Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 275. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 545  —  275. mál.




Svar



innanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um símhleranir.


     1.      Hvernig er eftirliti háttað með símafyrirtækjum sem annast tengingar fyrir hleranir sem lögreglan sinnir á grundvelli fyrirliggjandi dómsúrskurðar?
    Kveðið er á um hleranir í þágu rannsóknar lögreglu í 47. gr. fjarskiptalaga, nr. 81/2003, og XI. kafli laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Framkvæmd slíkra hlerana á grundvelli dómsúrskurðar, fer lögum samkvæmt fram í samstarfi lögregluyfirvalda og fjarskiptafyrirtækja. Fjarskiptafyrirtæki opna fyrir ákveðnar tengingar símaumferðar til lögreglu þar sem hin eiginlega hlerun fer fram.
    Samkvæmt lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, fer stofnunin með almennt eftirlit með fjarskiptafyrirtækjum og framfylgd fjarskiptalaga, nr. 81/2003. Póst- og fjarskiptastofnun hefur sömuleiðis eftirlit með því að fjarskiptafyrirtæki viðhafi allar nauðsynlegar öryggisráðstafanir til að tryggja heildstæði neta og fjarskiptaleynd. Í því skyni hefur stofnunin m.a. sett reglur nr. 1221/2007 um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum. Gera reglurnar m.a. ráð fyrir því að fjarskiptafyrirtæki framkvæmi áhættumat með tilliti til þess hvað geti ógnað fjarskiptaöryggi, þ.m.t. ólögmæt hlerun eða annars konar ólögmætur aðgangur að persónuupplýsingum í fjarskiptanetum. Ráðstafanir til þess að tryggja öryggi hvað þetta varðar geta m.a. falist í aðgangsstýringum og atburðarskráningum. Stofnunin viðhefur almennt eftirlit með því að fjarskiptafyrirtæki skjalfesti öryggisskipulag sitt hvað þetta varðar og starfi samkvæmt því. Að öðru leyti er ekki kveðið sérstaklega á um það í fjarskiptalögum hvernig eftirliti með framkvæmd hlerana skuli háttað.
    Ríkissaksóknari fer með eftirlit með hlerunum gagnvart lögreglu og er ætlað að hafa eftirlit með því hvort umfang hlerunar í hverju tilviki fyrir sig rúmist innan heimilda samkvæmt dómsúrskurði.

          2.      Hvernig er eftirliti háttað með þeim einstaklingum sem annast slíkar tengingar í símafyrirtækjum og af hverju er bakgrunnur slíkra einstaklinga ekki skoðaður eins og fram kemur í fjölmiðli 10. nóvember sl.?
    Það ræðst af innri verkferlum hjá hverju fjarskiptafyrirtæki fyrir sig hvaða skipulagslegu eða starfsmannatengdu öryggisráðstafanir eru gerðar. Í fyrrnefndum reglum nr. 1221/2007 er t.d. gerð krafa um að fjarskiptafyrirtæki meti hvort ástæða sé til þess að afla sakavottorðs frá þeim starfsmönnum sínum sem, stöðu sinnar vegna, hafa aðgang að upplýsingum í fjarskiptanetum. Hvorki ráðuneytið né Póst- og fjarskiptastofnun hafa framkvæmt almenna úttekt á því hvort fjarskiptafyrirtækin hafi kannað bakgrunn viðeigandi starfsmanna sinna á þennan hátt.
    Þess ber þó að geta að í frumvarpi til breytinga á fjarskiptalögum sem innanríkisráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn er m.a. gert ráð fyrir að þeir starfsmenn fjarskiptafyrirtækja sem sinna erindum lögreglu vegna hlerana sæti bakgrunnsskoðun og skuli öryggisvottaðir af lögregluyfirvöldum með það að markmiði að stuðla að auknu öryggi við framkvæmd hlerana.

     3.      Eru dæmi þess að símafyrirtæki hleri á eigin spýtur eða starfsmenn þeirra sem þar vinna og ef svo er, um hve mörg dæmi er að ræða?
    Hvorki innanríkisráðuneytið né Póst- og fjarskiptastofnun búa yfir neinum staðfestum upplýsingum um að slík tilvik hafi átt sér stað.
    Þess ber að geta að skv. 4. mgr. 47. gr. fjarskiptalaga, nr. 81/2003, er hvers kyns hlerun fjarskipta óheimil, nema því aðeins að hún sé framkvæmd með samþykki notanda eða samkvæmt skýrri lagaheimild, en lögum samkvæmt verður hlerun einungis framkvæmd að undangengnum dómsúrskurði, sbr. 7. mgr. 47. gr. fjarskiptalaga, nr. 81/2003, og XI. kafli laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Brot gegn IX. kafla fjarskiptalaga, þ.m.t. 47. gr. um hleranir, varða refsingu, sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar eða brot ítrekuð, en allt að þremur árum sé brot framið í ávinningsskyni, hvort sem er í eigin þágu eða annarra, sbr. 74. gr. laganna.

     4.      Eru dæmi um að símafyrirtæki eða starfsmenn á þeirra vegum fletti upp og skoði símanúmer sem neytendur eiga samskipti um án hlerana?

    Póst- og fjarskiptastofnun hefur nú til rannsóknar kvörtun er varðar meinta ólögmæta upplýsingaöflun starfsmanns fjarskiptafyrirtækis, en hefur ekki lokið rannsókn þess máls. Að öðru leyti er ráðuneytinu ekki kunnugt um nein dæmi um að símafyrirtæki eða starfsmenn á þeirra vegum fletti upp og skoði símanúmer sem neytendur eiga samskipti um.
    Þess má geta að starfsmenn fjarskiptafyrirtækja bera sérstakar skyldur samkvæmt fjarskiptalögum, nr. 81/2003. Skv. 8. mgr. 47. gr. er sérstaklega kveðið á um að enginn sem starfar við fjarskiptavirki, net eða þjónustu megi skjóta undan skeytum, gögnum, myndum eða öðrum merkjum sem afhent eru til fjarskiptaflutnings eða liðsinna öðrum við þess konar athæfi.
    Þá er skýrt kveðið á um þagnarskyldu starfsmanna fjarskiptafyrirtækja í fjarskiptalögum. Er til að mynda kveðið á um það í 6. mgr. 47. gr. laganna að öllum sem starfa við fjarskiptavirki, hvort sem um er að ræða starfsmenn fjarskiptafyrirtækja eða aðra, er skylt, bæði meðan þeir gegna starfi og eftir að þeir hafa látið af því, að halda leyndu fyrir óviðkomandi aðilum öllu því sem um fjarskiptavirkin fer, hvort sem um er að ræða efni skeyta eða samtala eða hvort fjarskipti hafa átt sér stað og á milli hverra.
    Sérstaklega er ítrekað að starfsmenn fjarskiptafyrirtækis bera þagnarskyldu um allar aðgerðir sem gripið er til samkvæmt tilmælum lögreglu um aðstoð við rannsókn sakamáls, sbr. 11. mgr. 47. gr.

     5.      Telur ráðherra þörf á að setja sérstakar reglur eða lög um eftirlit með símafyrirtækjum hvað hleranir varðar og ef svo er, hvenær er slíkra reglna eða frumvarpa að vænta?
    Í frumvarpi til breytinga á fjarskiptalögum er innanríkisráðherra hyggst leggja fram innan skamms er auk ákvæðis um bakgrunnsskoðun starfsmanna fjarskiptafyrirtækja sem sinna beiðnum lögreglu varðandi hleranir að finna ákvæði er varða reglur um framkvæmd hlerana. Er annars vegar kveðið á um að fjarskiptafyrirtæki skuli setja sér verklagsreglur um framkvæmd hlerana, en hins vegar er lagt til að ráðherra öðlist heimild til þess að setja reglugerð varðandi framkvæmd hlerana.

     6.      Hvernig er eignarhaldi á stærstu símafyrirtækjum á Íslandi háttað?

    Þau símafyrirtæki á Íslandi sem hafa yfir að ráða mestri markaðshlutdeild eru Síminn hf., Fjarskipti ehf. (Vodafone) og Nova ehf.
    Innanríkisráðuneytið óskaði eftir upplýsingum um hvernig eignarhaldi þessara fyrirtækja væri háttað og bárust eftirfarandi upplýsingar frá viðkomandi félögum:
    Síminn hf. er í eigu Skipta hf., en Skipti hf. er einnig móðurfélag Mílu ehf. Móðurfélag Símans, Skipti hf., er að mestu leyti í eigu Klakka ehf. (áður Exista), en lítill hluti er í eigu Exista B.V. Exista B.V. er einnig í eigu Klakka ehf. Ekki fengust upplýsingar um það hvernig eignarhaldi á Klakka ehf. væri háttað.
    Samkvæmt upplýsingum frá Vodafone voru hluthafar þann 30. júní 2011 43 talsins og áttu 2 hluthafar yfir 10% eignarhlut í félaginu, Eignarhaldsfélagið Vestia ehf. (61%) og Framtakssjóður Íslands s/hf. (18,4%).
    Samkvæmt upplýsingum frá Nova ehf. eru tveir hluthafar sem fara með yfir 10% hlut, það eru Novator ehf. (79%) og Novator Finnland Oy (20%).