Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 364. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 548  —  364. mál.

2. umræða.


Nefndarálitum frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskiptasjóð, nr. 132/2005, með síðari breytingum (framlenging gildistíma o.fl.).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Veru Sveinbjörnsdóttur frá innanríkisráðuneytinu og Björn Geirsson frá Póst- og fjarskiptastofnun.
    Lög um fjarskiptasjóð falla að óbreyttu úr gildi um næstu áramót og er megintilgangur frumvarpsins að tryggja áframhaldandi starfsemi sjóðsins. Lagt er til að gildistími laganna verði framlengdur um fimm ár og einnig eru lagðar til nokkrar breytingar er lúta að fyrirkomulagi á starfsemi sjóðsins og stjórnar hans, þar á meðal tillaga um að fækka stjórnarmönnum fjarskiptasjóðs úr fimm í þrjá. Þá er lagt til að gjald sem innheimt er við úthlutun tíðnisviða vegna fjarskiptaþjónustu samkvæmt lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, renni eftirleiðis í sjóðinn í stað þess að renna í ríkissjóð.
    Fjarskiptasjóður hefur verið starfræktur frá árinu 2005 en hann hefur það hlutverk að stuðla að uppbyggingu á sviði fjarskiptamála á grundvelli fjarskiptaáætlunar. Fjarskiptasjóður á að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, verkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna sem ætla má að ekki verði ráðist í á markaðsforsendum. Fram kom við meðferð málsins að fjarskiptasjóður þarf lengri starfstíma til þess að geta fylgt eftir þeim verkefnum sem enn eru í vinnslu vegna fjarskiptaáætlunar 2005–2011. Í þeirri áætlun er meðal annars kveðið á um að öryggi vegfarenda verði bætt með aukinni farsímaþjónustu á þjóðvegum landsins og á helstu ferðamannastöðum og að allir landsmenn sem þess óska geti tengst háhraðaneti og notið hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu. Þótt margt hafi áunnist er það mat meiri hlutans að enn blasi knýjandi verkefni við í þessum efnum. Jafnframt liggur fyrir að nú stendur yfir vinna við gerð nýrrar fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2011–2022. Þar er samkvæmt lögum kveðið á um metnaðarfull markmið um aðgengileg, greið, hagkvæm, skilvirk, örugg og umhverfisvæn fjarskipti. Ljóst er að uppbygging fjarskiptainnviða á markaðslegum forsendum takmarkast af getu og vilja fjarskiptafyrirtækja til fjárfestinga. Fjárfesting í innviðum fjarskipta getur reynst dýr og áhættusöm, sér í lagi á strjálbýlli svæðum landsins, og því nauðsynlegt að styðja við uppbyggingu þar sem ætla má að ekki verði ráðist í uppbyggingu á markaðslegum forsendum, í samræmi við fjarskiptaáætlun. Tækniframfarir og kröfur notenda á fjarskiptamarkaði breytast hratt og markaðsbrestir geta komið upp á landsvæðum þar sem þá er ekki að finna. Jafnframt er ljóst að ekki hefur verið lokið við ljósleiðaranetið að fullu á tilteknum landsvæðum, en áætlað er að það verði eitt meginverkefna sjóðsins á næstu árum. Í ljósi alls framangreinds telur meiri hlutinn einsýnt að uppbygging fjarskipta í landinu krefjist áframhaldandi þátttöku fjarskiptasjóðs.
    Heimilt er í fjarskiptalögum, nr. 81/2003, að setja á gjöld vegna afnota af tíðnum. Í frumvarpinu er að finna nýmæli varðandi tekjustofn fjarskiptasjóðs þar sem lagt er til að tekjur ríkissjóðs sem komnar eru til vegna gjalda fyrir afnot af tíðnum skuli renna í fjarskiptasjóð. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið er fram koma í frumvarpinu að mikilvægt sé að úthlutun tíðnisviða fari eftir hlutlægum og gagnsæjum sjónarmiðum á grundvelli fyrir fram ákveðinna reglna. Hafa verður í huga að fjarskiptatíðnir eru takmörkuð auðlind undir stjórn íslenska ríkisins og úthluta verður þeim verðmætum og gæðum á jafnræðisgrundvelli með almannahagsmuni að leiðarljósi. Við meðferð málsins í nefndinni kom fram að áætlaðar tekjur vegna fjórðu kynslóðar farsíma geti orðið um 300 millj. kr. sem gætu komið til innheimtu næstu þrjú til fimm árin.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Árni Johnsen og Atli Gíslason voru fjarstaddir afgreiðslu málsins.
    Þór Saari áheyrnarfulltrúi nefndarinnar er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 12. desember 2011.Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Þuríður Backman.Mörður Árnason.


Róbert Marshall.


Ásmundur Einar Daðason.