Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 222. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 458  —  222. mál.
Svarinnanríkisráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar
um aukaframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.


     1.      Hvert hefur verið árlegt aukaframlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá árinu 2007, á núgildandi verðlagi, og hvernig hefur það skipst niður á einstök sveitarfélög?
     2.      Hvað hefur þetta framlag numið miklum hluta af heildarskatttekjum þessara sveitarfélaga á þessu árabili?
     3.      Hvað er þetta framlag hátt á hvern íbúa skipt eftir sveitarfélögum á framangreindu árabili?

    Svar við 1.–3. lið fyrirspurnarinnar kemur fram í eftirfarandi töflum:

Breytingar samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs frá 2005.    Vísitala
Breyting frá fyrra
mánuði %
Breyting síðustu 12 mánuði %

Aukaframlag

Aukaframlag á verðlagi í okt.2011
2006 Október 107,1 0,2 5,8 700.000.000 1.058.823.529
2007 Október 109,6 0,4 2,3 1.400.000.000 2.069.343.066
2008 Október 129,3 2,5 17,9 1.400.000.000 1.754.060.325
2009 Október 147 1,2 13,8 1.000.000.000 1.102.040.816
2010 Október 153,8 0,7 4,6 1.000.000.000 1.053.315.995
2011 Október 162 0,4 5,3 700.000.000 700.000.000


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     4.      Hvað er áætlað, að óbreyttum reiknireglum, að ákvörðun innanríkisráðherra og fjármálaráðherra að ráðstafa 300 millj. kr. af aukaframlagi þessa árs til eins sveitarfélags leiði til mikillar skerðingar á aukaframlaginu til einstakra sveitarfélaga?
    Reglur um úthlutun aukaframlagsins í ár eru enn í umsagnarferli og mótun. Reglurnar eru settar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Um leið og þær liggja fyrir mun Alþingi berast svar við 4. lið fyrirspurnarinnar.
    Á grundvelli fjáraukalaga sem voru nýverið samþykkt á Alþingi fær Jöfnunarsjóður sveitarfélaga 100 millj. kr. til viðbótar til ráðstöfunar í aukaframlag 2011 sem leiðir til breytinga á eftirfarandi drögum að reglum:

DRÖG AÐ REGLUM
um ráðstöfun 700 milljóna króna aukaframlags
Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árinu 2011.

(Nóvember 2011.)

1. gr.
Gildissvið.

    Markmið þessara reglna er að úthluta sérstöku aukaframlagi til að koma til móts við þau sveitarfélög sem eiga í miklum fjárhagserfiðleikum á árinu 2011.
    Einungis kemur til úthlutunar framlags samkvæmt þessum reglum ef heimild sveitarfélags til útsvarsálagningar fyrir tekjuárið 2011 er fullnýtt af sveitarstjórn. Við útreikning og úthlutun framlagsins er miðað við skipan sveitarfélaga eins og hún var í árslok 2010.
    Framlagi samkvæmt þessum reglum er ætlað að bæta erfiða fjárhagsstöðu viðkomandi sveitarfélaga með lækkun fjárhæða skulda. Sveitarfélög sem fá úthlutað framlagi skv. 2., 3. og 4. gr. reglna þessara skulu eigi síðar en 10. desember 2011 skila innanríkisráðuneytinu greinargerð um ráðstöfun framlagsins. Greinargerðin er forsenda þess að uppgjör framlagsins fari fram fyrir áramót.

2. gr.

Framlag vegna sérstakra fjárhagserfiðleika Sveitarfélagsins Álftaness

    Varið skal 300 m.kr. til að greiða úr sérstökum fjárhagserfiðleikum Sveitarfélagsins Álftaness. Framlagið skal veitt sem einn þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu sveitarfélagsins samkvæmt tillögum fjárhaldsstjórnar en með hliðsjón af þeim skilyrðum sem ráðuneytið setur um ráðstöfun þess.

3. gr.
Framlag vegna íþyngjandi skulda

    Varið skal 300 m.kr. til þeirra sveitarfélaga þar sem útreiknað skuldahlutfall er hærra en 150%.
    Við útreikning framlagsins skal byggt á upplýsingum úr ársreikningum sveitarfélaga fyrir árið 2010. Við útreikning framlags kemur til skerðingar vegna skuldahlutfalls á bilinu 150% – 250% og þar sem hlutfall veltufjár frá rekstri af heildartekjum er umfram 3%.
    Nánar um útreikning framlags:
    Skerða skal framlag til einstakra sveitarfélaga með hliðsjón af skuldahlutfalli þeirra. Skerðing framlags miðast við nettóskuldir á bilinu 150%–250% af heildartekjum sveitarfélags. Skerðing hefst við 150% skuldahlutfall (stuðullinn 0,5) og endar við 250% skuldahlutfall sveitarfélags (stuðullinn 1,0) þannig að:
     *      ef skuldahlutfall sveitarfélags er 250% eða hærra, er ekki um skerðingu á framlagi að ræða,
     *      ef skuldahlutfall sveitarfélags er lægra en 150% er ekki um framlag að ræða,
     *      ef skuldahlutfall sveitarfélags er á bilinu 150%–250% er framlagið skert með stuðli á bilinu 0,5–1,0.
Skerða skal jafnframt framlag til einstakra sveitarfélaga þar sem hlutfall veltufjár frá rekstri af heildartekjum er umfram 3% þannig að:
     *      ef veltufé frá rekstri í hlutfalli af heildartekjum er undir 3% reiknast stuðullinn 1,0,
     *      ef veltufé frá rekstri í hlutfalli af heildartekjum er á bilinu 3% –7,5% reiknast stuðullinn 0,5,
     *      ef veltufé frá rekstri í hlutfalli af heildartekjum er yfir 7,5% reiknast stuðullinn 0 og ekki er um framlag að ræða.
    Heildarfjárhæð nettóskulda þeirra sveitarfélaga sem eru með hærra skuldahlutfall en 150% er grunnviðmið útreiknings. Að teknu tilliti til framangreindra skerðinga er hlutfall hvers sveitarfélags af heildarfjárhæð nettóskulda margfaldað með fjármagni til ráðstöfunar, sbr. 1. mgr.

4. gr.
Framlag vegna íbúafækkunar

    Varið skal 100 m.kr. til sveitarfélaga þar sem íbúaþróun hefur verið lakari en hjá Reykjavíkurborg árin 2006–2010.
    Við útreikning framlags skal byggt á upplýsingum úr Þjóðskrá um íbúafjölda sveitarfélaga 1. desember 2005 og um íbúafjölda sveitarfélaga 1. desember 2010. Finna skal út fyrir hvert sveitarfélag hver fjölgun íbúa hefði þurft að vera á umræddu tímabili til að sama hlutfallslega vexti og í Reykjavíkurborg væri náð. Reikna skal út hlutfallslegt vægi þeirrar niðurstöðu af samtölu fyrir þau sveitarfélög sem um ræðir. Framlag til sveitarfélags er sú hlutfallstala margfölduð með fjármagni til ráðstöfunar, sbr. 1. mgr.
    Við útreikning framlagsins skal byggt á upplýsingum úr ársreikningum sveitarfélaga fyrir árið 2010, annars vegar um heildartekjur og hins vegar um nettóskuldir.
    Skerða skal hlutfallslega framlag til einstakra sveitarfélaga skv. þessari grein með hliðsjón af nettóskuldum sveitarfélags. Skerðing framlags er hlutfallsleg miðað við nettóskuldir á bilinu 50%–100% af heildartekjum. Skerðing hefst við 50% skuldahlutfall (stuðullinn 0,0) og endar við 100% skuldahlutfall (stuðullinn 1,0) þannig að:
     *      ef skuldahlutfall sveitarfélags er 100% eða hærra er ekki um skerðingu á framlagi að ræða,
     *      ef skuldahlutfall sveitarfélags er á bilinu 50%–100% er framlagið skert með stuðli á bilinu 0,0–1,0,
     *      ef skuldahlutfall sveitarfélags er lægri en 50% er full skerðing á framlagi.     
    Framlögin skal jafnframt skerða hjá þeim sveitarfélögum sem hafa hlutfallslega háar meðaltekjur á íbúa á árinu 2011 miðað við sambærileg sveitarfélög, sbr. útreikning meðaltekna á grundvelli ákvæða í 1. og 2. mgr. 12. gr. reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 960/2010. Skerðingin hefst þegar áætlaðar meðaltekjur á íbúa miðað við fullnýtingu tekjustofna sveitarfélags, eru 4% yfir meðaltali í hverjum viðmiðunarflokki. Framlög falla niður þegar meðaltekjur á íbúa eru 30% yfir meðaltali. Skerðing innan þessara marka skal vera hlutfallsleg.

5. gr.
Skilgreiningar.

    Nettóskuldir eru heildarskuldir og skuldbindingar að frádregnum peningalegum eignum án krafna á eigin fyrirtæki samkvæmt ársreikningum sveitarfélaga fyrir árið 2010.
Skuldahlutfall eru nettóskuldir í hlutfalli af heildartekjum samkvæmt ársreikningum sveitarfélaga fyrir árið 2010.
    Veltufé frá rekstri er sjóðstreymisfjárhæð samkvæmt ársreikningum sveitarfélaga fyrir árið 2010.

6. gr.
Greiðsla.

    Aukaframlagið skal greitt til sveitarfélaga í tvennu lagi. Greiða skal 525,0 m.kr. í nóvember 2011 á grundvelli áætlaðra meðaltekna 2011, sbr. 5. mgr. 4. gr. Eftirstöðvar framlagsins koma til greiðslu í lok desember 2011 þegar meðaltekjur ársins liggja fyrir og endurskoðun framlagsins hefur farið fram. Verði um að ræða verulegar breytingar á fjárhagslegri stöðu einstakra sveitarfélaga á árinu 2011 áskilur ráðuneytið sér einnig rétt til að endurskoða framlagið til viðkomandi sveitarfélaga með tilliti til þess.

8. gr.
Gildistaka.

    Reglur þessar eru settar á grundvelli 18. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, og fjárlaga ársins 2011, liðar 06-841, viðfangsefnis 1.11 og öðlast þegar gildi.