Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 195. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 522  —  195. mál.
Leiðrétt fjárhæð.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum
(aðgerðir í skattamálum, verðlagsbreytingar o.fl.).

Frá 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í frumvarpinu eru lagðar til tekjuöflunarleiðir, breytingar á gjöldum í samræmi við kjarasamninga og hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins.
    Tekjuöflunarleiðir frumvarpsins eru í megindráttum tvær. Fyrst er að nefna framlengingu auðlegðarskattsins til 2012 og upptöku viðbótarskattþreps sem á að skila ríkissjóði 1,5 milljörðum kr. á næsta ári.
    Síðan er lagt til að við lög um tekjuskatt bætist nýtt bráðabirgðaákvæði um að frádráttarbært iðgjald í séreignarsparnaðarsjóði lækki úr 4% í 2% tímabundið, eða næstu þrjú árin (c- liður 10. gr. frumvarpsins). Niðurfellingin á að skila ríkissjóði 1,4 milljarði kr. í viðbótartekjur.
    Breytingin mun þvinga marga sjóðsfélaga til að lækka iðgjöld sín niður í 2% af tekjum til að losna undan tvískattlagningu, þ.e. skatt á inngreiðslu á upphæðina yfir 2% iðgjaldagreiðslu og við útgreiðslu hennar. Hætta er á að fólk átti sig ekki á þessari breytingu og geri því ekki viðhlítandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir tvískattlagningu. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur brugðist við því með breytingartillögu sem kveður á um að ekki megi draga hærra iðgjald en 2% af tekjum nema viðkomandi hafi óskað þess sérstaklega.
    Frá hruni hefur þeim fækkað sem greiða í séreignasjóði sem skýrist m.a. af auknu atvinnuleysi. Sparnaður mun að öllum líkindum halda áfram að dragast saman í kjölfar skattlagningar á iðgjöld umfram 2% af tekjum sem vekur upp spurningar um getu sjóðsmyndunarkerfisins til að tryggja öllum viðunandi lífeyri. Þess ber þó að geta að ávöxtun lífeyriskerfisins nær um þessar mundir ekki nema um helmingi ávöxtunarkröfunnar sem nauðsynleg er til að sjóðirnir geti staðið við gefin loforð um lífeyri sem nemi 56% af meðaltekjum sjóðsfélaga yfir starfsævina.
    Auk þess eru vísbendingar um að vaxtakostnaður ríkissjóðs sé hærri en sem nemur ávöxtun séreignarsjóðanna á skattfé almennings. Við slíkar aðstæður er ekki æskilegt að ríkið hvetji til viðbótarlífeyrissparnaðar með því að fresta skattlagningu iðgjalda þar til kemur að útgreiðslu. Hagkvæmara væri fyrir ríkið að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði að fullu og nota skattinn til að greiða niður skuldir.
    Þriðji minni hluti, ásamt Atla Gíslasyni, leggur því fram breytingartillögu um að iðgjaldið verði ekki lengur frádráttarbært. Breytingin ætti að færa ríkissjóði um 1,4 milljarð kr. í viðbótartekjur. Tillagan einfaldar skattlagningu iðgjalda í séreignasparnaðarsjóði, þar sem allar inngreiðslur eru skattlagðar en ekki allt umfram 2%. Ein helsta gagnrýnin á skattabreytingar frá hruni er að flækjustigið hafi aukist og skattgreiðendur eigi því erfitt með að átta sig á skattskyldum sínum. Framangreindar breytingartillögur koma til móts við þessa gagnrýni. 3. minni hluti leggur áherslu á mikilvægi þess að eigendur séreignasparnaðar séu tryggðir gegn tvísköttun í framtíðinni, þ.e. skatti á útgreiðslur eftir að tekinn er upp skattur á inngreiðslur.
    Þriðji minni hluti lagði fram breytingartillögu við fjárlagfrumvarpið um að ríkissjóður hætti frestun skatts fram til útgreiðslu úr séreignarsjóðunum og skattlegði strax þá upphæð sem safnast hefur fyrir í sjóðunum. Slík skattlagning hefði tryggt ríkissjóði 86,3 milljarða kr. í viðbótarskatttekjur. Hægt hefði verið að nota þessar viðbótarskatttekjur til að standa vörð um grunnþjónustu velferðarkerfisins. Stjórnarliðar hafa nú samþykkt 440 millj. kr. niðurskurð hjá Landspítalnum á næsta ári sem aðeins verður hægt að ná fram með því að leggja niður deildir eða skerða þjónustu við sjúklinga. Niðurskurðurinn hefur verið réttlætur með nauðsyn þess að ná niður halla ríkissjóðs og þar með vaxtakostnaði. Skattlagning séreignarsparnaðar til að greiða niður skuldir ríkissjóðs mundi draga verulega úr vaxtakostnaði en gert er ráð fyrir að vaxtakostnaður ríkisins verði um 78 milljarðar kr. árið 2012. Stjórnarliðar höfnuðu breytingartillögu um skattlagningu séreignasparnaðarins og völdu þar með frekar að skera niður grunnþjónustu velferðarkerfisins en að ná í skatttekjur sem bera lægri ávöxtun en sem nemur vaxtakostnaði ríkissjóðs. „Norræna velferðarstjórn“ hefur því enn og aftur staðfest að hún forgangsraðar í þágu fjármagnseigenda í stað þess að standa vörð um grunnvelferðarþjónustan eins og gefin voru fyrirheit um árið 2009.
    Í 4. gr. frumvarpsins eru lagðar til 3,5% hækkanir á fjárhæðarmörkum tekjuskattstofnsins í upphafi árs 2012 í stað þess að hann taki breytingum í réttu hlutfalli við hækkun á launavísitölu frá upphafi til loka næstliðins tólf mánaða tímabils eins og kveðið er á um í b-lið 10 gr. frumvarpsins. 3. minni hluti er ósáttur við að ekki sé farið að lögum og skattar á almenning hækkaðir með minni hækkun fjárhæðarmarka en sem nemur hækkun launavísitölunnar, þ.e. 3,5% hækkun í stað 8% hækkunar. Þessi breytingin mun þýða að lægri tekjur þarf til þess að skattleggjast í hverju skattþrepi en gildandi lög gera ráð fyrir. Í breytingartillögum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar eru fjárhæðarmörk fyrir fyrsta þrep hækkuð um tæp 9,8% og styður 3. minni hluti þá tillögu. Með þessari breytingartillögu fer meiri hlutinn að lögum hvað varðar hækkun fjárhæðarmarka fyrir fyrsta þrep í samræmi við hækkun launavísitölu og kemur til móts við ábendingar Öryrkjabandalags Íslands og verkalýðshreyfingarinnar um að mest þörf sé á að hækka viðmiðunarmörk fyrir fyrsta þrep til að bæta stöðu þeirra sem lægstar tekjur hafa. 3. minni hluti varar við því að teknar séu geðþóttaákvarðanir varðandi hækkun fjárhæðamarka til að villa um fyrir skattgreiðendum hvað varðar skattahækkanir.
    Þriðji minni hluti leggur því til að fjárhæðarmörk fyrir annað og þriðja þrep verði hækkuð í samræmi við hækkun launavísitölunnar, eða um 8%.
    Þriðji minni hluti leggur jafnframt til að nýtt skattþrep verði tekið upp við fjárhæðarmörkin 1.200.000 kr. á mánuði. Tekjur í þessu skattþrepi beri 49% tekjuskatt. Samkvæmt minnisblaði fjármálaráðuneytisins frá 7. desember sl. mundi skatturinn gefa 530 millj. kr. í viðbótartekjur. 3. minni hluti leggur til að fjárhæðin verði notuð til að fjármagna hækkun fjárhæðarmarka þrepanna en það dugar fyrir þeim hluta kostnaðarins sem fellur til vegna hækkunar fjárhæðarmarka í samræmi við launavísitölu, þ.e. um 8%. Samkvæmt minnisblaði fjármálaráðuneytisins frá 18. nóvember sl. verður ríkissjóður af 500 millj. kr. skatttekjum ef fjárhæðarmörkin hækka um 8% en ekki 3,5%.
    Fjárhæðarmörk þrepanna yrðu því eftirfarandi ef breytingartillögur 3. minni hluta ná fram að ganga:
         1. þrep: 37,31%     230.000 kr.
         2. þrep: 40,21%     508.000 kr.
         3. þrep: 46,21%     735.000 kr.
         4. þrep: 49,00%     1.200.000 kr.
    Ef hins vegar breytingartillögur meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar ná fram að ganga verða fjárhæðarmörk þrepanna eftirfarandi:
         1. þrep: 37,31%     230.000 kr.
         2. þrep: 40,21%     474.400 kr.
         3. þrep: 46,21%     704.400 kr.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þriðji minni hluti vill að lokum lýsa yfir áhyggjum sínum af verðlagsáhrifum frumvarpsins nú þegar um helmingur heimila á erfitt með að ná endum saman. Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að ráðstafanir í ríkisfjármálum samkvæmt frumvarpinu leiði til 0,2% hækkunar neysluverðsvísitölunnar. Íslensk heimili eru með þeim skuldugustu í Evrópu og skulduðu 230% af ráðstöfunartekjum í lok árs 2010. Samkvæmt hagtölum Seðlabankans voru verðtryggðar skuldir heimilanna 1.121 milljarðar kr. 31. október sl. Hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins munu hækka verðtryggðar skuldir heimilanna um 2,4 milljarða kr. Slík hækkun mun auka enn á fjárhagserfiðleika heimilanna í landinu.

Alþingi, 12. desember 2011.Lilja Mósesdóttir.