Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 395. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 539  —  395. mál.




Álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar



á ábendingu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd og utanumhald rammasamninga.


    Með bréfi dagsettu 3. nóvember sl. sendi forseti Alþingis ábendingu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd og utanumhald rammasamninga til umfjöllunar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í samræmi við ákvæði 8. tölul. 13. gr. þingskapa. Framsögumaður málsins er formaður nefndarinnar, Valgerður Bjarnadóttir. Á fund nefndarinnar komu Sveinn Arason og Kristín Kalmansdóttir frá Ríkisendurskoðun.
    Fyrir nefndinni kom fram að í störfum sínum gengur Ríkisendurskoðun eftir því hvort ríkisstofnanir og fyrirtæki sem eru a.m.k. að helmingi í ríkiseign notfæri sér þá samninga sem Ríkiskaup hafa gert fyrir hönd ríkisins. Þessar ábendingar hafi haft marktæk áhrif á stofnanir og fyrirtæki sem nota nú rammasamninga í auknum mæli. Ríkisendurskoðun gerir stofnunum og fyrirtækjum jafnframt grein fyrir því að rammasamningar eru fyrir minni innkaup sem eru undir útboðsmörkum. Í bókhaldi ríkisins er hins vegar ekki tilgreint hvort kaup eru gerð samkvæmt rammasamningum og verða Ríkiskaup og Ríkisendurskoðun að reiða sig á upplýsingar frá seljendum um umfang rammasamninga. Af þessu er talsvert óhagræði, ekki síst þar sem starfsmenn Ríkiskaupa þurfa að skrá upplýsingarnar handvirkt í upplýsingakerfi sitt. Nefndin tekur undir með Ríkisendurskoðun að þetta fyrirkomulag er óviðunandi, ekki síst í ljósi þess að tiltölulega einfalt og ódýrt er að koma því í lag með breyttu verklagi við færslu ríkisbókhaldsins.
–    Nefndin fagnar því að fjármálaráðuneytið hyggst vinna að því að bæta verkferla og bókanir vegna innkaupa þannig að marktækar upplýsingar um stöðu rammasamninga og framkvæmd þeirra verði aðgengilegar hið fyrsta.

Alþingi, 12. desember 2011.



Valgerður Bjarnadóttir,


form.


Álfheiður Ingadóttir.


Róbert Marshall.



Lúðvík Geirsson.


Ólöf Nordal.


Birgir Ármannsson.



Margrét Tryggvadóttir.