eftirlit með friðlýstu húsi og mannvirki og skoðanir sem gera þarf vegna ákvæða þessa kafla.
VIII. KAFLI
Rannsóknir.
36. gr.
Fornleifarannsókn.
Sækja skal um leyfi til Minjastofnunar Íslands til allra fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér. Stjórnandi slíkra rannsókna skal hafa tilskilda menntun í fornleifafræði og uppfylla skilyrði sem Minjastofnun Íslands setur fyrir veitingu leyfa til fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér.
Óheimilt er að flytja úr landi lífræn eða ólífræn sýni úr fornleifarannsóknum nema með skriflegu leyfi Minjastofnunar Íslands.
Um tímabundinn flutning gripa úr yfirstandandi rannsóknum úr landi skal fara að ákvæðum XI. kafla.
Minjastofnun Íslands setur reglur um fornleifarannsóknir sem hafa jarðrask í för með sér þar sem meðal annars er kveðið á um skilyrði fyrir veitingu leyfa til slíkra rannsókna, um lok þeirra, menntun þeirra sem starfa við þær og skil á gögnum, sýnum og gripum með þeim hætti sem stofnunin ákveður. Í slíkum reglum skal enn fremur kveðið á um frágang minjastaðar og birtingu skýrslna um rannsóknirnar.
37. gr.
Rannsóknarleyfi.
Leyfi til fornleifarannsóknar er alla jafna veitt til eins árs. Minjastofnun Íslands er heimilt að veita rannsóknarleyfi til allt að þriggja ára ef rannsókn er umfangsmikil. Í slíkum tilfellum skal stjórnandi rannsóknar skila árlega áfangaskýrslu þar sem fram koma allar niðurstöður en einnig hugsanlegar breytingar á upphaflegri rannsóknaráætlun.
Þeim sem fær leyfi til fornleifarannsóknar ber að hlíta þeim reglum og skilyrðum sem stofnunin setur. Um leyfi til rannsókna á friðlýstum fornleifum og skilyrði leyfis fer samkvæmt ákvæðum 39. gr.
Minjastofnun Íslands er heimilt að veita takmarkað eða skilyrt leyfi til fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér eða hafna umsókn og skal stofnunin þá rökstyðja ákvörðun sína.
38. gr.
Skyndirannsóknir.
39. gr.
Rannsókn friðlýstra fornleifa.
40. gr.
Lok fornleifarannsóknar.
Fornleifarannsókn telst lokið þegar gengið hefur verið frá minjastað í samræmi við reglur Minjastofnunar Íslands, gögnum skilað og birt skýrsla um niðurstöður rannsóknarinnar.
Öll gögn og rannsóknarskýrslur skal afhenda Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu innan árs frá áætluðum lokum verkefnis, sbr. 3. gr. laga um Þjóðminjasafn Íslands, í því formi sem Minjastofnun Íslands ákveður í samráði við Þjóðminjasafn Íslands. Afriti af rannsóknarskýrslum skal skilað til Minjastofnunar Íslands í því formi sem stofnunin ákveður.
Standi rannsóknaraðili ekki skil á gripum, sýnum og rannsóknargögnum í samræmi við ákvæði 3. mgr. getur það haft áhrif á afgreiðslu frekari umsókna viðkomandi um ný rannsóknarleyfi.
IX. KAFLI
Minningarmörk.
41. gr.
Friðlýsing minningarmarka.
Stofnunin gerir að höfðu samráði við kirkjugarðaráð, sem starfar samkvæmt lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993, tillögu til ráðherra um friðlýsingu legsteina eða annarra minningarmarka í kirkjugörðum sem stofnunin telur rétt að vernda vegna sögulegs eða listræns gildis þeirra. Á þetta við um minningarmörk í aflögðum kirkjugörðum og einnig í görðum sem eru enn í notkun.
Minjastofnun Íslands heldur skrár yfir friðaða og friðlýsta legsteina og önnur minningarmörk og skulu slíkar minjar í hverjum kirkjugarði skráðar sérstaklega. Skulu upplýsingar úr skránum látnar í té sóknarprestum, próföstum eða kirkjugarðastjórnum sem hlut eiga að máli, svo og Þjóðminjasafni Íslands.
Ákvörðun um friðlýsingu legsteina og annarra minningarmarka skal þinglýst sem kvöð á viðkomandi landareign og skal þinglýsingin birt í B-deild Stjórnartíðinda.
X. KAFLI
Menningarminjasjóðir.
42. gr.
Fornminjasjóður.
Styrkir úr fornminjasjóði eru ákveðnir í samræmi við úthlutunarreglur, sbr. 2. mgr. 8. gr.
Tekjur fornminjasjóðs eru:
a. framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum,
b. önnur framlög.
Heimilt er að krefjast endurgreiðslu hafi verkefni sem hlotið hefur styrk ekki verið unnið í samræmi við umsókn og þau gögn sem styrkveiting var byggð á, verkefnið ekki verið unnið samkvæmt skilmálum sjóðsins eða lokaskýrslu ekki verið skilað innan árs frá áætluðum lokum verkefnis.
43. gr.
Húsafriðunarsjóður.
Styrkir úr húsafriðunarsjóði eru ákveðnir í samræmi við úthlutunarreglur, sbr. 2. mgr. 9. gr.
Tekjur húsafriðunarsjóðs eru:
a. framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum,
b. framlag sveitarfélaga sem greiðist úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og skal miðað við að það nemi 150 kr. á hvern íbúa hlutaðeigandi sveitarfélags,
c. önnur framlög.
Styrkir til einstaklinga úr húsafriðunarsjóði mynda ekki stofn til tekjuskatts.
Heimilt er að krefjast endurgreiðslu hafi verkefni sem hlotið hefur styrk ekki verið unnið í samræmi við umsókn og þau gögn sem styrkveiting var byggð á, verkefnið ekki verið unnið samkvæmt skilmálum sjóðsins eða lokaskýrslu hefur ekki verið skilað innan árs frá áætluðum lokum verkefnis.
XI. KAFLI
Flutningur menningarminja úr landi.
44. gr.
Þjóðarverðmæti sem hafa sérstakt gildi fyrir íslenska þjóðmenningu.
45. gr.
Menningarminjar.
1. Forngripi skv. 3. gr., hvort sem þeir eru í eigu opinberra stofnana, fyrirtækja, félagasamtaka eða einstaklinga, án tillits til verðgildis.
2. Hluta úr listrænum, sögulegum eða trúarlegum minjum er losaðir hafa verið frá þeim og eldri eru en frá 1900, án tillits til verðgildis.
3. a. Málverk og handgerðar myndir, aðrar en þær sem getið er í b- og c-lið þessa töluliðar og 4. tölul., úr hvaða efni sem er, ef þær eru eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
b. Vatnslitamyndir, gvassmyndir, pastelmyndir og teikningar, gerðar í höndum að öllu leyti á hvaða efni sem er, ef þær eru eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
c. Frumeintök af stungum, þrykki, silkiprenti og steinprenti, ásamt tilheyrandi plötum og frumgerð veggspjalda, séu verkin eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
4. Mósaíkverk sem ekki falla undir 1. eða 2. tölul. og teikningar úr hvaða efni sem er séu myndverkin að öllu leyti handunnin, eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
5. Frumeintök höggmynda eða myndastyttna og eftirmyndir þeirra sem eru gerðar með sömu aðferð og frumeintökin séu verkin eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra, enda falli þau ekki undir 1. tölul.
6. Ljósmyndir og kvikmyndir og filmur eða glerplötur af þeim, enda séu þær eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
7. Bækur, prentaðar á Íslandi fyrir 1800, svo og íslensk handrit, eldri en frá árinu 1800, stök eða sem safn, án tillits til verðgildis.
8. Önnur handrit, þar með talin landabréf og raddskrár, stakar eða sem safn, sem eru eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
9. Aðrar bækur, eldri en 100 ára, stakar eða sem safn.
10. Prentuð landabréf, eldri en 200 ára.
11. Skjalasöfn hvers konar og hluta þeirra, úr hvaða efni sem er, svo sem dagbækur, handrit, skýrslur, fundargerðabækur og skissubækur, eldri en 50 ára.
12. Dýrafræðileg, grasafræðileg, jarðfræðileg eða líffræðileg söfn og safneintök og sömuleiðis söfn sem hafa gildi fyrir sagnfræði, steingervingafræði, mannfræði eða myntfræði.
13. Samgöngutæki og sérstök/söguleg atvinnutæki, eldri en 75 ára.
14. Aðrar íslenskar menningarminjar, sem ekki falla undir 1.–13. tölul., án tillits til verðgildis, þar á meðal húsgögn og innréttingar eða hluta úr þeim, frá 1900 eða eldri; hljóðfæri smíðuð á Íslandi, frá 1900 eða eldri; ílát, tæki og áhöld hvers konar úr tré, horni eða beini, með eða án útskurðar, frá 1900 eða eldri; búninga og fylgihluti þeirra, frá 1900 eða eldri; annan vefnað eða útsaum, frá 1900 eða eldri, og gripi úr silfri eða gulli, frá 1900 eða eldri.
15. Aðrar erlendar menningarminjar, svo sem húsgögn, búshluti og skrautmuni, hljóðfæri, úr og klukkur, mælitæki, vopn og muni úr gulli, silfri eða fílabeini.
Ráðherra kveður í reglugerð á um lágmarksverðgildi þeirra menningarminja sem getið er í 3.–6., 8.–13. og 15. tölul. 1. mgr. Við mat á verðgildi skal miðað við áætlað markaðsverð hlutaðeigandi menningarminja hér á landi á þeim degi er umsókn um útflutningsleyfi berst Minjastofnun Íslands.
46. gr.
Umsókn um leyfi til flutnings.
Við mat á listrænu, sögulegu eða vísindalegu gildi menningarminja er hér um ræðir og verðmæti þeirra, svo og um meiri háttar álitaefni, skal Minjastofnun Íslands meðal annars hafa samráð við forstöðumenn þeirra safna og stofnana hér á landi er einkum varðveita þess konar muni sem mál snýst um hverju sinni.
Minjastofnun Íslands er heimilt að koma í veg fyrir flutning menningarminja úr landi, án tillits til aldurs þeirra og verðgildis, ef minjarnar teljast til þjóðarverðmæta, sbr. 2. gr., eða hafa að öðru leyti sérstakt gildi fyrir íslenska þjóðmenningu. Stofnunin getur stöðvað flutning þeirra úr landi um stundarsakir meðan leitað er umsagna sérfróðra manna, sbr. 2. mgr.
47. gr.
Leyfisveiting.
Skylt er að veita leyfi til flutnings menningarminja úr landi í eftirfarandi tilfellum, jafnvel þótt þær hafi umtalsverða þýðingu fyrir menningararf þjóðarinnar:
a. flytji eigandi þeirra búferlum til annars lands,
b. hafi viðkomandi munir með arfi, arfleiðslu eða búskiptum komist í eigu einstaklings sem er búsettur erlendis,
c. séu munir úr safni í eigu ríkisins eða annarrar opinberrar stofnunar fluttir tímabundið til útlanda,
d. séu munir úr öðru safni fluttir tímabundið úr landi með samþykki forstöðumanns viðkomandi höfuðsafns,
e. séu munir fluttir úr landi af einstaklingi í þeim tilgangi að nota við opinbera menningarviðburði og verði alla jafna fluttir aftur til Íslands innan eins árs frá flutningi úr landi,
f. hafi munir af íslenskum uppruna verið fluttir tímabundið til Íslands með lögmætum hætti,
g. hafi menningarminjar verið fluttar til Íslands með ólögmætum hætti frá öðru ríki og krafa um skil borist íslenskum stjórnvöldum, sbr. lög um skil menningarverðmæta til annarra landa.
Ákvæði 2. mgr. á ekki við um þjóðarverðmæti, sbr. 2. og 44. gr.
Menningarminjar sem eru upprunnar í öðru landi er heimilt að flytja frá Íslandi án sérstaks leyfis hafi þær verið fluttar til Íslands með lögmætum hætti fyrir 50 árum eða síðar.
48. gr.
Framkvæmd.
Við flutning menningarminja úr landi skal sá er flytja vill menningarverðmæti úr landi framvísa formlegu leyfisbréfi til tollyfirvalda sem staðfestir leyfi til flutningsins með áritun og stimpli.
Tollyfirvöld skulu án tafar tilkynna Minjastofnun Íslands um menningarminjar sem reynt hefur verið að flytja úr landi án tilskilinna leyfa.
49. gr.
Ágreiningur.
50. gr.
Kröfur til erlendra ríkja um skil menningarminja.
Minjastofnun Íslands skal krefjast skila á menningarminjum sem fluttar hafa verið ólöglega frá Íslandi til annars aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins frá 1. janúar 1995.
4. ÞÁTTUR
Önnur ákvæði.
XII. KAFLI
Almenn ákvæði.
51. gr.
Málsmeðferð.
52. gr.
Skrár.
53. gr.
Skaðabætur.
54. gr.
Niðurfelling gjalda.
55. gr.
Dagsektir.
a. skila öllum gögnum sem varða skráningu fornleifa, húsa og mannvirkja til stofnunarinnar skv. 4. mgr. 15. gr.,
b. verða við áskorun stofnunarinnar um að stöðva framkvæmdir í allt að fimm virka daga vegna fundar áður ókunnra fornminja skv. 2. mgr. 24. gr.,
c. viðhalda friðlýstu húsi eða mannvirki eins og stofnunin hefur lagt fyrir eiganda að gera innan hæfilegs frests skv. 33. gr.,
d. skila gripum sem finnast við fornleifarannsóknir skv. 1. mgr. 40. gr.,
e. skila öllum gögnum og birta skýrslu um niðurstöður fornleifarannsókna skv. 2. mgr. 40. gr.
Ákvarðanir Minjastofnunar Íslands um dagsektir eru aðfararhæfar. Innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þó að aðili sinni síðar þeim skyldum sem á honum hvíldu nema Minjastofnun Íslands ákveði það sérstaklega.
56. gr.
Viðurlög.
Um meðferð mála samkvæmt þessari grein fer eftir lögum um meðferð sakamála.
57. gr.
Reglugerðarheimild.
XIII. KAFLI
Gildistaka og lagaskil.
58. gr.
Gildistaka.
59. gr.
Breytingar á öðrum lögum.
a. Á eftir 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
Áður en sveitarstjórn gefur út framkvæmdaleyfi skv. 15. gr. skal gætt, eftir því sem við á, ákvæða IV. og VI. kafla laga um menningarminjar.
b. Við 13. gr. laga um mannvirki, nr. 160/2010, bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Óheimilt er að gefa út byggingarleyfi fyrir mannvirki sem fellur undir IV., VI. og VII. kafla laga um menningarminjar fyrr en álit Minjastofnunar Íslands liggur fyrir.
c. F-liður 10. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, orðast svo: Til greiðslu framlaga sveitarfélaga í húsafriðunarsjóð skv. 43. gr. laga um menningarminjar.
Ákvæði til bráðabirgða.
Embætti forstöðumanna Fornleifaverndar ríkisins og Húsafriðunarnefndar eru lögð niður við gildistöku laga þessara.
Fram til 1. janúar 2013 er ráðherra heimilt að undirbúa gildistöku laga þessara meðal annars með því að auglýsa stöðu forstöðumanns Minjastofnunar Íslands og stofna til nauðsynlegra samninga í því sambandi. Forstöðumanni er heimilt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að undirbúa starfsemi stofnunarinnar, þar á meðal að ráða starfsmenn.
Umboð fornleifanefndar, stjórnar fornleifasjóðs og húsafriðunarnefndar fellur niður við gildistöku laga þessara.
Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
Árið 2001 voru gerðar gagngerar breytingar á lögum sem varða menningarminjar. Allt starfsumhverfi minjavörslu í landinu var þá orðið mjög flókið. Um aldamótin 2000 hafði starfsemi byggðasafna eflst, þannig að fleiri söfn en Þjóðminjasafn Íslands tóku að sér fornleifarannsóknir og ýmis þjónustuverkefni í ríkari mæli en áður. Mikil fjölgun hafði orðið í stétt fornleifafræðinga frá því um 1990 og höfðu margir fornleifafræðingar hafið sjálfstæðan rekstur um starfsemi sína í kjölfar fjölgunar verkefna, einkum á sviði fornleifaskráningar í tengslum við skipulagsgerð. Þar með komu mun fleiri aðilar að framkvæmdum á þessu sviði en áður hafði þekkst. Einnig hafði áhugi á húsafriðun og verndun mannvirkja eflst mjög.
Samkeppnislög sem sett voru árið 1993 kölluðu á aðskilnað stjórnsýslu og rannsókna. Með lagabreytingunum árið 2001 var stjórnsýsluþáttur fornleifaverndar skilinn frá Þjóðminjasafni Íslands og sett á fót ný stofnun, Fornleifavernd ríkisins. Sett voru sérstök lög um ýmsa aðra þætti sem áður höfðu verið sameinaðir í þjóðminjalögum, nr. 88/1989, með áorðnum breytingum. Þau lög sem samþykkt voru á þessu sviði árið 2001 voru: Lög um húsafriðun, nr. 104/2001, lög um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa, nr. 105/2001, safnalög, nr. 106/2001, og þjóðminjalög, nr. 107/2001.
Eins og áður segir var Fornleifavernd ríkisins sett á fót sem stjórnsýslustofnun á sviði fornleifavörslu og við lagasetninguna urðu minjaverðir á landsbyggðinni sem áður voru starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands starfsmenn hinnar nýju stofnunar. Fornleifanefnd var ekki lengur leyfisveitandi eins og verið hafði í eldri lögum, heldur eingöngu áfrýjunaraðili um ákvarðanir Fornleifaverndar ríkisins.
Með lagabreytingunum árið 2001 var húsafriðunarnefnd, sem samkvæmt eldri lögum hafði verið undirnefnd þjóðminjaráðs með eigin framkvæmdastjóra, jafnframt gerð að sjálfstæðri ríkisstofnun með ráðherraskipuðum forstöðumanni.
Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
Verndun menningararfs heyrir nú undir ýmsar stofnanir á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis sem starfa við ólík skilyrði. Reynslan af framkvæmd laganna frá 2001 hefur leitt í ljós að stjórnsýsla, ábyrgð og verkaskipting þarf að vera skýrari og að samræmi skortir í skipun og hlutverki nefnda og ráða sem undir lögin falla, sem og í fyrirkomulagi sjóða og í meðferð mála. Einnig hefur komið í ljós misræmi í notkun hugtaka og að mörk milli minjaflokka hafa ekki verið skilgreind nægilega, t.d. milli fornleifa og mannvirkja. Við framkvæmd laganna um húsafriðun hefur t.d. komið í ljós að nauðsynlegt er að geta með skýrum hætti greint á milli starfssviðs og ábyrgðar stofnunarinnar annars vegar og nefndarinnar hins vegar.
Við verndun menningarminja vilja stjórnvöld vinna með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum og samþykktum sem Ísland hefur gengist undir og marka ríkjandi viðhorf til málaflokksins. Meðal slíkra samþykkta er samningur UNESCO um verndun menningar- og náttúruminja heims frá 1972 og samningur UNESCO um verndun menningarerfða frá 2003 auk samnings UNESCO um leiðir til að banna og hindra ólögmætan innflutning, útflutning og yfirfærslu eignarhalds á menningarverðmætum frá 1970 en allir þessir samningar eru staðfestir af Íslands hálfu. Aðrir alþjóðasamningar á þessu sviði eru samningar Evrópuráðsins um verndun fornleifa (Valetta 1993) og verndun byggingararfsins (Granada 1985) en unnið er að undirbúningi þess í mennta- og menningarmálaráðuneytinu að staðfesta þá samninga. Að auki ber að taka tillit til sjónarmiða er fram koma í stefnumótandi samþykktum eins og Amsterdam-yfirlýsingunni um verndun byggingararfsins (1975) og Feneyja-skránni um verndun menningarminja (1994/1996) og samningi Evrópuráðsins um gildi menningararfs fyrir samfélagið (Faro 2005).
Árið 2005 ákvað menntamálaráðherra að endurskoða skyldi í heild fyrrgreind lög og skipaði starfshóp sem í sátu Guðmundur Hálfdanarson prófessor, Sólveig Georgsdóttir þjóðháttafræðingur og Ragnheiður H. Þórarinsdóttir, þjóðfræðingur og sérfræðingur menntamálaráðuneytis í málefnum menningararfs, sem var formaður starfshópsins. Hópurinn skilaði tillögum sínum til ráðherra 30. apríl 2007 en frá þeim tíma hafa frumvarpsdrögin verið til frekari skoðunar hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti og m.a. verið leitað eftir ábendingum frá ýmsum hagsmunaaðilum.
Meginmarkmið endurskoðunarinnar var að samræma lagaákvæði og stjórnsýslu við verndun menningararfs með það fyrir augum að tryggja verndun menningarminja og gera hana skilvirkari. Niðurstaða starfshópsins var að leggja til að lögð yrðu fram þrjú frumvörp til laga á þessu sviði í stað laga um húsafriðun, nr. 104/2001, laga um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa, nr. 105/2001, safnalaga, nr. 106/ 2001, og þjóðminjalaga, nr. 107/2001. Við nánari skoðun ráðuneytisins á þessum tillögum starfshópsins og að höfðu samráði við ýmsa hagsmunaaðila var ákveðið að leggja einnig fram sérstakt frumvarp um Þjóðminjasafn Íslands í stað þess að fella það inn í frumvarp til laga um menningarminjar, m.a. með vísan til þess að samkvæmt safnalögum skulu sett lög um höfuðsöfn.
Á 139. löggjafarþingi voru lögð fram þrjú önnur frumvörp samhliða þessu frumvarpi: Frumvarp til laga um skil menningarverðmæta til annarra landa, frumvarp til laga um Þjóðminjasafn Íslands og frumvarp til nýrra safnalaga, sem öll voru afgreidd sem lög frá Alþingi (nr. 57/2011, nr. 140/2011 og nr. 141/2011). Frumvarp til laga um menningarminjar var hins vegar ekki afgreitt, og er því nú flutt að nýju.
Meginefni frumvarpsins.
Megintilgangur frumvarpsins er að auka skilvirkni minjavörslunnar með því að einfalda stjórnsýsluna, skýra betur hugtök og verklag auk þess að samræma verklag og afgreiðslu mála. Við undirbúning þessa frumvarps var velferð íslenskra menningarminja höfð í fyrirrúmi fremur en að halda í það fyrirkomulag sem ríkt hefur á þessu sviði síðustu árin. Margt í lögunum frá 2001 hefur reynst ágætlega og var tekið mið af því sem best hefur reynst við framkvæmd ýmissa þátta minjavörslunnar undir gildandi lögum og leitast við að yfirfæra jákvæða reynslu af einu sviði yfir til annarra þátta hennar. Með frumvarpinu er þannig verið að styrkja stjórnsýslu á sviði menningarminja. Frumvarpið miðar því ekki að því að fjölga eða búa til ný verkefni á þessu sviði heldur að skerpa á vinnulagi og stuðla að því að þeir aðilar sem annast framkvæmd laganna, einkum Minjastofnun Íslands, hafi skýrar og styrkar heimildir til að sinna hlutverki sínu.
Lagt er til að þeir stjórnsýsluþættir minjavörslunnar sem falla undir mennta- og menningarmálaráðuneytið verði sameinaðir í einni stjórnsýslustofnun, Minjastofnun Íslands, sem sinni framkvæmd flestra þátta minjavörslunnar. Þá eru ákvæði um verndun húsa og annarra mannvirkja, ásamt ákvæðum um flutning íslenskra menningarverðmæta úr landi, felld inn í frumvarp þetta.
Markmiðið með sameiningu þeirra málaflokka sem frumvörpin taka til undir eina stofnun er fyrst og fremst að einfalda og styrkja stjórnsýsluna, gera hana skilvirkari og þar með að auka réttaröryggi almennings. Slík sameining mun stuðla að hagkvæmni í rekstri og er liður í endurskoðun á uppbyggingu menningarstofnana er undir ráðuneytið heyra.
Minjastofnun Íslands mun væntanlega skiptast í fagsvið, sem hvert um sig starfi í nánu samstarfi við fagnefnd. Stofnunin mun taka við því hlutverki sem Fornleifavernd ríkisins hefur á hendi samkvæmt gildandi þjóðminjalögum og einnig stofnunarhlutverki húsafriðunarnefndar samkvæmt gildandi húsafriðunarlögum. Margt mælir með þessari sameiningu enda sinna þessar stofnanir nátengdum verkefnum. Umfjöllun og umsagnir vegna skipulagsáætlana og umhverfismats eru t.d. veigamikill þáttur í starfsemi beggja, svo og skráning og mat á varðveislugildi menningarminja, eftirlit með slíkum minjum og framkvæmdum við þær. Enn fremur er gert ráð fyrir að stofnunin sinni stjórnsýsluþætti laga um skil á menningarverðmætum til annarra landa, sbr. lög nr. 57/2011. Loks getur ráðherra falið stofnuninni önnur verkefni.
Stofnun af því tagi sem hér er lagt til að verði komið á fót sameinar þá stjórnunarþætti sem síðustu ár hafa verið í höndum tveggja aðskildra stofnana og mun fela í sér markvissari stjórnsýslu og heildaryfirsýn yfir málefnasviðið en núgildandi lög gera. Samkvæmt frumvarpinu mun Minjastofnun Íslands m.a. sjá um umsýslu þeirra tveggja sjóða sem tengjast varðveislu menningarminja og starfsemi þeirra verður samhæfð, en í núverandi skipulagi er mjög ólíkt hvernig umsýslu sjóðanna er háttað.
Auk ákvæða um sameiningu framangreindra þátta í starfsemi Minjastofnunar Íslands og hlutverk hennar eru helstu nýmæli frumvarpsins eftirfarandi:
1. Þjóðminjar eru nú í fyrsta sinn skilgreindar ítarlega með hliðsjón af mikilvægi þeirra fyrir íslenska menningarsögu. Þjóðminjasafni Íslands og Minjastofnun Íslands er gert að halda skrár yfir þjóðminjar, þ.e. lausamuni annars vegar og jarðfastar minjar hins vegar.
2. Hugtakið þjóðarverðmæti er notað í frumvarpinu í samræmi við hugtakanotkun í tilskipun ráðsins 93/7/EBE (með áorðnum breytingum) um að skila skuli menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Með notkun þess verður samræmi um notkun hugtaka milli laga á þessu sviði um þær minjar sem taldar eru hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenska þjóðmenningu.
3. Skerpt er á skilgreiningu hugtaksins fornleifar og tekin af tvímæli um mörk milli fornleifa og heilla mannvirkja. Einnig er horfið frá því að miða aldursmörk friðaðra fornleifa við 100 ára aldur og í staðinn er miðað við fast ártal, 1900.
4. Hugtakið fornleifarannsókn er skilgreint með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur í tæknilegum aðferðum og með hliðsjón af áherslum alþjóðastofnana á borð við UNESCO á varðveislu menningarminja. Hlutverk Minjastofnunar Íslands gagnvart rannsóknum er skýrt afmarkað – stofnunin hefur eftirlit með öllum rannsóknum og veitir leyfi þar sem þess er krafist samkvæmt lögum, t.d. þegar rannsóknir valda jarðraski. Reglum um slíkar rannsóknir er valda jarðraski er ætlað að endurspegla þetta hlutverk og munu þær m.a. fela í sér að stofnuninni er ekki ætlað vera varðveislustofnun, heldur ber að skila öllum munum og sýnum beint til Þjóðminjasafns Íslands innan árs frá fundi þeirra.
5. Hugtakið skyndirannsókn er skilgreint og sett ákvæði um framkvæmd og fjármögnun slíkra rannsókna.
6. Í kaflanum um verndun húsa og annarra mannvirkja er hugtakið mannvirki skilgreint á skýrari hátt en áður, aldursmörkum sjálfkrafa friðunar er breytt til að auka vernd merkra mannvirkja og gerður er greinarmunur á sjálfkrafa friðun mannvirkja vegna aldurs og friðlýsingu sem er sérstök ákvörðun ráðherra.
7. Friðlýsing fornleifa er færð til ráðherra í stað þess að vera á valdi stofnunar og er það til samræmis við ákvæði í lögum um friðlýsingar mannvirkja og náttúruminja. Einnig er skerpt á að friðlýsing sé hugsuð fyrir úrvalsflokk minja sem hafi sérstaka þýðingu fyrir þjóðina. Af þessu leiðir m.a. að mjög strangar reglur gilda um jarðrask við friðlýstar fornleifar.
8. Sett er ákvæði sem heimilar skyndifriðun, t.d. yngri minja, sem eru taldar hafa sérstakt menningarsögulegt gildi. Svipað ákvæði er að finna í gildandi lögum um húsafriðun en gildistími skyndifriðunar er lengdur úr tveimur vikum í allt að sex vikur.
9. Lagt er til að nöfn fagnefnda verði samræmd. Lagt er til að heiti húsafriðunarnefndar verði haldið óbreytt þó svo ljóst sé að nefndinni sé m.a. einnig ætlað að fjalla um málefni annarra mannvirkja.
10. Lagt er til að fornminjanefnd verði öflug fagnefnd en ekki áfrýjunarnefnd eins og fornleifanefnd hefur verið. Þar hefur verið litið til mjög jákvæðrar reynslu af starfi húsafriðunarnefndar.
11. Gert er ráð fyrir að minjaverðir, sem falla undir Minjastofnun Íslands, sinni víðtækara hlutverki en þeir gera samkvæmt gildandi þjóðminjalögum. Athugasemdir hafa komið fram á landsbyggðinni vegna núverandi stöðu minjavarða sem þykja hafa haft of þröngt starfssvið til þessa.
12. Sett eru skýr ákvæði um tímamörk tilkynninga um fund fornleifa, um rask á þeim og viðbrögð Minjastofnunar Íslands. Þetta er talið nauðsynlegt til að tryggja verndun minjanna og jafnframt til að minnka kostnað framkvæmdaraðila vegna hugsanlegra tafa.
13. Ábyrgð á gripum í kirkjum landsins er nú hjá Fornleifavernd ríkisins samkvæmt gildandi þjóðminjalögum en færist til Þjóðminjasafns Íslands samkvæmt frumvarpinu. Kirkjugripir eru lausamunir og eðlilegt að höfuðsafn þjóðarinnar á sviði menningarminja fari með umsjá þeirra. Er nánar fjallað um þetta fyrirkomulag í nýjum lögum um Þjóðminjasafn Íslands. Minjastofnun Íslands fer hins vegar með eftirlit og umsjón minningarmarka í kirkjugörðum, enda eru þau jarðföst og teljast því frekar til fornleifa.
Ákvæði um flutning íslenskra menningarverðmæta úr landi og leyfisveitingar þar að lútandi voru sett í lög nr. 105/2001 sem einnig fjalla um skyldu íslenskra stjórnvalda til að skila erlendum menningarverðmætum sem flutt eru til landsins með ólögmætum hætti. Ákvæði um skil erlendra menningarverðmæta voru sett til samræmis við tilskipun ráðsins 93/7/EBE frá 15. mars 1993, um skil menningarminja sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði eins aðildarríkis til annars.
Reynslan hefur sýnt að lög nr. 105/2001 veita íslenskum menningarverðmætum ekki fullnægjandi vernd gegn óheftum flutningi úr landi, enda er tilgangur tilskipunar 93/7/EBE einkum að vernda sérstök þjóðarverðmæti gegn ólöglegum útflutningi, en ekki alla gripi sem talist geta til menningarverðmæta. Bent hefur verið á að verðgildismörk menningarminja sem eru háðar formlegu leyfi til flutnings úr landi samkvæmt lögunum eru ekki í samræmi við íslenskan markað og upptalningin á flokkum menningarminja sem þurfa útflutningsleyfi samkvæmt þeim lögum er einnig ófullkomin. Nefna má sem dæmi að íslenskur útskurður á tré, horn og bein, svo og íslenskir þjóðbúningar og annar gamall vefnaður er ekki í upptalningunni og njóta því ekki ótvíræðrar verndar gegn óheftum flutningi úr landi. Síðast en ekki síst hefur hugtakið þjóðarverðmæti ekki verið skilgreint í minjaverndarlögum hér á landi til þessa. Þetta torveldar íslenskum stjórnvöldum að rökstyðja kröfur á hendur erlendu ríki um skil á íslenskum menningarminjum sem fluttar hafa verið þangað frá Íslandi með ólögmætum hætti. Að óbreyttu mundi íslenskum stjórnvöldum í mjög fáum tilfellum vera stætt á að krefja annað aðildarríki EES-samningsins um skil á minjum sem fluttar hefðu verið ólöglega frá Íslandi, vegna þess að markaðsverðmæti hinna íslensku minja næði sjaldnast lágmarksviðmiðum verðgildismarka núgildandi laga. Vegna þessa þurfa að vera ákvæði í íslenskum lögum sem koma í veg fyrir óheftan flutning á íslenskum menningarverðmætum úr landi þótt þau teljist ekki til þjóðarverðmæta, svo og um aðkomu tollyfirvalda.
Af þessum ástæðum var talið rétt að skipta efni laga nr. 105/2001 í tvennt og fella ákvæði um takmörkun á flutningi íslenskra menningarverðmæta úr landi í sérstakan kafla í lögum um menningarminjar en hafa áfram sérstök lög um skil á erlendum menningarverðmætum. Við ákvörðun verðgildismarka íslenskra menningarverðmæta í þessu frumvarpi var m.a. höfð hliðsjón af samsvarandi ákvæðum í sænskum og dönskum lögum.
Samráð.
Við undirbúning frumvarpsins var haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila. Starfshópurinn sem vann að undirbúningi frumvarpanna hélt fundi með ýmsum hagsmunaaðilum 2005 og 2006 og leitaði skoðunar þeirra á álitamálum, sem hópurinn tókst á við. Frumvarpið var haft til almennrar kynningar á vef menntamálaráðuneytisins síðla árs 2008 þar sem öllum almenningi var gefinn kostur á að senda inn athugasemdir eða ábendingar um efni þess. Fram komu ýmsar gagnlegar ábendingar, sem leiddu til breytinga á framsetningu frumvarpsins. Frekari kynning var viðhöfð gagnvart hagsmunaaðilum á haustmánuðum 2010, og endanleg gerð frumvarpsins eins og það var lagt fram á 139. löggjafarþingi var unnin í framhaldi hennar.
Mennta- og menningarmálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi samhliða áðurgreindum frumvörpum 7. apríl 2011. Að lokinni 1. umræðu var því vísað til menntamálanefndar sem sendi út umsagnarbeiðnir til fjölda aðila viku síðar. Nefndinni bárust á þriðja tug umsagna um efni frumvarpsins með fjölda ábendinga, auk þess sem nefndin fékk nokkurn fjölda aðila á fund sinn til að fjalla um frumvarpið.
Sem fyrr segir var frumvarp til laga um menningarminjar ekki afgreitt á 139. löggjafarþingi og er því flutt að nýju. Við undirbúning frumvarpsins nú hefur verið tekið tillit til ýmissa þeirra ábendinga sem komu fram í þeim umsögnum sem bárust menntamálanefnd Alþingis vorið 2011. Loks er lagt til að ný lög um menningarminjar taki gildi 1. janúar 2013, á sama tíma og lög um skil menningarverðmæta til annarra landa, nr. 57/2011, lög um Þjóðminjasafn Íslands, nr. 140/2011, og ný safnalög, nr. 141/2011.
Efnisyfirlit frumvarpsins.
Frumvarp til laga um menningarminjar er í nokkrum þáttum sem skipt er í kafla.
Fyrsti þáttur fjallar um almenn ákvæði í einum kafla þar sem greint er frá tilgangi laganna og gerð grein fyrir mikilvægustu skilgreiningum sem notaðar eru.
Annar þáttur greinir frá skipulagi innan málaflokksins og nær yfir II.–III. kafla. Í II. kafla er lýst stjórnsýslu, hlutverki fagnefnda og skiptingu landsins í minjasvæði. III. kafli fjallar um hina sameinuðu stjórnsýslustofnun, Minjastofnun Íslands.
Þriðji þáttur fjallar í IV.–XI. kafla um verndun og varðveislu menningarminja. IV. kafli greinir frá skráningu fornleifa, húsa og annarra mannvirkja, V. kafli fjallar um friðlýsingu menningarminja, VI. kafli um verndun og varðveislu fornminja, VII. um verndun og varðveislu mannvirkja, VIII. kafli um rannsóknir, sá IX. um minningarmörk, X. kafli um menningarminjasjóði og sá XI. um flutning menningarminja til annarra landa.
Í fjórða þætti er að finna önnur ákvæði, þ.e. almenn ákvæði og ákvæði um gildistöku og lagaskil.
Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. þátt.
Um 1. gr.
Sú skilgreining á menningarminjum sem tekin er upp í 2. mgr. er víðari og jafnframt skýrari en í gildandi lögum. Þannig er menningar- og búsetulandslag bætt við upptalninguna til að undirstrika mikilvægi þess að vernda minjaheildir og blandaðar minjar en ekki einungis stakar minjar. Menningarminjar eru hér skilgreindar án tillits til aldurs þeirra.
Í 3. mgr. er samhljóða ákvæði og nú er í 2. mgr. 1. gr. gildandi laga. Með því er áréttað að auk varðveislu menningarminja sé það tilgangur laganna að miðla þeim til þjóðarinnar og greiða fyrir rannsóknum á þeim.
Um 2. gr.
Minjar sem skilgreindar hafa verið sem þjóðminjar skv. 4. mgr. 1. gr. gildandi þjóðminjalaga, verða ekki sjálfkrafa áfram skilgreindar með þeim hætti samkvæmt greininni. Þjóðminjasafni Íslands er skv. 3. gr. frumvarps til laga um safnið, sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu, ætlað að halda skrá yfir lausamuni sem teljast til þjóðminja, enda eru þær hluti af safnkosti Þjóðminjasafnsins, þó varðveittar séu í öðrum söfnum, sbr. skýringu hér að ofan. Með svipuðum hætti er Minjastofnun Íslands ætlað skv. 11. gr. að halda skrá yfir friðlýstar fornleifar og mannvirki sem teljast til þjóðminja.
Í 2. mgr. felst nýmæli. Með því er lögð áhersla á að einstakir munir eða gripir geti haft sérstakt gildi fyrir íslenska þjóðmenningu og geti því talist þjóðarverðmæti í slíkri merkingu. Ekki þykir þó ástæða til þess að taka sérstaklega upp skilgreiningu á hugtakinu þjóðarverðmæti. Gera verður ráð fyrir að til grundvallar mati á gildi þjóðarverðmæta liggi fyrir mat viðkomandi höfuðsafna og lykilstofnana á sviði verndunar menningar- og náttúruminja. Til frekari skýringar á notkun hugtaksins þjóðarverðmæti er vísað til almennra athugasemda um frumvarp þetta. Með þessu nýmæli er lögð áhersla á að heildarmynd af menningarsögu þjóðarinnar kunni að skerðast umtalsvert ef viðkomandi gripur glatast eða er fluttur úr landi, sbr. XI. kafla frumvarpsins.
Um 3. gr.
Í 1. mgr. er tekið fram að fornminjar séu annars vegar forngripir, þ.e. lausamunir, og hins vegar fornleifar, þ.e. jarðfastar minjar.
Í 2. mgr. eru forngripir skilgreindir og aldursmörk tilgreind sem skera úr um hvort um forngrip sé að ræða eða ekki. Það er nýmæli að miða við ákveðið ártal, 1900, í stað 100 ára áður. Er það eðlilegt þar sem iðnvædd fjöldaframleiðsla hefst í stórum stíl hér á landi í byrjun 20. aldar og sjálfkrafa friðun þeirra samkvæmt 100 ára reglunni missir þar með marks. Hvað báta og skip varðar eru þau mikilvægur hluti af menningararfi þjóðarinnar sem nauðsynlegt er að varðveita en þau eru langflest frá 20. öld og falla þar með utan hinnar almennu aldursskilgreiningar á forngripum. Því eru aldursmörk skipa og báta sem teljast til forngripa sett við ártalið 1950. Aldursmörk forngripa eru að öðru leyti í samræmi við aldursmörk fornleifa.
Samkvæmt 3. mgr. teljast minjar frá árinu 1900 og eldri til fornleifa og njóta friðunar vegna aldurs. Það er einnig nýmæli að horfið er frá því að telja minjar 100 ára og eldri til fornleifa og miða í staðinn við ákveðið ártal. Á 20. öld fjölgar minjum gífurlega vegna breyttra þjóðfélagshátta og ógerningur er að friða þær allar sjálfkrafa. Í málsgreininni eru taldir upp helstu flokkar fornleifa, en taka skal fram að slík upptalning verður aldrei gerð þannig að tæmandi sé.
Rétt er að undirstrika að í frumvarpinu er gerður greinarmunur á sjálfkrafa friðun vegna aldurs og friðlýsingu úrvalsflokks minja, en friðlýsingu er ávallt þinglýst, sbr. 5. gr.
Hvað yngri minjar varðar er í 20. gr. veitt heimild til skyndifriðunar staðbundinna menningarminja og eftirfarandi friðlýsingar þeirra í sérstökum tilfellum skv. 18. gr., og geta yngri minjar en frá árinu 1900 því notið verndar ef ástæða þykir til.
Um 4. gr.
Um 5. gr.
Nauðsynlegt er að gera skýran greinarmun á merkingu hugtakanna friðun og friðlýsing, en slíkur greinarmunur er óljós í eldri lögum. Þannig má lýsa friðun sem sérstöku ástandi sem leiðir annars vegar af aldri minja og er þar með ekki háð sérstakri ákvörðun stjórnvalds og hins vegar af sérstakri ákvörðun þjóðminjavarðar þegar um er að ræða kirkjugripi. Í frumvarpinu er lagt til að friðun taki til fornleifa og mannvirkja sem eru frá árinu 1900 eða eldri.
Með friðlýsingu er átt við sérstaka ákvörðun ráðherra, sbr. 18. gr., sem getur falið í sér kvöð eða takmarkanir á meðferð fasteignar. Þar sem ekki er talið hægt að lýsa kvöðum vegna friðlýsingar minja á hafsbotni, er talið að tilkynningu stjórnvalda um slíka friðlýsingu í Stjórnartíðindum skv. 19. gr. fylgi algjört bann við að raska slíkum minjum.
Um 6. gr.
Fornleifarannsóknir geta verið með ýmsum hætti, svo sem fornleifaskráning vegna skipulagsvinnu, fræðilegar rannsóknir, rannsóknir vegna fyrirhugaðra framkvæmda, rannsóknir á umfangi fornleifa, björgunarrannsóknir, rannsóknir á friðlýstum minjum og skyndi- eða neyðarrannsóknir.
Samkvæmt 36. gr. skal tilkynna um allar fornleifarannsóknir í landinu til Minjastofnunar Íslands, en einungis þarf að sækja um leyfi til þeirra fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér.
Um 2. þátt.
Um 7. gr.
Loks er kveðið á um að stofnunin skuli marka stefnu og gera langtímaáætlanir um verndun og varðveislu menningarminja í heild og hafa við þá stefnumótun samráð við höfuðsöfn sem skilgreind eru í safnalögum, svo og önnur helstu söfn og stofnanir sem vinna að varðveislu menningarminja. Með því er m.a. vísað til aðila sem bera ábyrgð á ákveðnum sviðum samkvæmt lögum eins og Þjóðskjalasafn Íslands, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Kvikmyndasafn Íslands.
Slíkt samráð er talið æskilegt þar sem í samræmi við tilgang laganna skv. 1. gr. er eðlilegt að tillaga um heildarstefnu og langtímaáætlun um verndun og varðveislu menningarminja á Íslandi að ná til stærra sviðs en eingöngu fornminja skv. 3. gr. og friðaðra mannvirkja skv. 29. gr. Meðal menningarminja sem slík stefnumótun þarf að ná til eru t.d. menningarminjar 20. aldar. Meðal slíkra má telja minjar um sjósókn og útgerð, minjar um þróun landbúnaðar og samgangna, minjar sem tengjast sérstaklega atvinnuþróun og einstökum viðburðum í þjóðarsögunni (Alþingishátíðinni 1930, stofnun lýðveldisins 1944 o.s.frv.), þó ekki sé ástæða til að telja upp slíka minjaflokka eða viðburði í texta laganna.
Um 8. gr.
Fornminjanefnd er ráðgjafarnefnd, en í 2. mgr. er fjallað nánar um hlutverk hennar sem er m.a. að vinna að stefnumörkun um verndun fornleifa ásamt Minjastofnun Íslands, og fjalla um tillögur stofnunarinnar um friðlýsingu fornleifa og afnám friðlýsingar áður en þær eru sendar ráðherra. Einnig er kveðið á um að fornminjanefnd setji reglur um úthlutun styrkja úr fornminjasjóði sem ráðherra staðfestir og veiti umsögn um styrkumsóknir úr sjóðnum. Eðlilegt er að Minjastofnun Íslands taki fullt tillit til umsagna nefndarinnar við úthlutanir styrkja, þó ekki standi í lögum að umsagnir hennar séu bindandi fyrir stofnunina. Fornminjanefnd getur einnig sinnt öðrum verkefnum sem henni kunna að vera falin samkvæmt öðrum lögum.
Í 3. mgr. segir að forstöðumenn Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands sitji fundi fornminjanefndar stöðu sinnar vegna og er það gert til að tryggja eðlilegt samráð allra þessara aðila við framkvæmd fornminjaverndar.
Að lokum er í 4. mgr. lagt til að kostnaður af starfsemi fornminjanefndar skuli greiðast úr fornminjasjóði. Þar er einkum átt við kostnað vegna fundarsetu, ferða og þess háttar.
Fornminjanefnd í því formi sem hér er lagt til er nýmæli. Er nefndinni ætlað að vera alhliða fagnefnd og gegna svipuðu hlutverki og húsafriðunarnefnd en ekki hlutverki áfrýjunarnefndar eins og fornleifanefnd gerir í gildandi þjóðminjalögum.
Um 9. gr.
Sú nýbreytni er í skipun nefndarinnar frá gildandi lögum um húsafriðun, nr. 104/2001, að nú verði skipaðir tveir fulltrúar samkvæmt tilnefningum fagaðila í hana í stað eins áður. Til viðbótar fulltrúa arkitekta verði skipaður sameiginlegur fulltrúi Íslandsdeildar ICOMOS (Alþjóðaráðs um minnisvarða og sögustaði), Íslandsdeildar ICOM (Alþjóðaráðs safna) og FÍSOS (Félags íslenskra safna og safnmanna) og er það lagt til á grundvelli aukinnar áherslu á verndun mannvirkja annarra en húsa, þar sem fagþekking slíks fulltrúa er talin mikilvæg.
Húsafriðunarnefnd er ráðgjafarnefnd, en í 2. mgr. er fjallað nánar um hlutverk hennar sem er m.a. að vinna að stefnumörkun um verndun byggingararfsins ásamt Minjastofnun Íslands og fjalla um tillögur stofnunarinnar um friðlýsingu mannvirkja, afnám friðlýsingar, breytingar á friðlýstum mannvirkjum eða förgun þeirra áður en þær eru sendar ráðherra. Einnig er kveðið á um að húsafriðunarnefnd setji reglur um úthlutun styrkja úr húsafriðunarsjóði sem ráðherra staðfestir og veiti umsögn um styrkumsóknir úr sjóðnum. Eðlilegt er að Minjastofnun Íslands taki fullt tillit til umsagna nefndarinnar við úthlutanir styrkja, þó ekki standi í lögum að umsagnir hennar séu bindandi fyrir stofnunina. Húsafriðunarnefnd getur einnig sinnt öðrum verkefnum sem henni kunna að vera falin samkvæmt öðrum lögum.
Í 3. mgr. segir að forstöðumenn Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands sitji fundi nefndarinnar stöðu sinnar vegna og er það gert til að tryggja eðlilegt samráð allra þessara aðila við framkvæmd mannvirkjaverndunar.
Að lokum er í 4. mgr. lagt til að kostnaður við starfsemi húsafriðunarnefndar greiðist úr húsafriðunarsjóði. Þar er einkum átt við kostnað vegna fundarsetu, ferða og þess háttar.
Um 10. gr.
Í 2. mgr. er kveðið á um að stofna skuli minjaráð á hverju minjasvæði og hvernig það geti verið skipað. Í minjaráði geta, auk minjavarðar, setið fulltrúar samtaka sveitarfélaga og skipulagsyfirvalda á minjasvæðinu, auk forstöðumanna viðurkenndra safna. Kveðið er á um að heimilt sé að bjóða fulltrúum annarra hagsmunaaðila á svæðinu sæti í minjaráði. Dæmi um slíka hagsmunaaðila geta verið þjóðkirkjan, skógræktarfélög, fyrirtæki í ferðaþjónustu, bændasamtök o.fl.
Gert er ráð fyrir að minjaráð verði samráðsvettvangur á hverju minjasvæði og hafi það hlutverk að fjalla um menningarminjar, varðveislu þeirra og nýtingu í þágu samfélagsins í samráði við Minjastofnun Íslands og höfuðsöfn. Mikilvægt er að líta á menningarminjar sem auðlind fyrir samfélagið, sem beri að varðveita eins vel og unnt er fyrir komandi kynslóðir, en sem einnig geta gegnt þýðingarmiklu hlutverki í þróun og uppbyggingu atvinnu á viðkomandi minjasvæði. Verndun og varðveisla menningarminja, svo sem fornleifa eða gamalla mannvirkja, er snar þáttur í gerð skipulagsáætlana. Því er eðlilegt að tryggja aðkomu fulltrúa sveitarfélaga og skipulagsyfirvalda að minjaráði.
Gert er ráð fyrir að störfum og starfsháttum minjaráða verði nánar lýst í reglugerð.
Um 11. gr.
Með tilkomu Minjastofnunar Íslands verður til öflug stofnun sem er vel í stakk búin til að veita þá þjónustu og umsýslu sem m.a. sjóðirnir þurfa og er nú að nokkru leyti unnin af starfsfólki mennta- og menningarmálaráðuneytis. Fyrirmynd að stofnuninni er að hluta til sótt til Norðurlanda, t.d. til Kulturarvstyrelsen í Danmörku.
Gert er ráð fyrir að Minjastofnun Íslands vinni í nánu samstarfi við höfuðsöfn og viðeigandi fagnefndir, þ.e. fornminjanefnd og húsafriðunarnefnd, sbr. 8. og 9. gr.
Í greininni eru talin upp helstu verkefni stofnunarinnar samkvæmt þessu frumvarpi og frumvarpi til laga um skil menningarverðmæta til annarra landa, sem lagt verður fram á þessu þingi. Tekið er fram að Minjastofnun Íslands annist framkvæmd minjavörslunnar í samræmi við ákvæði laganna, hafi eftirlit með öllum fornleifum og friðuðum mannvirkjum, vinni að stefnumörkun um verndun fornleifa og byggingararfsins ásamt fagnefndum, setji reglur um og hafi yfirumsjón með skráningu friðaðra og friðlýstra fornleifa, húsa og mannvirkja og haldi heildarskrár um allar þekktar fornleifar, friðlýsta legsteina og minningarmörk ásamt friðuðum og friðlýstum mannvirkjum. Enn fremur er stofnuninni ætlað að gera tillögur til ráðherra um friðlýsingu og afnám friðlýsingar á menningarminjum og ákveða skyndifriðun menningarminja ef þörf krefur. Þá skal stofnunin setja reglur um og hafa eftirlit með öllum fornleifarannsóknum í landinu, annast leyfisveitingar vegna slíkra rannsókna sem hafa jarðrask í för með sér og framkvæma minni háttar fornleifarannsóknir (einkum á grundvelli 23. og 24. gr.). Einnig er mælt fyrir um að Minjastofnun Íslands hafi eftirlit með og annist leyfisveitingar vegna flutnings menningarminja til annarra landa.
Stofnuninni er jafnframt falið að sjá um úthlutanir styrkja úr þeim tveimur sjóðum sem starfræktir eru á verksviði hennar, þ.e. fornminjasjóði og húsafriðunarsjóði, og annast umsýslu þeirra. Nauðsynlegt er talið að samræma starfsemi þessara sjóða. Samkvæmt þjóðminjalögum og húsafriðunarlögum sem sett voru árið 2001 gætir ósamræmis í tekjustofnum sjóðanna, stjórnun þeirra og úthlutun úr þeim. Þannig er húsafriðunarsjóður undir umsjón stefnumótandi nefndar (húsafriðunarnefndar) en fornleifasjóður (sem samkvæmt þessum nýju lögum mun heita fornminjasjóður) lýtur nú sérstakri stjórn sem ekki er í neinum tengslum við stefnumótun í málaflokknum, en telja verður eðlilegt að svo sé á öllum sviðum minjavörslunnar. Í 8. gr. frumvarps þessa er lagt til að sett verði á fót fornminjanefnd, sem mun gegna svipuðu hlutverki á sínu fagsviði og húsafriðunarnefnd og safnaráð gera samkvæmt gildandi lögum. Þá er gerð tillaga um að stofnunin geti að höfðu samráði við viðeigandi nefnd ákveðið aðra ráðstöfun fjár úr umræddum sjóðum, t.d. að styrkja faglegar ráðstefnur, málþing eða önnur þau verkefni sem talin eru styrkja viðkomandi svið eða vera því til framdráttar með öðrum hætti.
Stofnuninni er einnig ætlað að annast framkvæmd laga um skil á menningarverðmætum til annarra landa. Þá er stofnuninni ætlað að setja á fót minjaráð á hverju minjasvæði, sbr. 10. gr., og bera ábyrgð á starfsemi þeirra.
Loks er gert ráð fyrir að ráðherra geti falið stofnuninni önnur verkefni samkvæmt sérstakri ákvörðun. Meðal slíkra verkefna gætu m.a. verið önnur umsýsla en tiltekin er í greininni, umsjón með eða eftirfylgni við framkvæmdaþætti sem kunna að leiða af gerð heildarstefnu og langtímaáætlunar um verndun og varðveislu menningarminja skv. 7. gr., o.fl.
Um 12. gr.
Forstöðumaður er stjórnandi stofnunarinnar og mótar stefnu hennar. Hann er ábyrgur gagnvart ráðherra fyrir fjárhagslegum rekstri og starfsemi stofnunarinnar. Er þetta í samræmi við ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og laga um fjárreiður ríkisins.
Um 13. gr.
Með lagagreininni er starfssvið minjavarða víkkað til muna frá því sem segir í þjóðminjalögum, nr. 107/2001, og getur nú náð yfir öll svið minjavörslu, þ.e. umsjón og eftirlit með fornleifum og fornleifarannsóknum sem hafa jarðrask í för með sér, ásamt því að hafa eftirlit með friðuðum og friðlýstum mannvirkjum. Hlutverk minjavarða sem starfsmanna Minjastofnunar Íslands verður því umfangsmeira en hlutverk minjavarða í gildandi þjóðminjalögum. Loks er gert ráð fyrir því að fela megi minjavörðum eftirlit með minjum sem heyra undir Þjóðminjasafn Íslands, samkvæmt nánara samkomulagi milli safnsins og Minjastofnunar Íslands.
Breyting sú sem hér er lögð til er m.a. til komin vegna athugasemda sem komið hafa fram við framkvæmd gildandi laga um hlutverk minjavarða. Á það hefur verið bent að hlutverk þeirra sé óljóst og að starfssvið minjavarða hafi þrengst til muna frá því sem áður var. Minjavörðum er sem starfsmönnum Minjastofnunar Íslands ætlað að starfa fyrir öll svið minjaverndar, þ.e. verndun fornleifa og mannvirkja, auk þess sem heimilt er að fela þeim að sinna verkefnum fyrir Þjóðminjasafn Íslands. Vegna þessara breytinga á starfssviði minjavarða er gert ráð fyrir að verkefni þeirra á hverju minjasvæði geti verið mismunandi og þurfi ekki að vera bundin við einn starfsmann heldur geti sérfræðingar á ýmsum sviðum starfað með þeim eftir því sem fjárveitingar leyfa.
Um 14. gr.
Um 3. þátt.
Um 15. gr.
Í 3. mgr. er lagt til að stofnuninni sé heimilt að fela aðilum er búa yfir sérþekkingu og reynslu á sviði minjaskráningar afmörkuð könnunar- og skráningarstörf fyrir stofnunina. Dæmi um slíkar stofnanir geta verið fræða- og rannsóknarstofnanir, sem og viðurkennd minjasöfn.
Samkvæmt 4. mgr. skulu öll gögn um skráningu fornleifa og friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja afhent Minjastofnun Íslands, annaðhvort í frumriti eða afriti. Þetta er nauðsynlegt ákvæði þar sem allar áætlanir, ákvarðanir og úrskurðir stofnunarinnar um meðferð og varðveislu minja byggjast á þessum gögnum og því er stofnuninni ekki nægilegt að hafa einungis niðurstöður skráningarinnar undir höndum. Rétt þykir að kveða á um að skráningarskýrslur skuli afhentar stofnuninni á rafrænu formi og að eintak af skránni skuli afhent hlutaðeigandi skipulagsyfirvöldum með sama hætti. Með þessu er áréttað mikilvægi þess að hægt sé að taka tillit til menningarminja við allar skipulagsáætlanir og nauðsyn þess að skipulagsyfirvöld búi ávallt yfir nýjustu upplýsingum um minjar á svæðinu.
Í 5. mgr. er áréttað að fornleifa- og mannvirkjaskráningu á tilteknu svæði teljist ekki lokið fyrr en skráin hefur hlotið staðfestingu Minjastofnunar Íslands. Þetta er nauðsynlegt vegna ábyrgðar stofnunarinnar á skráningu minja og gæðum hennar, þar sem oft geta verið miklir hagsmunir í húfi að slíkar skrár séu réttar og nákvæmar. Stofnuninni er enn fremur gert skylt að veita skipulagsyfirvöldum, byggingarfulltrúum og náttúruverndaryfirvöldum, þ.e. Umhverfisstofnun, fullan aðgang að skráningargögnum í vörslu sinni.
Að endingu er kveðið á um að Minjastofnun Íslands setji reglur um tilhögun skráningar fornleifa og friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja og um skil á gögnum þar að lútandi, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þetta er eðlilegt verklag í ljósi þess að sveitarfélög verða afar mikilvægir samstarfsaðilar stofnunarinnar á ýmsum sviðum. Í slíkum reglum er m.a. hægt að kveða á um staðla um skráningu menningarminja. Þetta er gert til að tryggja samræmi í skipulagningu og framkvæmd skráningar.
Um 16. gr.
Ákvæði 3. mgr. um að tilkynna skuli Minjastofnun Íslands um gerð skipulagsáætlana og breytingar á þeim og um gerð skýrslna um mat á umhverfisáhrifum er nýtt en byggist á hliðstæðum ákvæðum 11. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og 33. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Hér er þó ekki gert að skilyrði að aflað sé umsagnar stofnunarinnar en í þess stað skuli henni tilkynnt um gerð skipulagsáætlana og breytingar á þeim. Með þessu ætti að vera tryggt að stofnuninni sé ávallt tilkynnt um fyrirhugaðar ráðstafanir sem geta haft þýðingu fyrir varðveislu menningarminja. Telji stofnunin að slíkum minjum sé stefnt í hættu ber henni að bregðast við með viðeigandi hætti, svo sem með ráðgjöf eða eftir atvikum að leggja til friðun þeirra.
Í 4. mgr. er tekið fram að heimila skuli nauðsynlega för um landareign vegna fornleifa- og mannvirkjaskráningar og er hliðstætt ákvæði að finna í 8. gr. laga nr. 103/2006, um landmælingar og grunnkortagerð.
Um 17. gr.
2. mgr. heimilar Minjastofnun Íslands að veita afnot af öllum upplýsingum á sviði fornleifa- og mannvirkjaskráningar sem eru í vörslu stofnunarinnar að því tilskildu að uppruna sé getið og áreiðanleika upplýsinga sé ekki stefnt í tvísýnu. Hliðstætt ákvæði er í 6. gr. laga nr. 103/2006, um landmælingar og grunnkortagerð.
Um 18. gr.
Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að friðlýsing geti náð til nánasta umhverfis hins friðlýsta minjastaðar og að friðlýsa megi samfelld svæði þar sem fleiri en einn minjastaður teljast hafa sérstakt menningarsögulegt gildi eða samstæður húsa sem hafa sama gildi. Með minjastað er átt við það svæði sem friðlýst er í hverju tilviki.
Nýmæli er að í 2. mgr. er Minjastofnun Íslands gert skylt að hafa samráð við viðkomandi skipulagsyfirvöld þegar fjallað er um friðlýsingu minjastaða.
Í 3. mgr. segir að ráðherra ákveði friðlýsingu eða afnám friðlýsingar menningarminja. Það er nýmæli að ráðherra er falið að taka ákvörðun um friðlýsingu allra menningarminja en ekki eingöngu húsa og mannvirkja eins og nú er. Er það til samræmis við friðlýsingarákvæði í lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, þar sem segir að umhverfisráðherra friðlýsi náttúruminjar.
Í 4. mgr. segir að friðlýsing húsa og mannvirkja og friðun kirkna sem hefur verið ákveðin samkvæmt eldri lögum haldi gildi sínu. Samkvæmt þessu ákvæði teljast t.d. kirkjur sem eru friðaðar samkvæmt eldri lögum (allar kirkjur sem reistar voru 1918 eða fyrr) áfram friðaðar.
Um 19. gr.
Til að tryggja öryggi friðlýstra minja er kveðið á um að staðsetning þeirra sé tilgreind á rafrænum kortagrunni og minjarnar færðar á skipulagskort. Einnig er kveðið á um tilkynningarskyldu þinglýsingarstjóra til Minjastofnunar Íslands um eigendaskipti á friðlýstum húsum, mannvirkjum eða á landareignum sem á eru friðlýstar fornleifar.
Í greininni er enn fremur kveðið á um að heimilt sé að fella niður fasteignagjöld af friðlýstum fasteignum og landareignum sem á eru friðlýstar fornleifar. Telja verður sanngjarnt að sveitarfélag hafi heimild til að lækka eða fella niður fasteignagjöld af friðlýstum menningarminjum þar sem friðlýsing getur falið í sér takmörkun á afnotum eigenda á umræddri eign.
Um 20. gr.
Þá er hér lagt til að skyndifriðun gildi í allt að sex vikur sé talin brýn nauðsyn til en í gildandi lögum um húsafriðun eru þessi tímamörk aðeins tvær vikur, en í þeim tilvikum þar sem til skyndifriðunar hefur komið hefur þessi tími reynst í það stysta.
Um 21. gr.
Í 2. mgr. er kveðið á um skyldur eigenda og ábúenda jarða sem fornleifar eru á til að varðveita þær og viðhalda umhverfi þeirra. Enn fremur er kveðið á um skyldur Minjastofnunar Íslands til að veita ráðgjöf í því sambandi. Er þetta nýmæli frá gildandi lögum.
Í 3. mgr. segir að Minjastofnun Íslands geri það sem þarf til verndar fornleifum, viðhalds eða endurbóta, en gera skuli landeiganda eða ábúanda viðvart um það áður. Þá er kveðið á um að Minjastofnun Íslands geti látið rannsaka fornleifar með uppgreftri eða á annan hátt ef nauðsyn krefur. Gert er ráð fyrir að stofnunin feli að öllu jöfnu öðrum aðilum framkvæmd rannsókna í sínu umboði. Þó getur í vissum tilfellum verið nauðsynlegt að stofnunin hafi heimild til að framkvæma sjálf viðaminni skyndirannsóknir sem ekki mega bíða.
Í 4. mgr. er ákvæðið um að semja skuli verk- og fjárhagsáætlun um viðhald friðlýstra fornleifa nýmæli, en talið er nauðsynlegt að slíkar framkvæmdir séu vel skipulagðar og studdar rökum.
Um 22. gr.
Í 2. mgr. er kveðið á um að Minjastofnun Íslands skuli sjá til þess að friðlýstar fornleifar eða minjasvæði séu auðkennd með sérstökum merkjum samkvæmt reglum sem stofnunin setur. Dæmi er um að merkingar hafi verið staðsettar þannig að þær geti valdið skemmdum á viðkomandi minjum. Því er nauðsynlegt að stofnunin hafi heimild til að fjarlægja skilti eða aðrar merkingar sé gerð þeirra og staðsetning ekki í samræmi við reglur þar að lútandi.
Um 23. gr.
Í 2. mgr. er fjallað um tilkynningarskyldu framkvæmdaraðila og sveitarfélaga vegna framkvæmda er gætu stefnt minjastöðum í hættu. Til jarðrasks í skilningi laga þessara telst einnig rask á botni sjávar eða vatna sem haggað gæti við skipsflökum eða öðrum föstum eða lausum minjum. Tilkynning um framkvæmdir með lýsingu á hugsanlegum breytingum skal berast Minjastofnun Íslands með minnst fjögurra vikna fyrirvara og er það í samræmi við eldri lagaákvæði nema nú er tilgreindur ákveðinn tilkynningarfrestur fyrir áætlað upphaf framkvæmda. Þetta er gert til að veita stofnuninni ráðrúm til að bregðast við tilkynningunni í tíma. Enn fremur er tilgreint hvernig Minjastofnun Íslands skuli bregðast við slíkum tilkynningum. Í málsgreininni er það nýmæli að óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda, sem stefna minjastöðum í hættu, nema ákvörðun Minjastofnunar Íslands liggi fyrir.
Þá er nýtt að í 4. mgr. er lagt til að haft skuli samráð við Umhverfisstofnun þegar einnig er um náttúruminjar að ræða, en í auknum mæli er litið á menningar- og náttúruminjar sem eina heild, sbr. samning UNESCO um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins frá árinu 1972 og samning Evrópuráðsins um verndun menningarlandslags frá árinu 2000.
Um 24. gr.
Í 2. mgr. er að finna nýtt ákvæði um heimild Minjastofnunar Íslands til að stöðva framkvæmdir tímabundið hafi stofnunin rökstuddan grun um að fornminjar séu í hættu og um viðurlög (sbr. 55. gr.) sé ákvörðun stofnunarinnar ekki virt. Mikilvægt er að stofnunin hafi hér heimild til þess að geta brugðist við með þessum hætti og leitað fulltingis lögreglu ef svo ber undir. Lögð er áhersla á að notkun á umræddri heimild sé byggð á rökstuddum grun eða sterkum vísbendingum um að fornminjar séu í hættu.
Um 25. gr.
Um 26. gr.
Í 2. mgr. segir að allir gripir sem greinin fjallar um séu eign ríkisins. Einnig er kveðið á um hvernig afhendingu og varðveislu þeirra skuli háttað. Þjóðminjavörður ákveður endanlegan varðveislustað gripanna.
Um 27. gr.
Um 28. gr.
Í 2. mgr. er sagt að framkvæmdaraðili greiði kostnað af þeim rannsóknum sem nauðsynlegar reynast að mati stofnunarinnar að vettvangskönnun lokinni. Tekið er fram að við allar umfangsmiklar framkvæmdir beri framkvæmdaraðili allan kostnað af nauðsynlegum rannsóknum sem Minjastofnun Íslands telur nauðsynlegar. Með umfangsmiklum framkvæmdum er m.a. átt við vegagerð, hafna- og dýpkunarframkvæmdir, framræslu, virkjanaframkvæmdir, flugvallargerð, veitulagnir, lagningu ljósleiðara og skógrækt. Af framsetningu ákvæðisins leiðir að þeir sem standa fyrir framkvæmdum sem ekki teljast umfangsmiklar gætu átt kost á styrk úr fornminjasjóði samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins.
Loks er Minjastofnun Íslands veitt heimild til að leiðbeina framkvæmdaraðilum um fagleg atriði, t.d. við áætlanagerð og undirbúning útboða vegna rannsókna, sé þess óskað.
Um 29. gr.
Í 2. mgr. er skilgreint hvað felst í friðun mannvirkja og er það nýmæli.
Í 3. mgr. er heimild til afnáms aldursfriðunar mannvirkja færð til Minjastofnunar Íslands, en í gildandi lögum er hún í höndum ráðherra. Ástæða er til að breyta þessu, þar sem sjálfkrafa aldursfriðun er ekki hjá ráðherra heldur bundin í lögum og krefst ekki þinglýsingar. Með þessu er enn frekar lögð áhersla á að aldursfriðun annars vegar og friðlýsing hins vegar sé tvennt ólíkt.
Um 30. gr.
Í 2. mgr. er byggingarfulltrúum lögð sú skylda á herðar að fylgjast með því að leitað sé eftir áliti Minjastofnunar Íslands á fyrirhuguðum breytingum, flutningi eða niðurrifi áður en leyfi er veitt til framkvæmdanna.
3. mgr. er efnislega samhljóða 4. mgr. 6. gr. gildandi húsafriðunarlaga en mun ítarlegri, þar sem tekið er fram að í byggingar- eða framkvæmdaleyfum sem veitt eru vegna umræddra húsa eða mannvirkja skal taka tillit til þeirra skilyrða sem Minjastofnun Íslands hefur lagt til.
Um 31. gr.
Hér er lagt til að leita skuli samþykkis Minjastofnunar Íslands með ákveðnum fyrirvara sem ekki er í gildandi lögum. Eðlilegt er að gera ráð fyrir því að áður en til viðhalds eða endurbóta sé stofnað sé leitað álits stofnunarinnar á framkvæmdunum. Komi í ljós að framkvæmdirnar séu umfangsmiklar, sbr. 1. mgr., verða þær ekki heimilaðar nema að fengnu leyfi stofnunarinnar.
Í greininni er einnig kveðið á um að húseiganda sé skylt að hlíta þeim skilyrðum fyrir umræddum framkvæmdum sem stofnunin setur, en hann getur sótt um styrk úr húsafriðunarsjóði vegna aukakostnaðar sem af skilyrðum stofnunarinnar hlýst, og skal slík umsókn njóta forgangs eftir því sem skyldur sjóðsins og geta til styrkveitinga leyfir.
Þá kemur fram í 4. mgr. að leyfi Minjastofnunar Íslands þurfi til að setja skilti eða aðrar áletranir á friðlýst hús eða mannvirki.
Um 32. gr.
Um 33. gr.
Um 34. gr.
Samkvæmt greininni er hægt að hafna umsóknum um niðurrif eða flutning á friðuðu eða friðlýstu húsi eða mannvirki, samþykkja hana eða endurskoða viðkomandi friðlýsingu húss eða mannvirkis með tilliti til flutnings ef við á, t.d. hvort friðlýsing eigi að halda sér á nýjum stað.
Um 35. gr.
Um 36. gr.
Í 2. mgr. kemur fram að leyfi þurfi til allra fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér og að Minjastofnun Íslands veiti slík leyfi. Það er nýmæli að einungis þarf formlegt leyfi til að stunda fornleifarannsóknir sem hafa jarðrask í för með sér.
Ákvæði 2. mgr. fela einnig í sér nýmæli, þ.e. að stjórnandi fornleifarannsóknar sem hefur jarðrask í för með sér skuli uppfylla skilyrði sem Minjastofnun Íslands setur fyrir veitingu rannsóknarleyfa.
Ákvæði 3. mgr. um flutning sýna úr landi er nýmæli en þar kveður á um að óheimilt sé að flytja úr landi lífræn eða ólífræn sýni úr fornleifarannsóknum nema með skriflegu leyfi Minjastofnunar Íslands. Í flestum tilfellum er um að ræða flutning sýna til rannsókna þar sem sýnin eyðast og verða ekki flutt aftur til landsins. Æskilegt þykir að slíkar rannsóknir fari fram á Íslandi nema í undantekningartilfellum, sé nauðsynleg tækni eða tækjabúnaður ekki til í landinu. Ekki er rétt að líta á sýni úr fornleifarannsóknum sem menningarminjar sem falla undir ákvæði um útflutningstakmarkanir skv. XI. kafla þessa frumvarps, enda er þar átt við verðmæti sem hafa markaðsgildi. Hins vegar er talin ástæða til að eftirlit verði með því hvað flutt er úr landi af slíkum sýnum og því eðlilegt að sækja þurfi um leyfi til útflutningsins.
4. mgr. vísar til þess að fjallað er um flutning muna úr landi í XI. kafla og þarfnast ekki frekari skýringa. Vert er að benda á að um leyfi til flutnings náttúrugripa til annarra landa gilda ákvæði 4. mgr. 15. gr. laga nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, og kann það ákvæði að koma til álita við veitingu leyfis til að flytja lífræn sýni úr fornleifarannsóknum úr landi.
Í 5. mgr. er kveðið á um að Minjastofnun setji reglur um fornleifarannsóknir og framkvæmd þeirra þar sem m.a. yrði kveðið á um skilyrði fyrir veitingu leyfa, um lok rannsókna, skil á gögnum, sýnum og gripum, frágang minjastaða að uppgreftri loknum og birtingu rannsóknarskýrslna. Einnig verður m.a. kveðið nánar á um menntunarskilyrði stjórnenda slíkra rannsókna í þessum reglum.
Um 37. gr.
Í 2. mgr. er kveðið á um að rannsóknarleyfi skuli að öllu jöfnu gilda í eitt ár. Þó er heimilt að veita leyfi til allt að þriggja ára þegar um er að ræða umfangsmiklar rannsóknir. Talið er eðlilegt að við stærri rannsóknir, þar sem rannsóknaráætlun gerir ráð fyrir að verkefnið standi yfir í nokkur ár, sé hægt að veita leyfi til lengri tíma. Slíkt leyfi er þó veitt með kröfu um að skýrslu um framvindu sé skilað árlega og að gerð sé grein fyrir nauðsynlegum breytingum á upphaflegri rannsóknaráætlun.
Í 3. mgr. segir að þeim sem fá leyfi til fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér beri að hlíta reglum sem Minjastofnun Íslands setur um þær. Slíkum reglum er m.a. ætlað að fjalla um menntun, reynslu og hlutverk stjórnenda, umfang rannsóknarsvæðis, rannsóknaraðferðir, tímamörk rannsókna, tilkynningar um fundi gripa og skyndilegar óvæntar aðstæður, um eftirlit stofnunarinnar og skil á frumgögnum, sem og rannsóknarskýrslum og birtingu þeirra og um skil á gripum sem finnast við rannsóknina, auk frágangs minjastaðar að rannsókn lokinni.
Loks er Minjastofnun Íslands heimilt að veita takmarkað eða skilyrt leyfi til fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér eða hafna umsókn alfarið, m.a. ef stofnunin telur að væntanlegur fræðilegur árangur réttlæti ekki röskun minjanna við rannsókn. Stofnunin skal þá í rökstuðningi sínum meðal annars meta hvort væntanlegur fræðilegur árangur af uppgreftri vegur þyngra en röskun minjanna. Þetta ákvæði er nýjung í frumvarpinu en í eldri lögum er hvorki gert ráð fyrir heimild til að skilyrða rannsóknarleyfi né hafna umsókn, en slíkt getur verið nauðsynlegt með tilliti til þeirra hagsmuna sem í húfi eru við verndun menningarminja, einkum friðlýstra.
Um 38. gr.
Ekki er hægt að gera áætlanir fyrir fram um skyndirannsóknir og því er nauðsynlegt að gera ráð fyrir áföllnum kostnaði stofnunarinnar í fjáraukalögum, sbr. 33. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins. Til slíks kostnaðar teljast m.a. ferðir, uppihald, tækja- og efniskostnaður sem og verktakakostnaður en ekki föst laun starfsmanna Minjastofnunar Íslands.
Um 39. gr.
Um 40. gr.
Í greininni eru að öðru leyti ákvæði um hvenær fornleifarannsókn sem hefur jarðrask í för með sér teljist lokið og er það nýmæli. Samkvæmt skilgreiningu frumvarpsins telst slíkri rannsókn ekki lokið fyrr en gengið hefur verið frá minjastað, unnið hefur verið úr gögnum og þau ásamt gripum afhent réttum aðilum. Enn fremur er útgáfa rannsóknarskýrslna og birting niðurstaðna með sannanlegum hætti talinn hluti af rannsókninni. Birting í skilningi laga þessara telst m.a. birting skýrslunnar á rafrænu formi sem er aðgengilegt almenningi.
Nauðsynlegt er að það komi skýrt fram í lögum hvenær fornleifarannsókn er lokið, því borið hefur á því að verkkaupar telji slíkum rannsóknum lokið þegar sjálfum uppgreftrinum er lokið en öll úrvinnsla gagna óunnin. Uppgröftur án úrvinnslu gagna getur því í raun falið í sér eyðileggingu minja en ekki rannsókn.
Í greininni er einnig kveðið á um að öllum gögnum og rannsóknarskýrslum, m.a. kortum og greinargerðum, skuli skilað til Þjóðminjasafns Íslands til varðveislu innan árs frá áætluðum verklokum. Talið er rétt að halda öllum rannsóknargögnum saman á einum stað en ekki skilja að gripi og sýni annars vegar og skýrslur eða greinargerðir hins vegar. Með þessu ákvæði styrkist staða Þjóðminjasafns Íslands sem miðstöðvar rannsókna á sviði menningarminja þar sem allar upplýsingar frá fornleifarannsóknum eru varðveittar. Afrit rannsóknargagna berist Minjastofnun Íslands þar sem stofnunin annast leyfisveitingar vegna fornleifarannsókna og eftirlit með framkvæmd þeirra og þarf á þeim að halda til að sinna stjórnsýsluhlutverki sínu.
Loks er kveðið á um að ef rannsóknaraðili hlítir ekki ákvæðum 3. mgr. um skil á gripum, sýnum og rannsóknargögnum innan tilskilinna tímamarka, geti slíkt haft áhrif á afgreiðslu frekari umsókna um ný rannsóknarleyfi til þess aðila. Þá má benda á að skv. 55. gr. getur Minjastofnun Íslands beitt dagsektum til að knýja á um að ákvæðum greinarinnar sé hlítt.
Um 41. gr.
Í 2. mgr. er kveðið á um hvernig staðið skuli að friðlýsingu legsteina og annarra minningarmarka í kirkjugörðum sem ekki njóta friðunar samkvæmt ákvæðum þessara laga vegna aldurs. Gildir þetta jafnt um aflagða kirkjugarða sem þá sem enn eru í notkun.
Í 3. mgr. er greint frá hvernig haga skuli skráningu friðlýstra minningarmarka og miðlun upplýsinga úr skránum. Loks kemur fram að friðlýsingu legsteina og annarra minningarmarka skuli þinglýst sem kvöð á viðkomandi kirkjugarð.
Um 42. gr.
Í 1. mgr. er kveðið á um hlutverk fornminjasjóðs sem er að veita styrki til rannsókna á fornminjum, þ.e. fornleifum og forngripum, þar á meðal til fornleifaskráningar vegna undirbúnings svæðis- eða deiliskipulags, sbr. 16. gr., svo og til varðveislu og viðhalds á fornleifum. Heimilt er að veita styrki til viðhalds annarra menningarminja, t.d. minja sem ekki njóta friðunar á grundvelli aldurs en teljast hafa varðveislugildi, svo sem skip og bátar og önnur atvinnu- og samgöngutæki.
Loks er staðfest heimild til að krefjast endurgreiðslu styrkja hafi verkefni ekki verið unnið í samræmi við verklýsingu eða verklok ekki verið með réttum hætti.
Um 43. gr.
Auk framlags úr ríkissjóði er gert ráð fyrir framlagi í sjóðinn úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem nemur 150 kr. á hvern íbúa í hlutaðeigandi sveitarfélagi. Sams konar ákvæði er í 16. gr. gildandi laga um húsafriðun.
Fram kemur í greininni að styrkir úr sjóðnum til einstaklinga mynda ekki stofn til tekjuskatts.
Loks er með ákvæði síðustu málsgreinarinnar staðfest heimild til að krefjast endurgreiðslu styrkja hafi verkefni ekki verið unnið í samræmi við verklýsingu eða verklok ekki verið með réttum hætti, sbr. ákvæði í 42. gr.
Um 44. gr.
Um 45. gr.
Kveðið verður á um lágmarksverðgildi þeirra menningarminja sem um ræðir í reglugerð og verður þar miðað við aðstæður á íslenskum markaði. Við þessa endurskoðun var tekið mið af hliðstæðum lögum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Um 46. gr.
Um leyfi til flutnings á náttúrugripum til annarra landa gilda ákvæði 4. mgr. 15. gr. laga nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Ákvæði 12. tölul. 1. mgr. 45. gr. frumvarpsins á við um söfn og safneintök sem hafa verið safngripir.
Minjastofnun Íslands er samkvæmt greininni einnig falið að koma í veg fyrir flutning þjóðarverðmæta eða menningarminja sem hafa að öðru leyti sérstakt gildi fyrir íslenska þjóðmenningu til annarra landa og láta fara fram nauðsynlegar rannsóknir og fá umsögn sérfróðra manna um hvert mál fyrir sig. Lagt er til að endanlegt samþykki eða bann við útflutningi þjóðarverðmæta sé í höndum ráðherra.
Um 47. gr.
Einnig er kveðið á um að heimilt sé að flytja minjar í eigu opinberra stofnana og viðurkenndra safna tímabundið til annarra landa. Undir þetta falla m.a. listmunir í eigu ríkisins sem eru í sendiráðum Íslands erlendis og menningarminjar í eigu safna sem fluttar eru utan tímabundið vegna sýninga, forvörslu eða rannsókna. Greinin tekur enn fremur til muna eða gripa sem fluttir eru tímabundið til útlanda af einstaklingi í tengslum við opinbera menningarviðburði, en þá er m.a. átt við gömul og verðmæt hljóðfæri sem íslenskir listamenn nota við tónleika eða upptökur erlendis. Kveðið er á um að slíkir munir skuli alla jafna fluttir aftur til landsins innan eins árs frá útflutningi. Síðan eru taldir munir eða gripir sem aðeins hafa verið fluttir tímabundið til Íslands með löglegum hætti. Að endingu eru taldar menningarminjar sem hafa verið fluttar til Íslands með ólögmætum hætti frá öðru ríki og krafa um skil borist íslenskum stjórnvöldum með tilvísun í lög um skil menningarverðmæta til annarra landa, en frumvarp til slíkra laga er lagt fram samhliða þessu frumvarpi.
Í greininni er að lokum kveðið á um að erlendar menningarminjar sé heimilt að flytja frá Íslandi án sérstaks útflutningsleyfis, hafi þær verið fluttar til landsins með lögmætum hætti fyrir 50 árum eða síðar. Til slíkra minja teljast m.a. sýningargripir vegna tímabundinna sýninga, forngripir, keyptir á Íslandi eða erlendis og fluttir löglega til landsins frá öðru landi, hlutar af búslóð einstaklinga, sem hafa flutt til landsins á síðustu 50 árum, og menningarminjar sem með arfleiðslu, búskiptum eða gjöf hafa á síðustu 50 árum komist í eigu einstaklinga sem búsettir eru á landinu og verið fluttir frá öðru landi með lögmætum hætti.
Um 48. gr.
Þá er einnig kveðið á um hlutverk tollyfirvalda. Útflytjandi skal framvísa formlegu leyfisbréfi og fá áritun og stimpil tollyfirvalda. Einnig er sú skylda lögð á herðar tollyfirvöldum að þau skuli án tafar tilkynna Minjastofnun Íslands um tilraunir til ólögmæts flutnings menningarverðmæta til annarra landa. Eins og fram kemur í 2. mgr. 46. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að Minjastofnun Íslands hafi samráð við viðeigandi stofnanir, t.d. höfuðsöfn, þegar hún fjallar um flutning menningarminja úr landi.
Um 49. gr.
Um 50. gr.
Ákvæði 2. mgr. fjallar um að íslensk stjórnvöld geti einungis sett fram kröfur um skil menningarminja frá öðrum aðildarríkjum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, hafi minjarnar verið fluttar ólöglega frá Íslandi til annars aðildarríkis frá og með 1. janúar 1995. Er hér miðað við innleiðingu framangreindrar tilskipunar í íslenska löggjöf.
Um 4. þátt.
Um 51. gr.
Um 52. gr.
Um 53. gr.
Um 54. gr.
Um 55. gr.
Um 56.–58. gr.
Um 59. gr.
Í samræmi við 16. gr. gildandi laga um húsafriðun er í f-lið 10. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga tekið fram að meðal bundinna útgjalda úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga skuli vera 150 kr. framlag á hvern íbúa sveitarfélags er renni í húsafriðunarsjóð. Í c-lið 59. gr. frumvarpsins er lögð til breyting þessu til samræmis.
Um ákvæði til bráðabirgða.
Þá er ráðherra veitt heimild til að hefja undirbúning gildistöku laganna þegar þau hafa verið samþykkt.
Fylgiskjal.
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
Umsögn um frumvarp til laga um menningarminjar.
Megintilgangur frumvarpsins er að stuðla að verndun menningarminja og auka skilvirkni minjavörslu í landinu með því að einfalda stjórnkerfi hennar, samræma stjórnsýslu, skýra betur hugtök, bæta verklag og skýra ábyrgð. Hér á eftir er fjallað um ákvæði sem helst gætu haft áhrif á útgjöld ríkisins.
Í fyrsta lagi er lagt til að stjórnsýsla minjavörslu verði sameinuð með því að setja á stofn nýja stjórnsýslustofnun, Minjastofnun Íslands, sem taki við verkefnum, réttindum, eignum og skuldbindingum Fornleifaverndar ríkisins og húsafriðunarnefndar frá 1. janúar 2013. Gera verður ráð fyrir að sameining þessara stofnana gefi færi á samnýtingu starfskrafta og hagræðingu í skrifstofuhaldi sem ætla má að lækki rekstrarkostnað, en hjá þeim tveimur stofnunum sem lagðar verða niður starfa um 12 manns. Í bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu er lagt til að stöður beggja núverandi forstöðumanna verði lagðar niður en á móti verði stofnuð staða forstöðumanns hinnar nýju stofnunar. Fækkun um einn forstöðumann mundi lækka árleg útgjöld um 8–9 m.kr. Hins vegar liggja fyrir áform hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu um að efla starfsemi nýju stofnunarinnar og gera hana betur í stakk búna til að takast á við þau verkefni sem henni eru ætluð í framtíðinni. Í þeim hugmyndum felst að ráðið verði í tvö ný störf og því ljóst að verði af þessum áformum mun rekstrarkostnaður stofnunarinnar hækka um 15 m.kr. á ári vegna þeirra. Annars vegar er um að ræða nýtt starf vegna verkefna sem forstöðumenn Fornleifaverndar ríkisins og húsafriðunarnefndar sinntu áður og hins vegar er um að ræða nýtt starf er fellst í friðun húsa og mannvirkja. Viðmiðunartími vegna friðunar er færður fram um 50–80 ár samkvæmt frumvarpinu og því má reikna með meira umfangi verkefna en áður á því sviði við að fylgja eftir kvöðum í nýju lögunum um eftirlit með viðgerðum bygginga og meðferð þeirra. Vegna sameiningarinnar gæti myndast biðlaunaréttur vegna fjögurra starfsmanna, samtals í allt að 42 mánuði. Ef þeir nýta sér allir biðlaunaréttinn að fullu leiðir það til um 22 m.kr. tímabundinna útgjalda. Að öðru leyti liggja ekki fyrir forsendur til að áætla fjárhæðir vegna sameiningar og reksturs hinnar nýju stofnunar þar sem ekki liggur fyrir rekstraráætlun um starfsemi hennar. Rekstrarútgjöld Fornleifaverndar ríkisins og húsafriðunarnefndar eru áætluð samtals 125,7 m.kr. í fjárlögum 2011 og er gert ráð fyrir að þessar fjárveitingar verði fluttar yfir á hina nýju stofnun.
Í öðru lagi er lagt til að verkefni verði flutt til, svo sem framkvæmd ákvæða um flutning menningarverðmæta til annarra landa sem safnaráð hefur séð um. Ekki liggur fyrir hvort flytja þurfi fjármagn milli fjárlagaliða vegna þessa.
Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér ítarlegri skilgreiningar á ýmsum hugtökum sem eru í gildandi lögum og segja þau nákvæmar fyrir um framkvæmd og áherslur en verið hefur. Talið er að þetta stuðli að árangursríkara starfi. Sumar breytingar, svo sem á kröfum um aðgengi almennings að upplýsingum, m.a. í miðlægum gagnagrunnum, gætu leitt til aukinnar vinnu og kostnaðar á meðan aðrar breytingar munu væntanlega hafa í för með sér einföldun í starfseminni og gefa kost á hagræðingu.
Í fjórða lagi er lagt til að Minjastofnun Íslands fái heimild til að taka gjald fyrir ýmsa þjónustu, þar á meðal ráðgjöf, námskeið og leyfisveitingar. Þar sem ekki liggur fyrir hvernig gjaldtökuheimild yrði beitt eru ekki forsendur til að áætla fjárhæðir sértekna sem af þessu kann að leiða.
Í fimmta lagi er lagt til að stofnaður verði annars vegar fornminjasjóður með víðtækara hlutverk en núverandi fornleifasjóður hefur samkvæmt gildandi lögum og hins vegar húsafriðunarsjóður sem mun hafa svipað hlutverk og sjóður með sama nafni hefur í núgildandi lögum. Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að hinn nýi fornminjasjóður taki við fjárheimildum á fjárlagalið 02-983-1.54 Ýmis fræðistörf, fornleifasjóður sem eru 17,2 m.kr. í fjárlögum 2011 og að húsafriðunarsjóður taki við heimildum af fjárlagalið 02-979-6.10 húsafriðunarsjóður. Á þeim lið er áætlað fyrir liðlega 148 m.kr. útgjöldum í fjárlögum 2011 og tæplega 100 m.kr. sértekjum en þar af eru 50 m.kr. mótframlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Með vísan til þess sem að framan er rakið telur fjármálaráðuneytið að lögfesting frumvarpsins gæti leitt til lækkunar útgjalda sem nemur um 8–9 m.kr. vegna sameiningar umræddra tveggja stofnana. Auk þess sem ákvæði um gjaldtökuheimildir ætti að leiða til aukinna tekna en ekki eru forsendur til að áætla þær fjárhæðir að svo stöddu. Þá gæti komið til tímabundinna útgjalda vegna biðlauna sem áætlað er að nemi að hámarki 22 m.kr. Samkvæmt ríkisreikningi 2010 námu samanlagðar afgangsheimildir beggja stofnananna um 7,2 m.kr. Allur gangur hefur verið á afkomu þeirra á undanförnum árum en miðað við að reksturinn verði í jafnvægi má gera ráð fyrir að afgangsheimildir í árslok 2012 verði fluttar yfir á hina nýju stofnun og standi undir einskiptis útgjöldum eins og biðlaunum sem kann að leiða af sameiningu. Að öðru leyti verður að gera ráð fyrir að uppbygging og umfang starfseminnar verði hagað þannig að hún rúmist innan fjárlagaramma mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Fjármálaráðuneytið telur að þegar á allt er litið hafi breytingarnar óveruleg áhrif á útgjöld ríkisins enda verði starfsemi skipulögð með hagkvæmni að leiðarljósi.