Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 354. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 430  —  354. mál.




Beiðni um skýrslu



frá innanríkisráðherra um Schengen-samstarfið.



Frá Bjarna Benediktssyni, Ólöfu Nordal, Ragnheiði E. Árnadóttur,
Illuga Gunnarssyni, Einari K. Guðfinnssyni, Þorgerði K. Gunnarsdóttur,
Ragnheiði Ríkharðsdóttur, Kristjáni Þór Júlíussyni og Ásbirni Óttarssyni.

    
    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 53. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að innanríkisráðherra flytji Alþingi skýrslu um Schengen-samstarfið.
    Í skýrslunni verði varpað ljósi á:
     1.      Kosti og galla samstarfsins.
     2.      Áhrif á framkvæmd landamæravörslu og eftirlit með alþjóðlegum glæpamönnum.
     3.      Áhrif vegna stækkunar Schengen-svæðisins.
     4.      Sérstakar hættur sem ráðherra telur að huga verði að.
     5.      Kostnað vegna þátttöku í samstarfinu og samanburð við kostnað vegna landamæravörslu íslenska ríkisins stæði það utan Schengen-svæðisins.

Greinargerð.

    Nauðsynlegt er að meta stöðu Íslands í Schengen-samstarfinu, en á þessu ári voru liðin tíu ár frá því að samkomulagið gekk í gildi hér á landi. Hefur takmarkað vegabréfaeftirlit með þegnum þeirra þjóða sem aðild eiga að samkomulaginu sætt nokkurri gagnrýni. Rétt er að gera úttekt á því hverjir eru helstu kostir og gallar við samstarfið fyrir Íslendinga sem og hver ávinningur þjóðarinnar er af þátttökunni samanborið við að standa utan samkomulagsins og sinna verkefnum þess sjálf. Í því sambandi er nauðsynlegt að lagðar verði fram upplýsingar um þann kostnað sem aðild Íslands að Schengen-samstarfinu hefur haft í för með sér fyrir ríkissjóð frá því að samkomulagið tók gildi. Jafnframt að lagt verði mat á það hver kostnaður ríkissjóðs af því eftirliti sem Schengen-samstarfið mælir fyrir um væri stæði Ísland utan samkomulagsins. Enn fremur er nauðsynlegt að við gerð skýrslunnar verði lagt mat á mikilvægi aðgangs íslensku lögreglunnar að upplýsingum sem Schengen-samstarfið tryggir og mikilvægi samstarfs íslensku lögreglunnar við erlend lögregluyfirvöld á grundvelli þess.