Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 373. máls.

Þingskjal 449  —  373. mál.Tillaga til þingsályktunar

um samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB (IPA).

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að samþykkja rammasamning milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB (IPA).

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað eftir heimild Alþingis til að samþykkja rammasamning milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB (IPA) sem undirritaður var 8. júlí sl. Samningurinn er birtur sem fylgiskjal með tillögunni.
    Samningurinn er gerður í samræmi við regluverk ESB og fjallar í stórum dráttum um viðtöku IPA-styrkja og eftirlit með ráðstöfun þeirra, en sams konar samningur hefur verið gerður við öll ríki sem sótt hafa um aðild að ESB eftir 1994, auk Tyrkja.
    Samningurinn gerir ráð fyrir að öll aðstoð renni óskipt til þeirra verkefna sem þeim er ætlað að styðja. Enginn hluti IPA-aðstoðar rennur því til að greiða skatta eða önnur opinber gjöld og mun fjármálaráðherra leita eftir viðeigandi breytingum á skattalögum í því skyni með sérstöku frumvarpi.
    Það er venja að alþjóðastofnanir gera samninga við yfirvöld þeirra ríkja (gistiríkja) sem þær eru staðsettar í. Þessir samningar kveða á um friðhelgisréttindi, t.d. um friðhelgi skrifstofuhúsnæðis, útsendra starfsmanna og undanþágur frá tollum, sköttum og öðrum opinberum gjöldum. Þetta er grundvallarregla í milliríkjasamskiptum sem byggist á gagnkvæmni. Hún gerir starfsemi sendiskrifstofa, alþjóðastofnana og ýmiss konar alþjóðlega aðstoð, þ.m.t. þróunaraðstoð, greiðari og ódýrari.
    Samningurinn byggist á þessum sömu grundvallarsjónarmiðum. Þannig skulu einstaklingar sem ekki eru búsettir hér á landi en samið er við um að veita þjónustu eða vinnu sem fjármögnuð er af IPA-aðstoð ekki greiða tekjuskatt hér á landi af starfi sem unnið er á grundvelli slíks samnings. Að meginstefnu er því hér um að ræða sams konar réttindi og skyldur og almennt gilda gagnvart tæknilegu starfsliði sendiráða og alþjóðlegra stofnana sem hér starfa. Hinu sama gegnir um önnur opinber gjöld.
    Þá eru í samningnum ýmsar heimildir til að hafa eftirlit með því hvernig styrkjunum er varið. Þar er um að ræða sams konar eftirlit og endurskoðun á ráðstöfun fjármuna úr áætlunum ESB sem Ísland hefur veitt viðtöku á grundvelli EES-samningsins síðastliðin 18 ár.

Samandregið.
    
Inntak samningsins er fólgið í eftirtöldum atriðum:
     *      Stjórnun IPA-aðstoðar, hlutverki landstengiliðs (NIPAC) og umsjónarnefndar með framkvæmd IPA-verkefna (I. og II. þáttur, 8. gr.)
     *      Almennum skilyrðum fyrir styrkveitingum (5. gr.)
     *      Styrkhæfi verkefna (6. gr.)
     *      Viðmiðunum um mótframlög (7. gr.)
     *      Útboði verkefna á EES, meðal umsóknarríkja og mögulegra umsóknarríkja (9. gr.)
     *      Gegnsæi í vali á verkefnum (10. gr.)
     *      Sýnileika verkefna sem styrkt eru (10. gr.)
     *      Tímabundinni dvöl útlendinga sem bjóða í og fá verk á grundvelli samningsins (11. gr.)
     *      Undanþágu IPA-styrkja frá opinberum gjöldum (12. gr.)
     *      Yfirumsjón, eftirliti og endurskoðunarheimildum (13. og 15. gr.)
     *      Fráviki og vörnum gegn misferli (14. gr.)
     *      Úrlausn ágreiningsmála (V. þáttur)

Inntak samningsins.
    Samningurinn skiptist í fimm þætti. Auk almennra ákvæða í inngangi tekur hann til stjórnunarþátta, reglna um fjárhagsaðstoð, reglna um framkvæmd aðstoðarinnar og eftirlits með meðferð þess fjár sem móttekið hefur verið.

I. þáttur Almenn ákvæði.
    Í I. þætti samningsins er áréttað að samningsaðilar skuldbindi sig til að verja stuðningnum í samræmi við ákvæði samningsins og reglugerð ráðherraráðsins nr. 1085/2006, um IPA, og reglugerð ráðherraráðsins nr. 718/2007, um framkvæmd IPA.
    Hugtakanotkun í samningnum er í samræmi við þá sem notuð er í þessum reglugerðum.

II. þáttur Stjórnun.
    Samkvæmt II. þætti skuldbinda stjórnvöld sig til að tilnefna landstengilið (e. National IPA Coordinator, skammstafað NIPAC) til að koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart framkvæmdastjórninni. Hann skal hafa yfirumsjón með framkvæmd IPA-styrkveitinga og tryggja að tilskilið samhengi og samræmi sé milli umsóknarferlisins og styrkáætlana.

III. þáttur Almennar reglur um fjárhagslega aðstoð.
    Í III. þætti er að finna almenn skilyrði fyrir styrkveitingum, styrkhæfi verkefna og viðmiðanir um mótframlög.

IV. þáttur Framkvæmd verkefna.
Framkvæmd og stjórn.
    Í 8. gr. kemur fram að framkvæmdastjórnin annist stýringu á aðstoð við Ísland (e. centralised management). Kemur það til af því að aðstoð við Ísland er í samanburði við önnur umsóknarríki afar takmörkuð. Til einföldunar og hagræðingar mun framkvæmdastjórnin því sjálf annast þá umsjón sem stjórnvöldum í öðrum umsóknarríkjum er gert að sinna sjálfum (e. decentralised management) með tilheyrandi viðurkenningum (e. accreditation) og undirbúningi fyrir hana. Gerður verður sérstakur fjármögnunarsamningur (e. Financing Agreement) um hvert það verkefni sem styrkt verður af IPA-aðstoð. Af þessu fyrirkomulagi leiðir að engar nýjar stofnanir þarf að byggja upp innan stjórnkerfisins af þessum sökum hér á landi líkt og gert hefur verið í öðrum umsóknarríkjum.

Innkaup.
    Í samræmi 9. gr. skulu öll kaup á vöru og þjónustu yfir ákveðnum mörkum boðin út á Evrópska efnahagssvæðinu og meðal annarra umsóknarríkja (Króatíu, Makedóníu og Tyrklandi) og mögulegra umsóknarríkja (Albaníu, Bosníu-Hersegóvínu, Serbíu, þ.m.t. Kósóvó, og Svartfjallalandi). Aðilar sem hafa staðfestu í þessum ríkjum geta því allir boðið í verk af þessu tagi. Mikilvægt er að gagnkvæmni ríki um aðgang að slíkum verkefnum, enda eiga íslenskir aðilar sömu tækifæri til að bjóða í og hafa fengið verk af þessu tagi í öðrum umsóknarríkjum. Af framangreindu leiðir að framkvæmdastjórnin annast sjálf þessi útboð, nema um ráðstöfun á beinum styrk sé að ræða.

Gegnsæi og sýnileiki.
    Í 10. gr. er fjallað um gegnsæi í vali á verkefnum og ákveðnar kröfur gerðar um kynningu og sýnileika þeirra verkefna sem fjármögnuð eru.

Framkvæmd áætlana og verkefna.
    Í 11. gr. eru ákveðnar kvaðir lagðar á styrkþega varðandi framkvæmd stuðningsáætlana og einstakra verkefna. Að meginstefnu er hér um að ræða sams konar réttindi og skyldur og mundu gilda gagnvart tæknilegu starfsliði sendiráða og alþjóðlegra stofnana sem hér starfa. Í fyrsta lagi skal gera þeim sem óskar að bjóða í tiltekið verk sem nýtur stuðnings kleift að koma hingað og dvelja hér tímabundið, ef samningurinn krefst þess. Gagnvart tilboðsgjöfum gildir þetta eingöngu eftir að verk er boðið út og þar til mánuði eftir að ákveðið hefur verið við hvern verði samið. Í öðru lagi skulu starfsmenn verkefna sem fjármögnuð eru af IPA- aðstoð og fjölskyldur þeirra njóta hér sambærilegra kjara og starfsmenn alþjóðastofnana á Íslandi. Í þriðja lagi skulu starfsmenn slíkra verkefna og fjölskyldur þeirra eiga rétt á að koma hingað, dvelja hér og vinna og yfirgefa landið í samræmi við það sem samningur um viðkomandi verk kveður á um. Af Íslands hálfu var til einföldunar óskað eftir að við þetta ákvæði bættist ákvæði er takmarkaði þennan rétt við það sem landslög leyfa á hverjum tíma og gekk það eftir. Í fjórða lagi ber að heimila innflutning hvers lags varnings, sér í lagi tækjabúnaðar, sem er nauðsynlegur vegna verkefnis. Í fimmta lagi skal slíkur innflutningur vera tollfrjáls og undanþeginn aðflutningsgjöldum. Í sjötta lagi þarf að heimila útflutning sömu tækja aftur. Í sjöunda lagi þarf að vera heimilt að flytja fjármagn til landsins í þágu viðkomandi verkefnis og virkur gjaldeyrisskiptamarkaður að vera fyrir hendi. Loks ber að heimila að flytja heim fé sem greitt hefur verið fyrir vinnu fjármagnaða af IPA í samræmi við þær reglur sem um það kunna að gilda á Íslandi.

Opinber gjöld.
    Gerð er krafa til að IPA-aðstoð renni óskipt til þeirra verkefna sem henni er ætlað að styðja. Af því leiðir að IPA-aðstoð er ekki ætlað að renna til greiðslu opinberra gjalda. Í 12. gr. er þess vegna að finna ákvæði um að öll IPA-aðstoð sé undanþegin hvers kyns opinberum gjöldum.
    Nánar tiltekið varða þessi ákvæði alla aðila, hvort heldur einstaklinga eða lögaðila, sem samið er við um að veita þjónustu, framkvæma verk eða útvega búnað eða annan varning og greitt er fyrir með IPA-aðstoð. Í samningnum eru þessir aðilar nefndir ESB-verktakar (e. EU contractor).
    Allur innflutningur á grundvelli slíkra samninga skal undanþeginn tollum og aðflutningsgjöldum, virðisaukaskatti og öðrum sköttum og gjöldum. Þá skal öll framkvæmd verks, sala vöru eða veiting þjónustu á grundvelli slíkra samninga undanþegin virðisaukaskatti. Einstaklingar sem ekki eru búsettir hér á landi en samið er við um að veita þjónustu eða vinnu sem fjármögnuð er af ESB skulu ekki greiða tekjuskatt hér á landi af starfi sem unnið er á grundvelli slíks samnings. Þetta er sama regla og almennt gildir um starfsmenn sendiráða og alþjóðastofnana á Íslandi og íslenskt starfslið alþjóðlegra stofnana í öðrum löndum. Sama á við um lögaðila sem ekki hafa staðfestu hér á landi. Þessi undanþága á ekki við um vinnu eða þjónustu einstaklinga og lögaðila sem eru búsettir hér á landi eða hafa hér staðfestu. Persónulegir munir og búslóð nánustu fjölskyldu einstaklinga sem ráðnir eru á grundvelli samninga um tæknilega aðstoð skal við innflutning undanþegin tollum, aðflutningsgjöldum, sköttum og öðrum gjöldum, enda sé hún flutt aftur út þegar samningssambandinu lýkur eða eyðilögð. Þeir sem samið er við á þessum forsendum, aðrir en staðarráðnir, skulu njóta sömu eða sams konar réttinda og annað starfslið eða verktakar sem veita tæknilega aðstoð á grundvelli tví- eða marghliða samninga. Í því felst þó ekki að þeir skuli njóta diplómatískra réttinda.
    Stjórnvöld skuldbinda sig jafnframt til að leita eftir viðeigandi lagabreytingum til að hrinda skattákvæðunum í framkvæmd.

Yfirumsjón, eftirlit og endurskoðun.
    Í 13. gr. er fjallað um eftirlits- og endurskoðunarheimildir framkvæmdastjórnarinnar og endurskoðunardómstóls Evrópusambandsins. Þetta eru sams konar heimildir og sömu aðilar hafa haft til að endurskoða og hafa eftirlit með ráðstöfun styrkja sem veitt hefur verið viðtaka á grundvelli rannsóknaáætlana ESB allt frá gildistöku EES-samningsins fyrir 18 árum síðan. Samkvæmt þessari grein eru allir fjármögnunarsamningar og áætlanir og undirliggjandi samningar undirorpin yfirumsjón og eftirliti framkvæmdastjórnarinnar, þar á meðal OLAF (e. European Anti-fraud Office), og endurskoðun evrópska endurskoðunardómstólsins. Í því skyni skulu fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar geta gert tæknilegar og fjárhagslegar skoðanir á framkvæmd verkefna, þ.m.t. heimsótt þá staði þar sem verkefnið fer fram. Framkvæmdastjórninni ber þó að gera stjórnvöldum viðvart áður en slíkar heimsóknir fara fram. Þá ber styrkþeganum að láta í té allar umbeðnar upplýsingar og skjöl, þar á meðal tölvutækar upplýsingar, og gera allar viðeigandi ráðstafanir til að auðvelda skoðanir og heimsóknir í þágu endurskoðunar.
    Styrkþegum ber í samræmi við góðar bókhaldsvenjur að sjá til þess að haldið sé skipulega utan um öll gögn og reikninga sem varða þjónustu, aðföng, framkvæmdir eða styrki sem fjármagnaðir eru af IPA. Styrkþegum ber jafnframt að tryggja að starfsmenn framkvæmdastjórnarinnar og OLAF hafi aðgang að öllum nauðsynlegum skjölum og reikningum sem eru fjármagnaðir af IPA-aðstoð og aðstoða evrópska endurskoðunardómstólinn við að fylgjast með meðferð fjármuna sem ESB veitir til IPA-aðstoðar. Þá skal framkvæmdastjórninni og OLAF heimilt að heimsækja styrkþega án fyrirvara og skoða skjöl og önnur gögn. Þessar heimsóknir skulu undirbúnar í samvinnu við þar til bær yfirvöld sem stjórnvöld tilnefna. Þeim ber að tilkynna um fyrirhugaðar heimsóknir með fyrirvara, þar á meðal um tilgang þeirra, markmið og lagalegan grundvöll fyrir heimsókninni til að þau geti veitt viðeigandi aðstoð. Stjórnvöldum ber enn fremur að tilnefna aðila sem aðstoðar OLAF við framkvæmd slíkra heimsókna. Ef stjórnvöld óska geta heimsóknir farið fram í samstarfi við þau. Styrkþega skal gert kunnugt um niðurstöður skoðunar, jafnvel þótt ekkert sé kunnugt um neitt misjafnt.
    Þessi grein tekur til allra verktaka og undirverktaka sem veitt hafa styrkjum viðtöku. Sams konar kröfur hafa verið gerðar um eftirlit með styrkjum sem veitt hefur verið viðtaka á grundvelli rannsóknaáætlunar Evrópusambandsins.

Varnir við frávikum og svikum, aðgerðir gegn misferli.
    Í 14. gr. er fjallað um frávik, svik og misferli og hvað hægt er að gera til að verjast því að nokkuð fari úrskeiðis við framkvæmd verkefna. Í þessu skyni er gerð krafa til að stjórnvöld sjái til þess að grunur um frávik og hvers kyns misferli sé rannsakað og fái viðeigandi meðferð. Stjórnvöldum er sömuleiðis skylt að bregðast við til að koma í veg fyrir og upplýsa um hvers kyns spillingu þegar verk er boðið út eða styrk ráðstafað eða þegar samningar á þeim grundvelli eru gerðir. Stjórnvöldum og starfsmönnum þeirra er enn fremur skylt að gæta að hæfi sínu og forðast hvers kyns hagsmunaárekstra. Loks eru hugtökin frávik, svik og virk og óvirk spilling skilgreind.

Umsjón og eftirlit.
    Með 15. gr. er komið á fót sérstakri umsjónarnefnd til að fylgjast með og hafa yfirumsjón með framkvæmd IPA-verkefna. Nefndin skal fylgjast með skilvirkni, gæðum og samhæfingu IPA-verkefna og að þau uppfylli þau markmið sem IPA-styrkjum eru sett. Nefndin lýtur sameiginlegri forustu NIPAC og fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar og aðrir fulltrúar eru skipaðir eftir samkomulagi þeirra.

Lok áætlana og verkefna.
    Samkvæmt 16. gr. er áætlun lokið þegar öllum samningum er lokið og allir styrkir greiddir út. Í greininni er nánar tilgreint hvernig verkefni samkvæmt áætlun telst vera lokið. Um það verða settar nánari reglur.

V. þáttur Lokaákvæði.
Samráð/viðræður.
    Í 17. gr. er að finna ákvæði um að úr ágreiningi skuli leyst í viðræðum milli aðila. Breyta megi samningnum til að leysa úr honum eftir atvikum. Hafi skuldbindingar samkvæmt samningnum ekki verið uppfylltar á réttum tíma getur framkvæmdastjórnin fellt niður fjármögnun verkefnis eftir slíkar viðræður. Stjórnvöld geta jafnframt fallið frá framkvæmd verkefnis að hluta eða í heild.

Úrlausn ágreiningsmála, gerðardómur.
    Í 18. gr. er áréttað að ágreiningur um túlkun, útfærslu eða framkvæmd samningsins skuli leystur með viðræðum milli aðila, sbr. 17. gr. Takist hins vegar ekki að leysa ágreining með viðræðum geti hvor aðili um sig skotið ágreiningi til úrlausnar eftir tilteknum reglum Alþjóðagerðardómstólsins í Haag. Samkvæmt þeim skal hvor aðili um sig tilnefna einn fulltrúa til að taka sæti í gerðardómnum og þeir komast að samkomulagi um oddamann, sem jafnframt er formaður dómsins. Gerðir slíks dóms eru bindandi fyrir báða aðila og verður ekki skotið lengra.

Ágreiningur við þriðja aðila.
    Samkvæmt 19. gr. skal Evrópusambandið njóta friðhelgi gagnvart lögsókn og lögsögu íslenskra dómstóla vegna ágreinings við þriðja aðila eða vegna ágreinings milli þriðju aðila er varðar á beinan eða óbeinan hátt IPA-aðstoð sem veitt er samkvæmt samningnum. Evrópusambandið getur þó afsalað sér þessari friðhelgi. Skuldbinding um þetta er í samræmi við 1. gr. laga nr. 98/1992, um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana. Stjórnvöld skuldbinda sig jafnframt til að verja þessa friðhelgi og taka þá afstöðu til ágreiningsefnisins er ver hagsmuni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Stjórnvöld og framkvæmdastjórnin skulu að því marki sem nauðsynlegt er hafa samráð um hvaða afstaða er tekin.
    Sams konar ákvæði er almennt í öllum rammasamningum sem framkvæmdastjórnin gerir af þessu tagi og ver hana gegn lögsókn í viðkomandi ríki á grundvelli samninga sem hún hefur gert um fjármögnun einstakra verkefna. Á hinn bóginn er ekkert sem kemur í veg fyrir að henni verði stefnt fyrir dóm á eigin varnarþingi í Belgíu.

Tilkynningar.
    Í 20. gr. er fjallað um á hvern hátt aðilar skulu hafa samskipti um allt er varðar framkvæmd samningsins.

Gildistaka.
    Samkvæmt 21. gr. öðlast samningurinn gildi á þeim degi sem samningsaðilar tilkynna hvor öðrum um að uppfyllt hafi verið öll stjórnskipuleg skilyrði til að hrinda honum í framkvæmd.

Breytingar og uppsögn.
    Í 22. og 23. gr. er fjallað um hvernig samningnum verði breytt og sagt upp. Samningurinn er ótímabundinn og fellur ekki úr gildi fyrr en annar hvor samningsaðila tilkynnir hinum skriflega um uppsögn hans. Öllum verkefnum, sem styrkt eru í samræmi við þennan samning og ekki er lokið þegar honum er sagt upp, skal haldið áfram til enda í samræmi við efni samningsins.
    Samkvæmt 24. gr. er samningurinn gerður í tveimur samhljóða eintökum á ensku.Fylgiskjal.


RAMMASAMNINGUR

MILLI
RÍKISSTJÓRNAR ÍSLANDS
OG

FRAMKVÆMDASTJÓRNAR EVRÓPUSAMBANDSINS
UM

REGLUR UM SAMSTARF ER VARÐAR FJÁRHAGSAÐSTOÐ ESB VIÐ ÍSLAND INNAN RAMMA STUÐNINGSAÐGERÐA SJÓÐS ER FJÁRMAGNAR AÐSTOÐ VIÐ UMSÓKNARRÍKI ESB (IPA)


Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hér á eftir nefnd „framkvæmdastjórnin“, sem kemur fram fyrir hönd Evrópusambandsins, hér á eftir nefnt „ESB“, annars vegar

og

ríkisstjórn Íslands, sem kemur fram fyrir hönd Íslands, hér á eftir nefnd „aðstoðarþegi“ hins vegar

sem saman nefnast hér á eftir „samningsaðilar“,

að teknu tilliti til eftirfarandi:

1.        hinn 1. ágúst 2006 samþykkti ráð Evrópusambandsins reglugerð (EB) nr. 1085/2006 frá 17. júlí 2006 1 um að stofna sjóð til að fjármagna aðstoð við umsóknarríki ESB (hér á eftir nefnd „IPA-rammareglugerð“), frá og með 1. janúar 2007 er gerningur þessi sá eini lagagrundvöllur sem fjárhagsaðstoð við umsóknarríki og hugsanleg umsóknarríki hvílir á, þ.e. fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu,

2.        hinn 12. júní 2007 samþykkti framkvæmdastjórnin reglugerð (EB) nr. 718/2007 2 til framkvæmdar IPA-rammareglugerðinni, þar sem gildandi ákvæði um framkvæmd og eftirlit eru útskýrð í smáatriðum (hér á eftir nefnd „IPA-framkvæmdarreglugerð“),

3.        aðstoðarþeginn er aðstoðarhæfur samkvæmt reglum IPA eins og kveðið er á um í IPA- rammareglugerðinni og IPA-framkvæmdarreglugerðinni,

4.        því ber nauðsyn til að setja reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við aðstoðarþegann samkvæmt reglum IPA,

HAFA ORÐIÐ ÁSÁTT UM EFTIRFARANDI:

I. ÞÁTTUR ALMENN ÁKVÆÐI

1. gr. Túlkun.

1.        Hugtök, sem eru notuð í samningi þessum, skulu hafa sömu merkingu og þeim er gefin í IPA-rammareglugerðinni og IPA-framkvæmdarreglugerðinni, nema annað gangi ótvírætt fram af rammasamningi þessum.

2.        Líta ber á tilvísanir til samnings þessa sem tilvísanir til hans með áorðnum breytingum, viðbótum eða útskiptingum, nema annað komi ótvírætt fram.

3.        Allar vísanir til reglugerða ráðsins eða framkvæmdastjórnarinnar eru vísanir til þeirrar gerðar fyrrnefndra reglugerða sem vísað er til. Breytingar á fyrrnefndum reglugerðum skal, ef nauðsyn krefur, taka upp í rammasamning þennan sem breytingar á honum.

4.        Fyrirsagnir í samningi þessum hafa hvorki lagalega merkingu né áhrif á það með hvaða hætti hann er túlkaður.

2. gr. Ógilding að hluta og óviljandi eyður.

Jafnvel þótt ákvæði samnings þessa sé eða verði ógilt eða samningur þessi innihaldi óviljandi eyður hefur það engin áhrif á gildi annarra ákvæða samnings þessa. Í stað sérhvers ógilds ákvæðis skulu samningsaðilarnir fella inn í samninginn gilt ákvæði sem fer eins nálægt markmiði og tilgangi hins ógilda ákvæðis og frekast er unnt. Samningsaðilarnir skulu fylla í allar óviljandi eyður með ákvæði sem best hæfir markmiði og tilgangi samnings þessa og er í samræmi við IPA-rammareglugerðina og IPA-framkvæmdarreglugerðina.

3. gr. Markmið.

1.        Til að stuðla að samvinnu sín á milli og undirbúa aðstoðarþegann í áföngum fyrir staðla og stefnumið Evrópusambandsins, þ. á m. eftir því sem við á réttarreglur þess, með aðild í huga, eru samningsaðilar sammála um að hrinda í framkvæmd verkefnum á ýmsum sviðum eins og fram kemur í IPA-rammareglugerðinni og IPA-framkvæmdarreglugerðinni og eins og hæfir aðstoðarþeganum.

2.        Stuðningsaðgerðir skulu fjármagnaðar og hrint í framkvæmd í samræmi við þá lagalegu, stjórnsýslulegu og tæknilegu umgjörð sem mælt er fyrir um í samningi þessum og nánar er lýst í sviðstengdum samningum og/eða fjármögnunarsamningum, ef um þá er að ræða.

3.        Aðstoðarþeginn gerir allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggt sé að framkvæmd allra stuðningsaðgerða sé viðeigandi og til þess að greiða fyrir framgangi áætlana þeim tengdum.

II. ÞÁTTUR STJÓRNARSTOFNANIR

4. gr. Stofnun og tilnefning stjórnvalda sem annast miðlæga eða sameiginlega stjórn.

1.        Aðstoðarþeginn skal tilnefna landstengilið IPA (NIPAC) sem kemur fram sem fulltrúi aðstoðarþegans gagnvart framkvæmdastjórninni. Þessi fulltrúi skal vera háttsettur embættismaður hjá stjórnvöldum eða innan stjórnsýslu aðstoðarþegans.

2.        Landstengiliður IPA skal:

        a)    tryggja heildarsamræmingu stuðningsaðgerða IPA,

        b)    tryggja að náin tengsl haldist milli framkvæmdastjórnarinnar og aðstoðarþegans, bæði með tilliti til umsóknarferlisins almennt og til aðstoðar við umsóknarríki ESB samkvæmt reglum IPA,

        c)    bera heildarábyrgð á:

                –    að samfella og samræmi sé í þeim áætlunum sem reknar eru undir merkjum IPA,
                –    árlegri áætlanagerð vegna breytinga og stofnanauppbyggingar á landsvísu,
                –    samræmingu þátttöku aðstoðarþegans í viðkomandi áætlunum með aðildarríkjum og í fjölþjóðlegum áætlunum, millisvæðaáætlunum hvort sem er á landi eða legi eða úr öðrum ESB-sjóðum.

III. ÞÁTTUR ALMENNAR REGLUR UM FJÁRHAGSAÐSTOÐ ESB

5. gr. Almennar reglur um fjárhagslega aðstoð.

1.        Eftirfarandi meginreglur gilda um fjárhagslega aðstoð ESB samkvæmt reglum IPA:

        a)    aðstoð skal vera í fullu samræmi við meginreglurnar um samfellu, heildstæðni, samræmingu, samvinnu og samþjöppun,

        b)    aðstoð skal vera í samræmi við stefnumið ESB og stuðla að samræmingu við réttarreglur ESB,

        c)    aðstoð skal vera í samræmi við þær meginreglur um fjárhagsáætlanir sem mælt er fyrir um í reglugerð ráðsins (EB, KBE) nr. 1605/2002 frá 25 júní 2002 3 um fjárhagsreglugerðina sem gildir um fjárlög Evrópubandalaganna (hér á eftir nefnd „fjárhagsreglugerðin“) og í framkvæmdarreglum hennar 4 ,

        d)    aðstoð skal mæta þeim þörfum sem í ljós koma í umsóknarferlinu og geta aðstoðarþegans til að veita aðstoðinni viðtöku leiða í ljós. Þá skal taka mið af fenginni reynslu,

        e)    hvetja ber eindregið til að aðstoðarþeginn tileinki sér áætlanagerð og framkvæmd aðstoðar og tryggja ber viðeigandi sýnileika aðstoðar ESB,

        f)    verkefni skal undirbúa á tilhlýðilegan hátt og tíunda skýr markmið sem unnt er að sannreyna og ná innan tiltekins tíma. Árangursmat skal byggt á skýrum og nægilega nákvæmum mælivísum,

        g)    koma skal í veg fyrir hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, kynþáttar eða þjóðernis, trúarbragða eða trúar, fötlunar, aldurs eða kynhneigðar á hinum ýmsu framkvæmdastigum aðstoðar,

        h)    unnið skal að markmiðum aðstoðar vegna umsóknarferlisins með sjálfbæra þróun að leiðarljósi og það stefnumið ESB að vernda og bæta umhverfið.

2.        Aðstoð við aðstoðarþegann skal byggð á þeirri forgangsröð sem lýst er í fyrirliggjandi skjölum, þ.e. fjölær viðmiðunaráætlun (MIPD), skýrslur og stefnumörkunarskjal, sem er að finna í árlegum stækkunarpakka framkvæmdastjórnarinnar, og fyrirkomulagi samningaviðræðnanna.

3.         Öll verkefni sem fjármögnuð eru af IPA skulu að meginstefnu til fjármögnuð sameiginlega af ESB og aðstoðarþeganum, nema samið sé um annað í svæðisbundnum samningum eða fjármögnunarsamningum, ef um þá er að ræða.

4.        Sé framkvæmd aðgerða háð fjárhagslegum skuldbindingum aðstoðarþegans sjálfs eða öðrum fjárveitingum, skal fjármögnun ESB vera til reiðu um leið og aðstoðarþeginn eða aðrir fjárveitendur efna skuldbindingar sínar.

5.        Fjárgreiðslur ESB samkvæmt reglum IPA eru háðar því að aðstoðarþeginn efni skuldbindingar sínar samkvæmt rammasamningi þessum og svæðisbundnum samningum eða fjármögnunarsamningum, ef um þá er að ræða.
6. gr. Aðstoðarhæfur kostnaður.

1.        Útgjöld sem greidd eru samkvæmt reglum IPA, skal eigi fjármagna með öðrum hætti samkvæmt fjárlögum ESB.

2.        Auk þess sem fram kemur í 1. mgr. er heimilt að setja ítarlegri reglur um aðstoðarhæf útgjöld í samningum um fjármögnun eða svæðisbundnum samningum, ef um þá er að ræða.

7. gr. Umfang aðstoðar og hlutfall framlags ESB.

1.        Framlag ESB skal reiknað út með hliðsjón af hinum aðstoðarhæfa kostnaði, sbr. skilgreiningu í II. hluta IPA-framkvæmdarreglugerðarinnar.

2.        Í ákvörðunum um fjármögnun, þar sem samþykktar eru áætlanir til eins árs í senn eða fjölærar áætlanir, er fastsett leiðbeinandi hámarksfjárhæð framlags ESB, ásamt síðari hámarkshlutfalli fyrir hvert forgangssvið.

IV. ÞÁTTUR ALMENNAR REGLUR UM FRAMKVÆMD

8. gr. Verklag við framkvæmd.

1.        Almennt á miðlæg framkvæmdastjórn, sbr. skilgreiningu í grein 53a í fjárhagsreglugerðinni, við um framkvæmd stuðningsaðgerða IPA á Íslandi. Aðgerðir skal framkvæma samkvæmt þeim ákvæðum sem mælt er fyrir um í a-lið 53. gr., grein 53a og 54. til 57. gr. fjárhagsreglugerðarinnar.

2.        Engu að síður geta samningsaðilarnir gert samkomulag um að færa sér í nyt sameiginlega framkvæmdastjórn, sbr. skilgreiningu í grein 53d í fjárhagsreglugerðinni, einkum í tilviki svæðabundinna og þverlægra áætlana og áætlana þar sem alþjóðastofnanir koma við sögu. Aðgerðir skal framkvæma samkvæmt þeim ákvæðum sem mælt er fyrir um í c-lið 53. gr. og grein 53d í fjárhagsreglugerðinni.

3.        Framkvæmdastjórnin og aðstoðarþeginn skulu, sé þess krafist samkvæmt hlutaðeigandi fjármögnunarákvörðun, ganga frá fjármögnunarsamningi skv. 8. gr. IPA-framkvæmdarreglugerðarinnar um fjölærar áætlanir eða áætlanir til eins árs í senn. Framkvæmdastjórnin getur gengið frá fjármögnunarsamningum við fleiri lönd, sem njóta stuðnings IPA, þ.m.t. aðstoðarþeginn, vegna stuðnings sem veittur er af fjölþegaáætlunum og vegna þverlægra framtaksverkefna.

4.        Rammasamningur þessi gildir um alla fjárfestingarsamninga sem samningsaðilarnir gera sín á milli vegna fjárhagsaðstoðar samkvæmt reglum IPA. Ef ekki er um fjármögnunarsamning að ræða gilda þær reglur sem er að finna í rammasamningi þessum og sviðstengdum samningum, ef um þá er að ræða.

9. gr. Innkaupareglur.

1.        Stuðningi IPA skal stjórnað í samræmi við þær reglur sem gilda um aðstoð til landa utan ESB og er að finna í fjárhagsreglugerðinni.

2.        Niðurstöður útboðsferlis skal birta samkvæmt þeim reglum er um getur í 1. mgr. hér að framan.

3.        Reglur um þátttöku og uppruna, eins og mælt er fyrir um í 19. gr. IPA-rammareglugerðarinnar, gilda um öll útboð og gerð samninga samkvæmt reglum IPA.

4.        Alla þjónustu-, vörukaupa- og verksamninga skal gera og framkvæma í samræmi við verklagsreglur og stöðluð skjöl sem framkvæmdastjórnin mælir fyrir um og birtir vegna framgangs starfsemi utan ESB og eru í gildi þegar viðkomandi ferli hefst, nema kveðið sé á um annað í sviðstengdum samningum eða fjármögnunarsamningum, ef um þá er að ræða.

10. gr. Kynning og sýnileiki.

1.        Þegar aðstoð er stjórnað miðlægt og sameiginlega skal framkvæmdastjórnin láta í té upplýsingar um áætlanir og starfsemina með aðstoð landstengiliðs IPA, eftir því sem við á. Upplýsingunum skal beina til borgaranna og þeirra sem aðstoðina þiggja í því skyni að varpa ljósi á hlutverk ESB og tryggja gagnsæi.

2.        Framkvæmdastjórnin og hlutaðeigandi lands-, svæðis- eða staðaryfirvöld skulu koma sér saman um samræmda miðlun upplýsinga um stuðning IPA til að þær séu fyrirliggjandi og kynntar á Íslandi. Tilgreina ber í hinum sviðstengdu samningum eða fjármögnunarsamningunum með hvaða hætti þetta skuli gert.

3.        Þeir sem þiggja endanlega aðstoð skulu annast framkvæmd þeirra skuldbindinga er um getur í 2. mgr., og kunna að vera fjármagnaðar af þeirri fjárhæð sem er úthlutuð viðkomandi áætlunum eða starfsemi.

11. gr. Sköpun aðstöðu til að vinna að framgangi áætlana og samninga.

1.        Aðstoðarþeginn skal, í því skyni að tryggja skilvirkan framgang áætlana samkvæmt reglum IPA, gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að:

        a)    þegar um ræðir útboðsferli vegna kaupa á þjónustu, vörum eða verkum, hafi einstaklingar eða lögaðilar, sem heimilt er að taka þátt í útboðsferli skv. 9. gr. að framan, rétt til tímabundinnar búsetu, ef gerð er krafa um hana samkvæmt samningi. Aðeins er hægt að öðlast þennan rétt eftir að útboð er hafið og aðeins tæknimenntað starfslið, sem er nauðsynlegt til að gera kannanir og undirbúningsráðstafanir vegna tilboðsgerðar, getur nýtt sér hann. Réttur þessi fellur úr gildi einum mánuði eftir að ákvörðun um samningsgerð hefur verið tekin,

        b)    starfslið, sem tekur þátt í starfsemi sem ESB fjármagnar og nánustu fjölskyldumeðlimir þess, skuli ekki njóta lakari fríðinda, réttinda og undanþága en þau sem alþjóðlegt starfslið á Íslandi nýtur að jafnaði samkvæmt öðrum tvíhliða eða fjölhliða samningum eða samkomulagi um aðstoð og tæknilega samvinnu,

        c)    starfslið, sem tekur þátt í starfsemi sem ESB fjármagnar og nánustu fjölskyldumeðlimir þess, megi koma til Íslands, hafa staðfestu á Íslandi, starfa þar og yfirgefa landið, eftir því sem íslensk lög kveða á um, allt eftir eðli þess samnings sem unnið er samkvæmt,

        d)    öll nauðsynleg innflutningsleyfi fyrir vörum, einkum sérhæfðum tæknibúnaði, sem eru nauðsynleg vegna framkvæmdar þess samnings sem unnið er samkvæmt, séu veitt eftir gildandi lögum, ákvæðum og reglugerðum hlutaðeigandi aðstoðarþega,

        e)    innflutningur, sem fer fram samkvæmt reglum IPA, verði undanþeginn tollum, innflutningsgjöldum og annarri skattheimtu,

        f)    öll nauðsynleg leyfi vegna endurútflutnings fyrrnefndra vara séu veitt eftir að framkvæmd þess samnings sem unnið er samkvæmt er lokið,

        g)    heimildir til að flytja inn eða kaupa erlendan gjaldeyri, sem er nauðsynlegur til að unnt sé að framkvæma þann samning sem unnið er samkvæmt, séu veittar og að innlendum reglum um gjaldeyriseftirlit sé beitt án mismununar gagnvart verktökum, án tillits til þjóðernis þeirra eða þess hvar þeir hafa staðfestu,

        h)    öll nauðsynleg leyfi til að senda heim fjármuni, sem veitt er viðtaka vegna viðkomandi aðgerðar sem er fjármögnuð samkvæmt reglum IPA, séu veitt samkvæmt innlendum reglum um eftirlit með erlendum gjaldeyri sem gilda á Íslandi.

2.        Aðstoðarþeginn skal sjá til þess að hlutaðeigandi yfirvöld vinni saman í einu og öllu. Hann mun einnig tryggja aðgang að félögum í ríkiseigu og öðrum ríkisstofnunum sem koma að, eða er þörf fyrir, við framkvæmd áætlunar eða viðkomandi samnings.

12. gr. Reglur um skatta, tolla og aðra gjaldtöku.

1.        Skattar, tollar og innflutningsgjöld eða önnur gjöld, sem hafa sambærileg áhrif, eiga ekki við samkvæmt reglum IPA, nema kveðið sé á um annað í sviðstengdum samningi eða fjármögnunarsamningi, ef um slíkan samning er að ræða.

2.        Eftirfarandi ítarákvæði gilda:

        a)    Allur innflutningur ESB-verktaka skal undanþeginn tollum eða innflutningsgjöldum, virðisaukaskatti eða öðrum sköttum og annarri skattheimtu sem hefur sambærileg áhrif. Slíkri undanþágu skal aðeins beita gagnvart innflutningi sem tengist vörum og/eða þjónustu og/eða verkum sem hlutaðeigandi ESB-verktaki afhendir, veitir eða vinnur samkvæmt viðkomandi samningi sem ESB fjármagnar. Afhenda ber þann innflutning er um ræðir ESB-verktökum á komustað á Íslandi, eins og krafa er gerð um eftir ákvæðum þess samnings sem unnið er samkvæmt, og til notkunar, án tafar, eftir því sem þörf krefur til að unnt sé að framkvæma samninginn, án tillits til nokkurra tafa eða deilumála um uppgjör fyrrnefndra tolla, skatta eða gjalda,

        b)    ESB-verktakar skulu undanþegnir virðisaukaskatti vegna þjónustu og/eða vara og/eða verka sem er veitt, eru afhentar eða unnin samkvæmt viðkomandi ESB-samningi. Vörur eða þjónusta eða verk, sem verktaki samningsbundinn ESB-verktaka afhendir, veitir eða vinnur, skulu undanþegin virðisaukaskatti. Slíkri undanþágu skal aðeins beita gagnvart þeim vörum eða þjónustu eða verkum sem eru afhentar eða veitt eða unnin og tengjast vörum eða þjónustu eða verkum sem hlutaðeigandi ESB- verktaki afhendir, veitir eða vinnur samkvæmt viðkomandi ESB-samningi.

                Sérhverjum ESB-verktaka eða verktaka, sem afhendir ESB-verktaka, sem á rétt á umræddri undanþágu samanber ákvæði samnings þessa, vörur og/eða veitir honum þjónustu og/eða vinnur fyrir hann verk, ber réttur til að draga virðisaukaskatt, sem er greiddur í tengslum við afhentar vörur og/eða veitta þjónustu og/eða unnin verk sem aftur eru undanþegin virðisaukaskatti eins og samningur þessi kveður á um, frá virðisaukaskatti sem hann innheimtir vegna annarra viðskipta sem hann á í. Geti ESB-verktakar eða aðrir verktakar ekki nýtt sér þennan kost ber þeim réttur til að fá virðisaukaskatt endurgreiddan beint frá skattyfirvöldum, að fram kominni skriflegri beiðni þar um og nauðsynlegum fylgiskjölum, sem krafist er samkvæmt landslögum eða lögum sem hafa staðbundið gildissvið og gilda um endurgreiðslu, ásamt vottuðu afriti af þeim ESB-samningi sem unnið er samkvæmt,

        c)    einstaklingar sem eru ekki búsettir á Íslandi og inna af hendi þjónustu og/eða vinna verk og/eða vinna samkvæmt fjárstyrk og/eða samningum um langtíma sérfræðiaðstoð (twinning), sem ESB fjármagnar, skulu undanþegnir tekjuskatti á Íslandi vegna tekna sem samningur af því tagi skapar.

                Sama ákvæði hér að framan mun gilda gagnvart lögaðilum, að því tilskildu að þeir hafi ekki fasta atvinnustöð eða fasta bækistöð á Íslandi.

                Hagnaður og/eða tekjur sem verða til vegna ESB-samnings skulu skattskyld á Íslandi samkvæmt því skattkerfi sem gildir á landsvísu og/eða er staðbundið ef hlutaðeigandi einstaklingur og/eða lögaðili, sem hlýtur slíkan hagnað og/eða aflar slíkra tekna, hafa fasta atvinnustöð sína eða fasta bækistöð á Íslandi samkvæmt ákvæðum gildandi tvísköttunarsamninga eins og aðstoðarþeginn hefur fullgilt þá,

        d)    persónulegar eigur og heimilismunir, sem einstaklingar (og nánustu fjölskyldumeðlimir þeirra), aðrir en þeir sem ráðnir eru á staðnum og taka að sér verkefni sem skilgreind eru í samningum um tæknilega samvinnu, flytja inn til einkanota, skulu undanþegin tollum, innflutningsgjöldum, sköttum og annarri skattheimtu, sem hefur sambærileg áhrif, að því gefnu að fyrrnefndar persónulegar eigur og heimilismunir verði flutt út aftur eða þeim fargað í ríkinu, í samræmi við gildandi reglur á Íslandi, eftir að samningurinn er út runninn,

        e)    samningar, sem ESB fjármagnar, eru undanþegnir opinberum stimplum eða skráningarskyldu eða skattheimtu sem hefur sambærileg áhrif,

        f)    Í rammasamningi þessum skal túlka hugtakið „ESB-verktaki“ þannig: Einstaklingur eða lögaðili sem veitir þjónustu og/eða afhendir vörur og/eða vinnur verk með fjárstyrk samkvæmt ESB-samningi. Hugtakið ESB-verktaki tekur einnig til staðbundinna ráðgjafa um langtíma sérfræðiaðstoð og sérfræðinga sem fylgja samningum um langtíma sérfræðiaðstoð.

                Hugtakið „ESB-samningur“ merkir sérhvert lagalega bindandi skjal um starfsemi sem er fjármögnuð eftir reglum sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB og ESB undirritar eða íslenska ríkið.

                Fyrrnefndir verktakar skulu njóta að minnsta kosti sömu réttinda hvað málsmeðferð varðar og verktakar samkvæmt öðrum tví- eða fjölhliða samningi eða samkomulagi um aðstoð eða samvinnu tæknilegs eðlis.

13. gr. Yfirumsjón, eftirlit og endurskoðun framkvæmdastjórnarinnar og Endurskoðunarréttar ESB.

1.        Allir fjármögnunarsamningar og áætlanir þeim tengdar, ásamt afleiddum samningum, eru háð yfirumsjón og fjárhagslegu eftirliti framkvæmdastjórnarinnar, þ.m.t. Evrópuskrifstofan um aðgerðir gegn svikum (OLAF) og endurskoðun af hálfu Endurskoðunarréttar ESB. Starfsmenn eða fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar og OLAF, sem til þess hafa fullt umboð, hafa rétt á að gera tæknilega og fjárhagslega sannprófun, sem framkvæmdastjórnin og OLAF telja nauðsynlega vegna framkvæmdar áætlunarinnar, þ.m.t. heimsóknir á staði og athafnasvæði þar sem starfsemi, sem ESB fjármagnar, fer fram. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna hlutaðeigandi innlendum yfirvöldum fyrirfram um slíkar heimsóknir.

2.        Aðstoðarþeginn skal láta allar umbeðnar upplýsingar og skjöl í té, þ.m.t. öll tölvuvædd gögn, og gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að greiða fyrir störfum þeirra aðila sem falið er að framkvæma endurskoðun eða eftirlit.

3.        Aðstoðarþeginn skal halda skýrslur og semja greinargerðir, sem duga til að bera kennsl á þá þjónustu, vörur, verk og styrki sem eru fjármögnuð samkvæmt tengdum fjármögnunarsamningi, eftir traustu bókhaldsfyrirkomulagi. Aðstoðarþeginn skal og tryggja að starfsmenn eða fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar og OLAF hafi rétt til að skoða öll skjöl og greinargerðir sem skipta máli og varða þætti sem eru fjármagnaðir samkvæmt tengdum fjármögnunarsamningi og aðstoða Endurskoðunarrétt ESB við endurskoðun sem tengist notkun fjármuna ESB.

4.        Framkvæmdastjórnin, þ.m.t. OLAF, getur einnig gert athuganir og framkvæmt skoðun á skjölum og á vettvangi, í því skyni að vernda fjárhagslega hagsmuni ESB með skilvirkum hætti, í samræmi við málsmeðferðarákvæði reglugerðar ráðsins (EB, KBE) nr. 2185/1996 frá 11. nóvember 1996 5 . Athuganir þessar og skoðanir skal undirbúa og framkvæma í náinni samvinnu við lögbær stjórnvöld, sem aðstoðarþeginn tilnefnir, og skal tilkynna þeim tímanlega um markmið, tilgang og lagagrundvöll fyrrnefndra athugana og skoðana til að þau séu í stakk búin að veita alla nauðsynlega aðstoð. Aðstoðarþeginn skal tilnefna stofnun sem að beiðni OLAF skal aðstoða við framkvæmd rannsókna í samræmi við reglugerð ráðsins (EB, KBE) nr. 2185/1996. Óski aðstoðarþeginn þess geta athuganir og skoðanir á vettvangi farið fram samtímis. Standi þátttakendur í starfsemi, sem er fjármögnuð af ESB, gegn athugunum og skoðunum á vettvangi skal aðstoðarþeginn veita, í samræmi við innlendar reglur, skoðunarmönnum framkvæmdastjórnarinnar og/eða OLAF þá aðstoð sem þeir þarfnast til þess að geta gegnt þeirri skyldu sinni að framkvæma athuganir og skoðanir á vettvangi.

        Framkvæmdastjórnin og/eða OLAF skal tilkynna aðstoðarþeganum um allar staðreyndir og grunsemdir sem varða frávik og vakin er athygli þeirra á meðan á athugun eða skoðun á vettvangi stendur. Í öllu falli ber framkvæmdastjórninni og/eða OLAF skylda til að tilkynna fyrrnefndu stjórnvaldi um niðurstöður slíkra athugana og skoðana.

5.        Það eftirlit og sú endurskoðun sem er lýst hér að framan gilda um alla verktaka og undirverktaka, sem hafa tekið við fjármunum ESB, meðal annars um allar tengdar upplýsingar sem er að finna í skjölum landsjóðs aðstoðarþegans og varða innlend framlög.

14. gr. Forvarnir gegn frávikum og svikum. Aðgerðir gegn spillingu.

1.        Aðstoðarþeginn skal tryggja að fram fari rannsókn og skilvirk meðferð mála þar sem grunsemdir vakna um svik og frávik. Tilkynna skal framkvæmdastjórninni þegar í stað um slík mál.

2.        Aðstoðarþeginn skal ennfremur gera allar viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir og vinna gegn hvers konar spillingu, beinni eða óbeinni, á öllum stigum innkaupaferlisins eða samningsgerðar eða meðan á framkvæmd viðeigandi samninga stendur.

3.        Aðstoðarþeginn, þ.m.t. starfslið sem annast framkvæmd verkefna innan starfsemi sem ESB fjármagnar, skuldbindur sig til þess að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að afstýra hættu á hagsmunaárekstrum og skal tilkynna framkvæmdastjórninni án tafar um alla þess háttar hagsmunaárekstra eða aðstæður sem líklegt er að gefi tilefni til slíkra árekstra.

4.        Eftirfarandi skilgreiningar gilda:

        a)     Frávik merkir hvers kyns brot á ákvæði í gildandi reglum og samningum sem afleiðing af athöfn eða athafnaleysi af hálfu rekstraraðila sem hefur, eða myndi hafa, þær afleiðingar að skaða fjárlög Evrópusambandsins með því að greiðslu yrði krafist fyrir óréttmætan kostnaðarlið af fjárlögum ESB.

        b)     Svik merkir hvers kyns athöfn af ásetningi eða athafnaleysi sem tengist: notkun eða framsetningu rangra, ósannra eða ófullkominna yfirlýsinga eða skjala sem hefur þær afleiðingar að fjármunir af fjárlögum Evrópubandalaganna eða samkvæmt fjárhagsáætlunum sem Evrópubandalögin stjórna, eða er stjórnað fyrir þeirra hönd, eru nýttir eða varðveittir á óréttmætan hátt; skorti á upplýsingagjöf sem er vanefnd á tiltekinni skuldbindingu og hefur sömu áhrif; rangri notkun fyrrnefndra fjármuna í öðrum tilgangi en þeim sem þeir voru upphaflega afhentir í.

        c)     Bein spilling er skilgreind sem vísvitandi athöfn hvers þess sem lofar eða lætur af hendi, beint eða fyrir milligöngu annars, hvers kyns hagræði af hvaða toga sem er til handa opinberum starfsmanni, í hans þágu eða þriðja aðila, svo að hann aðhafist eða láti vera að aðhafast í samræmi við skyldur sínar eða hlutverk á þann hátt að gangi gegn opinberum skyldum hans þannig að skaði, eða sé líklegt að skaði, fjárhagslega hagsmuni Evrópubandalaganna.

        d)     Óbein spilling er skilgreind sem vísvitandi athöfn opinbers starfsmanns sem, beint eða fyrir milligöngu annars, fer fram á eða þiggur hvers kyns hagræði af hvaða toga sem er sjálfum sér til handa eða í þágu þriðja aðila, eða sem þiggur loforð um slíkt hagræði, svo að hann aðhafist eða láti vera að aðhafast í samræmi við skyldur sínar eða hlutverk á þann hátt að gangi gegn opinberum skyldum hans þannig að skaði, eða sé líklegt að skaði, fjárhagslega hagsmuni Evrópubandalaganna.

15. gr. Vöktun.

1.         Framkvæmdastjórnin getur gripið til allra þeirra aðgerða sem hún telur nauðsynlegar til að vakta þær áætlanir sem um ræðir. Í tilviki sameiginlegrar framkvæmdastjórnar er heimilt að framkvæma þessar aðgerðir sameiginlega með hlutaðeigandi alþjóðastofnun eða -stofnunum.

2.        Eftirlitsnefnd IPA skal stofnsett í því skyni að tryggja samfellu og samræmi í stuðningi IPA.

3.        Eftirlitsnefnd IPA skal ganga úr skugga um að stuðningur IPA sé almennt séð skilvirkur, standist gæðakröfur og sé samfelldur og stefni að þeim markmiðum sem sett eru fram í fjölæru heildaráætluninni.

4.        Fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar og landstengiliður IPA fara sameiginlega með stjórn Eftirlitsnefndar IPA og stýra fundum hennar sameiginlega. Framkvæmdastjórnin og landstengiliður IPA ákveða hverjir sitji í Eftirlitsnefnd IPA.

5.        Eftirlitsnefnd IPA fundar a.m.k. einu sinni ár hvert.

16. gr. Lok áætlana undir miðlægri og sameiginlegri stjórn.

1.        Áætlun lýkur þegar öllum samningum og styrkjum, sem eru fjármagnaðir samkvæmt henni, er lokið.
2.        Eftir að umsókn um lokagreiðslu hefur verið veitt viðtaka, er samningi eða styrk talið lokið um leið og einn af eftirfarandi atburðum á sér stað:

        –     framkvæmdastjórnin innir af hendi lokagreiðslu,
        –     framkvæmdastjórnin gefur út kröfu um endurgreiðslu eftir viðtöku umsóknar um lokagreiðslu,
        –     lúkning fjárveitingar af hálfu framkvæmdastjórnarinnar.

3.        Lúkning samnings eða styrks rýrir ekki rétt framkvæmdastjórnarinnar til að gera fjárhagslega leiðréttingu síðar.

4.        Auk þess sem fram kemur í 1. til 3. mgr. að framan er heimilt að setja ítarlegri reglur um lok áætlana í fjármögnunarsamningum eða sviðstengdum samningum.

V. ÞÁTTUR - LOKAÁKVÆÐI

17. gr. Samráð.

1.        Efna skal til samráðs samningsaðilanna um hvert það vafaatriði sem tengist framkvæmd eða túlkun þessa rammasamnings og skal slíkt samráð leiða, ef nauðsyn krefur, til þess að honum verði breytt.

2.        Séu vanhöld á því að efna skuldbindingu sem er sett fram í rammasamningi þessum og ekki er andlag ráðstafana til úrbóta, sem eru gerðar í tæka tíð, getur framkvæmdastjórnin frestað því að fjármagna aðgerðir samkvæmt reglum IPA, að höfðu samráði við aðstoðarþegann.

Graphic file TimesNewRoman.n with height 46 p and width 5 p Left aligned 3.        Aðstoðarþeginn getur hafnað því að aðgerðir samkvæmt reglum IPA komi til framkvæmda, að öllu leyti eða að hluta. Samningsaðilarnir skulu útfæra slíkt afsal í smáatriðum með bréfaskiptum.

18. gr. Lausn ágreinings, gerðardómsmeðferð.

1.        Ágreining vegna túlkunar, reksturs og framkvæmdar rammasamnings þessa, á hvaða stigi þátttöku sem er, skal leysa í vinsemd með samráði eins og kveðið er á um í 17. gr.

2.        Náist ekki samkomulag getur hvor samningsaðili sem er lagt málið í gerð samkvæmt valkvæðum reglum Alþjóðagerðardómsins um gerðardómsmeðferð með aðkomu alþjóðastofnana og ríkja, sem í gildi eru þann dag er rammasamningur þessi er gerður.

3.        Gerðardómsmeðferð skal fara fram á ensku. Aðalframkvæmdastjóri Alþjóðagerðardómsins skal annast skipun í gerðardóm að fram kominni skriflegri ósk sem hvor samningsaðili um sig leggur fram. Ákvörðun gerðarmanns er bindandi fyrir alla málsaðila og verður henni ekki áfrýjað.

19. gr. Deilur við þriðju aðila.

1.        Evrópusambandið skal, með fyrirvara um lögsögu þess dómstóls sem er tilnefndur í samningi sem til þess bær að úrskurða í deilumálum sem rísa vegna þessa samnings milli aðila að honum, njóta friðhelgi á íslensku yfirráðasvæði gagnvart málshöfðun og málarekstri að því er varðar deilumál milli Evrópusambandsins og/eða viðkomandi aðstoðarþega og þriðja aðila eða milli þriðju aðila, þ.e. málshöfðun og málarekstri sem tengjast, beint eða óbeint, stuðningi ESB til handa aðstoðarþeganum samkvæmt rammasamningi þessum, nema að því leyti sem Evrópusambandið hefur, í tilteknu máli, afsalað sér friðhelgi með ótvíræðum hætti.

2.        Aðstoðarþeginn skal verja fyrrnefnda friðhelgi í málarekstri eða stjórnsýslumáli fyrir rétti, dómstóli eða á stjórnsýslustigi á Íslandi og taka afstöðu þar sem eðlilegt tillit er tekið til hagsmuna Evrópusambandsins. Aðstoðarþeginn og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skulu, ef nauðsyn krefur, halda áfram samráði um þá afstöðu sem skal taka.

20. gr. Tilkynningar.

1.        Allar orðsendingar í tengslum við rammasamning þennan skulu vera skriflegar og vera á ensku. Allar orðsendingar skala undirrita og þær skal senda sem frumrit eða símbréf.

2.        Allar orðsendingar í tengslum við rammasamning þennan skal senda á eftirtalin heimilisföng:

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar:     Fyrir hönd aðstoðarþegans:

Stjórnarsvið stækkunarmála     Utanríkisráðuneytið
Íslandsdeild – CHAR 5/199     Skrifstofa landstengiliðs
Rue de la Loi, 170     Rauðarárstíg 25
B-1040 Brussel     IS-150 Reykavík, Ísland

21. gr. Gildistaka.

Rammasamningur þessi öðlast gildi þann dag þegar samningsaðilarnir tilkynna hvor öðrum skriflega um samþykki þeirra í samræmi við gildandi löggjöf hvors um sig eða málsmeðferð hvors samningsaðila um sig.

22. gr. Breytingar.

Allar breytingar, sem samningsaðilarnir samþykkja, skulu vera skriflegar og vera hluti af samningi þessum. Slíkar breytingar skulu koma til framkvæmda þann dag sem samningsaðilarnir ákveða.

23. gr. Uppsögn.

1.        Gildistími þessa rammasamnings er ótímabundinn, nema annar samningsaðilinn segi honum upp með skriflegri tilkynningu.

2.        Þrátt fyrir að rammasamningi þessum sé sagt upp skal yfirstandandi stuðningsaðgerðum haldið áfram samkvæmt rammasamningi þessum og öllum sviðstengdum samningum og fjármögnunarsamningum uns þeim aðgerðum er lokið.

24. gr. Tungumál.

Rammasamningur þessi er gerður í tvíriti á ensku.

Undirritað fyrir og fyrir hönd     Undirritað fyrir og fyrir hönd
ríkisstjórnar Íslands     framkvæmdastjórnarinnar

Kristján Andri Stefánsson sendiherra     Fr. Alexandra Cas Granje
landstengiliður IPA     forstöðumaður

Brussel, 8. júlí 2011.     Brussel, 8. júlí 2011
Neðanmálsgrein: 1
    1 Stjtíð. ESB L 210, 31. júlí 2006, bls. 82, reglugerðinni var breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 540/2010 frá 16. júní 2010, Stjtíð. ESB L 158, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Stjtíð. EB L 170, bls. 1, reglugerðinni var breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 80/2010 frá 28. janúar 2010, Stjtíð. ESB L 25, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 3
    3 Stjtíð. EB L 248, 16. september 2002, bls. 1, með áorðnum breytingum samkvæmt reglugerð nr. 1995/2006 frá 13. desember 2006 (Stjtíð. ESB L 390, 30. desember 2006, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 4
    4 Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB, KBE) nr. 2342/2002 frá 23 desember 2002 þar sem mælt er fyrir um ítarlegar reglur um framkvæmd reglugerðar ráðsins (EB, KBE) nr. 1605/2002 (Stjtíð. EB L 357, 31.12.2002, bls. 1), eins og henni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 478/2007 frá 23. apríl 2007 (Stjtíð. ESB L 111, bls. 2007).
Neðanmálsgrein: 5
    5 Stjtíð. EB L 292, 15. nóvember 1996, bls. 2.