Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 341. máls.

Þingskjal 417  —  341. mál.Tillaga til þingsályktunar

um fullgildingu Evrópuráðssamnings um vernd barna gegn
kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun .

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd Evrópuráðssamning um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun sem gerður var í Lanzarote 25. október 2007.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á Evrópuráðssamningi um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun sem gerður var í Lanzarote 25. október 2007. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.
    Samningur sá er hér um ræðir var samþykktur af ráðherranefnd Evrópuráðsins í Strassborg 12. júlí 2007. Samningurinn var lagður fram til undirritunar í Lanzarote 25. október 2007 og var hann undirritaður af Íslands hálfu 4. febrúar 2008. Hann öðlaðist gildi 1. júlí 2010. Hinn 16. nóvember 2011 voru aðilar að samningnum 15 talsins en hann hefur verið undirritaður fyrir hönd 43 ríkja.
    Markmið samningsins eru sett fram í 1. gr. hans en þau eru að koma í veg fyrir og berjast gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum, að vernda réttindi barna sem eru þolendur kynferðislegrar misneytingar og kynferðislegrar misnotkunar og að efla samstarf í baráttunni gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum hjá hverri þjóð og á alþjóðavísu.
    Samningurinn er fyrsti alþjóðlegi gerningurinn þar sem kynferðisleg misnotkun barna í hinum ýmsu myndum er gerð refsiverð, þar með talið þegar slík misnotkun á sér stað inni á heimilum eða innan fjölskyldna, þar sem ofbeldi er beitt, nauðung eða hótunum. Hann tekur m.a. til barnavændis, barnakláms, þess þegar fullorðnir einstaklingar falast eftir börnum í kynferðislegum tilgangi, ferðaþjónustu sem beinist að kynferðislegri misnotkun barna og spillingu barna með því að valda því vísvitandi að börn verði vitni að kynferðislegu efni eða athöfnum. Með samningnum er auk þess komið á fót sérstöku eftirlitskerfi svo að unnt verði að tryggja skilvirka framkvæmd samningsaðila á ákvæðum hans.
    Í inngangsorðum samningsins kemur fram að kynferðisleg misneyting og kynferðisleg misnotkun á börnum hefur aukist uggvænlega, einkum að því er varðar aukna notkun bæði barna og brotamanna á upplýsinga- og fjarskiptatækni. Því sé alþjóðlegt samstarf nauðsynlegt til þess að koma í veg fyrir og berjast gegn slíkum brotum.
    Mikilvægur liður í hinni alþjóðlegu baráttu gegn kynferðisofbeldi á börnum er að gera tiltekna verknaði refsiverða í þeim ríkjum sem í hlut eiga. Slík samræmd ákvæði auðvelda baráttuna gegn kynferðisofbeldi í alþjóðlegu samhengi og geta t.d. komið í veg fyrir að þeir sem brjóta gegn börnum geti valið sér lönd þar sem tiltekin háttsemi telst ekki refsiverð. Jafnframt getur slík samræming stuðlað að auknu samstarfi milli ríkja og auðveldað þeim að skiptast á almennum upplýsingum, t.a.m. um tölfræði og rannsóknaraðferðir.
    Í I. kafla samningsins (1.–3. gr.) er kveðið á um markmið hans, meginregluna um bann við mismunun og skilgreiningar. Meginreglan um bann við mismunun er sett fram í 2. gr. samningsins og kveðið er á um að framkvæmd samningsaðila á ákvæðum hans, einkum um aðgerðir til þess að vernda réttindi brotaþola, skuli tryggð án mismununar. Í 3. gr. eru skilgreind hugtökin „barn“, „kynferðisleg misneyting og kynferðisleg misnotkun á börnum“ og „brotaþoli“.
    Í II. kafla (4.–9. gr.) er fjallað um fyrirbyggjandi ráðstafanir og í 4. gr. er sú meginregla sett fram að hver samningsaðili skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að koma í veg fyrir kynferðislega misneytingu og kynferðislega misnotkun á börnum í öllum myndum og til verndar börnum. Í 5. gr. er fjallað um ráðningu, þjálfun og vitundarvakningu fólks sem á samskipti við börn í starfi sínu og í 6. gr. um fræðslu fyrir börn um hættuna á kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun og áhættuaðstæður, einkum þær sem felast í notkun nýrrar upplýsinga- og fjarskiptatækni. Í 7. gr. er kveðið á um aðgang að skilvirkum forvarnaráætlunum eða ráðstöfunum fyrir einstaklinga sem óttast að þeir kunni að fremja brot samkvæmt samningnum, sem byggjast á því að meta áhættu og koma í veg fyrir hættu á að brot verði framin. Í 8. gr. er fjallað um fræðslu og herferðir til þess að efla skilning almennings á því í hverju kynferðisleg misneyting og kynferðisleg misnotkun á börnum er fólgin og um fyrirbyggjandi ráðstafanir sem unnt er að grípa til. Í 9. gr. er fjallað um þátttöku barna og aðila innan einkageirans, meðal annarra, í þróun og framkvæmd verkefna í baráttunni gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum. Þar er einnig fjallað um hvatningu til fjölmiðla til að veita upplýsingar um allar hliðar brota gegn börnum og að stuðla skuli að fjármögnun verkefna og áætlana til að koma í veg fyrir kynferðislega misneytingu og kynferðislega misnotkun á börnum og vernda börn gegn þess háttar ofbeldi.
    Í III. kafla (10. gr.) er mælt fyrir um sérhæfð yfirvöld og samræmingaraðila en þar er m.a. kveðið á um að koma skuli á fót eða tilnefna gagnaöflunarkerfi eða miðstöðvar í þeim tilgangi að fylgjast með og meta í hverju kynferðisleg misneyting og kynferðisleg misnotkun á börnum felst.
    Í IV. kafla (11.–14. gr.) er kveðið á um ráðstafanir til að vernda brotaþola og veita þeim aðstoð. Meginreglur kaflans má finna í 11. gr.. Þar er kveðið á um að sérhver samningsaðili skuli koma á skilvirkum félagslegum áætlunum og þverfaglegu skipulagi í því skyni að veita brotaþolum og aðstandendum nauðsynlega aðstoð. Enn fremur er kveðið á um að ráðstafanir skuli gerðar til þess, í tilvikum þegar aldur brotaþola er óljós og ástæða er til að ætla að hann sé barn, að tryggja honum sérstaka vernd og aðstoð ætlaða börnum á meðan verið er að ganga úr skugga um aldur hans. Í kaflanum er einnig að finna ákvæði sem varða tilkynningar um grunsemdir um kynferðislegt ofbeldi og upplýsingaþjónustu, t.a.m. hjálparlínur. Í 14. gr. er fjallað um aðstoð við brotaþola við að ná aftur heilsu líkamlega, andlega og félagslega og kveðið á um úrræði ef foreldrar eða aðrir umönnunaraðilar eiga þátt í kynferðislegri misneytingu eða misnotkun á barni. Úrræðin skuli m.a. felast í þeim kosti að víkja meintum brotamanni burt og koma brotaþola úr fjölskylduumhverfi hans. Einnig er sú skylda lögð á samningsaðila að sjá til þess að einstaklingar sem nánir eru brotaþola fái sálfræðiaðstoð.
    Ákvæði V. kafla (15.–17. gr.) fjalla um áætlanir eða ráðstafanir um afskipti af þeim sem saksóttir hafa verið og/eða sakfelldir fyrir einhver þeirra brota sem eru refsiverð samkvæmt samningnum. Meginreglur kaflans má finna í 15. gr. þar sem samningsaðilum er gert að ábyrgjast eða stuðla að skilvirkum áætlunum eða ráðstöfunum um afskipti með það í huga að koma í veg fyrir eða draga eins og kostur er úr hættu á ítrekuðum kynferðisbrotum gegn börnum. Unnt skal vera að grípa til þess konar áætlana eða ráðstafana hvenær sem er meðan á dómsmeðferð stendur, innan eða utan fangelsis. Einnig er lögð skylda á samningsaðila að stuðla að samvinnu milli lögbærra yfirvalda, einkum heilbrigðisþjónustu, félagsmálaþjónustu, dómstóla og annarra aðila, sem eru ábyrgir fyrir því að fylgjast með þeim einstaklingum sem um ræðir. Þá skulu samningsaðilar leggja mat á það hve hættulegir þeir einstaklingar eru og hugsanlega hættu á ítrekuðum brotum í því skyni að greina hvaða áætlanir eða ráðstafanir eru viðeigandi og kveða á um mat á skilvirkni þeirra áætlana og ráðstafana sem gerðar hafa verið. Skv. 16. gr. skal séð til þess að einstaklingar, sem eru saksóttir eða hafa verið sakfelldir fyrir brot sem eru refsiverð samkvæmt samningnum, geti nýtt sér þær áætlanir eða ráðstafanir sem lýst er í 15. gr. og kveðið er á um að hver samningsaðili skuli sjá til þess að gerðar séu áætlanir um afskipti eða að þær séu aðlagaðar að þroska þeirra barna sem gera sig sek um kynferðisbrot, þ.m.t. þau sem ekki hafa náð sakhæfisaldri, með það að markmiði að takast á við kynferðisleg hegðunarvandamál þeirra. Í 17. gr. er síðan fjallað um upplýsingaskyldu um fyrrnefndar áætlanir og ráðstafanir, m.a. um rétt þeirra einstaklinga sem lagt hefur verið til að falli undir slíkar áætlanir eða ráðstafanir til að neita að taka þátt og upplýsingar um hugsanlegar afleiðingar slíkrar neitunar.
    Í VI. kafla samningsins (18.–29. gr.) er að finna ákvæði er varða efnislegan refsirétt. Í 18. gr. er fjallað um kynferðislega misnotkun á börnum. Skv. a-lið 1. mgr. 18. gr. skal vera refsivert að taka þátt í kynlífsathöfnum með barni sem hefur ekki náð kynferðislegum lögaldri, en samningsaðilarnir ákvarða sjálfir kynferðislegan lögaldur í þessu sambandi, sbr. 2. mgr. Er a-lið 1. mgr. ekki ætlað að gilda um kynlífsathafnir milli ólögráða barna sem eiga sér stað með gagnkvæmu samþykki þeirra, sbr. 3. mgr. 18. gr. Skv. b-lið 1. mgr. 18. gr. samningsins skal það gert refsivert að taka þátt í kynlífsathöfnum með barni í tilvikum þar sem beitt er nauðung, ofbeldi eða hótunum eða misnotuð er viðurkennd staða sem byggist á trausti barnsins eða valdi eða áhrifum yfir því, þ.m.t. innan fjölskyldunnar, eða misnotaðar eru aðstæður þar sem barnið er sérstaklega varnarlaust, einkum vegna geðrænnar eða líkamlegrar fötlunar eða vegna þess hve það er öðrum háð.
    Í 19. gr. er fjallað um brot sem varða vændi barna. Skv. a-lið 1. mgr. 19. gr. skal vera refsivert að ráða barn til að stunda vændi eða verða valdur að því að barn taki þátt í vændi. Í b-lið 1. mgr. er kveðið á um refsinæmi þess að þvinga barn í vændi, að hagnast á slíku eða misnota með öðrum hætti barn í slíkum tilgangi. Loks er í c-lið 1. mgr. kveðið á um refsinæmi þess að kaupa vændi af barni. Skilgreiningu á hugtakinu barnavændi er að finna í 2. mgr. 19. gr. en í því felst það að nota barn til kynlífsathafna gegn peningagreiðslu, þóknun eða endurgjaldi í einhverri annarri mynd, sem innt er af hendi eða lofað, án tillits til þess hvort greiðslan, loforðið eða endurgjaldið er afhent barninu eða þriðja aðila.
    Í 20. gr. er fjallað um brot sem varða barnaklám. Skv. 2. mgr. merkir hugtakið „barnaklám“ hvert það efni sem sýnir barn í raunverulegum athöfnum eða hermiathöfnum, sem greinilega eru kynferðislegar, eða hvers konar myndræna framsetningu á kynfærum barns sem hefur fyrst og fremst kynferðislegan tilgang. Skv. a-lið 1. mgr. 20. gr. skal það vera refsivert að framleiða barnaklám, í b-lið 1. mgr. er kveðið á um refsinæmi þess að bjóða eða útvega barnaklám og í c-lið 1. mgr. er kveðið á um refsinæmi þess að annast dreifingu og útsendingu á barnaklámi. Þá er í d- og e-lið 1. mgr. mælt fyrir um refsinæmi þess að útvega sér eða öðrum barnaklám sem og að hafa slíkt efni í sinni vörslu. Skv. 3. mgr. 20. gr. geta samningsaðilarnir áskilið sér rétt til að beita ekki ákvæðum a- til e-liðar 1. mgr., að hluta eða í heild í tveimur nánar skilgreindum tilvikum. Annars vegar þegar um er að ræða framleiðslu eða vörslu klámefnis sem er einvörðungu myndræn hermiframsetning eða myndir sem virðast raunverulegar af barni sem er ekki raunverulegt og hins vegar þegar um er að ræða framleiðslu eða vörslu klámefnis þar sem myndefnið er börn sem náð hafa kynferðislegum lögaldri og hafa sjálf, af fúsum og frjálsum vilja, framleitt myndirnar og varðveitt þær, enda séu þær einvörðungu ætlaðar til þeirra eigin nota. Skv. f-lið 1. mgr. 20. gr. skal það vera refsivert að afla sér vitandi vits aðgangs að barnaklámi með tilstyrk upplýsinga- og fjarskiptatækni, en samningsaðilunum er þó heimilt, sbr. 4. mgr. 20. gr., að áskilja sér rétt til þess að beita ekki ákvæðinu að hluta eða í heild.
    Í 21. gr. er fjallað um brot sem varða þátttöku barns í klámsýningum. Í a-lið 1. mgr. er kveðið á um refsinæmi þess að ráða barn til að taka þátt í klámsýningu eða verða valdur að því að barn taki þátt í þess háttar sýningu. Skv. b-lið 1. mgr. skal það vera refsivert að þvinga barn til að taka þátt í klámsýningum eða hagnast á eða misnota það með öðrum hætti í slíkum tilgangi. Loks er í c-lið kveðið á um refsinæmi þess að sækja vitandi vits klámsýningar sem börn taka þátt í en heimilt er að gera fyrirvara við beitingu ákvæðisins þannig að því verði aðeins beitt í tilvikum þar sem barn hefur verið ráðið eða þvingað til þess að taka þátt í sýningunni, sbr. 2. mgr. 21. gr.
    Í 22. gr. er mælt fyrir um skyldu samningsaðilanna til að lýsa það refsivert að valda því vísvitandi, í kynferðislegum tilgangi, að barn, sem er undir kynferðislegum lögaldri, verði vitni að kynferðislegri misnotkun eða hvers konar kynlífsathöfnum, jafnvel án þátttöku þess.
    Í 23. gr. er fjallað um þau tilvik þar sem fullorðnir einstaklingar falast eftir börnum í kynferðislegum tilgangi. Er kveðið á um að samningsaðilarnir skuli gera refsivert vísvitandi tilboð fullorðins manns, með tilstyrk upplýsinga- og fjarskiptatækni, um að hitta barn, sem ekki hefur náð kynferðislegum lögaldri, í þeim tilgangi að barnið taki þátt í einhvers konar kynlífsathöfnum eða til þess að framleiða barnaklám, enda hafi tilboðinu verið fylgt eftir með eiginlegum athöfnum sem leiða til fundar hins fullorðna og barnsins.
    Í 1. mgr. 24. gr. er kveðið á um þá skyldu samningsaðila að gera refsiverða aðstoð við eða hvatningu til verknaða sem refsiverðir skulu taldir samkvæmt samningnum, sem og tilraun til þess að fremja slíka verknaði ef um ásetning er að ræða. Þó er í 3. mgr. 24. gr. kveðið á um heimild samningsaðilanna til þess að gera fyrirvara við það að gera tilraun refsiverða þegar um er að ræða verknaði sem lýstir eru refsiverðir í b-, d-, e- og f-lið 1. mgr. 20. gr., c-lið 1. mgr. 21. gr., 22. gr. og 23. gr.
    Í 25. gr. er að finna lögsöguákvæði samningsins en þar er kveðið á um að samningsaðilarnir skuli fella undir lögsögu sína þá verknaði sem refsiverðir skulu vera samkvæmt samningnum þegar brot er framið á yfirráðasvæði hans, um borð í skipi sem siglir undir fána hans, um borð í loftfari sem skráð er samkvæmt lögum hans, af ríkisborgara hans eða af einstaklingi sem hefur fasta búsetu á yfirráðasvæði hans. Hver samningsaðili skal einnig gera sitt ítrasta til að fella undir lögsögu sína brot sem er framið gegn ríkisborgara hans eða einstaklingi sem hefur fasta búsetu á yfirráðasvæði hans. Í 4. mgr. 25. gr. er tekið fram að hver samningsaðili skuli tryggja að lögsaga hans víki ekki fyrir því skilyrði að verknaður sé refsiverður á þeim stað þar sem hann er framinn hvað varðar saksókn vegna tiltekinna brota. Um er að ræða mikilvæg tæki í baráttunni gegn ferðaþjónustu sem beinist að kynferðislegri misnotkun barna því að samningurinn kveður á um að saksækja megi einstaklinga fyrir sum brot jafnvel þótt þau séu framin erlendis þar sem slík brot eru ekki refsiverð. Í 25. gr. er að finna heimildir til þess að gera fyrirvara við einstakar reglur um lögsögu.
    Í 1. mgr. 26. gr. er kveðið á um ábyrgð lögaðila á þeim verknuðum sem skulu vera refsiverðir samkvæmt samningnum hafi sá sem brotið framdi gert það í þágu lögaðilans, annaðhvort einn eða með öðrum starfsmönnum. Skv. 2. mgr. skal vera unnt að lýsa ábyrgð á hendur lögaðila hafi skortur á eftirliti eða stjórnun af hálfu einstaklings, sem um getur í 1. mgr., gert einstaklingi, sem starfar í umboði hans, kleift að fremja brot, sem eru refsiverð samkvæmt samningnum, lögaðilanum til hagsbóta. Ábyrgð lögaðilans hefur engin áhrif á refsiábyrgð þeirra einstaklinga sem hafa framið brotið, sbr. 4. mgr. 26. gr.
    Í 27. gr. er fjallað um viðurlög við brotum. Ákvæðið leggur þá skyldu á samningsaðilana að tryggja að viðurlög við verknuðum, sem gera á refsiverða samkvæmt samningnum, hafi áhrif, séu hæfileg og letjandi og gildir það jafnt um refsiábyrgð einstaklinga og lögaðila. Í a-lið 3. mgr. er kveðið á um að upptaka og haldlagning skuli vera á meðal úrræða og í b-lið 3. mgr. er kveðið á um skyldu samningsaðila til þess annaðhvort að greiða fyrir tímabundinni eða endanlegri lokun allra fyrirtækja sem notuð voru til að fremja verknað sem skal vera refsiverður samkvæmt samningnum, með fyrirvara um réttindi grandalausra þriðju aðila, eða að greiða fyrir því að brotamaður verði látinn hætta tímabundið eða endanlega þeirri atvinnustarfsemi eða sjálfboðavinnu sem felur í sér umgengni við börn og stunduð var þegar verknaðurinn var framinn. Ákvæði 27. gr. gerir jafnframt ráð fyrir því að samningsaðilarnir geti gert aðrar ráðstafanir í tengslum við brotamenn, svo sem að svipta þá þeim rétti sem foreldrum er tryggður eða að vakta eða hafa eftirlit með dæmdum einstaklingum, sbr. 4. mgr. 27. gr. Í 5. mgr. er kveðið á um heimild samningsaðila til að koma á því fyrirkomulagi að afrakstur af broti eða eign, sem gerð er upptæk skv. 27. gr., megi leggja í sérstakan sjóð til að fjármagna fyrirbyggjandi áætlanir og aðstoð við brotaþola.
    Í 28. gr. er fjallað um þau atriði sem samningsaðilarnir skulu tryggja að unnt sé að taka til greina til þyngingar refsingu. Skv. 29. gr. skal vera unnt, þegar ákvörðun um viðurlög er tekin, að taka tillit til dóma sem fallið hafa í öðrum samningsríkjum í tengslum við brot sem eru refsiverð samkvæmt samningnum.
    Þá er í VII. kafla samningsins (30.–36. gr.) fjallað um rannsókn, saksókn og réttarfarsreglur. Meginreglur kaflans eru settar fram í 30. gr. Hagsmunir barnsins skulu vera í fyrirrúmi, brotaþolum veitt vernd og aðstoð og skal málsmeðferð hafa forgang og vera án óréttmætra tafa. Gerð er krafa um að tryggja skilvirka rannsókn og saksókn vegna brota, sem eru refsiverð samkvæmt samningnum, og heimila leynilegar aðgerðir ef við á. Þá á rannsóknarstofnunum að vera kleift að bera kennsl á þolendur brota með greiningu efnis sem hefur að geyma barnaklám.
    Í 31. gr. er fjallað um ýmsar almennar verndarráðstafanir sem ætlað er að vernda réttindi og hagsmuni brotaþola, þar á meðal að tryggja friðhelgi einkalífs þeirra og öryggi.
    Samkvæmt 32. gr. skal tryggt að rannsókn á brotum eða saksókn sé óháð skýrslu eða sakargiftum brotaþola og að dómsmeðferð geti haldið áfram þótt brotaþoli hafi dregið yfirlýsingar sínar til baka.
    Í 33. gr. er fjallað um fyrningu brota. Samkvæmt ákvæðinu ber að tryggja að fyrningarfrestur til málshöfðunar vegna verknaða, sem getið er um í 18. gr., a- og b-lið 1. mgr. 19. gr. og a- og b-lið 1. mgr. 21. gr., framlengist um þann tíma sem er nauðsynlegur til þess að unnt sé að hefja málsmeðferð með árangursríkum hætti eftir að brotaþoli hefur náð lögaldri og að þessi frestur samsvari alvarleika þess brots er um ræðir.
    Í 34. gr. er fjallað um rannsóknir, m.a. sérhæfingu þeirra sem sjá um rannsóknir til að berjast gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum. Í 35. gr. er kveðið á um hvernig staðið skuli að viðtölum við börn. Í 36. gr. er kveðið á um meðferð máls fyrir dómi þar sem m.a. er fjallað um fræðslu starfsstétta sem eiga hlut að dómsmálum sem varða brot samkvæmt samningnum, lokuð réttarhöld og vitnisburð þolenda með hjálp fjarskiptatækni.
    Í VIII. kafla samningsins (37. gr.) er að finna ákvæði sem varða skráningu og geymslu gagna um dæmda kynferðisbrotamenn og í IX. kafla (38. gr.) er fjallað um alþjóðlega samvinnu. Í X. kafla (39.–41. gr.) er kveðið á um eftirlitskerfi, þ.e. nefnd samningsaðilanna sem ætlað er að fylgjast með framkvæmd samningsins, og XI. kafli (42.–43. gr.) fjallar um tengsl samningsins við aðra alþjóðlega gerninga. Í XII. kafla (44. gr.) er mælt fyrir um hvernig staðið skuli að breytingum á samningnum og í XIII. kafla (45.–50. gr.) er að finna lokaákvæði hans.
    Samhliða þingsályktunartillögu þessari leggur innanríkisráðherra fram frumvarp um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, einkum XXII. kafla laganna um kynferðisbrot, sem og ákvæðum barnaverndarlaga, nr. 80/2002, til þess að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem samningurinn leggur samningsaðilum á herðar. Helstu efnisatriði frumvarpsins eru þau að fyrningarfrestur brota sem lúta að vændi barna, þátttöku barna í nektarsýningum og mansali á börnum hefjist ekki fyrr en við 18 ára aldur þess sem í hlut á. Refsivert verði að mæla sér mót við barn með samskiptum á alnetinu eða með annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni í því skyni að hafa við það samræði, önnur kynferðismök eða áreita barnið kynferðislega með öðrum hætti. Bætt verði við hegningarlögin sérstöku ákvæði um barnaklám, þar sem m.a. svonefnd „barngering“ verði gerð refsiverð, þ.e. þegar einstaklingar, sem náð hafa 18 ára aldri en eru í hlutverki barns, eru sýndir á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Breyting verði gerð á 5. gr. laganna til að tryggja að hægt verði að lögsækja hér á landi íslenskan ríkisborgara eða einstakling sem er búsettur á Íslandi fyrir brot sem greinir í 4. mgr. 25. gr. samningsins og framið er erlendis þrátt fyrir að verknaðurinn sé ekki refsiverður samkvæmt lögum þess ríkis. Tilvísun til samningsins verði bætt við 6. gr. laganna um rýmkaða refsilögsögu þannig að refsa skal eftir íslenskum hegningarlögum fyrir háttsemi sem greinir í samningnum enda þótt brotið sé framið utan íslenska ríkisins og án tillits til þess hver er að því valdur. Ákvæði síðari málsliðar 3. mgr. 93. gr. og 4. mgr. 97. gr. barnaverndarlaga falli brott og í stað þeirra komi sérstakt refsiákvæði í almenn hegningarlög varðandi þátttöku barna í nektarsýningum eða öðrum sýningum af kynferðislegum toga.
Fylgiskjal.


Evrópuráðssamningur um vernd barna
gegn kynferðislegri misneytingu og
kynferðislegri misnotkun


Formálsorð.


Aðildarríki Evrópuráðsins og aðrir undirritunaraðilar að samningi þessum,

sem líta til þess að markmið Evrópuráðsins sé að efla einingu meðal aðildarríkja þess,

sem líta til þess að sérhvert barn eigi rétt á þeirri vernd fjölskyldu sinnar, samfélags og ríkis sem það þarfnast vegna stöðu sinnar sem ólögráða barn,


benda á að kynferðisleg misneyting á börnum, einkum barnaklám og barnavændi, og kynferðisleg misnotkun á börnum í öllum myndum, þ.m.t. brot, sem eru framin erlendis, séu skaðleg heilsu barna og sálrænum og félagslegum þroska þeirra,

benda á að kynferðisleg misneyting og kynferðisleg misnotkun á börnum hafi aukist uggvænlega, bæði innan hvers lands og á alþjóðavísu, einkum að því er varðar aukna notkun, bæði barna og brotamanna, á upplýsinga- og fjarskiptatækni og að til að koma í veg fyrir og berjast gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum er þörf á alþjóðlegri samvinnu,


líta til þess að velferð og hagsmunir barna eru grundvallargildi, sem eru sameiginleg öllum aðildarríkjunum, og að þau verði að efla án nokkurrar mismununar,

minna á aðgerðaáætlun, sem þjóðhöfðingjar og ríkisstjórnarleiðtogar aðildarríkja Evrópuráðsins samþykktu í tilefni af þriðja fundi sínum (í Varsjá, 16.–17. maí 2005), þar sem þess er krafist að mótaðar verði ráðstafanir til að stöðva kynferðislega misneytingu á börnum,

minna sérstaklega á tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. R (91) 11 um kynferðislega misneytingu á bornum, barnaklám og barnavændi, ásamt mansali barna og ungmenna, tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. Rec (2001) 16 um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og samninginn um tölvubrot (ETS nr. 185), einkum 9. gr. hans, svo og á Evrópuráðssamning um aðgerðir gegn mansali (CETS nr. 197),


hafa í huga sáttmálann um verndun mannréttinda og mannfrelsis (1950, ETS nr. 5), endurskoðaðan félagsmálasáttmála Evrópu (1996, ETS nr. 163) og Evrópusamninginn um réttindi barna (1996, ETS nr. 160),


hafa enn fremur í huga samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, einkum 34. gr. hans, valkvæða bókun við hann um mansal á börnum, barnavændi og barnaklám, bókun um að koma í veg fyrir, stöðva og refsa fyrir mansal, einkum á konum og börnum, samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi sem og samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um bann við barnavinnu í sinni verstu mynd og tafarlausar aðgerðir til að afnema hana,hafa í huga rammaákvörðun ráðs Evrópusambandsins um baráttu gegn kynferðislegri misneytingu á börnum og barnaklámi (2004/68/DIM), rammaákvörðun ráðs Evrópusambandsins um stöðu brotaþola við meðferð sakamála (2001/220/DIM) og rammaákvörðun ráðs Evrópusambandsins um baráttu gegn mansali (2002/629/DIM),sem taka tilhlýðilegt tillit til annarra alþjóðlegra gerninga og áætlana, sem skipta máli á þessu sviði, einkum Stokkhólmsyfirlýsingarinnar og -aðgerðaáætlunarinnar, sem voru samþykktar á fyrsta heimsþinginu gegn kynferðislegri misneytingu á börnum í ábataskyni (27.–31. ágúst 1996), alþjóðlegrar skuldbindingar Yokohama-ráðstefnunnar, sem samþykkt var á öðru heimsþinginu gegn kynferðislegri misneytingu á börnum í ábataskyni (20.–21. nóvember 2001), ályktunar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna S-27/2, „Heimur fyrir börn“ (A world fit for children) og þriggja ára átaksverkefnisins,,Evrópa fyrir og með börnum“ (Building a Europe for and with children), sem samþykkt var eftir þriðja leiðtogafundinn og hleypt af stokkunum á ráðstefnunni í Mónakó (4.–5. apríl 2006),sem einsetja sér að leggja sitt af mörkum til að ná því sameiginlega markmiði að vernda börn gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun, hver sem brotamaðurinn kann að vera, og veita brotaþolum aðstoð,

sem taka tillit til þess að nauðsynlegt er að undirbúa alþjóðlegan heildarlöggerning þar sem lögð er áhersla á fyrirbyggjandi atriði, verndun og refsiréttarlega þætti baráttunnar gegn hvers konar kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum og að koma á sérstöku eftirlitskerfi,

hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

I. kafli – Markmið, meginregla um bann við mismunun og skilgreiningar.

1. gr. – Markmið.


1. Markmiðin með samningi þessum eru:

a)    að koma í veg fyrir og berjast gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum,
b)    að vernda réttindi barna sem eru þolendur kynferðislegrar misneytingar og kynferðislegrar misnotkunar,
c)    að efla samstarf um baráttuna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum hjá hverri þjóð og á alþjóðavísu.

2. Með samningi þessum er komið á fót sérstöku eftirlitskerfi til þess að unnt verði að tryggja skilvirka framkvæmd samningsaðila á ákvæðum hans.


2. gr. – Meginregla um bann við mismunun.


Framkvæmd samningsaðila á ákvæðum samnings þessa, einkum um aðgerðir til að vernda réttindi brotaþola, skal tryggð án mismununar, s.s. á grundvelli kynferðis, kynþáttar, litarháttar, tungumáls, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, tengsla við minnihlutahóp, eigna, uppruna, kynhneigðar, heilsufars, fötlunar eða annarrar stöðu.


3. gr. – Skilgreiningar.


Í samningi þessum hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
a)    „barn“ merkir sérhvern einstakling undir átján ára aldri,

b)    „kynferðisleg misneyting og kynferðisleg misnotkun á börnum“ skal taka til þess atferlis sem um getur í 18. til 23. gr. samnings þessa,
c)    „brotaþoli“ merkir: hvert það barn sem sætir kynferðislegri misneytingu eða kynferðislegri misnotkun.

II. kafli – Fyrirbyggjandi ráðstafanir.


4. gr. – Meginreglur.


Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að koma í veg fyrir kynferðislega misneytingu og kynferðislega misnotkun á börnum í öllum myndum og til verndar börnum.

5. gr. – Ráðning, þjálfun og vitundarvakning fólks sem á samskipti við börn í starfi sínu.


1. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að vekja til vitundar um vernd og réttindi barna þá einstaklinga sem eiga reglulega samskipti við börn í tengslum við menntun, heilbrigðismál, félagslega vernd, réttar- og löggæslu og á sviðum sem tengjast íþrótta-, menningar- og frístundastarfi.

2. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að þeir einstaklingar sem um getur í 1. mgr. hafi fullnægjandi þekkingu á kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum, á aðferðum til að greina slíkt og á því ráðrúmi sem um getur í 1. mgr. 12. gr.

3. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, í samræmi við eigin landslög til að tryggja að skilyrðin fyrir aðild að starfsgreinum, sem fela í sér regluleg samskipti við börn, tryggi að þeir sem sækja um að starfa í þeim greinum hafi ekki verið dæmdir fyrir kynferðislega misneytingu eða kynferðislega misnotkun á börnum.

6. gr. – Fræðsla fyrir börn.


Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að börn fái upplýsingar í grunn- og framhaldsskóla, sem miðast við þroska þeirra, um hættu á kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun og jafnframt um hvernig þau eigi að verja sig. Þessar upplýsingar, sem eru veittar í samstarfi við foreldra eftir því sem við á, skulu veittar á vettvangi almennrar kynfræðslu og skal lögð sérstök áhersla á áhættuaðstæður, einkum þær sem felast í notkun nýrrar upplýsinga- og fjarskiptatækni.

7. gr. – Forvarnaráætlanir eða -ráðstafanir.Hver samningsaðili skal sjá til þess að einstaklingar, sem óttast að þeir kunni að fremja eitthvert þeirra brota, sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum, hafi aðgang, eftir því sem við á, að skilvirkum, forvarnaráætlunum eða -ráðstöfunum sem byggjast á því að meta áhættu og að koma í veg fyrir hættu á að brot verði framin.

8. gr. – Ráðstafanir vegna almennings.


1. Hver samningsaðili skal stuðla að því, eða gangast fyrir herferð til, að efla skilning fólks með því að miðla upplýsingum um í hverju kynferðisleg misneyting og kynferðisleg misnotkun á börnum felst og um fyrirbyggjandi ráðstafanir sem unnt er að grípa til.

2. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að koma í veg fyrir eða banna dreifingu efnis þar sem brot, sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum, eru gerð heyrinkunn.

9. gr. – Þátttaka barna, einkageirans, fjölmiðla og borgaralegs samfélags.


1. Hver samningsaðili skal hvetja til þátttöku barna, í samræmi við þroskastig þeirra, í þróun og framkvæmd stefnumiða ríkja, áætlana eða annarra framtaksverkefna í baráttunni gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum.


2. Hver samningsaðili skal hvetja aðila innan einkageirans, einkum á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni, ferðaþjónustu og ferðamannaiðnaðar og banka- og fjármálaþjónustu, svo og borgaralegt samfélag í heild, til að taka þátt í útfærslu og framkvæmd stefnumiða til að koma í veg fyrir kynferðislega misneytingu og kynferðislega misnotkun á börnum og til að framfylgja innri viðmiðunum með eigin reglusetningu eða reglusetningu með öðrum.

3. Hver samningsaðili skal hvetja fjölmiðla til að veita viðeigandi upplýsingar um allar hliðar kynferðislegrar misneytingar og kynferðislegrar misnotkunar á börnum, án þess þó að það hafi áhrif á tilhlýðilegt sjálfstæði fjölmiðla og prentfrelsi.

4. Hver samningsaðili skal stuðla að fjármögnun verkefna og áætlana á vegum hins borgaralega samfélags, þ.m.t. með því að stofna sjóði, ef við á, sem miða að því að koma í veg fyrir kynferðislega misneytingu og kynferðislega misnotkun á börnum og vernda börn gegn þess háttar ofbeldi.

III. kafli – Sérhæfð yfirvöld og samræmingaraðilar.


10. gr. – Ráðstafanir vegna samræmingar og samstarfs á landsvísu.


1. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja samræmingu á landsvísu eða á tilteknum stöðum milli ólíkra stofnana, sem bera ábyrgð á vörnum á því að koma í veg fyrir og baráttu gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum, einkum stofnana á sviði fræðslu- og heilbrigðismála, félagsmálaþjónustu og löggæslu- og dómsmála.

2. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að koma á fót eða tilnefna:
a) sjálfstæðar, lögbærar stofnanir á landsvísu eða á tilteknum stöðum til eflingar og verndar réttindum barna og sjá til þess að þær hafi yfir að ráða tilteknum úrræðum og beri ákveðna ábyrgð,

b) gagnaöflunarkerfi eða miðstöðvar, á landsvísu eða á tilteknum stöðum og í samstarfi við borgaralegt samfélag, í þeim tilgangi að fylgjast með og meta í hverju kynferðisleg misneyting og kynferðisleg misnotkun á börnum felst, án þess þó að það hafi áhrif á tilhlýðilega vernd persónuupplýsinga.


3. Hver samningsaðili skal hvetja til samstarfs milli lögbærra landsyfirvalda, hins borgaralega samfélags og einkageirans í því skyni að koma betur í veg fyrir og berjast harðar gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum.

IV. kafli – Ráðstafanir til að vernda brotaþola og veita þeim aðstoð.


11. gr. – Meginreglur.


1. Hver samningsaðili skal koma á skilvirkum, félagslegum áætlunum og þverfaglegu skipulagi í því skyni að veita brotaþolum, nánum ættingjum þeirra og hverjum þeim sem ber ábyrgð á umönnun þeirra nauðsynlega aðstoð.

2. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að fást við tilvik þegar aldur brotaþola er óljós og ástæða er til að ætla að hann sé barn, til að tryggja að hann njóti sérstakrar verndar og aðstoðar ætlaðar börnum meðan verið er að ganga úr skugga um aldur hans.

12. gr. – Tilkynningar um grunsemdir
um kynferðislega misneytingu eða kynferðislega misnotkun.


1. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að reglur um þagnarskyldu samkvæmt ákvæðum landslaga, sem tilteknu fagfólki, sem vegna vinnu sinnar á samskipti við börn, ber að fara eftir, komi ekki í veg fyrir að fyrrnefndu fagfólki gefist ráðrúm til að skýra þjónustustofnunum, sem bera ábyrgð á barnavernd, frá hvers konar aðstæðum sem gefa því gilda ástæðu til að ætla að barn sé þolandi kynferðislegrar misneytingar eða kynferðislegrar misnotkunar.

2. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að hvetja alla aðila, sem hafa vitneskju um eða grunar, í góðri trú, að kynferðisleg misneyting eða kynferðisleg misnotkun á börnum eigi sér stað, til að skýra lögbærri þjónustustofnun frá því.

13. gr. – Hjálparlínur.


Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að hvetja til þess og styðja að komið verði á fót upplýsingaþjónustu, s.s. hjálparlínum, símleiðis eða á Netinu, í því skyni að veita innhringjendum ráðgjöf, jafnvel í trúnaði eða með tilhlýðilegu tilliti til nafnleyndar þeirra.

14. gr. – Aðstoð við brotaþola.


1. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að aðstoða brotaþola, til skamms eða langs tíma litið, við að ná aftur heilsu í líkamlegu, sálrænu og félagslegu tilliti. Með ráðstöfunum, sem gerðar eru samkvæmt þessari málsgrein, skal tekið tilhlýðilegt tillit til viðhorfa, þarfa og áhyggjuefna barnsins.

2. Hver samningsaðili skal gera ráðstafanir, samkvæmt skilyrðum sem kveðið er á um í landslögum hans, er lúta að samstarfi við frjáls félagasamtök, önnur hlutaðeigandi samtök eða aðrar undirstöðustofnanir borgaralegs samfélags sem veita brotaþolum aðstoð.

3. Ef foreldrar eða aðrir, sem annast barnið, eiga þátt í kynferðislegri misneytingu eða kynferðislegri misnotkun á því skulu afskipti skv. 1. mgr. 11. gr. meðal annars felast í þeim kosti:

–    að koma meintum brotamanni burt,

–    að koma brotaþola burt úr fjölskylduumhverfi hans. Ákvarða skal skilyrði og lengd slíks burtflutnings í samræmi við það sem þjónar hagsmunum barnsins best.

4. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að sjá til þess að einstaklingar, sem nánir eru brotaþola, fái, eftir því sem við á, aðstoð í formi meðferðar, einkum neyðaraðstoð sálfræðings.

V. kafli – Áætlanir eða ráðstafanir um afskipti.


15. gr. – Almennar meginreglur.1. Hver samningsaðili skal, í samræmi við landslög sín, ábyrgjast eða stuðla að skilvirkum áætlunum eða ráðstöfunum um afskipti af þeim einstaklingum, sem um getur í 1. og 2. mgr. 16. gr., með það í huga að koma í veg fyrir eða draga, eins og kostur er, úr hættu á ítrekuðum kynferðisbrotum gegn börnum. Unnt skal vera að grípa til þess háttar áætlana eða ráðstafana hvenær sem er meðan á dómsmeðferð stendur, innan eða utan fangelsis, í samræmi við þau skilyrði sem mælt er fyrir um í landslögum.

2. Hver samningsaðili skal, í samræmi við landslög sín, ábyrgjast eða stuðla að því að fram fari samvinna eða hvers konar samstarf milli lögbærra yfirvalda, einkum milli heilbrigðisþjónustu og félagsmálaþjónustu og dómsmálayfirvalda og annarra aðila sem eru ábyrgir fyrir því að fylgjast með einstaklingunum sem um getur í 1. og 2. mgr. 16. gr.

3. Hver samningsaðili skal, í samræmi við landslög sín, leggja mat á það hve hættulegir þeir einstaklingar eru sem um getur í 1. og 2. mgr. 16. gr. og hugsanlega hættu á ítrekuðum brotum, sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum, í því skyni að greina hvaða áætlanir eða ráðstafanir eiga við.


4. Hver samningsaðili skal, í samræmi við landslög sín, kveða á um mat á skilvirkni þeirra áætlana og ráðstafana sem framkvæmdar og gerðar hafa verið.


16. gr. – Andlög áætlana eða ráðstafana um afskipti.


1. Hver samningsaðili skal, í samræmi við landslög sín, sjá til þess að einstaklingar, sem eru saksóttir fyrir einhver þeirra brota sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum, geti nýtt sér áætlanir eða ráðstafanir, sem um getur í 1. mgr. 15. gr., samkvæmt skilyrðum sem hvorki eru skaðleg né stríða gegn rétti til að halda uppi vörnum eða gegn kröfum um réttláta og óhlutdræga dómsmeðferð, einkum með tilliti til meginreglunnar um sakleysi uns sekt er sönnuð.


2. Hver samningsaðili skal, í samræmi við landslög sín, sjá til þess að einstaklingar, sem sakfelldir hafa verið fyrir einhver þau brot sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum, geti nýtt sér áætlanir eða ráðstafanir sem um getur í 1. mgr. 15. gr.

3. Hver samningsaðili skal, í samræmi við landslög sín, sjá til þess að gerðar séu áætlanir eða ráðstafanir um afskipti eða að þær séu aðlagaðar að þroska þeirra barna sem gera sig sek um kynferðisbrot, þ.m.t. þau sem ekki hafa náð tilskildum sakhæfisaldri, með það að markmiði að takast á við kynferðisleg hegðunarvandamál þeirra.

17. gr. – Upplýsingar og samþykki.


1. Hver samningsaðili skal, í samræmi við landslög sín, sjá til þess að þeir einstaklingar, sem um getur í 16. gr. og lagt hefur verið til að verði andlög áætlana eða ráðstafana um afskipti, séu vel upplýstir um ástæður þess konar tillögu og samþykki áætlanirnar eða ráðstafanirnar með fullri vitneskju um staðreyndir málsins.

2. Hver samningsaðili skal, í samræmi við landslög sín, sjá til þess að þeir einstaklingar sem lagt hefur verið til að verði andlög áætlana eða ráðstafana um afskipti geti neitað að taka þátt í þeim og þegar um ræðir einstaklinga sem hafa verið sakfelldir, að þeir verði upplýstir um hugsanlegar afleiðingar sem neitun gæti haft í för með sér.

IV. kafli – Efnislegur refsiréttur.


18. gr. – Kynferðisleg misnotkun.


1. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að eftirtaldir verknaðir, unnir af ásetningi, séu lýstir refsiverðir:
a)    að taka þátt í kynlífsathöfnum með barni sem, samkvæmt viðeigandi ákvæðum landslaga, hefur ekki náð löglegum aldri til kynlífsathafna,

b)    að taka þátt í kynlífsathöfnum með barni ef:
–    beitt er nauðung, ofbeldi eða hótunum eða
–    misnotuð er viðurkennd staða sem byggist á trausti barnsins eða valdi eða áhrifum yfir því, þ.m.t. innan fjölskyldunnar, eða
–    misnotaðar eru aðstæður þar sem barnið er sérstaklega varnarlaust, einkum vegna geðrænnar eða líkamlegrar fötlunar eða vegna þess hve það er öðrum háð.

2. Að því er varðar 1. mgr. hér að framan skal hver samningsaðili ákvarða hver skuli vera lágmarksaldur sem bann við kynlífsathöfnum með börnum miðast við.

3. Ákvæðum a-liðs 1. mgr. er ekki ætlað að gilda um kynlífsathafnir milli ólögráða barna sem eiga sér stað með gagnkvæmu samþykki þeirra.

19. gr. – Brot sem varða
barnavændi.


1. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að eftirtaldir verknaðir, unnir af ásetningi, séu lýstir refsiverðir:
a)    að ráða barn til að stunda vændi eða verða valdur að því að barn taki þátt í vændi,
b)    að þvinga barn í vændi eða hagnast á slíku eða misnota með öðrum hætti barn í slíkum tilgangi,
c) að notfæra sér þjónustu barnavændis.


2. Í þessari grein merkir hugtakið „barnavændi“ það að nota barn til kynlífsathafna gegn peningagreiðslu, þóknun eða endurgjaldi í einhverri annarri mynd, sem innt er af hendi eða lofað, án tillits til þess hvort greiðslan, loforðið eða endurgjaldið er afhent barninu eða þriðja aðila.

20. gr. – Brot sem varða
barnaklám.


1. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að eftirtaldir verknaðir, unnir af ásetningi séu lýstir refsiverðir þegar réttur til slíks er ekki fyrir hendi:
a) að framleiða barnaklám,
b) að bjóða eða útvega barnaklám,
c) að annast dreifingu og útsendingu á barnaklámi, d) að útvega sér eða öðrum barnaklám,
e) að hafa barnaklám í vörslum sínum,
f) að afla sér, vitandi vits, aðgangs að barnaklámi með tilstyrk upplýsinga- og fjarskiptatækni.2. Í þessari grein merkir hugtakið „barnaklám“ hvert það efni sem sýnir barn í raunverulegum athöfnum eða hermiathöfnum, sem greinilega eru kynferðislegar, eða hvers konar myndræna framsetningu á kynfærum barns sem hefur fyrst og fremst kynferðislegan tilgang.

3. Hver samningsaðili getur áskilið sér rétt til að beita ekki, að hluta eða í heild, ákvæðum a- til e-liðar 1. mgr. gegn framleiðslu eða vörslu klámefnis:
–    sem er einvörðungu myndræn hermiframsetning eða myndir sem virðast raunverulegar af barni sem er ekki raunverulegt,
–    sem tekur til barna, sem hafa náð þeim aldri sem er ákvarðaður að því er varðar beitingu 2. mgr. 18. gr., ef þau framleiða myndirnar og hafa þær í sinni vörslu með eigin samþykki og einvörðungu til eigin nota.

4. Hver samningsaðili getur áskilið sér rétt til að beita ekki ákvæðum f-liðar 1. mgr., að hluta eða í heild.

21. gr. – Brot sem varða þátttöku
barns í klámsýningum.1. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að eftirtaldir verknaðir, unnir af ásetningi, séu lýstir refsiverðir:
a)    að ráða barn til að taka þátt í klámsýningu eða verða valdur að því að barn taki þátt í þess háttar sýningu,
b)    að þvinga barn til að taka þátt í klámsýningum eða hagnast á eða misnota með öðrum hætti barn í slíkum tilgangi,
c)    að sækja vitandi vits klámsýningar sem börn taka þátt í.

2. Hver samningsaðili getur áskilið sér rétt til að takmarka beitingu ákvæða c-liðar 1. mgr. við tilvik þar sem börn hafa verið ráðin eða þvinguð í samræmi við a- eða b-lið 1. mgr.

22. gr. – Spilling barna.


Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að lýsa það refsivert að valda því vísvitandi, í kynferðislegum tilgangi, að barn, sem hefur ekki náð þeim aldri sem ákvarðaður er við beitingu 2. mgr. 18. gr., verði vitni að kynferðislegri misnotkun eða kynferðislegum athöfnum, jafnvel án þátttöku þess.


23. gr. – Falast eftir börnum
í kynferðislegum tilgangi.


Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að lýsa refsivert vísvitandi tilboð fullorðins manns, með tilstyrk upplýsinga- og fjarskiptatækni, um að hitta barn, sem hefur ekki náð þeim aldri sem ákvarðaður er við beitingu 2. mgr. 18. gr., í þeim tilgangi að fremja eitthvert það brot gegn því sem lýst er refsivert skv. a-lið 1. mgr. 18. gr. eða a-lið 1. mgr. 20. gr., ef tilboðinu hefur verið fylgt eftir með eiginlegum athöfnum sem leiða til fundar þeirra.

24. gr. – Aðstoð við brot eða hvatning til brots og tilraun til brots.


1. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að aðstoð við eða hvatning til brota, sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum, teljist refsivert brot ef um ásetning er að ræða.

2. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til þess að tilraun til að fremja brot, sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum, teljist refsilegt brot ef um ásetning er að ræða.

3. Hver samningsaðili getur áskilið sér rétt til að beita ekki, að hluta eða í heild, ákvæðum 2. mgr. gagnvart brotum sem lýst eru refsiverð skv. b-, d-, e- og f-lið 1. mgr. 20. gr., c-lið 1. mgr. 21. gr., 22. gr. og 23. gr.

25. gr. – Lögsaga.


1. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til þess að hann geti fellt undir lögsögu sína öll brot, sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum, þegar brot er framið:
a)    á yfirráðasvæði hans eða
b)    um borð í skipi sem siglir undir fána fyrrnefnds samningsaðila eða
c)    um borð í loftfari sem er skráð samkvæmt lögum fyrrnefnds samningsaðila eða
d)    af ríkisborgara hans eða
e)    af einstaklingi sem hefur fasta búsetu á yfirráðasvæði hans.

2. Hver samningsaðili skal kappkosta að gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að fella undir lögsögu sína öll brot, sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum, ef brotið er framið gegn ríkisborgara hans eða einstaklingi sem hefur fasta búsetu á yfirráðasvæði hans.

3. Hverjum samningsaðila er heimilt, við undirritun eða þegar skjal hans um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent til vörslu, að afhenda framkvæmdastjóra Evrópuráðsins yfirlýsingu um að hann áskilji sér rétt til að beita ekki eða beita aðeins í sérstökum tilvikum eða við sérstakar aðstæður þeim reglum um lögsögu sem mælt er fyrir um í e-lið 1. mgr. þessarar greinar.

4. Að því er varðar saksókn vegna brota, sem lýst eru refsiverð í samræmi við ákvæði 18. og 19. gr., a-liðar 1. mgr. 20. gr. og a- og b-liðar 1. mgr. 21. gr. samnings þessa, skal hver samningsaðili gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að lögsaga hans, að því er varðar d-lið 1. mgr., víki ekki fyrir því skilyrði að verknaðir séu gerðir refsiverðir á þeim stað þar sem þeir voru framdir.

5. Hver samningsaðili getur, við undirritun eða þegar skjal hans um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent til vörslu, gefið yfirlýsingu til framkvæmdastjóra Evrópuráðsins um að hann áskilji sér rétt til að takmarka beitingu 4. mgr. þessarar greinar með tilliti til brota, sem lýst eru refsiverð í samræmi við ákvæði annars og þriðja undirliðar b-liðar 1. mgr. 18. gr., ef ríkisborgari hans hefur fasta búsetu á yfirráðasvæði hans.


6. Að því er varðar saksókn vegna brota, sem lýst eru refsiverð í samræmi við ákvæði 18. og 19. gr., a-liðar 1. mgr. 20. gr. og 21. gr. samnings þessa, skal hver samningsaðili gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að lögsaga hans, að því er varðar d- og e-lið 1. mgr., víki ekki fyrir því skilyrði að saksókn geti aðeins hafist eftir að skýrsla hefur verið tekin af brotaþola eða ákæra lögð fram af hálfu ríkisins sem brotið var framið í.

7. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða með öðrum hætti, til að fella undir lögsögu sína brot, sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum, þegar meintur brotamaður er staddur á yfirráðasvæði samningsaðilans og hann framselur brotamanninn ekki öðrum samningsaðila á grundvelli ríkisfangs hans einvörðungu.

8. Geri fleiri en einn samningsaðili kröfu um lögsögu vegna meints brots, sem lýst er refsivert í samræmi við ákvæði samnings þessa, skulu hlutaðeigandi samningsaðilar hafa með sér samráð, þar sem það á við, í því skyni að ákveða innan hvaða lögsögu heppilegast sé að viðkomandi verði sóttur til saka.

9. Samningur þessi útilokar ekki, samanber þó reglur almenns þjóðaréttar, að beitt sé sérhverri þeirri refsiréttarlögsögu sem aðildarríki ber samkvæmt landslögum sínum.

26. gr. – Ábyrgð lögaðila.


1. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að unnt sé að lýsa ábyrgð á hendur lögaðila fyrir brot, sem lýst er refsivert í samræmi við ákvæði samnings þessa og einstaklingur fremur í þágu lögaðilans, annaðhvort einn eða með öðrum starfsmönnum lögaðilans, þ.e. einstaklingur sem gegnir starfi stjórnanda sem reist er á:
a)    heimild til að koma fram fyrir hönd lögaðilans,
b)    umboði til að taka ákvarðanir fyrir hönd lögaðilans,
c)    umboði til að segja fyrir verkum hjá lögaðilanum.

2. Auk þeirra tilvika sem þegar er kveðið á um í 1. mgr. skal hver samningsaðili gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að unnt sé að lýsa ábyrgð á hendur lögaðila, hafi skortur á eftirliti eða stjórnun af hálfu einstaklings, sem um getur í 1. mgr., gert einstaklingi, sem starfar í umboði hans, kleift að fremja brot, sem lýst er refsivert í samræmi við ákvæði samnings þessa, lögaðilanum til hagsbóta.

3. Ábyrgð lögaðila getur, með fyrirvara um innlendan rétt samningsaðilans, verið refsiréttarlegs, einkamálaréttarlegs eða stjórnsýslulegs eðlis.

4. Slík ábyrgð hefur engin áhrif á refsiábyrgð þeirra einstaklinga sem hafa framið brotið.


27. gr. – Viðurlög og ráðstafanir.


1. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að viðurlög við brotum, sem lýst hafa verið refsiverð í samræmi við ákvæði samnings þessa, séu skilvirk, meðalhófskennd og hafi varnaðaráhrif, að teknu tillit til þess hve alvarleg þau eru. Viðurlög þessi skulu taka til refsinga sem fela í sér frjálsræðissviptingu og geta leitt til framsals.

2. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að lögaðilar, sem gerðir eru ábyrgir í samræmi við ákvæði 26. gr., sæti viðurlögum, sem eru skilvirk, meðalhófskennd og hafa varnaðaráhrif, og felast í fésektum samkvæmt hegningarlögum eða öðrum lögum, en geta falist í öðrum aðgerðum, einkum:
a)    sviptingu réttar til bóta eða aðstoðar frá hinu opinbera,
b)    tímabundinni eða varanlegri sviptingu réttar til að stunda viðskipti,
c)    eftirliti dómara,
d)    réttartilskipun um félagsslit.

3. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að:
a)    kveða á um haldlagningu og upptöku á:
–    búnaði, skjölum og öðrum tækjum sem notuð voru til að fremja brotin, sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum, eða til að auðvelda framkvæmd þeirra,
–    afrakstri af slíkum brotum eða eignum sem jafngilda fjárhæð sem samsvarar slíkum afrakstri,

b)    greiða fyrir tímabundinni eða endanlegri lokun allra fyrirtækja, sem notuð voru til að fremja hvert það brot sem lýst er refsivert samkvæmt samningi þessum, með fyrirvara um réttindi grandalausra þriðju aðila eða fyrir því að brotamaður verði látinn hætta tímabundið eða endanlega þeirri atvinnustarfsemi eða sjálfboðavinnu sem felur í sér umgengni við börn og stunduð var þegar brotið var framið.

4. Hver samningsaðili getur samþykkt aðrar ráðstafanir í tengslum við brotamenn, s.s. að svipta þá þeim rétti sem foreldrum er tryggður eða að vakta dæmda einstaklinga eða hafa eftirlit með þeim.

5. Hver samningsaðili getur komið á því fyrirkomulagi að afrakstur af broti eða eign, sem gerð er upptæk samkvæmt þessari grein, megi leggja í sérstakan sjóð til að fjármagna fyrirbyggjandi áætlanir og aðstoð við þolendur brota sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum.

28. gr. – Aðstæður sem auka á saknæmi.


Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að unnt sé, í samræmi við viðeigandi ákvæði landslaga, að taka tillit til eftirfarandi kringumstæðna, að því marki sem þær eru ekki þegar hluti af brotinu, sem atriða til þyngingar refsingar fyrir brot sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum:

a)    brotið hafði alvarleg áhrif á líkamlega eða geðræna heilsu brotaþola,
b)    áður en brotið var framið eða meðan það var framið sætti brotaþoli pyntingum eða alvarlegu ofbeldi,
c)    brotið var framið gegn sérstaklega varnarlausum þolanda,
d)    brotamaðurinn var fjölskyldumeðlimur, var í heimili á sama stað og barnið eða var einstaklingur sem misnotaði stöðu sína,
e)    brotið frömdu nokkrir einstaklingar í sameiningu,
f)    brotið var framið á vegum glæpasamtaka,
g)    brotamaðurinn hafði áður verið sakfelldur fyrir sams konar brot.

29. gr. – Fyrri sakfellingar.


Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að unnt verði, þegar viðurlög eru ákveðin, að taka tillit til lokadómsuppkvaðningar hjá öðrum samningsaðila í tengslum við brot sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum.

VII. kafli – Rannsókn, saksókn og réttarfarsreglur.

30. gr. – Meginreglur.


1. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að við rannsókn brota og dómsmeðferð þeirra sé tekið mið af hagsmunum og réttindum barnsins.

2. Hver samningsaðili skal veita brotaþolum vernd með því að sjá til þess að rannsókn brota og dómsmeðferð þeirra geri ekki áfallið, sem barnið varð fyrir, enn verra og að aðstoð sé veitt eftir að réttarkerfið bregst við, ef við á.


3. Hver samningsaðili skal tryggja að rannsókn brota og dómsmeðferð þeirra hafi forgang og séu án óréttmætra tafa.

4. Hver samningsaðili skal sjá til þess að ráðstafanir, sem falla undir þennan kafla, skerði ekki rétt varnaraðila og kröfur um réttlát og hlutlaus réttarhöld í samræmi við 6. gr. sáttmálans um verndun mannréttinda og mannfrelsis.


5. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, í samræmi við grundvallarreglur landslaga sinna til að:
–    tryggja skilvirka rannsókn og saksókn vegna brota, sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum, og heimila leynilegar aðgerðir ef við á,
–    gera deildum eða rannsóknaraðilum kleift að bera kennsl á þolendur brota, sem lýst eru refsiverð í samræmi við 20. gr., einkum með því að greina efni sem hefur að geyma barnaklám, s.s. ljósmyndir og hljóð- og myndupptökur, sem sendar eru út eða gerðar aðgengilegar með notkun upplýsinga- og fjarskiptatækni.

31. gr. – Almennar verndarráðstafanir.


1. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að vernda réttindi og hagsmuni brotaþola, þ.m.t. sérstakar þarfir þeirra sem vitna, á öllum stigum rannsóknar brota og dómsmeðferðar þeirra, einkum með því:
a)    að gera þeim grein fyrir réttindum sínum og þeirri þjónustu sem þeim stendur til boða og þeirri meðferð sem kæruefni þeirra fær, ákærum, almennri framvindu rannsóknar brotsins eða dómsmeðferðar þess og hlutverki þeirra í henni, sem og niðurstöðu í málum þeirra, nema þeir óski ekki eftir þess háttar upplýsingum,
b)    að tryggja, a.m.k. í þeim tilvikum þegar brotaþolar og fjölskyldur þeirra kynnu að vera í hættu, að heimilt sé að gera þeim viðvart, ef nauðsyn krefur, þegar saksóttur eða sakfelldur maður er leystur úr haldi tímabundið eða endanlega,
c)    að gera þeim kleift, á þann hátt sem samrýmist réttarfarsreglum landslaga samningsaðilans, að flytja mál sitt, gefa vitnisburð og segja til um hvernig þeir vilja að viðhorf þeirra, þarfir og áhyggjuefni séu sett fram, beint eða með aðstoð milliliðar, og um þau fjallað,
d)    að veita þeim viðeigandi stuðningsþjónustu til þess að réttindi þeirra og hagsmunir séu sett fram með tilhlýðilegum hætti og tekið tillit til þeirra,
e)    að vernda friðhelgi einkalífs þeirra og ímynd og halda nöfnum þeirra leyndum og gera ráðstafanir í samræmi við landslög til að koma í veg fyrir að upplýsingum, sem gætu orðið til þess að borin yrðu kennsl á þá, sé miðlað til almennings,
f)    að tryggja að þeir og jafnframt fjölskyldur þeirra og þeir sem bera vitni fyrir þeirra hönd séu örugg fyrir ógnunum, hefndum og ítrekuðum skaða,
g)    að tryggja að komist verði hjá samgangi milli brotaþola og brotamanna innan dómstóla og í húsakynnum löggæslustofnana, nema lögbær yfirvöld ákveði annað vegna hagsmuna barnsins eða þegar rannsókn brots eða dómsmeðferð þess krefst slíks samgangs.

2. Hver samningsaðili skal tryggja að brotaþolar hafi, allt frá því að þeir komast fyrst í samband við lögbær yfirvöld, aðgang að upplýsingum um viðeigandi dóms- og stjórnsýslumeðferð.

3. Hver samningsaðili skal tryggja að brotaþolar fái réttaraðstoð, endurgjaldslaust þegar ástæða er til, þegar hugsanlegt er að þeir fái stöðu aðila í meðferð sakamáls fyrir dómi.

4. Hver samningsaðili skal gefa dómsmálayfirvöldum kost á að tilnefna sérstakan réttargæslumann brotaþola þegar hann, samkvæmt landslögum, kann að fá stöðu aðila í meðferð sakamáls fyrir dómi og þeir sem fara með forræði barnsins eru útilokaðir frá því að vera forsvarsmenn þess í slíkum réttarhöldum vegna hagsmunaárekstra þeirra og brotaþolans.

5. Hver samningsaðili skal kveða á um, með lagasetningu eða öðrum hætti og í samræmi við skilyrði sem landslög hans mæla fyrir um, að hópar, stofnanir, samtök eða stofnanir hins opinbera eða frjáls félagasamtök eigi þess kost að veita brotaþolum aðstoð og/eða stuðning, með samþykki þeirra, meðan dómsmeðferð stendur yfir vegna brota sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum.


6. Hver samningsaðili skal tryggja að upplýsingarnar, sem brotaþolum eru veittar í samræmi við ákvæði þessarar greinar, séu veittar þannig að hæfi aldri þeirra og þroska og á tungumáli sem þeir skilja.

32. gr. – Upphaf dómsmeðferðar.


Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að rannsókn á brotum eða saksókn vegna brota, sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum, sé óháð skýrslugjöf eða sakargiftum brotaþola og að dómsmeðferð geti haldið áfram, jafnvel þótt brotaþoli hafi dregið yfirlýsingar sínar til baka.


33. gr. – Fyrningarákvæði.


Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að fyrningarfrestur til málshöfðunar vegna brota, sem lýst hafa verið refsiverð skv. 18. gr., a- og b-lið 1. mgr. 19. gr. og a- og b-lið 1. mgr. 21. gr., framlengist um þann tíma sem er nauðsynlegur til þess að unnt sé að hefja málsmeðferð með árangursríkum hætti eftir að brotaþoli hefur náð lögaldri og sem samsvarar alvarleika þess glæps er um ræðir.

34. gr. – Rannsóknir.


1. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að einstaklingar, deildir eða þjónustuaðilar, sem annast rannsóknir, séu sérhæfðir til þess að berjast gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum eða að einstaklingar hljóti þjálfun í því skyni. Slíkar deildir eða þjónustuaðilar skulu hafa yfir nægu fjármagni að ráða.

2. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að óvissa um raunverulegan aldur brotaþola komi ekki í veg fyrir að rannsókn sakamáls geti hafist.

35. gr. – Viðtöl við barnið.


1. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja:
a)    að viðtöl við barnið fari fram án ótilhlýðilegrar tafar eftir að þar til bærum yfirvöldum hefur verið skýrt frá málavöxtum,
b)    að viðtöl við barnið fari, ef nauðsyn krefur, fram í húsakynnum sem eru sérstaklega gerð eða breytt til að þjóna þeim tilgangi,
c)    að sérfræðingar, sem eru sérþjálfaðir á þessu sviði, taki viðtöl við barnið,
d)    að sömu einstaklingar taki, ef það er unnt og viðeigandi, öll viðtöl við barnið,
e)    að viðtöl séu eins fá og frekast er unnt og miðist eingöngu við sjálfa dómsmeðferð málsins,
f)    að barnið geti verið í fylgd lagalegs fyrirsvarsmanns síns eða, ef við á, fullorðins manns sem það velur, nema rökstudd ákvörðun hafi verið tekin um hið gagnstæða að því er þann einstakling varðar.


2. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að öll viðtöl við brotaþola eða, eftir því sem við á, viðtöl við barn sem vitni megi taka upp á myndupptökutæki og að myndupptökur af þeim viðtölum megi samþykkja sem vitnisburð meðan á réttarhöldum stendur samkvæmt reglum sem landslög samningsaðila kveða á um.

3. Þegar aldur brotaþola er óljós og ástæða er til að ætla að brotaþoli sé barn skal grípa til þeirra ráðstafana sem er lýst í 1. og 2. mgr. meðan gengið er úr skugga um aldur hans.


36. gr. – Meðferð fyrir sakamáladómstóli.


1. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja, að teknu tilhlýðilegu tilliti til reglna um sjálfstæði starfsstétta lögmanna, að allir, sem hlut eiga að dómsmálinu, eigi kost á fræðslu um réttindi barna og um kynferðislega misneytingu og kynferðislega misnotkun þeirra, einkum dómarar, saksóknarar og lögmenn.

2. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja, samkvæmt þeim reglum sem landslög hans kveða á um:
a)    að hlutaðeigandi dómari geti mælt svo fyrir að réttarhald fari fram fyrir luktum dyrum,
b)    að unnt sé að hlýða á vitnisburð brotaþola í dómsal, að honum fjarstöddum, með hjálp viðeigandi fjarskiptatækni.

VIII. kafli – Skráning og geymsla gagna.

37. gr. – Skráning og geymsla gagna samningsaðila um dæmda kynferðisbrotamenn.


1. Í þeim tilgangi að koma í veg fyrir og saksækja fyrir þau brot sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum skal hver samningsaðili gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að safna og geyma, samkvæmt viðeigandi ákvæðum um vernd persónuupplýsinga og öðrum viðeigandi reglum og tryggingum eins og landslög mæla fyrir um, gögn um kenni og erfðamynstur (DNA) einstaklinga sem sakfelldir hafa verið fyrir brot sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum.

2. Hver samningsaðili skal, samtímis því að hann afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild, skýra framkvæmdastjóra Evrópuráðsins frá heiti og aðsetri eins yfirvalds í landi sínu sem annast þau mál er um getur í 1. mgr.


3. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að unnt sé að senda þær upplýsingar er um getur í 1. mgr. til lögbærs yfirvalds annars samningsaðila í samræmi við þau skilyrði sem landslög þess fyrrnefnda og viðeigandi alþjóðlegir gerningar kveða á um.

IX. kafli – Alþjóðleg samvinna.

38. gr. – Meginreglur um og ráðstafanir vegna alþjóðlegrar samvinnu.


1. Samningsaðilar skulu eiga eins víðtækt samstarf sín á milli og frekast er unnt, samkvæmt ákvæðum samnings þessa og með því að beita viðeigandi alþjóðlegum og svæðisbundnum gerningum, fyrirkomulagi, sem samkomulag er um á grundvelli samhljóða eða gagnvirkrar löggjafar, og landslögum, í því skyni:
a)    að koma í veg fyrir og berjast gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum,
b)    að vernda brotaþola og veita þeim aðstoð,
c)    að rannsaka eða reka mál vegna brota sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum.

2. Hver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að þolendur brots, sem lýst er refsivert samkvæmt samningi þessum á yfirráðasvæði annars samningsaðila en þess þar sem þeir hafa fasta búsetu, geti lagt fram kæru hjá lögbærum yfirvöldum í búseturíki sínu.

3. Ef samningsaðili, sem gerir að skilyrði að í gildi sé samningur um gagnkvæma réttaraðstoð í saka- eða framsalsmálum, fær beiðni um réttaraðstoð eða framsal frá samningsaðila, sem hann hefur ekki gert slíkan samning við, getur sá fyrrnefndi litið svo á að samningur þessi sé lagagrundvöllur fyrir gagnkvæmri réttaraðstoð í saka- eða framsalsmálum að því er varðar þau brot sem lýst eru refsiverð samkvæmt samningi þessum.

4. Hver samningsaðili skal kappkosta að fella, eftir því sem við á, forvarnir og baráttu gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum inn í áætlanir um þróunaraðstoð sem eru í þágu þriðju ríkja.

X. kafli – Eftirlitskerfi.

39. gr. – Nefnd samningsaðilanna.


1. Nefnd samningsaðila skal skipuð fulltrúum aðila að samningi þessum.

2. Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal kveðja saman nefnd samningsaðila. Fyrsta fundinn skal halda innan árs frá því að samningur þessi öðlast gildi gagnvart tíunda undirritunaraðila sem hefur fullgilt hann. Eftir það kemur nefndin saman þegar a.m.k. þriðjungur samningsaðilanna eða framkvæmdastjóri Evrópuráðsins fer fram á það.

3. Nefnd samningsaðilanna setur sér starfsreglur.


40. gr. – Aðrir fulltrúar.


1. Þing Evrópuráðsins, mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, Evrópunefnd um afbrotamálefni (CD PC) og aðrar viðkomandi milliríkjanefndir Evrópuráðsins, skulu hver fyrir sig tilnefna fulltrúa í nefnd samningsaðilanna.


2. Ráðherranefndin getur boðið öðrum stofnunum Evrópuráðsins að tilnefna fulltrúa í nefnd samningsaðilanna eftir að hafa ráðfært sig við hana.


3. Fulltrúar hins borgaralega samfélags, einkum frjáls félagasamtök, geta orðið áheyrnarfulltrúar í nefnd samningsaðilanna í samræmi við þá málsmeðferð sem viðtekin er samkvæmt viðeigandi reglum Evrópuráðsins.

4. Fulltrúar, sem tilnefndir eru skv. 1.–3. mgr. hér að framan, skulu taka þátt í fundum nefndar samningsaðilanna án atkvæðisréttar.

41. gr. – Störf nefndar samningsaðilanna.1. Nefnd samningsaðila skal fylgjast með framkvæmd samnings þessa. Í starfsreglum nefndar samningsaðilanna skal mæla fyrir um það verklag sem fylgja ber þegar meta skal framkvæmd samnings þessa.

2. Nefnd samningsaðilanna skal greiða fyrir söfnun, greiningu og skiptum á upplýsingum, reynslu og góðum starfsvenjum milli ríkja í því skyni að auka getu þeirra til að koma í veg fyrir og berjast gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum.

3. Nefnd samningsaðilanna skal einnig, eftir því sem við á:
a)    greiða fyrir skilvirkri notkun og framkvæmd samnings þessa, m.a. því að koma auga á hvers kyns vanda og áhrif hvers konar gefinna yfirlýsinga eða gerðra fyrirvara samkvæmt samningi þessum,
b)    láta í ljós álit á öllum álitaefnum sem varða beitingu samnings þessa og greiða fyrir upplýsingaskiptum um mikilsverða þróun á sviði laga og réttar, stefnumörkunar eða tæknimála.

4. Skrifstofa Evrópuráðsins skal aðstoða nefnd samningsaðilanna við að sinna störfum sínum samkvæmt þessari grein.

5. Skýra ber Evrópunefnd um afbrotamálefni reglulega frá þeirri starfsemi sem um ræðir í 1., 2. og 3. mgr. þessarar greinar.

XI. kafli – Tengsl við aðra
alþjóðlega gerninga.

42. gr. – Tengsl við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og valfrjálsa bókun við hann um sölu á börnum, barnavændi og barnaklám.Samningur þessi hefur ekki áhrif á réttindi og skyldur sem leiðir af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og valfrjálsri bókun við þann samning um sölu á börnum, barnavændi og barnaklám og er fyrrnefnda samningnum ætlað að efla þá vernd sem síðarnefndi samningurinn og bókun við hann kveða á um og þróa og bæta við þær viðmiðanir sem í þeim felast.

43. gr. – Tengsl við aðra
alþjóðlega gerninga.


1. Samningur þessi hefur ekki áhrif á réttindi og skyldur sem leiðir af ákvæðum annarra alþjóðlegra gerninga sem aðilar að samningi þessum eru aðilar að eða verða aðilar að og hafa að geyma ákvæði um málefni, sem samningur þessi tekur til, sem veita meiri vernd og aðstoð við börn sem eru þolendur kynferðislegrar misneytingar eða kynferðislegrar misnotkunar.

2. Aðilar að samningi þessum geta gert með sér tvíhliða eða marghliða samninga um þau málefnin sem samningur þessi tekur til í því skyni að auka við eða styrkja ákvæði hans eða stuðla að því að meginreglum hans sé beitt.


3. Samningsaðilar, sem eru aðildarríki Evrópusambandsins, skulu beita, í samskiptum sín á milli, reglum Evrópubandalagsins og Evrópusambandsins, að því marki sem í gildi eru reglur Evrópubandalagsins eða Evrópusambandsins, sem taka til hins tiltekna viðfangsefnis hverju sinni og eiga við það mál er um ræðir, án þess að það hafi áhrif á markmið og tilgang samnings þessa og án þess að það hafi áhrif á beitingu ákvæða hans til hlítar með öðrum samningsaðilum.

XII. kafli – Breytingar á samningnum.

44. gr. – Breytingar.


1. Allar tillögur um breytingu á samningi þessum, sem samningsaðili leggur fram, skal senda framkvæmdastjóra Evrópuráðsins sem kemur þeim á framfæri við aðildarríki Evrópuráðsins, hvert undirritunarríki, hvert samningsríki, Evrópubandalagið, hvert ríki sem boðið er að undirrita samning þennan í samræmi við ákvæði 1. mgr. 45. gr. og hvert ríki sem boðin er aðild að samningi þessum í samræmi við ákvæði 1. mgr. 46. gr.


2. Hverja breytingartillögu samningsaðila skal senda Evrópunefndinni um afbrotamálefni sem leggur álit sitt á breytingartillögunni fyrir ráðherranefndina.


3. Ráðherranefndin skal fjalla um breytingartillöguna og álit það sem Evrópunefnd um afbrotamálefni hefur lagt fram og getur ráðherranefndin samþykkt breytinguna að höfðu samráði við þau aðildarríki samnings þessa sem ekki eiga aðild að Evrópuráðinu.

4. Texti hverrar breytingar, sem ráðherranefndin samþykkir skv. 3. mgr. þessarar greinar, skal framsendur samningsaðilum til staðfestingar.


5. Sérhver breyting, sem er samþykkt skv. 3. mgr. þessarar greinar, öðlast gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðinn er einn mánuður frá þeim degi er allir samningsaðilar hafa tilkynnt framkvæmdastjóra Evrópuráðsins um að þeir hafi staðfest hana.

XIII. kafli – Lokaákvæði.


45. gr. – Undirritun og gildistaka.


1. Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar fyrir aðildarríki Evrópuráðsins, ríki utan þess, sem hafa tekið þátt í gerð hans, og Evrópubandalagið.

2. Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til vörslu.

3. Samningur þessi öðlast gildi á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi þegar fimm undirritunaraðilar, þ.m.t. þrjú aðildarríki Evrópuráðsins hið minnsta, lýsa sig samþykka því að vera bundnir af samningnum í samræmi við ákvæði undanfarandi málsgreinar.


4. Samningur þessi öðlast gildi gagnvart hverju því ríki er um getur í 1. mgr. eða Evrópubandalaginu, sem síðar lýsir sig samþykkt því að vera bundið af honum, á fyrsta degi næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá því að skjal þess um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki er afhent til vörslu.

46. gr. – Aðild að samningnum.


1. Eftir gildistöku samnings þessa getur ráðherranefnd Evrópuráðsins, að höfðu samráði við samningsaðila og að fengnu samhljóða samþykki þeirra, boðið hverju því ríki, sem ekki er aðildarríki Evrópuráðsins og ekki hefur átt þátt í að semja samning þennan, aðild að honum og skal ákvörðunin tekin með þeim meirihluta sem tilskilinn er í d-lið 20. gr. stofnskrár Evrópuráðsins og með samhljóða atkvæðum fulltrúa þeirra samningsríkja sem eiga rétt til setu í ráðherranefndinni.2. Samningur þessi öðlast gildi gagnvart hverju því ríki sem gerist aðili að honum fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er aðildarskjal þess er afhent framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til vörslu.


47. gr. – Svæðisbundið gildissvið.


1. Hverju ríki eða Evrópubandalaginu er heimilt, við undirritun eða þegar það afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild til vörslu, að tilgreina það eða þau yfirráðasvæði sem samningur þessi skal taka til.

2. Hverjum samningsaðila er heimilt, hvenær sem er síðar, að lýsa því yfir við framkvæmdastjóra Evrópuráðsins að samningur þessi nái einnig til hvaða annars yfirráðasvæðis, sem tilgreint er í yfirlýsingunni, enda annist hann alþjóðasamskipti fyrir það eða hafi heimild til að skuldbinda það. Samningurinn öðlast gildi, að því er slíkt yfirráðasvæði varðar, fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er framkvæmdastjórinn veitir slíkri yfirlýsingu viðtöku.


3. Heimilt er að afturkalla hverja þá yfirlýsingu sem er gefin samkvæmt tveimur undanfarandi málsgreinum og varðar hvert það yfirráðasvæði sem þar er tilgreint með tilkynningu til framkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Afturköllunin tekur gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er framkvæmdastjórinn veitir slíkri tilkynningu viðtöku.


48. gr. – Fyrirvarar.


Óheimilt að gera fyrirvara við ákvæði samnings þessa, að undanskildum fyrirvörum sem kveðið er á um með ótvíræðum hætti. Heimilt er að draga fyrirvara til baka hvenær sem er.

49. gr. – Úrsögn.


1. Hver samningsaðili getur hvenær sem er sagt sig frá samningi þessum með tilkynningu til framkvæmdastjóra Evrópuráðsins.

2. Úrsögnin tekur gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru þrír mánuðir frá þeim degi er framkvæmdastjórinn veitir tilkynningunni viðtöku.


50. gr. – Tilkynning.


Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal tilkynna aðildarríkjum Evrópuráðsins, hverju undirritunarríki, hverju samningsríki, Evrópubandalaginu, hverju ríki sem boðið er að undirrita samning þennan í samræmi við ákvæði 45. gr. og hverju ríki, sem boðin er aðild að samningi þessum í samræmi við ákvæði 46. gr., um eftirfarandi atriði:

a)    sérhverja undirritun,
b)    afhendingu hvers skjals um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild,
c)    hvern gildistökudag samnings þessa í samræmi við 45. og 46. gr.,
d)    allar breytingar sem samþykktar eru í samræmi við ákvæði 44. gr. og gildistökudag slíkra breytinga,
e)    alla fyrirvara sem gerðir eru í samræmi við 48. gr.,
f)    sérhverja uppsögn sem reist er á ákvæðum 49. gr.,
g)    alla aðra gerninga, tilkynningar eða orðsendingar er varða samning þennan.

Þessu til staðfestu hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

Gjört í Lanzarote 25. október 2007 í einu eintaki á ensku og frönsku sem skal afhent skjalasafni Evrópuráðsins til vörslu og eru báðir textarnir jafngildir. Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins skal senda hverju aðildarríki Evrópuráðsins, hverju ríki utan þess sem hefur tekið þátt í gerð samnings þessa, Evrópubandalaginu og hverju ríki, sem boðið er að gerast aðili að samningi þessum, staðfest endurrit.

Council of Europe Convention on the
Protection of Children against Sexual
Exploitation and Sexual Abuse


Preamble


The member States of the Council of Europe and the other signatories hereto;

Considering that the aim of the Council of Europe is to achieve a greater unity between its members;

Considering that every child has the right to such measures of protection as are required by his or her status as a minor, on the part of his or her family, society and the State;

Observing that the sexual exploitation of children, in particular child pornography and prostitution, and all forms of sexual abuse of children, including acts which are committed abroad, are destructive to children's health and psycho-social development;

Observing that the sexual exploitation and sexual abuse of children have grown to worrying proportions at both national and international level, in particular as regards the increased use by both children and perpetrators of information and communication technologies (ICTs), and that preventing and combating such sexual exploitation and sexual abuse of children require international co-operation;

Considering that the well-being and best interests of children are fundamental values shared by all member States and must be promoted without any discrimination;

Recalling the Action Plan adopted at the 3rd Summit of Heads of State and Governments of the Council of Europe (Warsaw, 16-17 May 2005), calling for the elaboration of measures to stop sexual exploitation of children;


Recalling in particular the Committee of Ministers Recommendation No. R (91) 11 concerning sexual exploitation, pornography and prostitution of, and trafficking in, children and young adults, Recommendation Rec(2001)16 on the protection of children against sexual exploitation, and the Convention on Cybercrime (ETS No. 185), especially Article 9 thereof, as well as the Council of Europe Convention on Action against Trafficking in Human Beings (CETS No. 197);

Bearing in mind the Convention for the Protection of Human Rights and Fundamental Freedoms (1950, ETS No. 5), the revised European Social Charter (1996, ETS No. 163), and the European Convention on the Exercise of Children's Rights (1996, ETS No. 160);

Also bearing in mind the United Nations Convention on the Rights of the Child, especially Article 34 thereof, the Optional Protocol on the sale of children, child prostitution and child pornography, the Protocol to Prevent, Suppress and Punish Trafficking in Persons, Especially Women and Children, supplementing the United Nations Convention against Transnational Organized Crime, as well as the International Labour Organization Convention concerning the Prohibition and Immediate Action for the Elimination of the Worst Forms of Child Labour;

Bearing in mind the Council of the European Union Framework Decision on combating the sexual exploitation of children and child pornography (2004/68/JHA), the Council of the European Union Framework Decision on the standing of victims in criminal proceedings (2001/220/JHA), and the Council of the European Union Framework Decision on combating trafficking in human beings (2002/629/JHA);

Taking due account of other relevant international instruments and programmes in this field, in particular the Stockholm Declaration and Agenda for Action, adopted at the 1st World Congress against Commercial Sexual Exploitation of Children (27-31 August 1996), the Yokohama Global Commitment adopted at the 2nd World Congress against Commercial Sexual Exploitation of Children (17-20 December 2001), the Budapest Commitment and Plan of Action, adopted at the preparatory Conference for the 2nd World Congress against Commercial Sexual Exploitation of Children (20-21 November 2001), the United Nations General Assembly Resolution S-27/2 “A world fit for children” and the three-year programme “Building a Europe for and with children”, adopted following the 3rd Summit and launched by the Monaco Conference (4-5 April 2006);

Determined to contribute effectively to the common goal of protecting children against sexual exploitation and sexual abuse, whoever the perpetrator may be, and of providing assistance to victims;


Taking into account the need to prepare a comprehensive international instrument focusing on the preventive, protective and criminal law aspects of the fight against all forms of sexual exploitation and sexual abuse of children and setting up a specific monitoring mechanism,

Have agreed as follows:

Chapter I – Purposes, non-discrimination principle and definitions

Article 1 – Purposes


1    The purposes of this Convention are to:

a    prevent and combat sexual exploitation and sexual abuse of children;

b    protect the rights of child victims of sexual exploitation and sexual abuse;

c    promote national and international co-operation against sexual exploitation and sexual abuse of children.

2     In order to ensure effective implementation of its provisions by the Parties, this Convention sets up a specific monitoring mechanism.

Article 2 – Non-discrimination principleThe implementation of the provisions of this Convention by the Parties, in particular the enjoyment of measures to protect the rights of victims, shall be secured without discrimination on any ground such as sex, race, colour, language, religion, political or other opinion, national or social origin, association with a national minority, property, birth, sexual orientation, state of health, disability or other status.

Article 3 – DefinitionsFor the purposes of this Convention:

a    “child” shall mean any person under the age of 18 years;

b    “sexual exploitation and sexual abuse of children” shall include the behaviour as referred to in Articles 18 to 23 of this Convention;
c    “victim” shall mean any child subject to sexual exploitation or sexual abuse.


Chapter II – Preventive measures


Article 4 – PrinciplesEach Party shall take the necessary legislative or other measures to prevent all forms of sexual exploitation and sexual abuse of children and to protect children.

Article 5 –      Recruitment, training and awareness raising of persons working in contact with children


1     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to encourage awareness of the protection and rights of children among persons who have regular contacts with children in the education, health, social protection, judicial and law-enforcement sectors and in areas relating to sport, culture and leisure activities.

2     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that the persons referred to in paragraph 1 have an adequate knowledge of sexual exploitation and sexual abuse of children, of the means to identify them and of the possibility mentioned in Article 12, paragraph 1.


3     Each Party shall take the necessary legislative or other measures, in conformity with its internal law, to ensure that the conditions to accede to those professions whose exercise implies regular contacts with children ensure that the candidates to these professions have not been convicted of acts of sexual exploitation or sexual abuse of children.

         

Article 6 – Education for children


Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that children, during primary and secondary education, receive information on the risks of sexual exploitation and sexual abuse, as well as on the means to protect themselves, adapted to their evolving capacity. This information, provided in collaboration with parents, where appropriate, shall be given within a more general context of information on sexuality and shall pay special attention to situations of risk, especially those involving the use of new information and communication technologies.

Article 7 – Preventive intervention programmes or measures


Each Party shall ensure that persons who fear that they might commit any of the offences established in accordance with this Convention may have access, where appropriate, to effective intervention programmes or measures designed to evaluate and prevent the risk of offences being committed.


Article 8 – Measures for the general public


1     Each Party shall promote or conduct awareness raising campaigns addressed to the general public providing information on the phenomenon of sexual exploitation and sexual abuse of children and on the preventive measures which can be taken.


2     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to prevent or prohibit the dissemination of materials advertising the offences established in accordance with this Convention.


Article 9 – Participation of children, the private sector, the media and civil society


1     Each Party shall encourage the participation of children, according to their evolving capacity, in the development and the implementation of state policies, programmes or others initiatives concerning the fight against sexual exploitation and sexual abuse of children.

2      Each Party shall encourage the private sector, in particular the information and communication technology sector, the tourism and travel industry and the banking and finance sectors, as well as civil society, to participate in the elaboration and implementation of policies to prevent sexual exploitation and sexual abuse of children and to implement internal norms through self-regulation or co-regulation.


3     Each Party shall encourage the media to provide appropriate information concerning all aspects of sexual exploitation and sexual abuse of children, with due respect for the independence of the media and freedom of the press.

4     Each Party shall encourage the financing, including, where appropriate, by the creation of funds, of the projects and programmes carried out by civil society aiming at preventing and protecting children from sexual exploitation and sexual abuse.


Chapter III – Specialised authorities and co-ordinating bodies


Article 10 – National measures of co-ordination and collaboration


1     Each Party shall take the necessary measures to ensure the co-ordination on a national or local level between the different agencies in charge of the protection from, the prevention of and the fight against sexual exploitation and sexual abuse of children, notably the education sector, the health sector, the social services and the law-enforcement and judicial authorities.

2     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to set up or designate:

a    independent competent national or local institutions for the promotion and protection of the rights of the child, ensuring that they are provided with specific resources and responsibilities;
b    mechanisms for data collection or focal points, at the national or local levels and in collaboration with civil society, for the purpose of observing and evaluating the phenomenon of sexual exploitation and sexual abuse of children, with due respect for the requirements of personal data protection.

3     Each Party shall encourage co-operation between the competent state authorities, civil society and the private sector, in order to better prevent and combat sexual exploitation and sexual abuse of children.

Chapter IV – Protective measures and assistance to victims


Article 11 – Principles


1     Each Party shall establish effective social programmes and set up multidisciplinary structures to provide the necessary support for victims, their close relatives and for any person who is responsible for their care.

2     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that when the age of the victim is uncertain and there are reasons to believe that the victim is a child, the protection and assistance measures provided for children shall be accorded to him or her pending verification of his or her age.

Article 12 – Reporting suspicion of sexual exploitation or sexual abuse1     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that the confidentiality rules imposed by internal law on certain professionals called upon to work in contact with children do not constitute an obstacle to the possibility, for those professionals, of their reporting to the services responsible for child protection any situation where they have reasonable grounds for believing that a child is the victim of sexual exploitation or sexual abuse.


2     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to encourage any person who knows about or suspects, in good faith, sexual exploitation or sexual abuse of children to report these facts to the competent services.


Article 13 – Helplines


Each Party shall take the necessary legislative or other measures to encourage and support the setting up of information services, such as telephone or Internet helplines, to provide advice to callers, even confidentially or with due regard for their anonymity.


Article 14 – Assistance to victims


1     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to assist victims, in the short and long term, in their physical and psycho-social recovery. Measures taken pursuant to this paragraph shall take due account of the child's views, needs and concerns.


2     Each Party shall take measures, under the conditions provided for by its internal law, to co-operate with non-governmental organisations, other relevant organisations or other elements of civil society engaged in assistance to victims.


3     When the parents or persons who have care of the child are involved in his or her sexual exploitation or sexual abuse, the intervention procedures taken in application of Article 11, paragraph 1, shall include:
–    the possibility of removing the alleged perpetrator;
–    the possibility of removing the victim from his or her family environment. The conditions and duration of such removal shall be determined in accordance with the best interests of the child.

4     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that the persons who are close to the victim may benefit, where appropriate, from therapeutic assistance, notably emergency psychological care.

Chapter V – Intervention programmes or measures


Article 15 – General principles


1     Each Party shall ensure or promote, in accordance with its internal law, effective intervention programmes or measures for the persons referred to in Article 16, paragraphs 1 and 2, with a view to preventing and minimising the risks of repeated offences of a sexual nature against children. Such programmes or measures shall be accessible at any time during the proceedings, inside and outside prison, according to the conditions laid down in internal law.

2     Each Party shall ensure or promote, in accordance with its internal law, the development of partnerships or other forms of co-operation between the competent authorities, in particular health-care services and the social services, and the judicial authorities and other bodies responsible for following the persons referred to in Article 16, paragraphs 1 and 2.

3     Each Party shall provide, in accordance with its internal law, for an assessment of the dangerousness and possible risks of repetition of the offences established in accordance with this Convention, by the persons referred to in Article 16, paragraphs 1 and 2, with the aim of identifying appropriate programmes or measures.

4     Each Party shall provide, in accordance with its internal law, for an assessment of the effectiveness of the programmes and measures implemented.

Article 16 – Recipients of intervention programmes and measures


1     Each Party shall ensure, in accordance with its internal law, that persons subject to criminal proceedings for any of the offences established in accordance with this Convention may have access to the programmes or measures mentioned in Article 15, paragraph 1, under conditions which are neither detrimental nor contrary to the rights of the defence and to the requirements of a fair and impartial trial, and particularly with due respect for the rules governing the principle of the presumption of innocence.

2     Each Party shall ensure, in accordance with its internal law, that persons convicted of any of the offences established in accordance with this Convention may have access to the programmes or measures mentioned in Article 15, paragraph 1.

3     Each Party shall ensure, in accordance with its internal law, that intervention programmes or measures are developed or adapted to meet the developmental needs of children who sexually offend, including those who are below the age of criminal responsibility, with the aim of addressing their sexual behavioural problems.

Article 17 – Information and consent


1     Each Party shall ensure, in accordance with its internal law, that the persons referred to in Article 16 to whom intervention programmes or measures have been proposed are fully informed of the reasons for the proposal and consent to the programme or measure in full knowledge of the facts.


2     Each Party shall ensure, in accordance with its internal law, that persons to whom intervention programmes or measures have been proposed may refuse them and, in the case of convicted persons, that they are made aware of the possible consequences a refusal might have.

Chapter VI – Substantive criminal law


Article 18 – Sexual abuse


1     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that the following intentional conduct is criminalised:

a    engaging in sexual activities with a child who, according to the relevant provisions of national law, has not reached the legal age for sexual activities;
b     engaging in sexual activities with a child where:
–     use is made of coercion, force or threats; or
–    abuse is made of a recognised position of trust, authority or influence over the child, including within the family; or
–    abuse is made of a particularly vulnerable situation of the child, notably because of a mental or physical disability or a situation of dependence.

2     For the purpose of paragraph 1 above, each Party shall decide the age below which it is prohibited to engage in sexual activities with a child.

3     The provisions of paragraph 1.a are not intended to govern consensual sexual activities between minors.

Article 19 – Offences concerning
child prostitution


1     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that the following intentional conduct is criminalised:

a    recruiting a child into prostitution or causing a child to participate in prostitution;
b    coercing a child into prostitution or profiting from or otherwise exploiting a child for such purposes;
c     having recourse to child prostitution.

2     For the purpose of the present article, the term “child prostitution” shall mean the fact of using a child for sexual activities where money or any other form of remuneration or consideration is given or promised as payment, regardless if this payment, promise or consideration is made to the child or to a third person.

Article 20 – Offences concerning
child pornography


1     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that the following intentional conduct, when committed without right, is criminalised:

a    producing child pornography;
b    offering or making available child pornography;
c    distributing or transmitting child pornography;
d    procuring child pornography for oneself or for another person;
e    possessing child pornography;
f    knowingly obtaining access, through information and communication technologies, to child pornography.

2     For the purpose of the present article, the term “child pornography” shall mean any material that visually depicts a child engaged in real or simulated sexually explicit conduct or any depiction of a child's sexual organs for primarily sexual purposes.


3     Each Party may reserve the right not to apply, in whole or in part, paragraph 1.a and e to the production and possession of pornographic material:

–    consisting exclusively of simulated representations or realistic images of a non-existent child;
–    involving children who have reached the age set in application of Article 18, paragraph 2, where these images are produced and possessed by them with their consent and solely for their own private use.

4     Each Party may reserve the right not to apply, in whole or in part, paragraph 1.f.


Article 21 – Offences concerning the participation of a child in pornographic performances


1     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that the following intentional conduct is criminalised:

a    recruiting a child into participating in pornographic performances or causing a child to participate in such performances;
b    coercing a child into participating in pornographic performances or profiting from or otherwise exploiting a child for such purposes;
c    knowingly attending pornographic performances involving the participation of children.

2     Each Party may reserve the right to limit the application of paragraph 1.c to cases where children have been recruited or coerced in conformity with paragraph 1.a or b.

         Article 22 – Corruption of children


Each Party shall take the necessary legislative or other measures to criminalise the intentional causing, for sexual purposes, of a child who has not reached the age set in application of Article 18, paragraph 2, to witness sexual abuse or sexual activities, even without having to participate.


Article 23 – Solicitation of children
for sexual purposes


Each Party shall take the necessary legislative or other measures to criminalise the intentional proposal, through information and communication technologies, of an adult to meet a child who has not reached the age set in application of Article 18, paragraph 2, for the purpose of committing any of the offences established in accordance with Article 18, paragraph 1.a, or Article 20, paragraph 1.a, against him or her, where this proposal has been followed by material acts leading to such a meeting.

         Article 24 – Aiding or abetting and attempt


1     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to establish as criminal offences, when committed intentionally, aiding or abetting the commission of any of the offences established in accordance with this Convention.

2     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to establish as criminal offences, when committed intentionally, attempts to commit the offences established in accordance with this Convention.

3     Each Party may reserve the right not to apply, in whole or in part, paragraph 2 to offences established in accordance with Article 20, paragraph 1.b, d, e and f, Article 21, paragraph 1.c, Article 22 and Article 23.

Article 25 – Jurisdiction


1     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to establish jurisdiction over any offence established in accordance with this Convention, when the offence is committed:

a     in its territory; or
b     on board a ship flying the flag of that Party; or
c    on board an aircraft registered under the laws of that Party; or
d    by one of its nationals; or
e    by a person who has his or her habitual residence in its territory.


2     Each Party shall endeavour to take the necessary legislative or other measures to establish jurisdiction over any offence established in accordance with this Convention where the offence is committed against one of its nationals or a person who has his or her habitual residence in its territory.

3     Each Party may, at the time of signature or when depositing its instrument of ratification, acceptance, approval or accession, by a declaration addressed to the Secretary General of the Council of Europe, declare that it reserves the right not to apply or to apply only in specific cases or conditions the jurisdiction rules laid down in paragraph 1.e of this article.

4     For the prosecution of the offences established in accordance with Articles 18, 19, 20, paragraph 1.a, and 21, paragraph 1.a and b, of this Convention, each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that its jurisdiction as regards paragraph 1.d is not subordinated to the condition that the acts are criminalised at the place where they were performed.


5     Each Party may, at the time of signature or when depositing its instrument of ratification, acceptance, approval or accession, by a declaration addressed to the Secretary General of the Council of Europe, declare that it reserves the right to limit the application of paragraph 4 of this article, with regard to offences established in accordance with Article 18, paragraph 1.b, second and third indents, to cases where its national has his or her habitual residence in its territory.

6     For the prosecution of the offences established in accordance with Articles 18, 19, 20, paragraph 1.a, and 21 of this Convention, each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that its jurisdiction as regards paragraphs 1.d and e is not subordinated to the condition that the prosecution can only be initiated following a report from the victim or a denunciation from the State of the place where the offence was committed.


7     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to establish jurisdiction over the offences established in accordance with this Convention, in cases where an alleged offender is present on its territory and it does not extradite him or her to another Party, solely on the basis of his or her nationality.


8     When more than one Party claims jurisdiction over an alleged offence established in accordance with this Convention, the Parties involved shall, where appropriate, consult with a view to determining the most appropriate jurisdiction for prosecution.


9     Without prejudice to the general rules of international law, this Convention does not exclude any criminal jurisdiction exercised by a Party in accordance with its internal law.

Article 26 – Corporate liability


1     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that a legal person can be held liable for an offence established in accordance with this Convention, committed for its benefit by any natural person, acting either individually or as part of an organ of the legal person, who has a leading position within the legal person, based on:

a     power of representation of the legal person;
b    an authority to take decisions on behalf of the legal person;
c    an authority to exercise control within the legal person.

2     Apart from the cases already provided for in paragraph 1, each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that a legal person can be held liable where the lack of supervision or control by a natural person referred to in paragraph 1 has made possible the commission of an offence established in accordance with this Convention for the benefit of that legal person by a natural person acting under its authority.

3     Subject to the legal principles of the Party, the liability of a legal person may be criminal, civil or administrative.

4     Such liability shall be without prejudice to the criminal liability of the natural persons who have committed the offence.

Article 27 – Sanctions and measures


1     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that the offences established in accordance with this Convention are punishable by effective, proportionate and dissuasive sanctions, taking into account their seriousness. These sanctions shall include penalties involving deprivation of liberty which can give rise to extradition.

2     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that legal persons held liable in accordance with Article 26 shall be subject to effective, proportionate and dissuasive sanctions which shall include monetary criminal or non-criminal fines and may include other measures, in particular:

a    exclusion from entitlement to public benefits or aid;
b    temporary or permanent disqualification from the practice of commercial activities;
c    placing under judicial supervision;
d    judicial winding-up order.

3     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to:

a     provide for the seizure and confiscation of:
–     goods, documents and other instrumentalities used to commit the offences established in accordance with this Convention or to facilitate their commission;
–     proceeds derived from such offences or property the value of which corresponds to such proceeds;
b    enable the temporary or permanent closure of any establishment used to carry out any of the offences established in accordance with this Convention, without prejudice to the rights of bona fide third parties, or to deny the perpetrator, temporarily or permanently, the exercise of the professional or voluntary activity involving contact with children in the course of which the offence was committed.

4     Each Party may adopt other measures in relation to perpetrators, such as withdrawal of parental rights or monitoring or supervision of convicted persons.


5     Each Party may establish that the proceeds of crime or property confiscated in accordance with this article can be allocated to a special fund in order to finance prevention and assistance programmes for victims of any of the offences established in accordance with this Convention.

Article 28 – Aggravating circumstances


Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that the following circumstances, in so far as they do not already form part of the constituent elements of the offence, may, in conformity with the relevant provisions of internal law, be taken into consideration as aggravating circumstances in the determination of the sanctions in relation to the offences established in accordance with this Convention:
a    the offence seriously damaged the physical or mental health of the victim;
b    the offence was preceded or accompanied by acts of torture or serious violence;
c    the offence was committed against a particularly vulnerable victim;
d    the offence was committed by a member of the family, a person cohabiting with the child or a person having abused his or her authority;
e    the offence was committed by several people acting together;
f    the offence was committed within the framework of a criminal organisation;
g    the perpetrator has previously been convicted of offences of the same nature.
         

Article 29 – Previous convictions


Each Party shall take the necessary legislative or other measures to provide for the possibility to take into account final sentences passed by another Party in relation to the offences established in accordance with this Convention when determining the sanctions.

Chapter VII – Investigation, prosecution and procedural law


Article 30 – Principles1     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that investigations and criminal proceedings are carried out in the best interests and respecting the rights of the child.


2     Each Party shall adopt a protective approach towards victims, ensuring that the investigations and criminal proceedings do not aggravate the trauma experienced by the child and that the criminal justice response is followed by assistance, where appropriate.

3     Each Party shall ensure that the investigations and criminal proceedings are treated as priority and carried out without any unjustified delay.

4     Each Party shall ensure that the measures applicable under the current chapter are not prejudicial to the rights of the defence and the requirements of a fair and impartial trial, in conformity with Article 6 of the Convention for the Protection of Human Rights and Fundamental Freedoms.

5     Each Party shall take the necessary legislative or other measures, in conformity with the fundamental principles of its internal law:

–     to ensure an effective investigation and prosecution of offences established in accordance with this Convention, allowing, where appropriate, for the possibility of covert operations;
–    to enable units or investigative services to identify the victims of the offences established in accordance with Article 20, in particular by analysing child pornography material, such as photographs and audiovisual recordings transmitted or made available through the use of information and communication technologies.

Article 31 – General measures of protection


1     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to protect the rights and interests of victims, including their special needs as witnesses, at all stages of investigations and criminal proceedings, in particular by:

a    informing them of their rights and the services at their disposal and, unless they do not wish to receive such information, the follow-up given to their complaint, the charges, the general progress of the investigation or proceedings, and their role therein as well as the outcome of their cases;
b    ensuring, at least in cases where the victims and their families might be in danger, that they may be informed, if necessary, when the person prosecuted or convicted is released temporarily or definitively;

c    enabling them, in a manner consistent with the procedural rules of internal law, to be heard, to supply evidence and to choose the means of having their views, needs and concerns presented, directly or through an intermediary, and considered;
d    providing them with appropriate support services so that their rights and interests are duly presented and taken into account;

e    protecting their privacy, their identity and their image and by taking measures in accordance with internal law to prevent the public dissemination of any information that could lead to their identification;

f    providing for their safety, as well as that of their families and witnesses on their behalf, from intimidation, retaliation and repeat victimisation;
g    ensuring that contact between victims and perpetrators within court and law enforcement agency premises is avoided, unless the competent authorities establish otherwise in the best interests of the child or when the investigations or proceedings require such contact.

2     Each Party shall ensure that victims have access, as from their first contact with the competent authorities, to information on relevant judicial and administrative proceedings.

3     Each Party shall ensure that victims have access, provided free of charge where warranted, to legal aid when it is possible for them to have the status of parties to criminal proceedings.

4     Each Party shall provide for the possibility for the judicial authorities to appoint a special representative for the victim when, by internal law, he or she may have the status of a party to the criminal proceedings and where the holders of parental responsibility are precluded from representing the child in such proceedings as a result of a conflict of interest between them and the victim.

5     Each Party shall provide, by means of legislative or other measures, in accordance with the conditions provided for by its internal law, the possibility for groups, foundations, associations or governmental or non-governmental organisations, to assist and/or support the victims with their consent during criminal proceedings concerning the offences established in accordance with this Convention.

6     Each Party shall ensure that the information given to victims in conformity with the provisions of this article is provided in a manner adapted to their age and maturity and in a language that they can understand.

Article 32 – Initiation of proceedings


Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that investigations or prosecution of offences established in accordance with this Convention shall not be dependent upon the report or accusation made by a victim, and that the proceedings may continue even if the victim has withdrawn his or her statements.

Article 33 – Statute of limitation


Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that the statute of limitation for initiating proceedings with regard to the offences established in accordance with Articles 18, 19, paragraph 1.a and b, and 21, paragraph 1.a and b, shall continue for a period of time sufficient to allow the efficient starting of proceedings after the victim has reached the age of majority and which is commensurate with the gravity of the crime in question.

Article 34 – Investigations


1     Each Party shall adopt such measures as may be necessary to ensure that persons, units or services in charge of investigations are specialised in the field of combating sexual exploitation and sexual abuse of children or that persons are trained for this purpose. Such units or services shall have adequate financial resources.


2     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that uncertainty as to the actual age of the victim shall not prevent the initiation of criminal investigations.


Article 35 – Interviews with the child


1     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that:

a    interviews with the child take place without unjustified delay after the facts have been reported to the competent authorities;
b    interviews with the child take place, where necessary, in premises designed or adapted for this purpose;
c    interviews with the child are carried out by professionals trained for this purpose;
d    the same persons, if possible and where appropriate, conduct all interviews with the child;
e    the number of interviews is as limited as possible and in so far as strictly necessary for the purpose of criminal proceedings;
f    the child may be accompanied by his or her legal representative or, where appropriate, an adult of his or her choice, unless a reasoned decision has been made to the contrary in respect of that person.

2     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that all interviews with the victim or, where appropriate, those with a child witness, may be videotaped and that these videotaped interviews may be accepted as evidence during the court proceedings, according to the rules provided by its internal law.


3     When the age of the victim is uncertain and there are reasons to believe that the victim is a child, the measures established in paragraphs 1 and 2 shall be applied pending verification of his or her age.

Article 36 – Criminal court proceedings


1     Each Party shall take the necessary legislative or other measures, with due respect for the rules governing the autonomy of legal professions, to ensure that training on children's rights and sexual exploitation and sexual abuse of children is available for the benefit of all persons involved in the proceedings, in particular judges, prosecutors and lawyers.

2     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure, according to the rules provided by its internal law, that:

a    the judge may order the hearing to take place without the presence of the public;
b    the victim may be heard in the courtroom without being present, notably through the use of appropriate communication technologies.

Chapter VIII – Recording and storing of data

Article 37 – Recording and storing of national data on convicted sexual offenders1     For the purposes of prevention and prosecution of the offences established in accordance with this Convention, each Party shall take the necessary legislative or other measures to collect and store, in accordance with the relevant provisions on the protection of personal data and other appropriate rules and guarantees as prescribed by domestic law, data relating to the identity and to the genetic profile (DNA) of persons convicted of the offences established in accordance with this Convention.


2     Each Party shall, at the time of signature or when depositing its instrument of ratification, acceptance, approval or accession, communicate to the Secretary General of the Council of Europe the name and address of a single national authority in charge for the purposes of paragraph 1.

3     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that the information referred to in paragraph 1 can be transmitted to the competent authority of another Party, in conformity with the conditions established in its internal law and the relevant international instruments.


Chapter IX – International co-operation

Article 38 – General principles and measures for international co-operation


1     The Parties shall co-operate with each other, in accordance with the provisions of this Convention, and through the application of relevant applicable international and regional instruments, arrangements agreed on the basis of uniform or reciprocal legislation and internal laws, to the widest extent possible, for the purpose of:
a    preventing and combating sexual exploitation and sexual abuse of children;
b    protecting and providing assistance to victims;
c    investigations or proceedings concerning the offences established in accordance with this Convention.

2     Each Party shall take the necessary legislative or other measures to ensure that victims of an offence established in accordance with this Convention in the territory of a Party other than the one where they reside may make a complaint before the competent authorities of their State of residence.


3     If a Party that makes mutual legal assistance in criminal matters or extradition conditional on the existence of a treaty receives a request for legal assistance or extradition from a Party with which it has not concluded such a treaty, it may consider this Convention the legal basis for mutual legal assistance in criminal matters or extradition in respect of the offences established in accordance with this Convention.

4     Each Party shall endeavour to integrate, where appropriate, prevention and the fight against sexual exploitation and sexual abuse of children in assistance programmes for development provided for the benefit of third states.

Chapter X – Monitoring mechanism


Article 39 – Committee of the Parties


1     The Committee of the Parties shall be composed of representatives of the Parties to the Convention.

2     The Committee of the Parties shall be convened by the Secretary General of the Council of Europe. Its first meeting shall be held within a period of one year following the entry into force of this Convention for the tenth signatory having ratified it. It shall subsequently meet whenever at least one third of the Parties or the Secretary General so requests.

3     The Committee of the Parties shall adopt its own rules of procedure.

Article 40 – Other representatives


1     The Parliamentary Assembly of the Council of Europe, the Commissioner for Human Rights, the European Committee on Crime Problems (CDPC), as well as other relevant Council of Europe intergovernmental committees, shall each appoint a representative to the Committee of the Parties.

2     The Committee of Ministers may invite other Council of Europe bodies to appoint a representative to the Committee of the Parties after consulting the latter.

3     Representatives of civil society, and in particular non-governmental organisations, may be admitted as observers to the Committee of the Parties following the procedure established by the relevant rules of the Council of Europe.

4     Representatives appointed under paragraphs 1 to 3 above shall participate in meetings of the Committee of the Parties without the right to vote.

Article 41 – Functions of the Committee
of the Parties


1     The Committee of the Parties shall monitor the implementation of this Convention. The rules of procedure of the Committee of the Parties shall determine the procedure for evaluating the implementation of this Convention.

2     The Committee of the Parties shall facilitate the collection, analysis and exchange of information, experience and good practice between States to improve their capacity to prevent and combat sexual exploitation and sexual abuse of children.


3     The Committee of the Parties shall also, where appropriate:
a    facilitate the effective use and implementation of this Convention, including the identification of any problems and the effects of any declaration or reservation made under this Convention;
b    express an opinion on any question concerning the application of this Convention and facilitate the exchange of information on significant legal, policy or technological developments.

4     The Committee of the Parties shall be assisted by the Secretariat of the Council of Europe in carrying out its functions pursuant to this article.

5     The European Committee on Crime Problems (CDPC) shall be kept periodically informed regarding the activities mentioned in paragraphs 1, 2 and 3 of this article.

Chapter XI – Relationship with other international instruments


Article 42 –      Relationship with the United Nations Convention on the Rights of the Child and its Optional Protocol on the sale of children, child prostitution and child pornography


This Convention shall not affect the rights and obligations arising from the provisions of the United Nations Convention on the Rights of the Child and its Optional Protocol on the sale of children, child prostitution and child pornography, and is intended to enhance the protection afforded by them and develop and complement the standards contained therein.

Article 43 – Relationship with other international instruments


1     This Convention shall not affect the rights and obligations arising from the provisions of other international instruments to which Parties to the present Convention are Parties or shall become Parties and which contain provisions on matters governed by this Convention and which ensure greater protection and assistance for child victims of sexual exploitation or sexual abuse.

2     The Parties to the Convention may conclude bilateral or multilateral agreements with one another on the matters dealt with in this Convention, for purposes of supplementing or strengthening its provisions or facilitating the application of the principles embodied in it.

3     Parties which are members of the European Union shall, in their mutual relations, apply Community and European Union rules in so far as there are Community or European Union rules governing the particular subject concerned and applicable to the specific case, without prejudice to the object and purpose of the present Convention and without prejudice to its full application with other Parties.Chapter XII – Amendments to the Convention

Article 44 – Amendments


1     Any proposal for an amendment to this Convention presented by a Party shall be communicated to the Secretary General of the Council of Europe and forwarded by him or her to the member States of the Council of Europe, any signatory, any State Party, the European Community, any State invited to sign this Convention in accordance with the provisions of Article 45, paragraph 1, and any State invited to accede to this Convention in accordance with the provisions of Article 46, paragraph 1.

2     Any amendment proposed by a Party shall be communicated to the European Committee on Crime Problems (CDPC), which shall submit to the Committee of Ministers its opinion on that proposed amendment.

3     The Committee of Ministers shall consider the proposed amendment and the opinion submitted by the CDPC and, following consultation with the non-member States Parties to this Convention, may adopt the amendment.


4     The text of any amendment adopted by the Committee of Ministers in accordance with paragraph 3 of this article shall be forwarded to the Parties for acceptance.

5     Any amendment adopted in accordance with paragraph 3 of this article shall enter into force on the first day of the month following the expiration of a period of one month after the date on which all Parties have informed the Secretary General that they have accepted it.

Chapter XIII – Final clauses

Article 45 – Signature and entry into force


1     This Convention shall be open for signature by the member States of the Council of Europe, the non-member States which have participated in its elaboration as well as the European Community.

2     This Convention is subject to ratification, acceptance or approval. Instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Secretary General of the Council of Europe.

3     This Convention shall enter into force on the first day of the month following the expiration of a period of three months after the date on which 5 signatories, including at least 3 member States of the Council of Europe, have expressed their consent to be bound by the Convention in accordance with the provisions of the preceding paragraph.

4     In respect of any State referred to in paragraph 1 or the European Community, which subsequently expresses its consent to be bound by it, the Convention shall enter into force on the first day of the month following the expiration of a period of three months after the date of the deposit of its instrument of ratification, acceptance or approval.

Article 46 – Accession to the Convention


1     After the entry into force of this Convention, the Committee of Ministers of the Council of Europe may, after consultation of the Parties to this Convention and obtaining their unanimous consent, invite any non-member State of the Council of Europe, which has not participated in the elaboration of the Convention, to accede to this Convention by a decision taken by the majority provided for in Article 20.d of the Statute of the Council of Europe, and by unanimous vote of the representatives of the Contracting States entitled to sit on the Committee of Ministers.

2     In respect of any acceding State, the Convention shall enter into force on the first day of the month following the expiration of a period of three months after the date of deposit of the instrument of accession with the Secretary General of the Council of Europe.

Article 47 – Territorial application


1     Any State or the European Community may, at the time of signature or when depositing its instrument of ratification, acceptance, approval or accession, specify the territory or territories to which this Convention shall apply.

2     Any Party may, at any later date, by a declaration addressed to the Secretary General of the Council of Europe, extend the application of this Convention to any other territory specified in the declaration and for whose international relations it is responsible or on whose behalf it is authorised to give undertakings. In respect of such territory, the Convention shall enter into force on the first day of the month following the expiration of a period of three months after the date of receipt of such declaration by the Secretary General.

3     Any declaration made under the two preceding paragraphs may, in respect of any territory specified in such declaration, be withdrawn by a notification addressed to the Secretary General of the Council of Europe. The withdrawal shall become effective on the first day of the month following the expiration of a period of three months after the date of receipt of such notification by the Secretary General.

Article 48 – Reservations


No reservation may be made in respect of any provision of this Convention, with the exception of the reservations expressly established. Any reservation may be withdrawn at any time.

Article 49 – Denunciation


1     Any Party may, at any time, denounce this Convention by means of a notification addressed to the Secretary General of the Council of Europe.

2     Such denunciation shall become effective on the first day of the month following the expiration of a period of three months after the date of receipt of the notification by the Secretary General.

Article 50 – Notification


The Secretary General of the Council of Europe shall notify the member States of the Council of Europe, any State signatory, any State Party, the European Community, any State invited to sign this Convention in accordance with the provisions of Article 45 and any State invited to accede to this Convention in accordance with the provisions of Article 46 of:
a     any signature;
b    the deposit of any instrument of ratification, acceptance, approval or accession;
c    any date of entry into force of this Convention in accordance with Articles 45 and 46;
d    any amendment adopted in accordance with Article 44 and the date on which such an amendment enters into force;
e    any reservation made under Article 48;
f    any denunciation made in pursuance of the provisions of Article 49;
g    any other act, notification or communication relating to this Convention.


In witness whereof the undersigned, being duly authorised thereto, have signed this Convention.

Done at Lanzarote, this 25th day of October 2007, in English and in French, both texts being equally authentic, in a single copy which shall be deposited in the archives of the Council of Europe. The Secretary General of the Council of Europe shall transmit certified copies to each member State of the Council of Europe, to the non-member States which have participated in the elaboration of this Convention, to the European Community and to any State invited to accede to this Convention.